Leita í fréttum mbl.is

og þá hefst einkavæðingin!

Jæja Guðlaugur Þór ætlar sér ekkert að fara hægt og rólega í hlutina. Nú hefst einkavæðingarferli heilbrigðiskerfisins því hann telur sig með þessari einu litlu athugun vera búinn að "sanna" að einkareksturinn sé betri! Ótrúlegir þessir frjálshyggjumenn að neita að horfast í augu við reynslu annarra þjóða með einkavætt heilbrigðiskerfi. En vonum að það verði nú samt aldrei á Íslandi eins og í Bandaríkjum græðginnar.
mbl.is Spara má 390 milljónir í heilsugæslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara bilun!

Maður getur ekki orða bundist, þetta er náttúrulega bara bilun. Og svo tala gárungarnir um hversu mikil hætta er á verðbólgu og að allt virðist eiga að hrynja ef lágmarkslaun í landinu verða hækkuð aðeins. Bara bilun.
mbl.is Forstjóralaun hjá Glitni 266 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins af grunngildum samfélagsins

Fyrir ykkur sem ekki þekkið mig: Ég heiti Miriam Rose, og er aðgerðarsinni og umhverfisfræðingur frá Bretlandi. Ég var beðin um að tjá mig hér um reynslu mína af grunngildum íslensks samfélags, byggt á viðtali sem ég var í við Kastljós í október, eftir að mér var hótað með brottvísun úr landi vegna aðildar minnar að aðgerðum gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnar ykkar. Í bréfinu sem ég fékk, þar sem farið var fram að mér yrði vísað úr landi, stóð að ég ætti á hættu að vera brottræk gerð frá Íslandi í þrjú ár, enda væri hegðun mín „ógnun við grunngildi samfélagsins“.

Í áðurnefndu viðtali nefndi ég hversu lýsandi mér þætti þetta orðaval, og bar fram spurninguna: Hver eru grunngildi íslensks samfélags? Svo virðist sem málfrelsi, jafnrétti og mótmælaréttur teljist ekki þar til, og hver er þá merking þessara orða? Þetta orðalag opinberaði mér einfaldan sannleik um eðli ákvörðunarinnar. Ég hafði sett spurningarmerki við rétt markaðarins og hagrænna gilda til þess að ráða samfélaginu og náttúrunni, með fulltingi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Ásökunin gerði mér það dagljóst að þetta eru hin einu sönnu „grunngildi“ íslensks samfélags, og það á kostnað mannlegs frelsis, og þeir sem setja spurningarmerki við slík gildi eru ekki velkomnir hér. Ætlun mín hér er að útskýra tilgátu mína frekar.

Sjálf hef ég verið meðhöndluð af töluverðu ójafnrétti hér á landi. Nú í sumar sem leið var mér stungið í fangelsi, eftir að mér hafði verið tilkynnt að ég ætti að borga sekt fyrir að óhlýðnast lögreglunni. Ólíkt því sem á að viðgangast var mér ekki gefinn neinn frestur til þess að greiða sektina, né var mér leyft að áfrýja, heldur var ég þess í stað send án frekari spursmála beint í fangelsi þar sem mér var haldið í einangrun í 8 daga, vegna þess að ekki fannst pláss í kvennafangelsinu fyrir mig. Í fangelsinu sögðu mér fangaverðirnir að þetta væri í hæsta máta óvenjulegt, þar sem konum er jafnan veitt sakaruppgjöf nokkrum sinnum áður en þeim er stungið inn á Íslandi, og því eru svo fáar konur í fangelsum. Þeir voru afar undrandi á því að konu sem hafði verið kærð í fyrsta sinn, og það ekki fyrir ofbeldisglæp, skyldi meðhöndluð á þennan hátt. Svo virðist sem þessi ósanngjarna meðferð hafi verið viljandi óblíð, og markmiðið að senda viðvörunarskilaboð til annarra mótmælenda, um að þeir væru ekki velkomnir hér.

Snúum okkur nú að málfrelsinu. Annað en gengur og gerist í einræðisríkjum og hjá kommunískum ógnarstjórnum, þar sem fjölmiðlum er stjórnað með harðri hendi, montum við okkur af hinni frjálsu og óháðu fjölmiðlun Vesturlanda. En hversu hlutlausir eru fjölmiðlar okkar í raun og veru? Íslenskum fjölmiðlum er stjórnað af fáum einkafyrirtækjum og litlum ríkisfjölmiðli, sem þiggur fé frá einkageiranum. Hvaða hagsmunum þjóna þeir? Getur fjölmiðill í eigu fyrirtækis, eða sem þiggur fé frá einkageiranum, raunverulega gagnrýnt sína eigin herra, eða þá sem tengjast eigendunum, flutt sannferðugar fréttir af efnahagsbrotum þeirra? Hvaða hagsmunum þjónaði það þegar lygarnar um að aðgerðarsinnarnir í Saving Iceland þæðu laun fyrir störf sín voru birtar á RÚV, og aldrei dregnar til baka þrátt fyrir að að þeim væri fundið í gegnum opinberar boðleiðir?

Ég leyfi mér að spyrja eins og aðgerðarsinnar á Indlandi, sem ég hef unnið með: Málfrelsi fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Oftsinnis hefur íslenska ríkið sýnt fram á umburðarleysi sitt í garð samkomufrelsisins, og í garð aðferða borgaralegrar óhlýðni sem mótmælaforms. (Þrátt fyrir þá gríðarlegu aðdáun sem þessar aðferðir njóta þegar við skilgreinum borgaraleg réttindi okkar og frelsi). Árið 2002 voru allir þeir einstaklingar sem grunaðir voru um aðild að Falun Gong (sem eru fyllilega friðsamleg mannréttindasamtök) handteknir eða þeim neitað um inngöngu í landið, að tillögu spilltrar ríkisstjórnar sem velflest ríki heimsins líta niður á – Kína. 

Enn er það svo að þegar réttarkerfinu og lýðræðinu hefur mistekist að gera ríkisstjórnina ábyrga, eru mótmæli eina færa leiðin til réttlætis. Árið 2006 þrömmuðu fimmtán þúsund manns í borgum og bæjum á Íslandi til að mótmæla því að Kárahnjúkum yrði drekkt, án árangurs. Það er engin furða að fólk finnist þessar mótmælaaðferðir máttleysislegar og snúi sér að beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni til þess að véfengja þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í þeirra nafni.

Einhverjir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirtækin séu máttugri en fólkið, og jafnvel máttugri en stjórnmálamenn, á Íslandi. Nú þegar við gerum okkur grein fyrir því að peningar jafngilda mætti, er ljóst að gríðarstórir einokunaraðilar á borð við ALCOA, Baug, Rio Tinto og Kolkrabbann valda miklum mætti. Og hvernig eru þessi fyrirtæki gerð ábyrg? DECODE, fyrirtækið sem á nær allt íslenskt erfðaefni, selur þær upplýsingar öðrum fyrirtækjum fyrir 60 þúsund krónur stykkið, án leyfis frá almenningi. Á sama tíma fær ALCOA raforku á mörgum sinnum lægra verði en íslenskur almenningur, fyrir upphæð sem er svo smánarleg að Landsvirkjun vill ekki einu sinni gefa hana upp.

Enn spyrjum við: Þjónusta við hvern? Og hvað má hún kosta? Lýðræði fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Vestræn nútímaríki (eins og Ísland og Bretland) byggja á hljóðlátri og vonlausri alþýðu, sem leyfir vafasamri lagasetningu að ná í gegn án þess að æmta, enda erum við að flónum gerð með lýðræðis- og frelsisorðræðunni. Ólíkt því sem gerist í harðsvíruðum einræðisríkjum eða hrottalegum kommúnistaríkjum, erum við of efnuð og sátt til þess að setja spurningarmerki við kerfið sem framleiðir auð okkar.

 

 

Það er mikilvægt að muna að frelsi okkar, líkt og það er, var okkur ekki fengið af neinni ríkisstjórn, heldur náðum við því frá þeim með erfiðismunum. Ef við notum það ekki, ef við reynum það ekki af og til, visnar það upp. Ef við stöndum ekki vörð um það statt og stöðugt, verðum við svipt því. Ef við krefjumst ekki sífellt meira, stöndum við uppi með sífellt minna. (Roy, 2005) 

 

Sjá ræðu Miriams í fullri lengd hér, að ofan hef ég einungis valið nokkra punkta úr ræðunni sem er mun lengri og ítarlegri.

http://www.eggin.is/index.php?option=com_content&task=view&id=676&Itemid=47


Þegar klíkuskapurinn ræður fram yfir hæfni...

Vafi ríkir um sjálfstæði íslenskra dómstóla í kjölfar skipan dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands. Sonur Davíðs Oddsonar fékk starfið út á það að vera sonur hans og veltir maður fyrir sér hvort honum sjálfum finnist það allt í lagi bara, ef hann er þá heiðvirður maður með siðgæði í lagi... en það má líka spyrja sig að því svosem.

Leiðréttum klíkuskapinn, skorum á Alþingi að starfa betur!

Skrifaðu undir áskorun á dómaraskipan.net

 


Drepa skólar sköpunarhæfileika?

Mannrækt í skólum? Menntun fyrir betri heim? Sittu kyrr og gerðu verkefnin þín barn! Ef þú getur ekki setið kyrr og einbeitt þér tímunum saman þá ertu sennilega bara veikur og þarft að fara á lyf. Eða hvað? ... Skrifaðu svona og reiknaðu svona. Þú mátt helst ekki teikna, syngja eða dansa alltof mikið í skólanum, því þar áttu að læra "mikilvægari" námsgreinar. Er það börnum virkilega eðlilegt að sitja kyrr klukkutímum saman með örstuttum frímínútum þar sem þau fara aðeins út að viðra sig? Er kerfið kannski gallað, en ekki börnin? Sir Ken Robinson segir að svo sé og að það besta fyrir börnin okkar sé að leyfa þeim að finna hæfileika sína og rækta þá, en ekki vera algerlega föst í kerfinu eins og það er í dag með alla áherslu á akademíu í hausnum.

Árið 1930 var ung stúlka í skóla og foreldrar hennar fengu sífellt kvartanir um að hún bara gæti ekki setið kyrr og einbeitt sér og væri kannski veik, svo móðirin fór með hana til læknis. Læknirinn var greinilega ekki þröngsýnn og ekki með einblíningu á skjúkdómavæðinguna eins og hún hefur tekið yfir núna. Hann horfði á barnið og svo fór hann fram með móðurina og kveikti á tónlist og skildi barnið eftir. Stelpan byrjaði strax að hreyfa sig í takt við tónlistina og læknirinn sagði; líttu á dóttur þína, hún er ekki veik, hún er dansari!

Litla stúlkan fór í dansskóla og samdi stóra söngleiki sem urðu frægir og varð milljónamæringur fyrir vikið. Í dag myndi hann mjög líklega einfaldlega setja hana á rítalín og segja foreldrunum að hún væri bara ofvirk.

Endilega hlustið á þennan mann sem hefur hlotið mikla virðingu á heimsvísu fyrir hugmyndafræði sína um menntun framtíðarinnar. Ég veit að ég er sammála þessum manni og hef stórkostlegar efasemdir um að hið hefðbundna skólakerfi sé gott fyrir börn og þroska þeirra.

Spurningar sem ég tel að við þurfum í það minnsta að spyrja okkur að er hvort börnum sé virkilega eðlilegt og náttúrulegt að sitja kyrr mest allan daginn yfir bókum? Þarf meiri leik og meiri listir í skólana sem hluta af venjulegu námi til að einstaklingurinn sé "heilli"? Þurfa börn að læra út frá forvitni sinni fyrst og fremst? Þarf þá ekki að vekja forvitni þeirra og gagnrýna hugsun til að fá þau til að hugsa um heiminn og hluti á nýjan hátt? Er mögulega hægt að kenna stærðfræði og raungreinar á meira skapandi hátt og með gagnrýnni hugsun til að þróun verði meiri í framtíðinni? Er endilega rétt að aðskilja börn í skólum eftir aldri, niður í aldursbekki? Er eðlilegra að bekkir séu með breiða aldurshópa og væri kannski eðlilegt að læra af öðrum börnum líka, en ekki eingöngu að vera mataður af kennaranum á þann hátt að það er lítil sem engin hugsun á bakvið það, þú átt bara að leggja staðreyndir á minnið? Það eru margar spurningar sem þarf að spyrja sig að og eins tel ég nauðsynlegt að velta fyrir okkur lyfja-og sjúkdómavæðingu barna þegar þau passa ekki inn í kerfið. 

Fyrirlestur Ken Robinson á ted.com 

Viðtal við Sörinn  

 

Áður en ég loka færslunni vil ég þó taka fram að ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki eru allir skólar eins og oft getur kennarinn skipt sköpum um hvernig börnum líður í skólanum. Eins átta ég mig fullvel á því að börn geta átt við ýmis vandamál að stríða fyrir utan skólann, en þessi færsla snýst bara um það hvort og hvernig skólar gætu hugsanlega orðið betri fyrir börn og góðir til mannræktar og til að ala á skapandi hugsun og hvort meira frelsi til sköpunar og leikja sé mögulega leiðin til betri menntunar. Ég tel afar mikilvægt að við hugleiðum þessar spurningar allar og það hvort við ættum að hefjast handa við að gjörbylta skólakerfinu og þá um leið menntun kennara. 


Áhugaverðir hlutir á nýju ári - Óskarinn á netinu og Worldchanging.com

Gleðilegt árið lesendur í bloggheimum og megi það verða sem farsælast fyrir okkur og jörðina okkar með breytingum til batnaðar og fullt af tækninýjungum. Mig langar að byrja nýtt ár með því að deila með áhugasömum lesendum áhugaverðum síðum sem ég var að rekast á í kvöld. Það er alltaf svo gaman þegar maður rekst á nýja og skemmtilega hluti á netinu sem geta líka gagnast manni heilmikið en eru ekki eingöngu tímaeyðsla eins og svo margt er í þeim heimi.

Mér var semsagt bent á síðu þar sem ég síðan komst á snoðir um aðra síðu og á henni komst ég á snoðir um enn aðra síðu og allar eru þær áhugaverðar. Hérna er sú fyrst sem heitir TED.com þar sem hægt er að hlusta á alls kyns áhugaverða fyrirlestra og hver og einn getur verið nokkuð viss um að finna eitthvað við sitt hæfi. Þar rakst ég á fyrirlestur Alex Steffen: Inspired ideas for a sustainable future sem leiddi mig inn á síðuna hans sem heitir Worldchanging.com og þar er m.a. sagt frá að Worldchanging hafi verið tilnefnd til óskarsverðlauna á vefnum eða Webbyawards og á þeirri síðu er að finna tilnefningar og verðlaunahafa síðustu ára í alls kyns flokkum: Webbyawards.com

Góða lesningu þeir sem ákveða að kíkja á þetta Smile 


Lygar um andstæðinga kapítalismans - smá ádeila svona rétt fyrir jólin!

Ég veit svosem ekki hvort það telst í anda jólanna eða Þorláksmessunnar að skrifa um pólitík eða lygar fjölmiðlanna um andstæðinga kapítalismans ... en mér finnst það ekki verri tími en hver annar að velta þessu fyrir sér. Nú er fólk jú komið í frí til þess annað hvort að stressa sig gífurlega yfir jólunum og innkaupum, nú eða velja að slaka aðeins á og láta hugann reika um hin ýmsu málefni.

En að fyrirsögninni minni; mig langar til að benda á góða gagnrýni á moggann og ýmsa vestræna fjölmiðla sem láta liggja á milli hluta að segja fólki frá staðreyndum í fréttum sínum. Vésteinn Valgarðsson skrifar um þetta á Eggin.is þar sem hann gerir grein fyrir nýafstöðnum kosningum í Venuzuela og segir okkur aðeins frá Chavez og lygunum um hann...

"Helstu fjölmiðlar heimsvaldaríkjanna hafa étið áróðurinn gegn Chavez hráan. Ágætt dæmi um það sást í Morgunblaðinu á þriðjudaginn (4. des., s. 15), þegar blaðamaðurinn Davíð Logi Sigurðsson kallaði Chavez, „alræmdan orðhák“. Daginn áður birti blaðið þá frétt (s. 16) að hann „þrífst á athygli og nýtur þess að lenda í illdeilum við menn.“ Þá var rifjað upp að Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, hefði fengið „gusu af skömmum yfir sig“, án þess að þess væri getið hver tildrög þeirra skamma voru. ...

Hver rangfærslan rekur aðra þegar fjallað er um Chavez. Að vissu leyti er það honum til hróss – það er greinilegt að efnahagsaðgerðir hans velgja heimsvaldaríkjunum undir uggum, efnahagslega, en þær hafa miðað að því bláfátækur almenningur Venezuela og víðar geti notið olíuauðsins, frekar en bandarísk olíufyrirtæki og innlend elíta. Hann bar meira að segja þá tillögu upp á OPEC-fundi á dögunum, að OPEC mundi setja baráttu gegn fátækt í forgang hjá sér. Auðvitað verða menn umdeildir þegar þeir sækja ránsfenginn aftur í ræningjabælið og færa réttmætum eigendum. ...

Að forskrift spunameistara í áróðursdeild CIA, hafa fjölmiðlar hamrað og hamrað á því að Chavez, þessi „alræmdi orðhákur“, sýni „einræðistilburði“ í nýju stjórnarskránni. En hvað felst í breytingunum sem átti að gera? Veit það einhver? Hefur Morgunblaðið séð ástæðu til að fjalla um annað en þessa meintu einræðistilburði?

Stjórnarskráin nýja – sem naumlega var felld – gekk í gegn um ítarlegar umræður á þinginu. En ekki bara á þinginu: Þingið valdi 20 menn, sem aftur völdu 20 menn hver, sem enn völdu 20 hver, og þessir 8000 fóru um landið og héldu þúsundir málfunda, stóra og smáa, þar sem almenningi gafst kostur á að ræða málin eins ítarlega og hann vildi. Þá var tekið við breytingatillögum og uppástungum um vhað betur mætti fara, sem stjórnarskrársérfræðingar lögðust síðan yfir. Niðurstaðan var þetta plagg, mikið unnið og vandað. Meðal þess sem sætti nýmælum var þetta:

1. Takmarkanir afnumdar á því hvað forseti geti setið mörg kjörtímabil, eins og þekkt er af áróðri fjölmiðla. Er það óeðlilegt fyrir lýðræðislega kjörinn forseta? Er óeðlilegt að forseti geti setið lengur er tvö, ef hann hefur stuðning fólksins? Sat ekki Vigdís Finnbogadóttir fjögur kjörtímabil? Er ekki Ólafur Ragnar á sínu fjórða?

2. Grasrótarlýðræði. Minnsta eining hins pólitíska samfélagspýramída átti að vera hverfisráð. Þar fyrir ofan sveitarstjórn, þar fyrir ofan fylkisráð og þar fyrir ofan þingið. Efst á kransakökunni átti svo forsetinn að vera. Semsagt: Ekki minna heldur meira lýðræði, ekki satt?

3. Fjölbreyttur eignarréttur. Í nýju stjórnarskránni var gert ráð fyrir heilum fimm tegundum af eignarrétti: Einkaeign, þjóðareign, ríkiseign, samvinnu-eign og almenningi. Þar með væri opnað fyrir viðurkenningu á hefðbundnum eignarrétti frumbyggja, og einnig væri leiðin til lýðræðislegs og sósíalísks hagskipulags opnuð.

4. Vinnuvikan. Það átti að stjórnarskrárbinda 36 tíma vinnuviku. Ég er enginn sérfræðingur í stjórnarskrám, en mér er ekki kunnugt um fordæmi þess. Tilgangurinn var að losa fólk úr tvöföldum gapastokki ofur-arðráns annars vegar, meðal annars á götubörnum, og atvinnuleysis hins vegar.

5. Herinn. Í stað varaliðsins sem herinn hefur haft – menn sem eru tiltækir í herinn ef hershöfðingjunum þykir þurfa – áttu að koma sjálfsvarnarsveitir almennings („militia“), sem hefðu styrkt stöðu fólksins í landinu gagnvart hernum, og um leið styrkt stöðu landsmanna sem slíkra gagnvart innrás, ef „einhverjum“ dytti í hug að gera hana."

sjá greinina í heild sinni hér

 

Sjálf er ég stödd í London og ætla mér til Barcelona í fyrramálið og svo til Feneyja yfir áramótin og mun ekki stressa mig mikið yfir jólunum, heldur frekar spóka mig um í Barcelona og hjúfra mig undir sæng á kvöldin og lesa "Rights of man" litla handhæga bók sem ég var að kaupa mér eftir Thomas Paine.

Ég vil síðan að lokum óska öllum lesendum bloggsins og vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og vona að fólk muni eiga ánægjulegar stundir með vinum og ættingjum yfir hátíðarnar án þess að stressa sig of mikið. "Andi jólanna" ef einhver er, er í það minnsta ekki fullur af stressi og efnishyggju ;)


Hvað eru öfgar? Hótanir um ofbeldi vegna skoðana?

"Grafalvarleg eru skrif ungra manna í bloggheimum þar sem fólki sem talar máli kvenfrelsis er hótað ofbeldi, hrottafenginni nauðgun eða öðrum líkamsmeiðingum. Á undanförnum dögum hef ég séð ofbeldis- og hótunarskrif af þessu tagi og hefur þeim verið komið á framfæri við lögregluyfirvöld. Að sjálfsögðu var það gert. Að mínum dómi væri það hreinlega ámælisvert að láta skrifin óátalin." ...

"Það eitt að kvenfrelsisbaráttan kalli á slík viðbrögð segir sína sögu um fordóma sem eru til staðar í þjóðfélaginu gegn því sem margir töldu óumdeild mannréttindi."

segir Ögmundur Jónasson í skrifum sínum um ofbeldishótanir gegn feministum

sjá hér:

ÓÞOLANDI AÐ VERA HÓTAÐ

SJÁLFUM MÉR TIL VARNAR

 


Austurblokkin mótmælir neikvæðum afleiðingum kapítalismans

Það gæti verið erfitt fyrir margan kapítalistann, sem fagnar því svo eindregið að fyrrum austantjaldslönd hafi Frá mótmælum í Ljubljanaverið „frelsuð“, að skilja að þar sé neikvæðum afleiðingum kapítalismans mótmælt bæði harðlega og í stórum stíl. Hér í Slóveníu voru stærstu mótmæli í sögu lýðveldisins þann 17. nóvember síðastliðinn, þegar um 70.000 manns komu saman á götum úti og kröfðust hærri launa og eftirlauna og frekari réttinda. Eins er aukin áhersla á einkavæðingu talin grafa undan félagslegum réttindum almennings og var henni einnig mótmælt, og tryggingar krafist fyrir félagslegu, ríkisreknu kerfi.  Almenningur og vinnandi fólk hefur miklar áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur í þá átt, að réttindi fólks fari minnkandi, félagsleg mismunun og atvinnuleysi vaxandi og verðlag og verðbólga hækkandi, langt fram úr launaþróun. Á hvatningarbloggsíðu í aðdraganda mótmælanna segir:

 

Áróður ríkisstjórnarinnar, kapítalista og talsmanna þeirra vilja að við séum sannfærð um að við lifum draumalífi. En af því við erum ekki heimsk, þá vitum við að staða okkar fer ekki batnandi og að framtíðarhorfur eru óvissar. Svo að mjög svo lofaður hagvöxturinn þýðir ekki eingöngu árangur slóvenska efnahagkerfisins, heldur þýðir það líka mun meira arðrán og frekari félagslega mismunun.

Almenningi í landinu er nóg boðið og telur sig vera bæði niðurlægðan og arðrændan á vinnumarkaði. Hann telur að stefna landsins þarfnist endurskoðunar svo hún komi sér betur fyrir heildina.

Einnig má það fylgja með hér, að í nágrannalandinu Ungverjalandi flykktust um 50.000 manns á götur út í síðasta mánuði og kröfðust hærri launa í takt við verðlagsþróun og verðbólgu og mótmæltu hinum svokölluðu „efnahagslegu umbótum“ stjórnarinnar.

Fljótlega eftir að hægriflokkurinn hlaut kosningu árið 2004 hóf hann efnahagslegar umbætur sínar, og þá flykktust tugir þúsunda mótmælenda á götur út til að mótmæla þeim. Þetta var árið 2005, þegar Mótmælin í Ljubljanaverkalýðsfélögin þóttust sjá byrjunina á þeirri þróun sem er einmitt verið að mótmæla um þessar mundir. Þá var mikilli einkavæðingu mótmælt, svo og skattaafslætti á fjármagnseigendur, matarsköttum á almenning, auknum félagslegum mismun, minni réttindum vinnandi fólks, skólagjöldum í háskólum og fleiru. Þá taldi lögreglan að um 25.000 manns hafi mótmælt, en veður var slæmt og mikill fjöldi þeirra rúta sem flytja áttu mótmælendur á staðinn komust ekki inn í borgina vegna snjóþyngsla.

Það sýnir mikla samstöðu fólksins, því í höfuðborginni Ljubljana, þar sem mótmælin áttu sér stað, búa einungis um 300.000 manns. Forsætisráðherrann, Janez Jansa, stendur fast á því að ekki verði um neinar víðtækar launahækkanir að ræða. Meðalmánaðarlaun fyrir skatta eru 1.259 evrur, sem eru um 115.000 krónur íslenskar, og segja mótmælendur það mun lægra en meðaltal launa ríkja Evrópusambandsins (Reuters, 17. nóvember 2007). Slóvenar hafa átt í miklum vandræðum með þenslu og verðbólgu, bæði á tíma sósíalismans og kapítalismans. Árið 1989 var verðbólgan yfir 1000% og stuttu eftir sjálfstæði var hún í ennþá 100%, en það tókst að ná henni niður í 10% árið 1996. Í ár er hún samt ennþá yfir 5%, sem er tvöfalt hærra en meðaltal annarra evruríkja. Evran var tekin upp í janúar í ár, og vilja slóvensk yfirvöld skýra háa verðbólgu að miklu leyti með því. Eins er talið að heimsmarkaðsverð á olíu og hátt matvælaverð hafi mikið að segja. Hátt matvælaverð er bein afleiðing fákeppni á markaði, sem auðveldlega er hægt að fullyrða að sé vandamál víðar í hinum kapítalíska heimi. Hagvöxtur Slóveníu er hæstur í evruríkjunum (Euro zone), og er búist við að hann verði 5,8% í ár samanborið við 2,6% að meðaltali í hinum ríkjunum (Guardian Unlt., 25. nóv 2007).

Mótmælin voru svo að segja í sömu andrá og forsetakosningar í landinu, eða helgina eftir. Danilo Turk var kjörinn nýr forseti landsins. Hann kemur frá stjórnarandstöðunni og er vinstra megin í stjórnmálum eins og tveir fyrirrennarar hans. Hann hlaut 68% atkvæða í seinni umferð kosninganna. Það má leiða líkum að því Slóvenar aðhyllist í raun mun frekar sósíal-demókratískt kerfi sem tryggir samrekið félagslegt kerfi, aukin réttindi og betri stöðu fólks almennt. Ekki er vel tekið undir þær „efnahagslegu umbætur“ og einkavæðingu sem hægri flokkurinn hefur boðað og framkvæmt á þessu kjörtímabili. Mögulega er von á að vindar blási frekar til vinstri í næstu þingkosningum, árið 2008.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita aðeins meira um Slóveníu læt ég fylgja með aðeins um sjálfstæðisbaráttuna og stuttlega um pólitískt landslag lýðveldisins.

Sjálfstæðisbaráttan
Árið 1991 fékk Slóvenía sjálfstæði frá fyrrum Júgóslavíu í hinu svokallaða 10 daga stríði, eða sjálfstæðisstríði Slóveníu. Í aprílmánuði árið áður höfðu farið fram lýðræðislegar kosningar í Slóveníu og bar DEMOS-bandalagið sigur úr bítum með 54% atkvæða. Flokkurinn var bandalag 5 sósíal-demókratískra flokka. Í desembermánuði sama ár fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Slóveníu, sem var samþykkt með 88% atkvæða. Hin nýja Frá Tíu daga stríðinuríkisstjórn Slóveníu leitaði til alþjóðasamfélagsins um að það yrði samið friðsamlega um skiptingu Júgóslavíu, en fékk þau skilaboð frá vestrænum ríkjum að það væri ekki æskilegt og að þau kysu frekar að eiga samskipti við eitt sameinað sambandsríki heldur en mörg smá ríki. Slóvenar sáu sig knúna til þess að berjast samt sem áður fyrir sjálfstæði sínu, sem hvorki Evrópuþjóðir né Bandaríkin voru tilbúin til að viðurkenna þrátt fyrir lýðræðisleg vinnubrögð. Þann 25. júní 1991 var lýst yfir sjálfstæði þjóðarinnar og í kjölfarið var landamæravörðum stillt upp í varnarstöðu í þeim tilgangi eingöngu að verja landamærin án þess að eiga frumkvæði að árás. Þann 27. júní flugu flugvélar júgóslavneska hersins yfir landið og dreifðu miðum sem á stóð „við bjóðum ykkur frið og samvinnu“ og „öll mótspyrna verður barin niður.“  Slóvenar höfðu einnig fregnir af því að sambandsríkið hyggðist flytja hermenn inn í Slóveníu með þyrlum og brugðust þeir við því með því að vara við að þær yrðu skotnar niður. Viðvaranir þeirra voru hundsaðar og varð svo úr að þeir áttu fyrsta skotið á herþyrlurnar. Í kjölfarið braust stríðið út, sem þeir höfðu reynt að forðast. Það náði vissu hámarki þann 2. júlí, og að kvöldi dags tilkynnti slóvenska forsetaembættið um einhliða vopnahlé, sem var hafnað. Sambandsríkið hélt í fyrri hótanir um að mótspyrna Slóvena yrði barin niður. Daginn eftir var þó loks gefið eftir, sambandsríkið samþykkti vopnahlé og hersveitir þess voru dregnar til baka. Þann 7. júlí lauk stríðinu formlega með yfirlýsingu um viðurkenningu á sjálfstæði Slóveníu. Í kjölfarið fylgdi fall Júgóslavneska sambandsríkisins. Vegna þess hversu fljótt stríðinu lauk af, var mannfall lítið; einungis 44 Júgóslavar og 18 Slóvenar létust (Wikipedia: Ten-day war).

Pólitískt landslag
Slóvenía hélt sjálfstæði sínu og tókst að sýna fram á stöðugleika og hagsæld, og gekk í Evrópusambandið þann 1. maí 2004 og í NATO sama ár. Frá upphafi lýðveldisins og fram til ársins 2004 fór uppbygging fram undir handleiðslu frjálslyndra sósíal-demókratískra flokka vinstra megin við miðju. Árið 2004 komst til valda flokkur hægra megin við miðju undir forystu Janez Jansa, og hefur þróunin síðan verið æ meira í átt til einkavæðingar.

Fyrsti forseti landsins var frjálslyndur sósíalisti, Milan Kucan, upphaflega kosinn árið 1990 og leiddi hann landið í gegnum sjálfstæðisbaráttuna árið 1991. Hann var endurkjörinn árið 1992 aftur árið 1997. Í kosningum árið 2002 var nýr forseti kjörinn til valda, Janez Drnovsek, sem hafði verið forsætisráðherra landsins 1992-2002 fyrir frjálslynda sósíal-demókrata. Allir forsetar landsins hafa því verið frjálslyndir sósíal-demókratar.

 


Bandarikin i stridi gegn lydraedi?

Horfdi a nyjustu mynd John Pilgers i gaerkveldi.War on Democracy fannst mer god og verdug mynd ad horfa a tho svo thad hefdi matt koma adeins meira fram af malefnalegri gagnryni kapitalistanna i Venuzuela en thad kom ekkert fram af hverju their vaeru hraeddir vid Chavez.

Chavez, sem fekk um 60% atkvaeda i sidustu kosningum hefur lagt aherslu a ad allir landar eigi ad hafa adgang ad okeypis heilbrigdisthjonustu og menntun og hefur nu allra fataekasta folkid adgang ad thessari grunnthjonustu. Bandarikjastjorn virdist hafa tekid thatt i lyginni gagnvart Chavez thegar honum var raent arid 2002 af stjornarandstaedingum. Folkid reis upp gegn thvi og meira ad segja herinn snerist og svor eid sinn a ny vid stjornarskra hins rettmaeta lydraedislega kjorna forseta landsins og frelsadi hann.

Fannst myndin god og ad minu viti er kominn timi til ad heimurinn spyrji sig hvad Bandarikjamonnum gengur eiginlega til thegar their heyja strid a hendur lydraedislegra kjorinna fulltrua annarra landa i theim tilgangi ad koma a valdanidslu kapitalismans. Thad er mer nokkud ljost ad theirra utgafa af hugtakinu frelsi og lydraedi er eitthvad storkostlega afbakad.

Sotti i sidustu viku fyrirlestur hja slovenskum professor sem taladi um thad ad kominn vaeri timi til ad vid attum okkur a ad hugmyndafraedi getur verid mjog god i sjalfri ser en ekki virkad i utfaerslu mannsins eins og a vid um sumar utgafur kommunisma, sem og kapitalismann.

Fra Guardian:

"America likes to talk about "spreading democracy", but in his latest film John Pilger argues that the US is actually stifling its progress. The War on Democracy shows that the principles of democracy can be found more readily among the poorest people of Latin America than anywhere near the corridors of the White House. It features an exclusive interview with Hugo Chávez and Pilger also speaks to former US government officials who claim the CIA waged covert wars in Latin America. Through this film, Pilger conveys his central belief in the enduring power of the people."

onnur umsogn um myndina segir:

"Many of Latin America’s classic baddies make an appearance, including the United Fruit Company, John Foster Dulles and Augusto Pinochet. A Pinochet supporter’s statement about there being “no need to torture people, when you can shoot them” almost makes her the nastiest person in the movie. However, she’s beaten by the obnoxious former CIA head who’s open about how irrelevant the promotion of democracy is when American interests need to be protected. "


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband