Leita í fréttum mbl.is

Drepa skólar sköpunarhæfileika?

Mannrækt í skólum? Menntun fyrir betri heim? Sittu kyrr og gerðu verkefnin þín barn! Ef þú getur ekki setið kyrr og einbeitt þér tímunum saman þá ertu sennilega bara veikur og þarft að fara á lyf. Eða hvað? ... Skrifaðu svona og reiknaðu svona. Þú mátt helst ekki teikna, syngja eða dansa alltof mikið í skólanum, því þar áttu að læra "mikilvægari" námsgreinar. Er það börnum virkilega eðlilegt að sitja kyrr klukkutímum saman með örstuttum frímínútum þar sem þau fara aðeins út að viðra sig? Er kerfið kannski gallað, en ekki börnin? Sir Ken Robinson segir að svo sé og að það besta fyrir börnin okkar sé að leyfa þeim að finna hæfileika sína og rækta þá, en ekki vera algerlega föst í kerfinu eins og það er í dag með alla áherslu á akademíu í hausnum.

Árið 1930 var ung stúlka í skóla og foreldrar hennar fengu sífellt kvartanir um að hún bara gæti ekki setið kyrr og einbeitt sér og væri kannski veik, svo móðirin fór með hana til læknis. Læknirinn var greinilega ekki þröngsýnn og ekki með einblíningu á skjúkdómavæðinguna eins og hún hefur tekið yfir núna. Hann horfði á barnið og svo fór hann fram með móðurina og kveikti á tónlist og skildi barnið eftir. Stelpan byrjaði strax að hreyfa sig í takt við tónlistina og læknirinn sagði; líttu á dóttur þína, hún er ekki veik, hún er dansari!

Litla stúlkan fór í dansskóla og samdi stóra söngleiki sem urðu frægir og varð milljónamæringur fyrir vikið. Í dag myndi hann mjög líklega einfaldlega setja hana á rítalín og segja foreldrunum að hún væri bara ofvirk.

Endilega hlustið á þennan mann sem hefur hlotið mikla virðingu á heimsvísu fyrir hugmyndafræði sína um menntun framtíðarinnar. Ég veit að ég er sammála þessum manni og hef stórkostlegar efasemdir um að hið hefðbundna skólakerfi sé gott fyrir börn og þroska þeirra.

Spurningar sem ég tel að við þurfum í það minnsta að spyrja okkur að er hvort börnum sé virkilega eðlilegt og náttúrulegt að sitja kyrr mest allan daginn yfir bókum? Þarf meiri leik og meiri listir í skólana sem hluta af venjulegu námi til að einstaklingurinn sé "heilli"? Þurfa börn að læra út frá forvitni sinni fyrst og fremst? Þarf þá ekki að vekja forvitni þeirra og gagnrýna hugsun til að fá þau til að hugsa um heiminn og hluti á nýjan hátt? Er mögulega hægt að kenna stærðfræði og raungreinar á meira skapandi hátt og með gagnrýnni hugsun til að þróun verði meiri í framtíðinni? Er endilega rétt að aðskilja börn í skólum eftir aldri, niður í aldursbekki? Er eðlilegra að bekkir séu með breiða aldurshópa og væri kannski eðlilegt að læra af öðrum börnum líka, en ekki eingöngu að vera mataður af kennaranum á þann hátt að það er lítil sem engin hugsun á bakvið það, þú átt bara að leggja staðreyndir á minnið? Það eru margar spurningar sem þarf að spyrja sig að og eins tel ég nauðsynlegt að velta fyrir okkur lyfja-og sjúkdómavæðingu barna þegar þau passa ekki inn í kerfið. 

Fyrirlestur Ken Robinson á ted.com 

Viðtal við Sörinn  

 

Áður en ég loka færslunni vil ég þó taka fram að ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki eru allir skólar eins og oft getur kennarinn skipt sköpum um hvernig börnum líður í skólanum. Eins átta ég mig fullvel á því að börn geta átt við ýmis vandamál að stríða fyrir utan skólann, en þessi færsla snýst bara um það hvort og hvernig skólar gætu hugsanlega orðið betri fyrir börn og góðir til mannræktar og til að ala á skapandi hugsun og hvort meira frelsi til sköpunar og leikja sé mögulega leiðin til betri menntunar. Ég tel afar mikilvægt að við hugleiðum þessar spurningar allar og það hvort við ættum að hefjast handa við að gjörbylta skólakerfinu og þá um leið menntun kennara. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta, Ken og Andrea. Íslendingar eru líklega best í stakk búnir allra þjóða til að umbreyta kennsluháttum og gera hugmyndir Ken og fleiri að veruleika. Held það gæti skift sköpum...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.1.2008 kl. 12:02

2 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Oh hvað ég er sammála ykkur Sir Ken! Ég er sjálf alin upp í skóla þar sem ekki var amast við því þótt við sætum ekki kyrr allan daginn og héldum ekki kjafti. Við fengum líka að velja okkur hvað við gerðum á hverjum degi, eftir ákveðinni áætlun þó, sem við gerðum sjálf. Vissulega hentaði þetta ekki öllum börnum, sum börn þurfa meira aðhald og þá eiga þau bara að hafa val um að fá það. En ég og flestir mínir vinir blómstruðum þarna, því við fengum að gera mest það sem okkur þótti skemmtilegt en þurftum samt að krukka aðeins í hitt. Og þar af leiðandi var gaman í skólanum!

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 14.1.2008 kl. 13:37

3 identicon

Þessi breyting er byrjuð. Kynnið ykkur Hjallastefnuna.

Gunnar (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 18:37

4 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Takk fyrir þetta... gaman væri að vita Björg hvar þú varst í skóla? :) Hljómar vel. Reyndar var ég tvo síðustu vetur mína í barnaskóla þar sem við höfðum eitthvað að segja um námsáætlun okkar sjálf og höfðum því eitthvert frelsi innan ramma þó.

Gunnar, ég þekki Hjallastefnuna mjög vel og var reyndar með drenginn minn á leikskóla sem rekinn er í anda hennar og líkar hún ágætlega, en tel hana skorta aðeins á að veita slíkt nám með víðtækum hætti eins og Sir Ken ræðir um og líka til eldri nemenda og einnig sem val fyrir alla, en ekki einungis þá betur efnuðu á Íslandi. En ég tek samt undir það að það er margt gott að gerast víða og ekki eru allir skólar eins. Ég get líka nefnt Waldorf skólann heima á Íslandi sem dæmi um skapandi skóla og öðruvísi nám - enda koma Waldorf nemendur mjög vel út í menntaskóla og háskólanámi varðandi að hafa vilja og áhuga á að læra því þau hugsa um nám á bæði skapandi hátt og af mikilli forvitni eftir því sem ég hef lesið mig til um kannanir í þeim efnum. Hjallastefnan er yngri og ekki mikil reynsla komin á það hvort þeir nemendur sem þaðan koma séu meira skapandi í hugsun og hafi gaman að námi fram yfir það sem gengur og gerist. Ég tel slíkar rannsóknir á útkomu skólanna vera mikilvægar vísbendingar um það eftir hverju við ættum að fara í skólastarfi. Sjálf er ég að ljúka námi í menntunarfræðum í HÍ og hef áhuga á að kanna betur hvað myndi henta best í menntun og mannrækt barna. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 14.1.2008 kl. 21:32

5 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sæl Andrea. Í bók, sem heitir "Sjálfssagður réttur þinn" segir: Kennarar eiga oft þátt í að bæla sjálfsstyrk. Prúðum og kurteisum börnum sem draga ekki vald kennarans í efa, er umbunað, en þau sem standa gegn kerfinu á einhvern hátt fá fyrir ferðina.  Uppeldisfræðingar halda því fram að búið sé að uppræta meðfædda námsgleði barna í fjórða eða fimmta bekk og í staðinn hafi þau aðlagast siðum og venjum skólans. - Þetta er nákvæmlega það, sem við horfum upplifum í dag. Allir eiga að vera steyptir í sama mótið og þeir sem reyna að rífa sig upp úr hjólfarinu eru litnir hornauga, því miður. 

Þorkell Sigurjónsson, 15.1.2008 kl. 00:09

6 identicon

Amen! Það þyrfti aðra aðferð sem fengi börnin til að vilja læra. Ég man eftir því að mér fannst þetta ekki vera gaman. Maður þraukaði bara og náði að draga sig í gegnum þetta með litla hugmynd um af hverju maður væri að þessu. Þannig var þetta einnig langt fram í menntaskóla. Gersamlega fastur í þessu hjólfari.

Það var ekki fyrr en ég féll út úr mínum fyrsta skóla sem hlutir fóru að gerast. Eftir að ég fór að læra eitthvað annað en þessar almennu brautir höfðu upp á að bjóða eða það sem ÉG vildi læra fór ég virkilega að hafa gaman af þessu. Þvílíkur munur. En það kom bara svona 15-16 árum of seint.

Einar (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 05:21

7 identicon

Sæl

Mikið er til í þessu, hef oft hugsað um það hversu gott ég hafði það í gamla góða sveitaskólanum, allir í sömu stofu að hjálpa hver öðrum, ef því var að skipta.  Það sem mestu skiptir, frjáls í hugsun. Við hefðum sjálfsagt nokkrir þar verið settir á rítalín í dag.

Ber það saman við aðstæður í dag, þegar ég er að hjálpa mínum börnum, við það sem ég stundum kalla "steingelt" námsefni og allir bundnir við sömu línu.

Hef líka samanburð af hærra námsstigi, því ég fór í gegnum gamla Tækniskólann, þar voru skyndipróf reglulega og ef að það gekk vel, þá varstu laus við lokapróf, skyndipróf og verkefni mynduðu lokaeinkun.  Það sem mestu skipti, ekki lá allt undir einu lokaprófi í áfanganum.  Fór síðan í Háskóla, sem sínum akademísku prófum og eftir að honum lauk sagðí ég hiklaust að ég hefði myndi meira frá árunum í Tækniskólanum, en Háskólanum þar sem allt byggðist á páfagaukalærdóm tvær prófvikur á önn.

Kveðja Ómar

Ómar Pétursson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 08:49

8 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Fyrir ca 20 árum var móðir í foreldraviðtali og kennarinn bað hana að láta athuga barnið því drengurinn gat ekki setið kyrr. Hann var í 1. bekk. Ræddi kennarinn um það að gott væri að setja svona börn á lyf sem gæti hjálpað mikið til að hann róaðist í skólastofunni. Ég tek það fram að þetta var með rólegustu börnum, talaði ekki mikið, tók vel eftir og var ekki á hlaupum, hann bara iðaði stanslaust í stólnum. Þessi móðir talaði við aðra foreldra í bekknum og kom í ljós að kennarinn bað flesta foreldra að láta athuga börnin sín. Þessi kennari var kærður og látinn hætta.

Þetta var lítil dæmisaga um að foreldrar verða líka að meta sitt barn.

Ég sjálf á  drengi sem eru svo ólíkir námslega séð að ég myndi aldrei láta þá fá sömu verkefni til að vinna eftir

Svala Erlendsdóttir, 15.1.2008 kl. 10:56

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fróðlegar pælingar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að einstaklingarnir eru ólíkir hverjir öðrum og því þarf skólakerfið að bjóða nemendum sínum upp á fjölbreytni í námi og að mæta þeim þar sem þeir eru staddir bæði í þroska og áhugamálum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2008 kl. 12:48

10 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Gott blogg. Þessi mál eiga að vera á forsíðum dagblaðanna, umfram þessar brask-fréttir sem þjóna fáum útvöldum. Hvað finnst ykkur um Kozol?

Ólafur Þórðarson, 16.1.2008 kl. 04:14

11 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Andrea, ég var í Vesturbæjarskóla og hann bjargaði lífi mínu. Mér skilst að hann sé ennþá á svipuðum nótum en hafi samt breyst töluvert.

Ég var einmitt að lesa bloggið hennar Laufeyjar þar sem hún lýsir strögglinu við að koma dóttur sinni í skólann og fékk milljón athugasemdir þar sem fólk lýsir svipaðri reynslu. Sonur minn fæst ekki til að læra heima og hann hefur lýst því yfir hvað verkefnin eru leiðinleg. Ég tel að það sé farið eftir yfirlýstu markmiði borgaryfirvalda um einstaklingsbundna kennslu að mjög takmörkuðu leyti. Ég hef á tilfinningunni að þau börn sem eru annað hvort sein til eða bráðger verði dálítið útundan í skólalerfinu.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 17.1.2008 kl. 12:34

12 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

"Útundan í skólakerfinu", ætlaði ég að segja. Svo ætlaði ég líka að vísa á bloggið hennar Laufeyjar.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 17.1.2008 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband