Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Ræðan sem ég hélt á Austurvelli í dag

Íslenska efnahagsundrið? Jahá einmitt ... ef það hljómar of gott til að vera satt, þá er sennilega eitthvað bogið við það ... og það endaði líka með íslensku efnahagsHRUNI. Við erum mitt í hruninu og það er hvergi nærri búið – uppbyggingin og endurreisnin er ekki hafin enn.

En hvernig gerðist þetta eiginlega?
Jú, ÞEIR fengu bankana á silfurfati, banka sem þjóðin átti, ÞEIR léku sér aðeins með tilraunir til að græða og græddu helling, svo mikinn helling að það var “undravert” alveg hreint. ÞEIR fengu algert frelsi án nokkurrar ábyrgðar – EN VIÐ áttum að bera ábyrgðina.

Og ég segi ÞEIR vegna þess að það var stjórnlaus og gráðugur karlpeningurinn sem kom okkur í þessar aðstæður og ég tek undir þau frægu orð “HELVÍTIS FOKKING FOKK”!!!

Við erum í vondum málum. En hvernig var það eiginlega, var ekki búið að vara okkur við, sögðu Danir okkur ekki árið 2006 að eitthvað væri nú bogið við starfsemi bankanna hér á landi? Og voru ekki fleiri sem lögðu til nokkur varnaðarorð? En hvað gerðum við? Við skutum skollaeyrum við og vildum ekki heyra, allavega mörg hver. Og hver var ástæðan – jú við vorum svo klár og miklir snillingar í útrásinni að við vorum ósnertanleg. Ég hlustaði á Danina og hafði mínar efasemdir, en það er líka af því ég dreg í efa hið stórkapítalíska kerfi sem gjörsamlega mergsýgur og arðrænir almenning í þágu hinnar ríku elítu sem virðist eiga til í sér endalausa, hamslausa græðgi.

Um leið og ég segi þetta veit ég að mörgum hryllir við og er það ekki típískt fyrir íslendinga að segja mig öfunda þá um leið og ég gagnrýni þá og þeirra hugmyndafræði???
NEI, ég öfunda þá sko ekki – ég kæri mig ekki um að verða rík á svo dýrkeyptan kostnað annarra.

En ég held nú samt áfram og vil tala til skynsemisradda innra með ykkur sem getur sagt okkur sannleikann.
Við vissum þetta alveg, við bara neituðum að horfast í augu við að það var eitthvað bogið við þetta allt saman.
En við vissum það innst inni.

Ef við spáum aðeins í það saman, þá er enginn í heiminum sem getur orðið svona ótrúlega ríkur og skilað svona rosalegum hagnaði ár eftir ár nema þá að vera að arðræna einhvern annan í þágu sjálfs síns. Það er ekki hægt að “búa til” svona mikla peninga nema þá með því að okra á næsta manni, stunda óheiðarleg viðskipti eða hreinlega bara prenta peninga. Ég veit að það er ekki vinsælt að segja þetta, en í mínum huga er þetta nú bara staðreynd.

JÁ ÞEIR settu okkur á hausinn sem þjóð og ÞEIR eiga að bera ábyrgðina. Af hverju er ekki búið að frysta eigur þeirra ennþá og af hverju er ekki hægt að hneppa þá í gæsluvarðhald vegna gruns um brot rétt eins og búðarþjófa og aðra glæpamenn? Er það af því þeir eru í jakkafötum?

VIÐ eigum ekki að taka á okkur ICESAVE. Þetta er fáránlega lélegur samningur, 5,5% vextir á meðan stýrivextir í Evrópu eru undir 2% - hvað á það að þýða?
Það á bara að semja betur, segja bretum og hollendingum að við getum ekki staðið undir þessu og það á að bjóða þeim eignasafnið lélega sem þeir vilja ekki, og láta þá sjálfa eltast við persónulegar eigur bankamannanna og innistæður þeirra í skattaskjólum.
Gefum bretunum bara veiðileyfi á víkingana!

En nóg um það, ég kom hér til að tala um heimilin í landinu. Hvernig stendur eiginlega á þessari tregðu ríkisstjórnarinnar að bregðast við svindlinu?
Af hverju eiga heimilin í landinu að gjalda fyrir óráðrsíuna í bankagúrúunum? Hvaða réttlæti er í því?
Það er EKKERT réttlæti í því, þannig er það. Ef við gætum fengið réttlæti, þá værum við tilbúin til þess að taka þátt í endurreisninni í samvinnu við stjórnvöld og atvinnurekendur. En NEI, stjórnvöld neita okkur um réttlætið, þau neita að leiðrétta lánin okkar í samræmi við eitthvað sem gæti talist eðlilegt. Þeim finnst í lagi að við tökum á okkur verðbólguskot og gengishrun, launalækkanir og vinnumissi - og ætlast til að við steinhöldum kjafti og borgum bara “af þvi við getum alveg staðið í skilum”!!! Getum við það?

Jú vissulega er það rétt hjá þeim ljúfa velviljandi manni honum Steingrími J. og heilögu Jóhönnu að mörg okkar geta alveg staðið í skilum og greitt af okkar blessuðu lánum sem við horfum á höfuðstólshækkun á mánuð eftir mánuð og hneppa okkur í þrældóm til yfir 100 ára! En er það réttlætanlegt? Er það sanngjarnt gagnvart okkur lántakendum að þetta sé ekki leiðrétt? NEI, ÓNEI það er hvorki réttlætanlegt né sanngjarnt!

Það þekkist að mínu viti hvergi annars staðar í vestrænum ríkjum að fólki sé boðið upp á lán sem bæði eru verðtryggð og með vöxtum. Að þau séu tengd neysluvísitölu sem hefur undantekningarlaust hækkað, ár eftir ár, síðan að krónan var sett á flot og verðbólgumarkmið voru tekin upp. Það er borin von að lánin munu nokkurn tíma verða greidd upp að fullu á einni mannsævi. Er ekki eitthvað bogið við þetta???

Ég sá um daginn að Egill Helgason hafði birt á blogginu sínu útreikninga kunningja míns þar sem hann sýnir fram á að sá sem tók 11 milljóna króna lán árið 2001 til 40 ára miðað við 5,65% verðbólgu, sem er meðaltalsverðbólga síðast liðinna 10 ára, kemur til með að greiða 199 milljónir til baka fyrir þetta lán.
Sá sem tók 18 milljóna króna lán 2009 til 40 ára kemur til með að greiða 325 milljónir miðað við sömu verðbólgu! Þetta búum við við og þetta finnst ráðamönnum eðlilegt eða hvað?

NEI segi ég, þetta er nútímaþrældómur og ekkert annað. Þetta er grátlegt og broslegt í sömu andrá. Ég gat ekki annað en hlegið við þegar ég sá auglýsinguna frá BYR um daginn þar sem þeir hvöttu landsmenn til að greiða meira inn á höfuðstól lána sinna til að stytta lánstímann um nokkur ár. Það broslega við auglýsinguna var súluritið sem sýndi annars vegar súlu upp í 104 ár og hina upp í 95,5 ár!!! HAHAHA – þeir hvöttu til þess að við greiddum 10þús krónum meira á mánuði inn á höfuðstólinn til að minnka láns-tímann úr 104 árum (miðað við 11 milljóna kr. lán) og í 95,5 ár!
ÞAÐ ER FJÁRHAGSLEG HEILSA! :)
Eru þeir þá líka að miða við að líkamleg heilsa okkar verði svo góð og líftími svo hár að við munum lifa til að sjá lánið okkar uppgreitt???!!!
Elsti maður heims, Tomoji Tanabe, dó um daginn 113 ára gamall. Hann þakkaði langlífi sitt þeirri staðreynd að daglega drakk hann glas af mjólk. Þá vitum við hvernig við getum lifað til að sjá lánin okkar uppgreidd.

Í raun og veru getur þetta varla talist annað en skrípaleikur eða harmleikur - nema hvort tveggja sé.

EN ég verð samt að gagnrýna aðeins og koma með ábendingar til almennings til varnaðar svo að fasteignamarkaðurinn fari aldrei í svo háar hæðir eins og hann gerði síðast liðin ár. Þar berum við vissulega líka ábyrgð því við getum haft áhrif á markaðsverð fasteigna. Það gerum við með því að samþykkja ekki að kaupa þær á yfirverði, samþykkja ekki að leyfa fasteignasölum og verktökum að maka krókinn uppúr öllu valdi og hafa okkur að fíflum. Við eigum að sporna við því með því að halda að okkur höndunum og kaupa ekki fasteignir á slíkum tímum.
Þannig getum við mögulega haldið betra jafnvægi á markaðnum.

Sjálf er ég ekki í vondum málum, en mér finnst samt hrikalega óréttlátt að hafa tekið lán fyrir 6 árum síðan upp á 8 milljónir og vera búin að borga samviskusamlega á hverjum mánuði, samtals rúmar 3 milljónir, á meðan ég horfi á lánið mitt hækka á hverjum mánuði – síðast þegar ég kíkti var það komið yfir 11 milljónir og hefur semsagt ekkert lækkað höfuðstólinn með þessum afborgunum mínum, heldur þvert á móti hækkar hann og hækkar endalaust.
---
Hún Jóhanna okkar kæra forsætisfrú talaði ötullega gegn verðtryggingunni fyrir nokkrum árum þegar hún var í stjórnarandstöðu. Það gerði Steingrímur líka. En þegar þau eru komin í stjórn og ekkert er eðlilegt við ástandið í þjóðfélaginu þá gera þau nákvæmlega ekkert í því að afnema verðtryggingu á lánum, né heldur eru þau tilbúin í almennar leiðréttingar á höfuðstólshækkun lána okkar vegna verðbólguskots sem er svo fram úr öllu hófi að það getur ekki talist annað en réttlætismál að leiðrétta það.

En NEHEI, þau þrjóskast við og draga dár að þeim sem tala í þá veru að leiðrétta þassa höfuðstólshækkun! Þau tala um að þau vildu hitta þann galdramann sem gæti gert slíkt án þess að það kostaði peninga. Þau gætu kannski fundið galdramanninn sem hafði það “hugrekki” að ætla að afnema verðtrygginguna með öllu á sínum tíma og byrjaði á að afnema hana af launum en náði ekki lengra en það :) ... því sá galdramaður er nefnilega til.

Báðir ríkisstjórnarflokkarnir eru að starfa gegn sínu æðsta valdi, landsfundum flokkanna, á meðan þau koma ekki með almenna leiðréttingu á höfuðstóli lána. Landsfundir beggja flokka samþykktu ályktanir í þá átt að þeim bæri að finna leiðir til þess að leiðrétta höfuðstól lána með tilliti til óeðlilegra aðstæðna út af verðbólguskotinu.
Hér ríkja óeðlilega aðstæður, það varð alger forsendubrestur gagnvart lántakendum þegar gengið hrundi og verðbólgan fór upp úr öllu valdi.
En þau virðast ekki ná því að það er enginn að biðja ríkið um að gefa sér peninga og slík leiðrétting kæmi ekki til með að kosta ríkissjóð fjárútlát. Þetta væri hins vegar viðurkenning á því hversu óeðlilegt ástand ríkir og þetta væri viðurkenning á því að þessar tekjur af höfuðstólshækkun væru ekki réttlætanlegar inn í ríkissjóð eða bankana. Það væri því eðlilegra að tala um tekjumissi í framtíðinni heldur en kostnað ríkissjóðs núna.

Við erum ekki að biðja um að láta fella niður eða afskrifa skuldir sem við stofnuðum til vísvitandi til að kaupa okkur eigin heimili. Við erum ekki að biðja um fjárútlát af hendi ríkisins til þessa. Við erum að biðja um einfalda leiðréttingu á bókhaldi íbúðalánasjóðs og bankanna, þannig að höfuðstóll lána okkar verði færður niður í þá skuld sem hann stóð í fyrir hrunið. Og þá erum við samt að tala um skuld sem hafði þá þegar hækkað verulega mikið árin áður vegna þenslunnar sem hefur hækkað vísitöluna og lánin.

Sjálf myndi ég vilja ganga alla leið og afnema með öllu verðtryggingu því það er ekkert eðlilegt að verðtryggja lán eða peninga yfir höfuð. Það er nánast hvergi gert og gengur ekki upp. Það er ekkert eðlilegt við það. Við ættum frekar að fara fram á stöðuga efnahagsstjórn og lítinn en stöðugan hagvöxt – það hefur ekki gengið upp í tíð fyrri ríkisstjórna ... en núna eru aðrir teknir við og það eina sem við getum gert er að vona að þeim takist betur til.

Eins þurfum við að krefjast þess að fá betri lánakjör, eins og þau gerast á hinum Norðurlöndunum. Við þurfum óverðtryggð lán sem samt eru á lágum föstum vöxtum, undir 3%.

Ég gekk til liðs við Hagsmunasamtök heimilanna sem mér finnst hafa unnið ákaflega ötult og gott starf í þágu heimilanna. Ég hvet ykkur öll til að skrá ykkur í samtökin á heimilin.is svo við getum saman myndað stóran þrýstihóp á stjórnvöld.
Næstkomandi þriðjudag standa samtökin fyrir fundi Iðnó kl. 20. Einnig verða haldir fundir á Akureyri, Selfossi, Reykjnesbæ og Flúðum. Samtökin munu hvetja félagsmenn og landsmenn að taka höndum saman og fara í greiðsluverkfall.

Að lokum vil ég segja að ef þjóðinni á að takast að komast í gegnum þessa erfiðleika saman tel ég algerlega nauðsynlegt að vinna þetta með þjóðarsátt. Þar þarf allt Alþingi að hafa aðkomu, ekki eingöngu ríkisstjórnin. Eins þurfa almenningur og atvinnurekendur að hafa málsvara. Það ætti að finna leið sem allir geta sæst á til að leysa þennan vanda sem blasir við okkur. Og það ætti að láta ICESAVE í þjóðaratkvæðagreiðslu.


Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband