Leita í fréttum mbl.is

Aðeins af grunngildum samfélagsins

Fyrir ykkur sem ekki þekkið mig: Ég heiti Miriam Rose, og er aðgerðarsinni og umhverfisfræðingur frá Bretlandi. Ég var beðin um að tjá mig hér um reynslu mína af grunngildum íslensks samfélags, byggt á viðtali sem ég var í við Kastljós í október, eftir að mér var hótað með brottvísun úr landi vegna aðildar minnar að aðgerðum gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnar ykkar. Í bréfinu sem ég fékk, þar sem farið var fram að mér yrði vísað úr landi, stóð að ég ætti á hættu að vera brottræk gerð frá Íslandi í þrjú ár, enda væri hegðun mín „ógnun við grunngildi samfélagsins“.

Í áðurnefndu viðtali nefndi ég hversu lýsandi mér þætti þetta orðaval, og bar fram spurninguna: Hver eru grunngildi íslensks samfélags? Svo virðist sem málfrelsi, jafnrétti og mótmælaréttur teljist ekki þar til, og hver er þá merking þessara orða? Þetta orðalag opinberaði mér einfaldan sannleik um eðli ákvörðunarinnar. Ég hafði sett spurningarmerki við rétt markaðarins og hagrænna gilda til þess að ráða samfélaginu og náttúrunni, með fulltingi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Ásökunin gerði mér það dagljóst að þetta eru hin einu sönnu „grunngildi“ íslensks samfélags, og það á kostnað mannlegs frelsis, og þeir sem setja spurningarmerki við slík gildi eru ekki velkomnir hér. Ætlun mín hér er að útskýra tilgátu mína frekar.

Sjálf hef ég verið meðhöndluð af töluverðu ójafnrétti hér á landi. Nú í sumar sem leið var mér stungið í fangelsi, eftir að mér hafði verið tilkynnt að ég ætti að borga sekt fyrir að óhlýðnast lögreglunni. Ólíkt því sem á að viðgangast var mér ekki gefinn neinn frestur til þess að greiða sektina, né var mér leyft að áfrýja, heldur var ég þess í stað send án frekari spursmála beint í fangelsi þar sem mér var haldið í einangrun í 8 daga, vegna þess að ekki fannst pláss í kvennafangelsinu fyrir mig. Í fangelsinu sögðu mér fangaverðirnir að þetta væri í hæsta máta óvenjulegt, þar sem konum er jafnan veitt sakaruppgjöf nokkrum sinnum áður en þeim er stungið inn á Íslandi, og því eru svo fáar konur í fangelsum. Þeir voru afar undrandi á því að konu sem hafði verið kærð í fyrsta sinn, og það ekki fyrir ofbeldisglæp, skyldi meðhöndluð á þennan hátt. Svo virðist sem þessi ósanngjarna meðferð hafi verið viljandi óblíð, og markmiðið að senda viðvörunarskilaboð til annarra mótmælenda, um að þeir væru ekki velkomnir hér.

Snúum okkur nú að málfrelsinu. Annað en gengur og gerist í einræðisríkjum og hjá kommunískum ógnarstjórnum, þar sem fjölmiðlum er stjórnað með harðri hendi, montum við okkur af hinni frjálsu og óháðu fjölmiðlun Vesturlanda. En hversu hlutlausir eru fjölmiðlar okkar í raun og veru? Íslenskum fjölmiðlum er stjórnað af fáum einkafyrirtækjum og litlum ríkisfjölmiðli, sem þiggur fé frá einkageiranum. Hvaða hagsmunum þjóna þeir? Getur fjölmiðill í eigu fyrirtækis, eða sem þiggur fé frá einkageiranum, raunverulega gagnrýnt sína eigin herra, eða þá sem tengjast eigendunum, flutt sannferðugar fréttir af efnahagsbrotum þeirra? Hvaða hagsmunum þjónaði það þegar lygarnar um að aðgerðarsinnarnir í Saving Iceland þæðu laun fyrir störf sín voru birtar á RÚV, og aldrei dregnar til baka þrátt fyrir að að þeim væri fundið í gegnum opinberar boðleiðir?

Ég leyfi mér að spyrja eins og aðgerðarsinnar á Indlandi, sem ég hef unnið með: Málfrelsi fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Oftsinnis hefur íslenska ríkið sýnt fram á umburðarleysi sitt í garð samkomufrelsisins, og í garð aðferða borgaralegrar óhlýðni sem mótmælaforms. (Þrátt fyrir þá gríðarlegu aðdáun sem þessar aðferðir njóta þegar við skilgreinum borgaraleg réttindi okkar og frelsi). Árið 2002 voru allir þeir einstaklingar sem grunaðir voru um aðild að Falun Gong (sem eru fyllilega friðsamleg mannréttindasamtök) handteknir eða þeim neitað um inngöngu í landið, að tillögu spilltrar ríkisstjórnar sem velflest ríki heimsins líta niður á – Kína. 

Enn er það svo að þegar réttarkerfinu og lýðræðinu hefur mistekist að gera ríkisstjórnina ábyrga, eru mótmæli eina færa leiðin til réttlætis. Árið 2006 þrömmuðu fimmtán þúsund manns í borgum og bæjum á Íslandi til að mótmæla því að Kárahnjúkum yrði drekkt, án árangurs. Það er engin furða að fólk finnist þessar mótmælaaðferðir máttleysislegar og snúi sér að beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni til þess að véfengja þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í þeirra nafni.

Einhverjir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirtækin séu máttugri en fólkið, og jafnvel máttugri en stjórnmálamenn, á Íslandi. Nú þegar við gerum okkur grein fyrir því að peningar jafngilda mætti, er ljóst að gríðarstórir einokunaraðilar á borð við ALCOA, Baug, Rio Tinto og Kolkrabbann valda miklum mætti. Og hvernig eru þessi fyrirtæki gerð ábyrg? DECODE, fyrirtækið sem á nær allt íslenskt erfðaefni, selur þær upplýsingar öðrum fyrirtækjum fyrir 60 þúsund krónur stykkið, án leyfis frá almenningi. Á sama tíma fær ALCOA raforku á mörgum sinnum lægra verði en íslenskur almenningur, fyrir upphæð sem er svo smánarleg að Landsvirkjun vill ekki einu sinni gefa hana upp.

Enn spyrjum við: Þjónusta við hvern? Og hvað má hún kosta? Lýðræði fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Vestræn nútímaríki (eins og Ísland og Bretland) byggja á hljóðlátri og vonlausri alþýðu, sem leyfir vafasamri lagasetningu að ná í gegn án þess að æmta, enda erum við að flónum gerð með lýðræðis- og frelsisorðræðunni. Ólíkt því sem gerist í harðsvíruðum einræðisríkjum eða hrottalegum kommúnistaríkjum, erum við of efnuð og sátt til þess að setja spurningarmerki við kerfið sem framleiðir auð okkar.

 

 

Það er mikilvægt að muna að frelsi okkar, líkt og það er, var okkur ekki fengið af neinni ríkisstjórn, heldur náðum við því frá þeim með erfiðismunum. Ef við notum það ekki, ef við reynum það ekki af og til, visnar það upp. Ef við stöndum ekki vörð um það statt og stöðugt, verðum við svipt því. Ef við krefjumst ekki sífellt meira, stöndum við uppi með sífellt minna. (Roy, 2005) 

 

Sjá ræðu Miriams í fullri lengd hér, að ofan hef ég einungis valið nokkra punkta úr ræðunni sem er mun lengri og ítarlegri.

http://www.eggin.is/index.php?option=com_content&task=view&id=676&Itemid=47


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er til skammar fyrir stjórnvöld okkar, við eigum ekki að líða svona alræðistakta. 

Gullvagninn (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband