Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Kíkið á kjosa.is

Nú styttist óðum í kosningar og lítur allt út fyrir að stjórnin falli - sem er náttúrulega mjög mikilvægt og eina leiðin til að hér verði einhverjar alvöru breytingar.

Kíkið á kjosa.is 

 

Hér er líka eitt mjög gott og fyndið

4 ástæður til að kjósa að skipta um ríkisstjórn

Lýðræði?
2 menn settu Íslendinga á lista þjóða sem studdu stríðið í Írak. 35 komu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun.

Fjársterkir aðilar hafa eytt milljónatugum til að hlutast til um ákvarðanatöku sveitarfélaga í Hafnarfirði, Reyðarfirði og víðar.

Samfélag fyrir alla?
Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er komin á dagskrá og unnið er að sölu Landsvirkjunar, og þar með orkuauðlinda þjóðarinnar.

1. nóvember á þessu ári taka gildi lög þar sem einkaeignaréttur á vatni er festur í sessi og vatn gert að markaðsvöru.

Græn framtíð?
Álver verða reist við Húsavík og í Helguvík og virkjanir í Þjórsá og Skjálfandafljóti.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hraðar hér en í nokkru öðru landi í Evrópu.

Kvenfrelsi?
Kynbundinn launamunur er 16% og hefur ekki minnkað um eitt einasta prósent.

23 af 63 þingmönnum eru konur, 4 af 12 ráðherrum.

Allt annað líf - Á laugardag eru 4 ástæður til að kjósa Vinstri græn:

Lýðræði!
Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.

Eflum grasrótarsamtök og tryggjum aðkomu almennings og frjálsra félagasamtaka að lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Samfélag fyrir alla!
Burt með komugjöld og sjúklingaskatta.

Tryggjum almenningi lægra orkuverð og nýtum hlut ríkisins í Landsvirkjun í þágu skynsamlegrar orkunýtingar. Afturköllum lög um einkaeign á vatni og tryggjum að aðgangur að vatni verði áfram hluti af grunnréttindum okkar, líkt og andrúmsloftið.

Græn framtíð!
Stöðvum frekari stóriðjuframkvæmdir og ákveðum hvaða svæði við ætlum að vernda til framtíðar.

Stofnum loftslagsráð sem vinnur markvisst gegn losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með vistvænum samgöngum og fræðslu um umhverfismál.

Kvenfrelsi!
Afnemum launaleynd strax og eflum Jafnréttisstofu.

Vinnum að því að tryggja a.m.k. 40% hlut kvenna á þingi og í sveitarstjórnum, t.d. með því að hvetja til að fléttulistum verði beitt.


Hvar stendur þú? - Taktu könnunina

Nemar á Bifröst hafa sett upp gagnvirka stjórnmálakönnun ... sem að mínu mati er reyndar alls ekki tæmandi og hefði þurft að innihalda í það minnsta 10 grundvallarspurningar. Ekkert er minnst á aðgerðir í jafnréttismálum þarna t.d. Ekkert er minnst á aðgerðir í fjölskyldumálum.

En hvet ykkur til að taka þessa könnun

http://xhvad.bifrost.is/

 

Hér má síðan sjá smá færslu um Ögmund og bankana... hryllilega heimskulegur hræðsluáróður stjórnarflokkana bæði gagnvart bönkum, fjármagni og netlögreglu.

Ögmundur um bankana 

 

 

 

 


Tækifæri til nýsköpunar - grundvöllur að fjölbreyttu atvinnulífi!

Ég neita að trúa því að Íslendingar séu ekki að átta sig á því að það er núna, en ekki seinna sem við kjósum um verndun náttúru Íslands og um það hvort við viljum fjölbreytt atvinnulíf og stöðugleika í efnahagslífinu. Við þurfum að draga úr verðbólgu og þenslu til þess að heimilin í landinu verði ekki ofurseld verðtryggðum skuldum. Við VERÐUM að hverfa af braut stóriðjustefnunnar og búa í haginn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki svo þau geti vaxið. 

Það sem Íslendingar allir þurfa að spyrja sig núna er „Er það í alvöru svona sem við viljum hafa það?“ Viljum við fórna okkar dýrmætu náttúruperlum, jökulám og jarðfræðilega verðmætum svæðum á altari álfyrirtækjanna? Er það skynsamlegt út frá viðskiptalegu sjónarmiði að fórna 80-90% nýtanlegrar raforku í áliðnað? Getur það talist skynsamlegt að ýta undir svo einhæft atvinnulíf hér á landi? Geta álver virkilega verið lausn á atvinnuástandi hvers landshluta?  Hvers  vegna ættu að gilda önnur lögmál í Mosfellsbæ, Garðabæ og Seltjarnarnesi heldur en í Hafnarfirði??  Er ekki skynsamlegra að fara aðrar leiðir? Það má byggja upp öflugar heilsulindir víða um land, þjóðgarða af ýmsu tagi, t.d. eldfjallagarð, það má byggja upp vísindasetur, sem hvetja til alþjóðlegra rannsókna á dýrmætri jarðfræði Íslands, þekkingarsetur og söfn sem miðla menningarsögu okkar og þjóðlegum fróðleik. Það er kominn tími til að treysta á mannauðinn og hina miklu sköpunargleði okkar Íslendinga. Hættum að spyrja þessarar einfeldningslegu spurningar: „En hvað á eiginlega að koma í staðinn?“ Hver sá fyrir Marel, Össur og Bakkavör sem dæmi? Hverjum myndi detta í hug að spyrja hugvitsmann hvaða hugmynd hann ætlaði að fá næst? Hver myndi spyrja tónlistarmann hvaða lag hann ætlaði að semja næst? Haldiði að Mozart hafi getað svarað því?

 

 

 Tækifæri til nýsköpunar

 

1) Leggjum rækt við nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu og hugum sérstaklega að tækni- og þekkingargreinum um land allt. Hlúum sérstaklega að nýjum fyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

2) Stofnum nýjan banka, Hugmyndabanka Íslands (www.hugmyndabanki.is), sem hjálpar okkur að virkja óþrjótandi auðlind — hugvit landsmanna. Löðum fram hugmyndir og gerum þær framkvæmanlegar og arðbærar. Hugmyndabankinn verður opinn öllum landsmönnum allan sólahringinn.

3) Greiðum götu atvinnugreina sem tengjast umhverfistækni, endurvinnslu og endurnýtingu. Horfum til þeirra möguleika og tækifæra sem fólgin eru í sjálfbærri orkustefnu.

4) Tryggjum að auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og að sjávarbyggðir fái réttlátan skerf veiðiheimilda. Hefjum heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, setjum kvótaleigu skorður og auðveldum innlendri fiskvinnslu aðgang að hráefni.

5) Auðveldum sjávarútveginum að laga sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar, ásamt því að treysta byggð og efla atvinnu í landinu öllu. Horfum til aukinnar nýsköpunar, fullvinnslu og verðmætaaukningar innanlands og bætum lífskjör þeirra sem við greinina starfa.

6) Stóreflum rannsóknir á lífríki sjávar og hafsbotninum í kringum landið og byggjum veiðistjórnun á umhverfissjónarmiðum. Aðkallandi er að gera úttekt á áhrifum jökulánna á lífríki sjávar.

7) Aukum vægi ferðaþjónustu og tryggjum henni sambærilega stöðu í stjórnskipun og lögum og öðrum atvinnugreinum. Eflum rannsóknir, þróun og nýsköpun í greininni, t.d. með áherslu á vetrarferðamennsku.

8) Tryggjum að landbúnaður og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Stuðlum að eflingu lífrænnar ræktunar, fjölbreyttrar heimaframleiðslu bænda og auknum möguleikum á sölu beint frá búi.

9) Auðveldum kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði ungs fólks til jarðakaupa. Komum í veg fyrir að verslun með bújarðir raski byggð í sveitum landsins. Endurskoðum jarðalög og tryggjum að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

10) Setjum þak á hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða -magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

11) Búum íslenskan landbúnað undir væntanlega alþjóðasamninga um verslun með landbúnaðarafurðir. Markmiðið verði að greinin fái hæfilega langan aðlögunartíma til að mæta samkeppni og sækja fram á erlendum mörkuðum, t.d. með því að breyta hluta núverandi framleiðslustyrkja í búsetutengdan stuðning.

12) Eflum listsköpun, handverk og smáiðnað. Gefum handverkshópum og einyrkjum aukin tækifæri til kraftmikillar sköpunar. Styrkjum sérstaklega greinar sem byggjast á lífrænum eða öðrum náttúrulegum auðlindum.



Geir hafnar Life Earth á Íslandi

Geir H Haarde, forsætisráðherra Íslands, fékk nýlega bréf þar sem honum og Íslandi var formlega boðið að Reykjavík yrði ein þeirra borga sem taka þátt í Live Earth tónleikaröðinni sem haldin verður 7. júlí í sumar. Geir hafnaði tilboðinu. Hinar borgirnar voru Rio, New York, London, Shangai, Sidney og Höfðaborg. Live Earth er meiriháttar tónleikaröð og áttu tónleikar að fara fram á Miklatúni eins og Sigurrósartónleikarnir síðasta sumar og hefði getað orðið frábær uppákoma.

Meiriháttar erlendir listamenn voru væntanlegir auk þess sem þetta var tækifæri fyrir íslenskt tónlistarfólk. En Geir hafnaði tilboðinu. Nú er leitað leiða til að fjármagna tónleikana en ...

Geir - hann er leiðtoginn sem hafnaði heiminum fyrir álbræðslur og Alcoa.

Kíkið á grein Andra Snæs um ár hinna glötuðu tækifæra 

Kíkið á nýútkominn disk: Hálendi Íslands e. Jóhann G. Jóhannsson, kíkið á frétt hér  

http://www.landvernd.is/myndir/Halendi_Islands_JohannG.mp3.

 

 

Live Earth staðreyndir

 

Markmið:

Að skapa alheimshreyfingu í gegnum 24 stunda útsendingu með áherslu á

umhverfisvernd og hrinda af stað breytingum hjá neytendum, fyrirtækjum og

á pólitískum vettvangi.

Dagsetning: 07/07/07

Staðsetningar:  Jóhannesarborg – Afríka, London – Evrópa, Sydney – Ástralía, New York – Norður Ameríka, Shanghai – Asía, Rio de Janeiro – Suður Ameríka, Tokyo – Asía, Reykjavík – Evrópa, Aðrir möguleikar: Mumbai – Indland

Þáttakendur: Tónlistarfólk: 150 + á heimsmælikvarða.

Kynnar: Rithöfundar, íþróttafólk, skemmtikraftar, stjórnmálamenn, forstjórar og vísindamenn.

Skilaboð: Verðlaunahöfundar og leikstjórar búa til stuttmyndir og skilaboð sem send verða út á öllum miðlum og á sviðum meðan tónleikarnir og útsendingin fer fram.

Útbreiðsla á heimsvísu: Áætlað er að 2 milljarðar manna muni ná 24 stunda lifandi útsendingunni í gegnum sjónvarp, internet, útvarp, farsíma og í kvikmyndahúsum.

2 milljónir áhorfenda viðstaddir tónleikana út um allan heim.

 

Áhugaverðir punktar: Staðsetningar: Hver tónleikastaður verður hannaður og reistur af teymi umhverfisverkfræðinga og hönnuða sem hafa sérþekkingu á sjálfbærri þróun og vistvernd. Teymið mun leita leiða til að umgjörð hvers tónleikastaðar endurspegli helstu áherslumál í umhverfisvernd og orkumálum hvers svæðis.

Styrktaraðilar: Fyrirtæki sem hafa tileinkað sér hina grænu Live Earth stefnu verða fengin um borð sem opinberir styrktaraðilar á alheimsvísu með áherslu á vörumerkjatengingu og aðgerðir.

Þátttakendur: Áhorfendur á vettvangi og í gegnum miðla verða fræddir um það hvernig þeir geta stoppað neikvæð áhrif sín á umhverfið.

 
LIVE EARTH

Opinber heimasíða: www.liveearth.org  opnar í janúar 2007

  


XD neitar að horfast í augu við raunveruleikann

Jú, þeir ætla að einkavæða Landsvirkjun! þeir vilja líka einkavæða öll orkufyrirtæki landsins og neita þar með að horfast í augu við þá reynslu sem það hefur gefið öðrum löndum. Slíkar breytingar á þeirri grunnþjónustu í vestrænum ríkjum að útvega rafmagn og hita í hús almennings á kostnaðarverði hefur alltaf leitt til hærra orkuverðs - svo einfalt er það. Vinstri flokkarnir - eða að ég held allir flokkar nema XD&XB telja að slíkt eigi að vera í rekstri og á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga til að tryggja almenningi sem lægst orkuverð og á að vera hluti af þeirri grunnþjónustu sem samfélagið rekur í sameiningu. 

 

Sem kunnugt er hafa fyrstu skrefin í átt til einkavæðingar orkugeirans þegar verið stigin. Og afleiðingarnar hafa þegar komið fram í stórhækkuðu raforkuverði. Fyrirmyndin er sótt til Evrópu en sem kunnugt er voru settar reglur og gefnar út tilskipanir á tíunda áratug síðustu aldar um að búið skyldi í haginn fyrir þessa þróun. Nú er að koma í ljós að hún hefur ekki gefið góða raun.

 

"Fíaskó" fyrir heimili og atvinnulíf

Í tímaritinu Verktækni sem samtök verkfræðinga gefa út er að finna afar athyglisverða umfjöllun um danska skýrslu sem segir markaðsvæðingu raforkugeirans hafa verið "fíaskó" fyrir notendur. Verð hafi hækkað um þriðjung, fyrirtækjum á markaði hafi fækkað með tilheyrandi fákeppni. Í tímariti verkfræðinga er rakið hvernig skýrsluhöfundarnir dönsku sýna fram á að raforkuverð hafi hækkað, miðað við fast verðlag, um 25% árin 2000-2005 til iðnfyrirtækja og um 33% til almennra raforkukaupenda. "Fullyrðingar um ávinning af frjálsum raforkumarkaði standist einfaldlega ekki. Þeir leggja til að Danir beiti sér fyrir því ... að ESB semji ný raforkulög frá grunni." Í greininni í Verktækni kemur einnig fram að samkeppnisyfirvöld innan Evrópusambandsins taki undir þessa gagnrýni.
Þetta kemur heim og saman við aðrar rannsóknarskýrslur sem birtar hafa verið. Sjálfstæðisflokknum íslenska virðist hins vegar ekki koma það við þótt reynslan af þessum kerfisbreytingum sé slæm. Í ljósi þess leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til kjósenda hvort þeim finnist rétt að kjósa til valda stjórnmálaflokk sem boðar stefnu sem allt bendir til að sé neytendum – jafnt fyrirtækjum sem öllum almenningi – óhagstæð. Finnst fólki það vera eftirsóknarverð framtíðarsýn að auðhringir á borð við Alcan og Alcoa eignist Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja og önnur orkufyrirtæki?

 

En stefna XD er skýr, þeir vilja einkavæða og tryggja það að fjármagnseigendur þessa lands fái að hafa puttana í rekstri orkufyrirtækja og geti orðið ríkari fyrir vikið á meðan við hin greiðum brúsann í hærra orkuverði. Þetta settu þeir inn í ályktanir landsfundarins.

Hér segir að tryggja eigi Finni Ingólfs hluta af kökunni, en hvað sá maður er eitthvað gulltryggður hjá þessari ríkisstjórn - hvað ætli hann hafi gert til að vinna sér inn alla þessa góðvild ríkisstjórnarinnar? 

Landsvirkjun sögð á sölulista stjórnvalda

 

 


Kosningabarátta keyrð á hræðsluáróðri

Svo virðist sem stjórnarflokkarnir ætli sér að keyra sína kosningabaráttu að mestu á hræðsluáróðri. Mér þykir það ekki góð pólitík og vona innilega að þjóðin láti ekki hræða sig til að kjósa þessa flokka af því hún þori ekki að skoða hvernig ásýnd stjórnmála í landinu yrði með nýrri stjórn. Oft hræðist fólk breytingar, alveg sama hversu smáar eða stórar þær eru. Þegar maður breytir til veit maður jú ekki hvað býður manns, en oftast eru breytingarnar til góða vegna þess að þær knýja fram jákvæða orku, breyttar áherslur osfr. Ég vona innilega að þjóðin þori að breyta til í vor og kjósi að fella þessa ríkisstjórn.

Mér þykir alveg merkilegt að fylgjast með umræðuþáttum í sjónvarpinu þegar stjórnarliðum er stillt upp á móti hinum frambjóðendunum og ef maður fylgist vel með þá kemst maður að því að þeir fá helmingi lengri tíma fyrir sitt mál en allir hinir. Svo virðist sem þáttarstjórnendur átti sig ekki á því að þeir gefa hvorri hlið um sig jafn langan tíma, en öðru megin eru tveir um þann tíma og hinum megin eru 4.

Mér finnst dálítið fyndið hvernig sumir netverjar og stjórnarliðar keyra á þeim hræðsluáróðri að fjármagnið fari allt úr landi ef VG kemst að í ríkisstjórn og leggur fram sína stefnu í nýsköpunarmálum sem að mínu mati falla mjög vel reyndar að hugmyndafræði XD. Að efla nýsköpun og lítil sprotafyrirtæki er það sem þarf á Íslandi í dag til að þekking okkar og menntun nýtist til framtíðar. En fyndið að heyra hræðsluslagorðið "allt fjármagnið fer úr landi!"   - en ef fjármagnseigendur sem einungis hafa tekjur af fjármagni þurfa að reikna sér laun og greiða útsvar og skatt eins og launþegar af þeim launum - er þá ekki bara tryggt að þeir sitji við sama borð og aðrir launþegar og reglurnar í raun samhæfðar því sem gerist og gengur erlendis? Ef fjármagnstekjuskatturinn er hækkaður upp í 14% af einungis þeim sem mestar hafa tekjurnar af honum, en afnuminn fyrir um 90% þjóðarinnar sem á smásparnað, eða í kringum milljón inn á reikning (sem er í stefnuskrá VG) - er þá einhver hætta á að fjármagnið fari úr landi? Og hvert á það þá að fara þegar öll lönd innan OECD eru með hærri fjármagnstekjuskatt en 14%??? HVERT? 

Síðan er það annað með fyrirtækjaskatt - það verður bara að koma fram sem víðast að VG hefur engin áform um að hækka fyrirtækjaskatt, punktur.  

 

 

Ábyrg efnahagsstjórn

1) Endurheimtum efnahagslegan stöðugleika með því að hverfa frá núverandi stóriðjustefnu og sláum þannig á þensluna.

2) Efnum til víðtæks samráðs við atvinnurekendur og launþega, náum verðbólgu niður fyrir viðmiðunarmörk, vöxtum niður á eðlilegt stig og drögum úr viðskiptahalla.

3) Náum jafnvægi á fasteignamarkaði með auknu húsnæðisframboði, félagslegum íbúðalánum og hærri húsaleigubótum.

4) Ráðumst í nauðsynlegar framkvæmdir á sviði samgöngumála og tryggjum hagstæð skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífi.

5) Stefnum að því að heildarskatttekjur ríkis og sveitarfélaga hækki ekki sem hlutfall af landsframleiðslu miðað við meðaltal áranna 2005–2007.

6) Bætum afkomu sveitarfélaganna og tryggjum þeim tekjuauka upp á 5 milljarða króna til að sinna þeim brýnu verkefnum sem flutt hafa verið þangað.

7) Hækkum skattleysismörk í áföngum og dreifum skattbyrðinni með sanngjarnari hætti þannig að lægstu launum og tryggingagreiðslum verði hlíft við sköttum og skattbyrði lægri launa létt.

8) Breytum fjármagnstekjuskatti þannig að upp verði tekið frítekjumark fyrir allt að 120 þúsund króna fjármagnstekjur en greidd 14% af tekjum þar fyrir ofan.

9) Þeim sem eingöngu telja fram umtalsverðar fjármagnstekjur en engar launatekjur verði gert að reikna sér endurgjald þannig að þeir greiði sanngjarnan skatt til samfélagsins.

10) Tökum upp sérstakan skattaafslátt fyrir sprotafyrirtæki og ný fyrirtæki í uppbyggingu.

11) Afnemum stimpilgjöld eftir því sem aðstæður á lánamarkaði og fasteignamarkaði bjóða.

12) Aukum gagnsæi í launa- og skattamálum.



Göngum saman 1. maí

Vonandi sjáumst við sem flest í 1.maí göngunni á morgun!

1. maí - Baráttudagur verkalýðsins með VG um land allt

 

 

Baráttufundur VG í Árborg, í Selinu við Engjaveg 44
hefst kl. 16 – Baráttudagskrá: Söngsmiðja Vinstri Grænna syngur baráttusöngva, Atli Gíslason flytur barátturæðu.

Baráttufundur 1. maí á Sauðárkróki
Vinstri græn bjóða til baráttufundar á kosningamiðstöðinni að Aðalgötu 21 þann 1. maí, kl. 15:30. Auk þess að fagna degi verkalýðsins, höldum við upp á 5 ára afmæli félags Vinstri grænna í Skagafirði.
Ræðumaður verður Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur.

VG í Kópavogi - Bætum kjörin - burt með fátækt
Mikið líf og fjör verður þann 1. maí í kosningamiðstöð VG í Kópavogi, Hamraborg 1 - 3 frá kl. 15.00
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
flytur barátturæðu
Hljómsveitin Bardukha leikur af alkunnri snilld.
Við brún nýs dags. Þorleifur Friðrksson fjallar um verkalýðsbaráttuna.
Aðalsteinn Ásberg rithöfundur les ljóð.
Leikararnir Hjálmar Hjálmarsson og Valgeir Skagfjörð verða með leiklestur.
Tryggvi Hubner og Guðrún Gunnarsdóttir flytja nokkur lög.

VG í Reykjavík - Bætum kjörin - burt með fátækt
NASA - kl: 15:00
Katrín Jakobsdóttir
flytur barátturæðu
Steinunn Þóra Árnadóttir flytur ávarp
Sigríður Kristinsdóttir flytur ávarp
Einar Már Guðmundsson rithöfundur les
Kvartettinn Krummafótur með alþjóðlega tóna

BARÁTTUTÓNLEIKAR Á NASA - kl: 21:00
Pörupiltarnir Hannes
og Smári kynna af alkunnri snilld
Guðrún Gunnars syngur Ellý Vilhjálms
Einar Már flytur skáldskap
Toggi - Puppy
Dóri DNA
Nýstirnin í Johnny and the Rest heiðra okkur með nærveru sinni
Heiða í Unun með sig og heilann sinn
Didda Jóns og Mina rakastan sinua Elvis, Didda elskar Elvis

Baráttufundur og tónleikar í Kosningamiðstöð VG í Grófinni 7, Keflavík
Boðið verður upp á kaffi í miðstöðinni kl. 16 í kjölfarið eða um klukkan 17 hefjast rokktónleikar.

 


Lögregla á villigötum?

Óskaplega þykir mér nú sorglegt framferði íslensku lögreglunnar gagnvart mótmælendum. Ég varð fyrir miklu menningaráfalli í fyrrasumar þegar ég upplifði og horfði upp á framferði löggumanna. Man eftir Óskari Bjartmarz, bróður Jónínu, þegar hann hrinti myndatökumanni RÚV fram af gangstétt og kom fram af hálfgerðu offorsi. Ég man líka hvernig systir hans varði þessa óverjanlegu framgöngu bróður síns með því að hann væri svo stór og mikill á velli að eðlilegt væri að hann "rækist utan í" fréttamanninn sem var að sinna vinnu sinni. Man líka eftir því hvernig lögreglan fór með mótmælendur óþarflega harkalega og beitti ofbeldi við vinnu sína sem var alger óþarfi. Ég hefði aldrei trúað því að svona viðgengist hér á litla Íslandi og vakti þetta miklar áhyggjur hjá mér.

Sjálfir virðast þeir þó hafnir yfir alla gagnrýni blessaðir mennirnir og þeim er greinilega mikið í mun að mála mótmælendur sem lygara. Koma svo sjálfir að vinnu sinni án þess að vera merktir með lögreglunúmerum sínum, þannig að erfiðara er fyrir almenning að tilkynna þá sem haga sér illa við störf sín. Lögreglan var mikið á ferðinni fyrir austan í fyrrasumar og stoppaði bíla sem þar keyrðu um til að spyrja þá ferða sinna og fjarlægðu jafnvel mat úr bílum sem voru á leið í tjaldbúðir. Mér þykir afar miður að sjá slík störf lögreglunnar hér á landi.

Farið hefur verið fram á opinbera rannsókn á störfum lögreglu og framferði og lögbrotum þeirra gagnvart mótmælendum... en ekkert hefur gerst í þeim málum. Virðist vera að við lifum í litlu bananaríki. 

Hér í þessu sambandi vil ég minna á þingsályktunartillögu sem lögð var fram í fyrra um þessi mál, þar sem VG lýsir yfir áhyggjum sínum á störfum og framgöngu lögreglunnar.

 
 
Ég tel að lesendur Mbl og almenningur þurfi að varast hvernig lögreglan flytur mál sitt.  

 


mbl.is Lögregla biður landsmenn að taka fréttum frá mótmælendum með gagnrýnum huga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur umhverfisins

Mér þykir bara oggolítið skrítið að fyrirtæki sem var að byggja eitt helsta mengunarslys á Íslandi í áraraðir hafi fengið viðurkenningu á degi umhverfisins. Kannski hefði átt að velja betur... veit ekki?

Umhverfisráðherra Íslands, ásamt reyndar mörgum öðrum, virðist algerlega haldin þeim misskilningi að hægt sé að tala um hreina orku á Íslandi - en þó hún sé skömminni skárri en kolaorkuver, þá er hún ekki hrein. Það vill nú svo til að uppistöðulón gefa frá sér metangasmengun í stórum stíl í mörg ár á meðan gróður á botni þeirra rotnar. Jarðvarmavirkjanir gefa líka frá sér mikla mengun og er þar varla hægt að tala um "endurnýjanlega orku" þegar virkjun er jafnvel ekki með lengri líftíma en nokkra áratugi og svo tekur það jörðina jafnvel mörg hundruð ár að endurnýja þessa orku. 

Flottur vefur nattura.is og gott framtak hjá Landvernd og einnig frábært að grænu skrefin í borginni hafa loksins komist til framkvæmdar, en stefnumótun byrjaði á tíma R-listans í Reykjavíkurborg.  


mbl.is Dagur umhverfisins er í dag - Fimm grunnskólar og Bechtel fengu viðurkenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG stefnir á fjölbreytni í menntun

Menntaáherslur teknar úr málefnahandbók Vinstri grænna: 

1) Tryggjum öllum börnum jafnan aðgang að menntun. Komum á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla, þ.m.t. skólamáltíðum, frístundaheimilum og námsefni. Jöfnum námskostnað á framhaldsskólastigi og gefum sem flestum færi á að stunda nám í heimabyggð til 18 ára aldurs.

2) Stuðlum að fjölbreyttu námsframboði á öllum skólastigum. Opnum fyrir ólíkar skólastefnur í skólum landsins (án skólagjalda) og tryggjum lýðræði í skólastarfi. Styrkjum gagnrýna og skapandi hugsun og aukum virðingu fyrir nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólanna.

3) Leggjum niður samræmd próf í grunnskóla í núverandi mynd vegna stýrandi áhrifa þeirra á skólastarfið. Innleiðum fjölbreyttara námsmat en nú tíðkast.

4) Aukum vægi list- og verkgreina, útikennslu og hreyfingar á öllum stigum grunnskólans. Stöndum vörð um leik og sköpun á öllum skólastigum.

5) Tryggjum öllum grunnskólabörnum aðgang að tónlistarfræðslu. Gerum landið að einu tónlistarskólaumdæmi og skiptum kostnaði ríkis og sveitarfélaga vegna tónlistarnáms með sama hætti og almennt gildir í skólakerfinu.

6) Eflum kynjafræði- og mannréttindafræðslu, fræðslu um fjölmenningu og sjálfbæra þróun. Tryggjum kennurum og kennaranemum menntun og námsefni á öllum þessum sviðum.

7) Viðurkennum mikilvægi þess að kennarar njóti viðunandi starfsumhverfis og góðra starfskjara og eflum og lengjum kennaramenntun og styrkjum rannsóknir á skólastarfi.

8) Veitum fé til námsefniskaupa fyrir framhaldsskólanemendur og greiðum niður mat á þessu skólastigi til að jafna aðstöðu nemenda til náms.

9) Gefum framhaldsskólunum aukið svigrúm fyrir fjölbreytt skipulag, tryggjum að mismunandi námsleiðir – bóknám, iðnnám og listnám – verði lagðar að jöfnu til stúdentsprófs og að horfið verði frá hugmyndum um einhliða styttingu framhaldsskólans.

10) Fjölbreytt háskólanám standi öllum til boða án gjaldtöku og nám á háskólastigi verði bæði verklegt og bóklegt. Eflum háskólanám um land allt og ýtum undir samstarf milli háskóla. Búum betur að meistara- og doktorsnámi með því að efla rannsóknasjóði námsmanna.

11) Tryggjum öllum annað tækifæri til að ljúka skólanámi hafi þeir áður þurft að hverfa frá námi. Slík tækifæri þurfa að vera án gjaldtöku og aðgengileg sem víðast um landið, t.d. í fjarnámi.

12) Styrkjum grunnrannsóknir og eflum samkeppnissjóðina. Sjálfstæðir vísindamenn þurfa að eiga aðgang að fjármunum til rannsókna og eiga að geta stundað fræði sín óháð stofnunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband