Leita í fréttum mbl.is

Kosningabarátta keyrð á hræðsluáróðri

Svo virðist sem stjórnarflokkarnir ætli sér að keyra sína kosningabaráttu að mestu á hræðsluáróðri. Mér þykir það ekki góð pólitík og vona innilega að þjóðin láti ekki hræða sig til að kjósa þessa flokka af því hún þori ekki að skoða hvernig ásýnd stjórnmála í landinu yrði með nýrri stjórn. Oft hræðist fólk breytingar, alveg sama hversu smáar eða stórar þær eru. Þegar maður breytir til veit maður jú ekki hvað býður manns, en oftast eru breytingarnar til góða vegna þess að þær knýja fram jákvæða orku, breyttar áherslur osfr. Ég vona innilega að þjóðin þori að breyta til í vor og kjósi að fella þessa ríkisstjórn.

Mér þykir alveg merkilegt að fylgjast með umræðuþáttum í sjónvarpinu þegar stjórnarliðum er stillt upp á móti hinum frambjóðendunum og ef maður fylgist vel með þá kemst maður að því að þeir fá helmingi lengri tíma fyrir sitt mál en allir hinir. Svo virðist sem þáttarstjórnendur átti sig ekki á því að þeir gefa hvorri hlið um sig jafn langan tíma, en öðru megin eru tveir um þann tíma og hinum megin eru 4.

Mér finnst dálítið fyndið hvernig sumir netverjar og stjórnarliðar keyra á þeim hræðsluáróðri að fjármagnið fari allt úr landi ef VG kemst að í ríkisstjórn og leggur fram sína stefnu í nýsköpunarmálum sem að mínu mati falla mjög vel reyndar að hugmyndafræði XD. Að efla nýsköpun og lítil sprotafyrirtæki er það sem þarf á Íslandi í dag til að þekking okkar og menntun nýtist til framtíðar. En fyndið að heyra hræðsluslagorðið "allt fjármagnið fer úr landi!"   - en ef fjármagnseigendur sem einungis hafa tekjur af fjármagni þurfa að reikna sér laun og greiða útsvar og skatt eins og launþegar af þeim launum - er þá ekki bara tryggt að þeir sitji við sama borð og aðrir launþegar og reglurnar í raun samhæfðar því sem gerist og gengur erlendis? Ef fjármagnstekjuskatturinn er hækkaður upp í 14% af einungis þeim sem mestar hafa tekjurnar af honum, en afnuminn fyrir um 90% þjóðarinnar sem á smásparnað, eða í kringum milljón inn á reikning (sem er í stefnuskrá VG) - er þá einhver hætta á að fjármagnið fari úr landi? Og hvert á það þá að fara þegar öll lönd innan OECD eru með hærri fjármagnstekjuskatt en 14%??? HVERT? 

Síðan er það annað með fyrirtækjaskatt - það verður bara að koma fram sem víðast að VG hefur engin áform um að hækka fyrirtækjaskatt, punktur.  

 

 

Ábyrg efnahagsstjórn

1) Endurheimtum efnahagslegan stöðugleika með því að hverfa frá núverandi stóriðjustefnu og sláum þannig á þensluna.

2) Efnum til víðtæks samráðs við atvinnurekendur og launþega, náum verðbólgu niður fyrir viðmiðunarmörk, vöxtum niður á eðlilegt stig og drögum úr viðskiptahalla.

3) Náum jafnvægi á fasteignamarkaði með auknu húsnæðisframboði, félagslegum íbúðalánum og hærri húsaleigubótum.

4) Ráðumst í nauðsynlegar framkvæmdir á sviði samgöngumála og tryggjum hagstæð skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífi.

5) Stefnum að því að heildarskatttekjur ríkis og sveitarfélaga hækki ekki sem hlutfall af landsframleiðslu miðað við meðaltal áranna 2005–2007.

6) Bætum afkomu sveitarfélaganna og tryggjum þeim tekjuauka upp á 5 milljarða króna til að sinna þeim brýnu verkefnum sem flutt hafa verið þangað.

7) Hækkum skattleysismörk í áföngum og dreifum skattbyrðinni með sanngjarnari hætti þannig að lægstu launum og tryggingagreiðslum verði hlíft við sköttum og skattbyrði lægri launa létt.

8) Breytum fjármagnstekjuskatti þannig að upp verði tekið frítekjumark fyrir allt að 120 þúsund króna fjármagnstekjur en greidd 14% af tekjum þar fyrir ofan.

9) Þeim sem eingöngu telja fram umtalsverðar fjármagnstekjur en engar launatekjur verði gert að reikna sér endurgjald þannig að þeir greiði sanngjarnan skatt til samfélagsins.

10) Tökum upp sérstakan skattaafslátt fyrir sprotafyrirtæki og ný fyrirtæki í uppbyggingu.

11) Afnemum stimpilgjöld eftir því sem aðstæður á lánamarkaði og fasteignamarkaði bjóða.

12) Aukum gagnsæi í launa- og skattamálum.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæl Andrea, þetta er hárrétt hjá þér, uppstillingin í Sjónvarpinu og á Stöð tvö er út í hött. En það sjá allir vona ég og ekki hafa fulltrúar stjórnarflokkanna verið að koma vel út úr þessum þáttul eins og Gulli og Jón Sig. í gær. Alveg sorgelaga slappir taparar þar á ferð. En við meigum ekki sofna á verðinum og sækja enn harðar. Guðfríður Lilja var til dæmis frábær á Rás 1 í morgun. Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 3.5.2007 kl. 10:30

2 Smámynd: Ingibjörg Þórðardóttir

Baráttukveðjur til vinsrti grænna - við kjósum nýja stjórn í vor :)

Ingibjörg Þórðardóttir, 3.5.2007 kl. 11:33

3 identicon

Heyr, heyr.

Júlíus Freyr Theodórsson (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 11:39

4 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Góður pistill, hræðsluáróðurinn er það sem er leiðinlegast við kosningaumræðuna. Það er barnalegt að halda að öllu verði snúið á hvolf bara við það eitt að skipta um ríkisstjórn.

Snorri Sigurðsson, 3.5.2007 kl. 11:55

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Mér finnst það að sumu leyti gott að stilla stjórnarflokkunum upp saman; þá er erfiðara fyrir þá að halda uppi ímynd um að þeir gangi óbundnir til kosninganna.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.5.2007 kl. 13:29

6 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Já reyndar ágætt að hafa stjórnarliða saman ... en það verður að gæta meira jafnræðis í umræðunni samt sem áður. Ef uppstillingin á að vera svona verður að skipta tímanum og orðinu betur á milli viðmælenda. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.5.2007 kl. 13:39

7 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Ögmundur vill banakana úr landi og allur málflutningur ykkar einkennist af öfund út í fjármálafyrirtækin.  Fjármálastarfsemi skilaði 1000 nýjum störfum á síðasta ári. 

Það gæti orðið ný stjórn í vor, vona samt svo sannarlega ekki en sé Sjálfstæðismenn geta unnið með Samfylkingunni jafnvel.  Það síðasta sem maður vill sjá er stjórn með VG innanborðs, það er amk mitt álit.  Þekki marga sem ætla að setja X við D af hræðslu við að VG komist i stjórn.  Þær áhyggjur skilur maður vel.

Örvar Þór Kristjánsson, 3.5.2007 kl. 15:40

8 identicon

Fjórir stjórnarandstæðingar nota sinn tíma í að blammera verk ríkisstjórnarinnar. Tveir fulltrúar hennar fá samtals helminginn af tíma hinna (þ.e. hver og einn einstakur fulltrúi jafn mikinn tíma) og ná ekki einu sinni að leiðrétta nema hluta af steypunni, hvað þá að kynna sín eigin stefnumál. Svona var þetta á Stöð 2 í gær. Sanngjarnt? Nei, það er lágmarkskrafa, ef umræðurnar eiga að snúast um störf stjórnarinnar, að fulltrúar hennar fái alla vega jafn mikinn tíma og andstæðingarnir. Ef Baráttusamtökin væru með væri staðan 5-2, nógu slæmt að hún sé 4-2. Svo er ekki hægt að sitja undir þessu eilífa tali um að af því að við séum svo rík þá hljótum við að geta þetta og hitt. Ef VG hefði einhverju ráðið hér undanfarin ár þá væru t.d. bankarnir ennþá í einkaeigu. Fyrirtækjaskattar væru ennþá miklu hærri en í dag en væru engu að skila, því að þeir sem eiga fyrirtæki nenna ekkert að sýna fram á hagnað í bókhaldi ef ríkið hirðir það allt, fjárfesta frekar í betri sófasettum og nota risnu til að fjármagna dinnera og djammferðir þar sem kíkt er í kaffi hjá erlendum viðskiptavinum í leiðinni. Við værum ekki á neinum listum yfir ríkustu þjóðir heims og okkar vandamál væru ólíkt alvarlegri en þau sem við horfum fram á í dag. Reynið þið ekki að eyða púðri að sannfæra okkur sem borgum skattana um að ykkur sé treystandi fyrir þeim.

Gústaf (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 15:45

9 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ætli ég verði ekki enn og einu sinni að leiðrétta þennan misskilning með Ögmund og bankana. Reyndar hefur Ögmundur bent  á það í sjónvarpi að það er engin hætta á að bankarnir fari úr landi - en þeir séu reyndar farnir úr landi að miklu leyti þar sem sumir þeirra eru með yfir helming og nálægt 70% af eignarhaldi erlendis. En þáttarstjórnandi hafði ekki þekkingu né heldur áhuga á að kanna þetta nánar - slagorða og hróp-pólitíkin virðist eiga meira upp á pallborðið hjá sumum heldur en staðreyndir.

Hvað varðar skoðun Ögmunds á íslenskum bönkum þá vil ég benda þér á skrif hans sjálfs hér "Ögmundur um bankana" þar sem hann sjálfur segir að hann vilji takmarka afskipti bankastjóra af störfum á Alþingi og hann vilji núverandi ríkisstjórn burt. Þessi athugasemd hans kom að ég held í kjölfarið á afskiptum Sigurðar Einarssonar í KBBanka og tillögum hans en einnig í kjölfar skrifa Ólínu á heimasíðu hans. Hvet þig til að lesa það. Hvað varðar mína skoðun á bankakerfinu þá er ég á þeirri skoðun að bankarnir hafi verið gefnir viðskiptajöfrum á alltof lágu verði og ég tel að þar sem þeir eru með miklar yfirlýsingar um að meirihluti teknanna komi frá viðskiptalífinu um leið og þeir pína hinn almenna borgara með himinháum vöxtum og eru vísitölutryggðir að þá myndi ég gjarnan vilja tryggja aðgang landans að húsnæðislánum ríkisins í gegnum íbúðalánasjóð í það minnsta.

Eins tel ég að við þurfum nú aðeins að pæla í því þegar bankarnir segjast hafa mikinn hluta tekna erlendis - tekjur og gróði þeirra eru gríðarlegar - en þó er um helmingur tekna þeirra skapaður í 300þús manna samfélagi. Athyglisvert að þeir skuli gera svo lítið úr því eins og raun ber vitni.

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.5.2007 kl. 16:57

10 Smámynd: Paul Nikolov

Andrea þetta var bara glæsilega gert hjá þér. Einu sinni enn sigra staðreyndir yfir hræðsluáróðri.

Paul Nikolov, 3.5.2007 kl. 17:19

11 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

SKH, ég verð að segja að ég er sammála þér með verðtrygginguna - hún er tímaskekkja og verður að segjast að hún setur fjármál heimilanna úr jafnvægi á meðan núverandi stjórn þenur hagkerfið eins og raun ber vitni. En það verður fyrst að ná jafnvægi í hagkerfinu áður en hægt er að afnema hana algerlega. Vissulega verður að vera hægt að bjóða hér upp á óverðtryggð lán og ætti markaðurinn hér alveg eins að geta ráðið við það eins og hann gerir í öllum vestrænum löndum. Það myndi líka verða meira hvetjandi fyrir stjórnina að halda hagkerfinu í jafnvægi. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.5.2007 kl. 17:30

12 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Það er vissulega vilji fyrir því innan VG að afnema verðtrygginguna.

Kíktu Steingrím svara því í kastljósinu í kvöld

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.5.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband