Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006
26.11.2006 | 11:31
Ég í Silfri Egils
Í dag, sunnudaginn 26.nóvember vorum við 4 saman ungar konur í framboði VG saman í Silfri Egils.
Kíkið endilega á þáttinn hér:
Í gær var frambjóðendafundur hjá VG og á sama tíma var ráðstefnan "frá konum til karla" og síðan mótmæli við Héraðsdóm á Lækjartorgi. Ég vildi að ég gæti klónað mig stundum og verið á mörgum stöðum í einu... en ég var þar þó í huganum og sendi mína straum með í mótmælin, eða réttara sagt meðmælin kannski, því fólk var með þessu að hvetja til þess að refsiramminn yrði betur nýttur í dómum kynferðisbrota.
Sjá úr dagskrá rúv hér : http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4284389/6
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 15:45
Síðustu forvöð - skráið ykkur í dag
Hér má sjá lista yfir frambjóðendurna í forvalinu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 15:04
Ótrúlega falleg mínútumynd
Mig langaði til að deila með ykkur ótrúlega fallegri mynd sem var ein af 40 mínútumyndunum í Kastljósinu á miðvikudag. Gott að hafa hljóðið hátt stillt fyrir meiri áhrif. Myndin er eftir Helenu Stefánsdóttur og heitir Gjöf. Kíkið á myndina hér: "Gjöf"
Ótrúlegt hvað listamennirnir geta sagt heilmikið á svona stuttum tíma.
Önnur sem vakti líka athygli mína var myndin hans Hilmars Oddssonar sem mér finnst mjög lýsandi fyrir íslenskt samfélag og er kannski ástæðan fyrir því að fólk er ekki að segja neitt við gróflegri framkomu stjórnvalda. Myndina má sjá hér: "Venjulegur dagur"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 09:26
Hefur "Góð efnahagsstjórn" fengið nýja merkingu?
Ég hef dálítið verið að velta fyrir mér hvort núverandi ríkisstjórn hafi tekist að breyta merkingu orðsðins "gott/góður/góð". Getur verið að nú sé "góð efnahagsstjórn" farin að merkja eitthvað allt annað en það hefur hingað til gert?
Mér finnst skammarlegt og niðurlægjandi fyrir almenning í landinu að þurfa að horfa upp á hvernig núverandi stjórnvöld hafa farið að ráði sínu. ExDé státar sig í sífellu af góðri efnahagsstjórn, en það á ég mjög erfitt með að skilja. Hvernig er annað hægt en að fara vel út úr bókhaldinu þegar maður selur almenningseigur fyrir trilljónir á markað? Er fólk búið að gleyma því að bankarnir og grunnþjónustukerfi Símans var allt selt - og það gegn vilja fólksins í landinu! Það hefði hver sem er farið vel út úr bókhaldinu og getað státað sig af "góðri efnahagsstjórn" með því að gera slíkt.
Stjórnin státar sig líka af auknum kaupmætti fólksins í landinu. Jú vissulega hefur kaupmáttur aukist og það er fínt mál. En skuldmáttur hefur að sama skapi aukist gríðarlega. Íslendingar eru orðin gríðarlega skuldug þjóð og eru að sligast undan lánum og yfirdráttum, háum vöxtum og verðtryggingu. Dabbi í Seðlabankanum gerir lítið annað en að hækka stýrivexti og verðbólgan ætlar fram úr öllu valdi að keyra. Það virðist ekki vera hægt að tryggja fólkinu sanngjarna vexti með lögum um hámarksvexti. Er það í því sem kaupmátturinn og góða efnahagsstjórnin felst? Ég vil lög um hámarksvexti.
Það sem meira er, ExDé státar sig líka af tekjuafgangi ríkissjóðs og brosir breitt í fjölmiðlum framan í fólkið í landinu sem finnur fyrir hertri sultarólinni í sömu andrá. Hvaða manneskju með alvöru umhyggju fyrir fólkinu í landinu myndi detta í hug að státa sig af tekjuafgangi upp á um 15 milljarða og góðri efnahagsstjórn þegar málefnum eldri borgara er háttað eins og raun ber vitni og fólk deyr á meðan það bíður á biðlistum til að fá þjónustu í heilbrigðiskerfinu? Ef skilgreiningar á góðri efnahagsstjórn falla undir slíka stjórnarhætti þá held ég að þar þurfi endurskilgreiningar við.
22.11.2006 | 17:59
Kærleikur í félagshyggju
Undanfarið hef ég velt því mikið fyrir mér hvort fólk á hægri kantinum fatti ekki umhyggjunna sem fylgir félagshyggju og því að byggja upp gott velferðarkerfi til að tryggja að allir hafi jafnan rétt og jöfn tækifæri og að enginn búi við fátækt. Ég hef nefnilega orðið aðeins vör við það að hinn nafnlausi leiðari Mbl ásamt mörgum sjálfstæðismönnum tala niðrandi um félagshyggju eins og hún sé af illu sprottin og segja hana gamaldags. Hvað er gamaldags við félagshyggju? Er heimurinn núna í alvörunni orðinn svo firrtur og mikið breyttur að raunveruleg gildi eins og náungakærleikur, umhyggja og velferð fyrir alla séu orðin úreld? Hvernig má það eiginlega vera? Eru þetta ekki æðstu gildi lífsins á jörðinni? Ef allt fólk og öll fyrirtæki bæru umhyggju fyrir fólki í kringum sig þá gætum við lifað í mun betri heimi þar sem nútímaþrælahald og ofbeldi þekktist ekki.
Nútíma félagshyggja á akkúrat ekkert skylt við kommúnisma austantjaldsins. Fasismi er til bæði vinstra og hægra megin í pólitík og félagshyggja og vilji til að byggja upp gott velferðarkerfi, sem kemur sér vel fyrir allt samfélagið í heild, á akkúrat ekkert skilið við vinstri-fasisma.
Nútíma félagshyggja byggir á því að vilja tryggja umhyggju, velferð, jöfn tækifæri og jafnan rétt fólksins innan samfélagsins. Er eitthvað gamaldags eða neikvætt við það? Nei aldeilis ekki. Fremstu lönd heims byggja sitt samfélag á nútíma félagshyggju, það eru Norðurlöndin. Öll Norðurlöndin hafa byggt upp mjög góð samfélög þar sem fólk er yfir höfuð ánægt með að borga skattana sína því það hefur vissu fyrir því að það fær fyrir það góða þjónustu kerfisins á öllum sviðum. Það var byggt upp af áratuga starfi félagshyggjufólks í stjórnum þeirra landa. Á Norðurlöndunum eru bestu mennta- og heilbrigðiskerfin sem tryggja jafnan aðgang allra án gjaldtöku. Eitt af fáum málum sem misfórust á þessum löndum voru innflytjendamálin, þar sem löndin voru einfaldlega ekki nógu vel undirbúin undir að þangað streymdi fólk alls staðar að í stórum hópum. Þar gerðu þeir mistök og hafa nú goldið fyrir það í Svíþjóð og Danmörku þar sem hægri-flokkar komust að í stjórn vegna þessara mála. Að öðru leyti hafa félagshyggjuflokkar Norðurlandanna staðið sig ofboðslega vel í uppbyggingu samfélaga sem eru með þeim fremstu í heimi hvað varðar velferð fólksins.
Það að tryggja öllu borgurum landsins jöfn tækifæri til menntunar og koma í veg fyrir mismunum í grunnþjónustu samfélagsins er einfaldlega ávísun á réttlátara samfélag fyrir okkur öll. Íslendingar þurfa að fara að passa sig á því að horfa ekki of mikið til Bandaríkjanna hinna "frjálsu" þar sem fólki er mismunað alveg ofboðslega, bæði hvað varðar menntun og heilbrigði. Þar eru það hinir ríku sem hafa forskot og frekari tækifæri innan þjónustu á þessum sviðum en hinir fátæku hafa ekki færi á að koma sér út úr fátæktinni, því þeir hafa ekki efni á að mennta sig.
Að sjálfsögðu er það betra fyrir okkur öll að samfélagið byggi á traustum grunni sem við öll getum leitað til þegar við þurfum á því að halda. Gott menntakerfi sem veitir öllum jafnan aðgang, án tillits til fjárhagslegrar stöðu, tryggir okkur grunn sem getur ekki annað en vaxið og dafnað. Það að fólk fái síðan tækifæri til athafna á vinnumarkaði, stofni fyrirtæki osfr. á ekki að þýða að það geti misnotað sér annað fólk til að búa til peninga fyrir sig. Þess vegna verður að tryggja réttindi hins vinnandi fólks og hafa lög um lágmarkslaun. Lágmarkslaunin mega heldur ekki vera svo lág að þau nái ekki utan um lágmarksframfærslu fólks. Á Íslandi í dag ætti ekki ein einasta manneskja að þurfa að búa við fátækt. Það þarf að breyta lögum og hækka lágmarkslaunin þannig að tryggt sé að enginn þurfi að lifa nálægt fátæktarmörkum.
Ræktum umhyggju og náungakærleika, tryggjum jöfn tækifæri og jafnan rétt fólksins í almennilegu velferðarkerfi - tryggjum nútíma félagshyggju meirihluta á Alþingi í kosningum í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.11.2006 | 11:55
Kosningahorn á kaffihúsi
Andrea Ólafsdóttir og Kristín Tómasdóttir munu vera með kosningahorn á:
Kaffi Hljómalind, miðvikudag 22. nóv. kl. 13-14
Kaffi París, fimmtudag 23. nóv kl. 12-14
Kíkið á okkur og kjósið grænar konur til áhrifa!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 09:30
Stefnumálin mín
Fyrir þá sem lítinn tíma hafa, set ég fyrst fram fyrirsagnastílinn á mínum áherslumálum og tel upp nokkur atriði sem síðan má lesa betur um hér að neðan.
Vilja til samfélagsstarfa hef ég sýnt í verki á sviði umhverfisverndar, jafnréttismála og mannréttinda auk sjálfboðastarfs hjá Rauða krossinum, þar sem ég sit nú í verkefnastjórn Hjálparsímans. Ég hef unnið ýmis störf, síðast við bókhald og með þroskaheftum, en er nú að ljúka námi í uppeldis- og menntunarfræði. Minn æðsti draumur er að útrýma fátækt í heiminum og búa í friðsömum heimi. Þótt slíkt sé erfitt að sjá fyrir sér á miðað við ástand heimsins í dag, þá finnst mér alls ekki óraunhæft að sjá fyrir mér slíkan heim hér á litla Íslandi. Þess vegna vil ég bjóða fram krafta mína til að vera með við að móta réttlátt og gott velferðarsamfélag. Þeir sem vilja lesa meira um mig vinsamlegast klikkið á "Höfundur" til vinstri hér á síðunni.
Góðkynja hagvöxtur í réttlátu, heilbrigðu lýðræðissamfélagi getur einungis orðið til í samfélagi með hátt menntunarstig, þar sem virðing fyrir mannréttindum og umhverfi er í hávegum höfð. Ég sé Ísland fyrir mér í fararbroddi á sviðum umhverfisvænnar atvinnusköpunar, jafnréttis, menntunar og lista; þar sem hugmyndir fólksins verða að veruleika. Ísland framtíðarinnar er réttlátt fjölmenningarsamfélag með traustan velferðargrunn.
Heilbrigði jarðar og náttúru Umhverfisvæna atvinnusköpun, skilvirk endurvinnsluúrræði
Hugurinn er auðlind Framsýna atvinnu- og nýsköpun, tækifæri til framkvæmda
Jafnrétti og jöfnuð Eftirfylgni á jafnréttislögum, fjölskylduvænan vinnumarkað, hækkun lágmarkslauna, 10% fjármagnstekjuskatt á ellilífeyri
Innflytjendamál Öflug íslenskukennsla í grunnskólum, vinnuveitendur í samstarfi við ríkið veiti íslenskukennslu á vinnutíma, samhæft mat á menntun innflytjenda
Gott menntakerfi Grunnskóli án skólagjalda, fjölbreyttar aðferðir og hugmyndafræði, Val fyrir alla; einkaskólar inn í almenna kerfið, Háskóla Íslands tryggð fjárframlög
Heildrænt heilbrigðiskerfi Fjölbreytt þjónustuúrræði með heildrænum lausnum til heilsueflingar
Betrunarfangelsi Góð meðferðarúrræði og menntun sem hluti afplánunar auka líkur á breyttu líferni
Vextir og verðtrygging Lög um hámarksvexti lána og afnám verðtryggingar
Raunverulegt lýðræði Lagasetningar um þjóðaratkvæði og afsagnir brotlegra embættismanna
Stefnumálin í lengra máli
Heilbrigði jarðar og náttúru
Náttúra Íslands hefur sérstöðu á heimsmælikvarða og víðáttur landsins eru ómetanlegar. Umhverfisvernd mun verða hluti af heildrænni stefnu framtíðarinnar á allri jörðinni. Heilbrigð og skynsamleg umhverfisvernd getur einnig nýst til öflugrar atvinnusköpunar hér á landi með slagorðinu: "Ísland er hreint og fagurt land." Ísland getur því verið eins konar Heilsulind og ímynd hreinleika, framsýni og fegurðar. Hér eru tækifæri til að laða að jarðvísindamenn alls staðar að, því jarðfræði Ísland er einstök og til dæmis er Eldfjallagarður á Reykjanesskaga dæmi um slíkt. Mögulegt væri að leggja sérstaka áherslu á að laða hingað til lands háskólanema og vísindamenn á sviði jarðvísinda, jafnvel stofna hér alþjóðlegt jarðvísindasetur. Einnig tel ég skynsamlegt að stuðla að atvinnurekstri sem beinist að umhverfisvænum framtíðarlausnum á öllum sviðum.
Ný stefna sem tekur á allan hátt mið af að draga úr útblæstri gróðurhúsa- lofttegunda er algerlega nauðsynleg. Íslendingar þurfa að hverfa algerlega frá stóriðjustefnunni og endurheimta framsýni og þor sitt og verða frumkvöðlar á þessu sviði. Ég sé landið fyrir mér sem fyrsta land í heiminum sem notar eingöngu umhverfisvænt eldsneyti. Ég myndi gjarnan vilja stefna að nánast fríum almenningssamgöngum í stærstu bæjum landsins sem keyra á vetni eða öðru umhverfisvænu eldsneyti. Öflug og skilvirk endurvinnsla heimila, stofnana og fyrirtækja er einnig bráðnauðsynleg bæði fyrir Ísland og heiminn í heild.
Hugurinn er auðlind - Framsýni í atvinnuháttum
Ég sé fyrir mér Ísland sem land frumkvöðlastarfsemi og rannsókna á heimsmælikvarða. Rannsóknir á sviði jarðvísinda og heilbrigðismála eru mér afar hugleikin. Ég tel að Ísland geti orðið leiðandi í hefðbundnum náttúrulækningum, líf- og heilsuvísindum sem getur nýst á öllum heiminum. Á Vesturlöndum eru áunnir sjúkdómar að gera vart við sig í auknum mæli. Mjög marga sjúkdóma má rekja beint til breyttra neysluvenja, aukefna í matvælum og hegðurnarmynsturs fólks. Ég sé fyrir mér Ísland framtíðarinnar sem "Heilsulindina Ísland", sem getur orðið frumkvöðull í alls kyns meðferðarúrræðum og heilsueflingu. Að mínu mati ætti landsbyggðarstefna að snúast um að efla frumkvæði í litlum samfélögum úti á landi og styðja það með beinum hætti. Það væri mögulegt að fara sömu leið og Norðmenn í þeim málum með því að styrkja þá sem hafa hugmyndir og vilja stofna til reksturs og skapa atvinnu á landsbyggðinni. Fyrstu árin í rekstri lítilla fyrirtækja eru lang erfiðust og ég tel að það mætti styrkja þau með svipuðum hætti og stóru risafyrirtækin hafa verið styrkt hér á landi með afsláttum af alls kyns gjöldum. Það gæti átt við fyrstu 3 árin í rekstri lítilla fyrirtækja en ég tel ekki réttlætanlegt að gera slíkt fyrir alþjóðafyrirtæki sem velta meiru en íslenska ríkið.
Landbúnað og mjólkurframleiðslu tel ég þurfa að endurskoða algerlega með tilliti til rannsókna sem sýna fram á heilsuspillandi áhrif eiturefna sem þar eru notuð - þannig að framleiðsluferli og næring dýra verði endurskoðuð með tilliti til heilnæmi mannkyns. Lífrænn landbúnaður bæði á grænmeti og kjöti er sú framtíð sem Ísland á að horfa til þannig að stuðlað verði að frekara heilbrigði þjóðar. Aukin eftirspurn hefur skapast á Vesturlöndum eftir lífrænni framleiðslu og Ísland ætti að nýta sér þá ímynd sem það hefur með því að markaðssetja hreinleikann í lífrænni framleiðslu fyrir Evrópumarkað.
Jafnrétti og Jöfnuður
Jafnréttislögum þarf að breyta og tryggja eftirfylgni með þeim með því að gefa Jafnréttisráði eða stofu umboð til rannsókna og meiri völd til að fylgja lögum eftir. Ég sé fyrir mér að Ísland taki kipp í jafnréttismálum á komandi kjörtímabili með VG í stjórn. Ég tel að fylgja þurfi lögum eftir á þann hátt að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í stjórnsýslu landsins, í atvinnulífinu og á Alþingi. Ég myndi leggja til að flokkar misstu kjörgengi sitt ef þeir gætu ekki skipað lista sína nokkuð jafnt með báðum kynjum og farið eftir sjónarmiðum jafnréttis. Ég tel að jafnréttiskennsla og fræðsla eigi að vera skylda fyrir kennaranema og í grunnskólum og að endurskoða þurfi allar skólabækur með kynjagleraugum. Einnig vil ég móta ábyrga stefnu í meðferðarúrræðum fyrir ofbeldismenn til að draga úr líkunum á því að þeir valdi skemmdum á öðru fólk með ofbeldi.
Það er nauðsynlegt að tryggja að fátækt þekkist ekki á Íslandi. Ég hef dreymt um heim án fátæktar frá því ég var lítil stúlka, en á það er erfiðara að eiga við heiminn allan heldur en litla Ísland. Það er nefnilega vel raunhæft að útrýma algerlega fátækt á svo litlu og ríku landi eins og Ísland er. Lágmarkslaun þarf að hækka og tryggja að skattheimtan sé ekki hæst á þá lægst launuðu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bilið milli hæst og lægst launuðu einstaklinganna verði minnkað. Réttlátara samfélag er hamingjusamara og betra samfélag.
Að mínu mati er óásættanlegt að svo sé komið fyrir eldri borgurum eins og raun ber vitni. Þetta fólk er grunnurinn að okkar samfélagi og á skilið virðingu fyrir framlag sitt og störf. Ég er hlynnt því að ellilífeyrir sé ekki skattlagður nema þá einungis með 10% fjármagnstekjuskatti. Einnig tel ég að með hækkandi lífaldri eigi að auðvelda fólki að halda rétti sínum til að vera lengur á vinnumarkaði eftir sjötugt sé það heilsuhraust og kjósi að gera svo.
Lágmarkslaun hækkuð og fjölskylduvænn vinnumarkaður
Nauðsynlegt er að tryggja það að lágmarkslaun vinnandi fólks verði hækkuð. Framfærslukostnaður hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum og ég tel nauðsynlegt að tryggja að ekki sé hægt að ráða til sín fólk í vinnu nema geta borgað þeim mann- og kvensæmandi laun. Þetta kemur bæði inn á að koma í veg fyrir fátækt og stéttarskiptingu í samfélaginu sem myndast hefur og ég tel að þetta komi einnig inn á innflytjendamálin. Fyrirtæki eiga einfaldlega ekki að geta ráðið til sín fólk í vinnu á launum sem ekki geta talist boðleg til að lifa af í okkar samfélagi á sómasamlegan hátt. Einnig tel ég að tryggja þurfi fjölskyldum aukna möguleika á fjölbreytni með vinnutíma. Fleira fólk en fjölskyldufólk myndi mögulega vilja nýta sér það, en að mínu mati er nauðsynlegt að atvinnurekendur geti boðið fólki upp á það að minnka við sig vinnuhlutfall ef það kýs það í kjölfar barneigna og eftir fæðingarorlof án þess að eiga á hættu að vera sagt upp starfi.
Leikreglur fyrir vinnumarkaðinn
Fyrirtæki sem fá leyfi til atvinnureksturs eru skyldug til að fylgja landslögum og þurfa að fara eftir vissum leikreglum á markaði. Hinn "frjálsi" markaður þarf ákveðinn ramma þegar kemur að launamálum, jafnrétti, verkalýðs - og umhverfismálum og því þarf að setja þeim skýrar leikreglur sem fylgt er eftir á mjög markvissan hátt. Að mínu mati þarf virkilega að endurskoða lög um fyrirtæki á markaði og tryggja að eftir ýmsum reglum sé farið til að þau haldi rétti sínum til að vera á markaði. Þar þarf virkilega að koma inn með eftirfylgni á jafnréttislögum og hafa alvarleg viðurlög við lögbrotum.
Innflytjendamál þurfa að fara í gegnum ákveðna stefnumörkun og þeim þarf að móta skýrar línur þannig að Ísland þurfi ekki að gera sömu mistök og Norðurlöndin og geti verið stolt í því fjölmenningarsamfélagi sem mun myndast á komandi árum og áratugum. Ég tel rétt að hafa öfluga íslenskukennslu í skólum fyrir börn innflytjenda og einnig tel ég að fyrirtæki landsins sem ráða til sín innflytjendur verði undir eftirliti þannig að öruggt sé að þeir séu ekki á lægri launum og aðrir því það er engan veginn réttlætanlegt, (sama málið og konur og karlar finnst mér). Ég tel eðlilegt að fyrirtækin eigi í samstarfi við ríkið að sjá starfsfólki sínu fyrir íslenskukennslu á vinnutíma á meðan þau eru að aðlagast samfélaginu, sem er kannski eitt ár. Ég tel það eðlilegan og nauðsynlegan þátt í því að innflytjendur fái að aðlagast hér í samfélaginu og finnst réttast að fyrirtækin beri þann kostnað. Að auki myndi ég vilja sjá einhvers konar mat á menntun innflytjenda til að tryggja það að þeir geti starfað á því sviði sem þeir hafa menntun til og samræma þannig okkar kerfi og þeirra. Menntun innflytjenda er auðlind í íslensku samfélagi og okkur ber að meta hana sem skyldi.
Gott og fjölbreytt menntasamfélag
Háskóli Íslands er í dag annar fátækasti háskóli í Evrópu. Að sjálfsögðu getur hann orðið mun öflugri í alþjóðasamanburði en hann er núna, en til þess þarf hann fjármagn og breyttar áherslur í skólanum sem miða við mælistikur sem notaðar eru við að meta háskóla inn á topp 100 listann. Ég vil leggja áherslu á góðan háskóla og góða menntun á öllum sviðum hér á landi því það er einfaldlega ein af grunnundirstöðum samfélagsins.
Mér finnst nauðsynlegt að sjá fjölbreytni í hugmyndafræði og kennsluaðferðum innan grunnskólakerfisins án þess að það sé bundið við "einkaskóla" efnafólksins. Það er einfaldlega spurning um áherslur innan menntakerfisins og að mínu mati á að hleypa þar inn fjölbreyttri hugmyndafræði og einkaframtaki án þess að það þurfi að vera fjárhagslega einkarekið, því ég tel að allir eigi að hafa val um fjölbreyttar aðferðir og skóla. Að mínu mati er nemendalýðræði, leikur, tjáning og skemmtun mjög mikilvægt börnum og ég tel það eiga að vega þungt í menntun þeirra, sérstaklega að teknu tilliti til breyttra tíma og lengdrar viðveru í skólum landsins. Jafnrétti í grunnskólum þarf að tryggja með breyttum áherslum, fræðsluskyldu kennara og endurskoðun alls námsefnis með tilliti til birtingu kynjanna.
Heildrænt og öflugt heilbrigðiskerfi
Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um heilbrigðiskerfið sem ég myndi vilja vinna að með heilbrigðisstéttinni og sjúklingum sjálfum. Ég tel fyrirbyggjandi leiðir í heilsu vera mjög mikilvægar þannig að ekki sé alltaf verið að eiga við einkennin þegar þau eru langt á veg komin og með lyfjum sem oft og tíðum bara slá á einkennin en mörg hver hafa ekkert lækningagildi. Ég tel að heilbrigðismenntun þurfi að endurskoða með tilliti til heildrænnar sýnar á líkamann og sem taka mið af lífefnafræði líkamans. Einnig tel ég að mismunandi aðferðir eigi að rúmast innan heilbrigðiskerfisins og það er lítið mál að sýna fram á það að þær virki jafnvel betur en hin unga nútíma og oft einsleita læknisfræði sem hefur fengið að vera ráðandi á síðustu öldum. Til þess þarf öfluga þekkingu á lífefnafræði líkamans og næringu, en ekki einungis á nútíma læknisfræði og lyfjafræði. Hluta af öflugu heilbrigðiskerfi tel ég vera öfluga neytendavernd þannig að neytendur fái mikilvægar upplýsingar um þau matvæli sem þeir láta ofan í sig.
Betrunarfangelsi
Ég tel að dóms- og refsiderfið á Íslandi þurfi mikla endurhönnun og að við þurfum að líta til þess að stuðla að betrun afbrotamanna. Þó svo ekki sé hægt að gera ráð fyrir 100% árangri með slík úrræði þá er mun líklegra að afbrotamenn nái að breyta hátterni sínu og nái einhverjum bata og framförum í fangelsi þar sem þeir fá meðferðir og menntun á meðan þeir sitja af sér dóma. Sérstaklega mætti gera ráð fyrir breyttu líferni eftir fangelsi hjá þeim sem yngri eru. Meðferðum, menntun og samfélagsþjónustu má nota sem hluta afplánunar og beita hjá öllum tegundum fanga til að auka líkur á breyttu líferni. Erlendar rannsóknir hafa meðal annars sýnt bata og breytta hegðun hjá kynferðis- afbrotamönnum.
Vextir og verðtrygging
Íslendingar eru þjakaðir af byrði verðtryggingu lána. Þar vegur einna þyngst byrði af húsnæðislánum. Í raun er verðtrygging til þess að tryggja bönkum bæði axlabönd og belti eins og stundum hefur verið nefnt í þessari umræðu. Á þeim tíma er verðtrygging var sett á hér á landi, var raunin sú að laun fólksins voru líka verðtryggð. Launaverðtryggingin var síðar afnumin og hefði þá lánaverðtrygging líka átt að fjúka, en henni var haldið eftir. Slík tryggingakerfi fyrir banka þekkist varla nema í þróunarlöndum og ég tel kominn tíma til að afnema verðtryggingu lána til að Íslendingar eru ein skuldugasta þjóð Evrópu, en úr því er mögulegt að bæta með því að afnema verðtryggingu lánanna. Við eigum ekki að þurfa að vera þrælar bankanna þegar kemur að húsnæðiskaupum. Íslendingar greiða margfalt verð fyrir fasteignir sínar á við önnur Evrópulönd þar sem boðið er upp á lán á lægri vöxtum án verðtryggingar. Í Kastljósi RÚV í fyrra var tekið einfalt reiknidæmi þar sem borið var saman erlent lán upp á 10 milljónir króna og íslenskt lán með verðtryggingu og þeim vöxtum sem hér eru í boði. Erlendis hefðu vextir af slíku láni á 40 árum verið um 4 milljónir króna en hérlendis hefðu vextir og verðtrygging náð hátt í 30 milljónir króna á 40 árum.
Raunverulegt lýðræði
Lýðræðið verður að virka í góðu samfélagi. Á Íslandi í dag er lýðræðið meingallað og hefur það margoft komið í ljós þegar núverandi ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Alþingismenn og embættismenn hafa brotið lög án þess að borgarar landsins hafi nokkra möguleika eða tæki til að víkja þeim úr starfi. Slíkt á ekki að viðgangast í lýðræðissamfélagi. Það þarf því að tryggja betri leikreglur lýðræðis á Íslandi. Slíkt er mögulegt að gera með lögum og ákvæði í stjórnarskrá sem veitir borgurum landsins rétt til að krefja embættismenn afsagna, en einnig til að fara fram á þjóðar- atkvæðagreiðslur í stórum málum eins og þekkist meðal annars í Sviss.
Ísland sem friðsöm þjóð - Herinn?
Ég undraðist mjög yfir fréttamennskunni og yfir panikk-ástandinu innan ríkisstjórnarinnar þegar bandaríski herinn tilkynnti brottför sína. Það var rétt eins og að Íslandi steðjaði heljarmikil ógn og manni virtist á tali ráðherranna sem einhverjar óprúttnar og ófriðsamar þjóðir biðu í ofvæni eftir að geta ráðist á landið! Að mínu mati steðjar nákvæmlega engin ógn að friðsömu Íslandi ... nema mögulega vegna mistaka herramannanna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem tóku sér það bessaleyfi að gera Ísland að viljugri þjóð í stríðinu gegn Írak, án þess að ráðfæra sig við utanríkisnefnd. Ísland á alltaf að vera herlaust land sem lýsir sig hlutlaust eða á móti öllum stríðum. Svo einfalt er það. Ísland sem friðarríki sem á sér ekki stríðssögu og ljós í myrkri heimsins.
Til að geta kosið mig í forvalinu verðurðu að skrá þig í flokkinn
Skráðu þig í flokkinn hér:
http://vg.is/default.asp?page_id=6177
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.4.2012 kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2006 | 10:18
Stefnumót við frambjóðendur
Forvalið fer fram 2. desember næstkomandi kl. 10 - 22 . Kosið verður í Suðurgötu 3 í Reykjavík, Strandgötu 11 í Hafnarfirði og Hlégarði í Mosfellsbæ. Allir félagar VG í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi hafa kosningarétt samkvæmt félagatali 25. nóvember 2006 en þá verður kjörskrá lokað. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Suðurgötu 3 í Reykjavík, dagana 28. og 30. nóvember kl. 16 21.
Nýttu þér lýðræðislegan rétt þinn
Taktu þátt í forvalinu
Skráðu þig í flokkinn hér:
http://vg.is/default.asp?page_id=6177
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2006 | 14:56
Jafnrétti NÚNA!
Á síðustu vikum hefur dregið þó nokkuð til tíðinda í íslensku samfélagi. Feministavikan stóð nýverið yfir og þann 24. október var haldið upp á afmæli kvennafrídagsins sem var all eftirminnilegur í fyrra þegar 50-60.000 konur og nokkrir karlar líka söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur til að minnast dagsins og krefjast launajafnréttis.
Afmæli Kvennafrídagsins, 24. október 2005
Að mínu mati gaf þessi vika því tækifæri til að skoða aðeins samfélagið okkar og jafnréttismálin enn og aftur og bæta það sem bæta þarf. Við þurfum að gera Ísland aftur að því framsýna landi sem það einu sinni var þegar konur kröfðust þess að fá kosningarétt og komust í fyrsta sinn inn á Alþingi. Síðar var Kvennalistinn stofnaður af framsýnum og kröfuhörðum konum og Ísland komst á blað heimssögunnar með því að kjósa fyrst allra þjóða konu sem forseta. Síðasta öld er því minnistæð í jafnréttisbaráttunni og megum við vera stolt af þeim árangri sem náðist. Þó er enn langt í land því konur eru enn ekki nema um þriðjungur á Alþingi og hafa enn mun lægri laun en karlar, ásamt því að vera beittar ofbeldi og misrétti í hvívetna.
Á síðastliðnum 12 árum hefur kynbundinn launamunur ekki minnkað nema um 0,3%. Atvinnutekjur kvenna eru einungis á bilinu 65% (án leiðréttinga) af atvinnutekjum karla - 84,3% (með öllum leiðréttingum sem maður er ekki sannfærður um að eigi rétt á sér). Það tæki 628 ár að leiðrétta muninn ef það ætti að ganga eftir á þessum sama hraða.
Frábæru fréttirnar eru hins vegar þær að nú gefst atvinnurekendum og alþingismönnum enn einu sinni tækifæri til að leiðrétta stöðuna með því að skoða þessi mál hið snarasta, bretta upp ermarnar og leiðrétta laun kvenna alls staðar í öllum stéttum. Einnig þarf að tryggja að hlutföll kynjanna verði jöfn á Alþingi og í sveitastjórnum með lagasetningum og eftirfylgni. Framtíðin er aldeilis björt ef stjórnvöld drífa sig í að leiðrétta stöðuna á öllum þessum sviðum.
Sjálf vonast ég til að fá tækifæri til að taka þátt í að móta nýja framtíðarsýn og stefnu fyrir land mitt og þjóð og var einmitt sjálf að taka þá ákvörðun að bjóða mig fram í eitt af efstu sætum á lista í prófkjöri VG í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.
The Future's So Bright, I Gotta Wear Shades
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.11.2006 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2006 | 00:27
Heilsulindin Ísland EÐA Állandið Ísland?
Á síðustu misserum hafa Íslendingar verið að færa í kvíarnar og skapa sér alþjóðlegt orðspor. Núna frekar en nokkurn tíma áður er því vert að landinn spyrji sig hvernig Ísland við viljum vera gagnvart umheiminum og hvað við viljum að sé okkar aðalsmerki. Staðreyndin er sú að um 95% ferðamanna koma hingað til að sjá og upplifa náttúruna og Ísland hefur á sér orð fyrir að vera hreint, fagurt, stórbrotið og einstakt land. Nú hafa nokkrir listamenn farið utan og gert garðinn frægan, sem einnig hefur skapað okkur það orðspor að héðan komi mikið hæfileikafólk á listasviðinu. Aðrir hafa fjárfest all verulega í erlendum fyrirtækjum og verslunarkeðjum og hefur það skapað bæði gott og líka misjafnt orðspor. Það sem ríkisstjórnin hefur hins vegar lagt áherslu á síðari ár, er að auglýsa landið okkar erlendis sem orkuauðlind. Auglýst er að hér búi fólk með hátt menntunarstig sem sé sjaldan frá vinnu og er ódýrara vinnuafl en gengur og gerist í nágrannalöndunum (sjá bæklinginn Cheap energy prices). Ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á að kynna þessa mynd af Íslandi fyrir álfyrirtækjum út í hinum stóra heimi.
Að mínu mati væri hægt að standa að landkynningu á mun uppbyggilegri hátt en ríkisstjórnin hefur gert, sem þarf ekki að ganga út á að fórna náttúrunni okkar sem við höfum fengið að láni hjá afkomendum okkar. Ef haldið verður áfram á álbrautinni verður landið einfaldlega ekki eins hreint og það áður var og verðum við að gera okkur grein fyrir fórnarkostnaði sem í því felst.
Markaðsetning - landkynning
Ég tel að hægt sé að markaðsetja Ísland sem hreina og fagra Heilsulind. Það er vel hægt að afla þjóðinni tekna og starfa á annan hátt en með áli. Þannig myndu miklu meiri tekjur haldast innan íslenska hagkerfisins ef sérfræðingar á sviði líf- og heilsuvísinda myndu taka sig saman og hér yrði stuðlað að Heilsulindum víða um landið. Heilsulindin Ísland gengur í mínum huga út á það að hingað streymi fólk í stríðum straumum til að efla heilsu sína eða koma í einhvers konar endurhæfingu. Það gæti átt við fólk sem er að berjast við krabbamein, offitu, ýmsa sjúkdóma eða fíknir, nú eða bara jafna sig eftir veikindi í snertingu við náttúruna, hreint loft og heilnæmt lífrænt ræktað fæði. Í snertingu við náttúruna með útsýni upp í stjörnubjartan himinn með norðurljósum á veturna. Einnig væri hægt að bjóða upp á sundlaugaræfingar og afslöppun í heitum pottum, sem þekkjast varla erlendis, nudd, jóga og heilsutengd námskeið ýmis konar, til dæmis reiðnámskeið, skíðanámskeið, hollustu-matreiðslunámskeið, næringarfræði, berjatínslu og fjallgöngur á sumrin. Náttúrulegt og heilnæmt.
TÖFRAFOSS - Náttúrulegur kraftur - Ljósm. Birgitta Jónsdóttir
Stór markaður
Á síðustu árum og áratugum hafa vísindamenn verið að komast að því að breytingar á fæðu og mataræði í hinum vestræna heimi eru farnar að valda veikindum og heilsumissi. Mikið hefur breyst til hins verra í átt að óhollustu og ofunnum óheilnæmum matvælum fullum af litar- rotvarnar- og aukefnum alls konar sem gerir það að verkum að fólk verður í æ meiri mæli fyrir heilsumissi tengdum mataræði og venjum. Einnig ver fólk alltof miklum tíma innanhúss og oft í óheilnæmu og jafnvel eitruðu andrúmslofti sem líka veikir það. Að ekki sé minnst á þær fíknir sem fólk er að etja við um allan heim á sviði reykinga, áfengis- og vímuefnamisnotkunar og ofáts. Á meðan lyfjanotkun eykst mjög mikið ár frá ári og kostar ríkissjóð stórar peningaupphæðir eru ýmsir vísindamenn úti í heimi að komast að því að ofnotkun lyfja er ekki vænleg leið til varanlegs árangurs. Dr. Randolph er einn af þeim sem áratugum saman safnaði upplýsingum um sjúklinga sína og komst að þeirri niðurstöðu að yfirleitt var um að ræða áunna sjúkdóma tilkomna vegna mataræðis og lífsvenja. Dr. Mercola og Dr. Shoemaker eru bandarískir læknar sem hafa báðir talað um að inniloft í híbýlum og á vinnustöðum orsaki um helming heilsutengdra vandamála hjá fólki. Dr. Breggin er annar sem hefur rannsakað notkun þunglyndis- og ofvirknilyfja og hefur varað við ofnotkun þeirra í mörg ár. Bandaríska heilbrigðisstofnunin FDA hefur nú loksins gefið út aðvaranir um slík lyf. Náttúrulegar leiðir til lækninga geta í mjög mörgum tilfellum skilað varanlegum árangri fyrir fólk, t.d. breytt mataræði og hreyfing.
Mennta- og heilbrigðiskerfið tekur þátt í uppbyggingunni
Ég sé fyrir mér að hægt væri að leggja ríkari áherslu á heilsutengd fræði innan Háskóla Íslands og því væri hægt að mynda þverfaglegt teymi sérfræðinga sem tækju á heildrænni heilsu fólks. Þar væru líffræðingar, lífefnafræðingar, næringarfræðingar, náttúrulækningar ýmis konar, sálfræðingar og hefðbundnir læknar að vinna saman að heilsutengdum meðferðarúrræðum. Heilsulindirnar yrðu síðan ávallt staðsettar þannig að þær gætu verið með tengingu við náttúruna og útiveru. Reyndar sé ég líka fyrir mér allt heilbrigðiskerfi okkar íslendinga á þennan hátt. Heildrænt heilbrigðiskerfi þar sem fólk hefur aðgang aðmun víðari sérþekkingu á sviði heilsu og lífvísinda samhliða hinni hefðbundnu leið. Ég tel að fólk eigi að hafa fleiri valkosti um ráðgjöf á sviði heilsuvísinda. Breiðari þekking býður upp á víðtækari lausnir til heilsueflingar.
Það hljómar meira að segja ofboðslega vel og miklu betur en Állandið Ísland eða Orkulindin Ísland að segja Heilsulindin Ísland. Með þessari leið þarf heldur ekki að fórna náttúrunni okkar, heldur getum við og afkomendur okkar notið hennar og virt um komandi framtíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- LOKSINS LOKSINS!
- Taktu afstöðu um afnám verðtryggingar - mættu á Austurvöll
- Jólin nálgast - heimilin blæða - fólkið mótmælir
- Heimilin eru ekki afgangsstærð
- Ljósberar um alla jörð takk
- Hversu langt á ruglið að ganga!?
- Breytum kerfinu saman- afnemum verðtryggingu!
- Já ég afþakka lengingu í hengingarsnörunni - takk fyrir
- Bréf til fréttastofu RÚV vegna rangrar þýðingar í viðtali við...
- Hagsmunasamtök heimilanna er málsvari hins þögla meirihluta
Eldri færslur
Mitt HTML
Tenglar
ÁHUGAVERT
Bloggvinir
- malacai
- almaogfreyja
- almal
- aring
- ansiva
- gammon
- bergruniris
- bergthora
- birgitta
- bleikaeldingin
- bibb
- rustikus
- dofri
- eirikurbergmann
- elinarnar
- ellasprella
- eydis
- eyvi
- feministi
- garun
- gilsneggerz
- gunnlaugurstefan
- vglilja
- gudjonbergmann
- kerchner
- mosi
- ulfljotsvatn
- gummisteingrims
- halla-ksi
- halldorbaldursson
- kiddih
- belle
- hlekkur
- hlynurh
- hvitiriddarinn
- shire
- ingabesta
- ingibjorgelsa
- ingibjorgstefans
- ingadodd
- ingolfurasgeirjohannesson
- enoch
- jonbjarnason
- prakkarinn
- ktomm
- hugsadu
- killerjoe
- kollak
- kiddirokk
- kristinast
- landvernd
- leifurl
- lindagisla
- lara
- lifmagn
- mafia
- margretsverris
- gattin
- nanna
- paul
- raggipalli
- ragnhildur
- salvor
- siggadrofn
- sigmarg
- sms
- danmerkufarar
- siggisig
- snorrisig
- fletcher
- baddinn
- steinibriem
- kosningar
- svavaralfred
- saedis
- saethorhelgi
- soley
- thelmaasdisar
- toshiki
- daystar
- tidarandinn
- ugla
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- vest1
- hafmeyja
- konur
- kiddip
- perlaheim
- super
- veffari
- agustakj
- aevark
- bestiheimi
- id
- poppoli
- olafurfa
- omarragnarsson
- omarminn
- hnefill
- vitinn
- thuridurbjorg
- thorasig
- baldis
- thjodarsalin
- formosus
- bergursig
- salkaforlag
- brandarar
- bylgjahaf
- gustichef
- fsfi
- fridrikof
- saltogpipar
- hleskogar
- lucas
- bofs
- drum
- hreinsamviska
- kliddi
- imbalu
- jea
- lifsyn
- mariakr
- manisvans
- raudurvettvangur
- tibet
- tbs