Leita í fréttum mbl.is

Austurblokkin mótmælir neikvæðum afleiðingum kapítalismans

Það gæti verið erfitt fyrir margan kapítalistann, sem fagnar því svo eindregið að fyrrum austantjaldslönd hafi Frá mótmælum í Ljubljanaverið „frelsuð“, að skilja að þar sé neikvæðum afleiðingum kapítalismans mótmælt bæði harðlega og í stórum stíl. Hér í Slóveníu voru stærstu mótmæli í sögu lýðveldisins þann 17. nóvember síðastliðinn, þegar um 70.000 manns komu saman á götum úti og kröfðust hærri launa og eftirlauna og frekari réttinda. Eins er aukin áhersla á einkavæðingu talin grafa undan félagslegum réttindum almennings og var henni einnig mótmælt, og tryggingar krafist fyrir félagslegu, ríkisreknu kerfi.  Almenningur og vinnandi fólk hefur miklar áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur í þá átt, að réttindi fólks fari minnkandi, félagsleg mismunun og atvinnuleysi vaxandi og verðlag og verðbólga hækkandi, langt fram úr launaþróun. Á hvatningarbloggsíðu í aðdraganda mótmælanna segir:

 

Áróður ríkisstjórnarinnar, kapítalista og talsmanna þeirra vilja að við séum sannfærð um að við lifum draumalífi. En af því við erum ekki heimsk, þá vitum við að staða okkar fer ekki batnandi og að framtíðarhorfur eru óvissar. Svo að mjög svo lofaður hagvöxturinn þýðir ekki eingöngu árangur slóvenska efnahagkerfisins, heldur þýðir það líka mun meira arðrán og frekari félagslega mismunun.

Almenningi í landinu er nóg boðið og telur sig vera bæði niðurlægðan og arðrændan á vinnumarkaði. Hann telur að stefna landsins þarfnist endurskoðunar svo hún komi sér betur fyrir heildina.

Einnig má það fylgja með hér, að í nágrannalandinu Ungverjalandi flykktust um 50.000 manns á götur út í síðasta mánuði og kröfðust hærri launa í takt við verðlagsþróun og verðbólgu og mótmæltu hinum svokölluðu „efnahagslegu umbótum“ stjórnarinnar.

Fljótlega eftir að hægriflokkurinn hlaut kosningu árið 2004 hóf hann efnahagslegar umbætur sínar, og þá flykktust tugir þúsunda mótmælenda á götur út til að mótmæla þeim. Þetta var árið 2005, þegar Mótmælin í Ljubljanaverkalýðsfélögin þóttust sjá byrjunina á þeirri þróun sem er einmitt verið að mótmæla um þessar mundir. Þá var mikilli einkavæðingu mótmælt, svo og skattaafslætti á fjármagnseigendur, matarsköttum á almenning, auknum félagslegum mismun, minni réttindum vinnandi fólks, skólagjöldum í háskólum og fleiru. Þá taldi lögreglan að um 25.000 manns hafi mótmælt, en veður var slæmt og mikill fjöldi þeirra rúta sem flytja áttu mótmælendur á staðinn komust ekki inn í borgina vegna snjóþyngsla.

Það sýnir mikla samstöðu fólksins, því í höfuðborginni Ljubljana, þar sem mótmælin áttu sér stað, búa einungis um 300.000 manns. Forsætisráðherrann, Janez Jansa, stendur fast á því að ekki verði um neinar víðtækar launahækkanir að ræða. Meðalmánaðarlaun fyrir skatta eru 1.259 evrur, sem eru um 115.000 krónur íslenskar, og segja mótmælendur það mun lægra en meðaltal launa ríkja Evrópusambandsins (Reuters, 17. nóvember 2007). Slóvenar hafa átt í miklum vandræðum með þenslu og verðbólgu, bæði á tíma sósíalismans og kapítalismans. Árið 1989 var verðbólgan yfir 1000% og stuttu eftir sjálfstæði var hún í ennþá 100%, en það tókst að ná henni niður í 10% árið 1996. Í ár er hún samt ennþá yfir 5%, sem er tvöfalt hærra en meðaltal annarra evruríkja. Evran var tekin upp í janúar í ár, og vilja slóvensk yfirvöld skýra háa verðbólgu að miklu leyti með því. Eins er talið að heimsmarkaðsverð á olíu og hátt matvælaverð hafi mikið að segja. Hátt matvælaverð er bein afleiðing fákeppni á markaði, sem auðveldlega er hægt að fullyrða að sé vandamál víðar í hinum kapítalíska heimi. Hagvöxtur Slóveníu er hæstur í evruríkjunum (Euro zone), og er búist við að hann verði 5,8% í ár samanborið við 2,6% að meðaltali í hinum ríkjunum (Guardian Unlt., 25. nóv 2007).

Mótmælin voru svo að segja í sömu andrá og forsetakosningar í landinu, eða helgina eftir. Danilo Turk var kjörinn nýr forseti landsins. Hann kemur frá stjórnarandstöðunni og er vinstra megin í stjórnmálum eins og tveir fyrirrennarar hans. Hann hlaut 68% atkvæða í seinni umferð kosninganna. Það má leiða líkum að því Slóvenar aðhyllist í raun mun frekar sósíal-demókratískt kerfi sem tryggir samrekið félagslegt kerfi, aukin réttindi og betri stöðu fólks almennt. Ekki er vel tekið undir þær „efnahagslegu umbætur“ og einkavæðingu sem hægri flokkurinn hefur boðað og framkvæmt á þessu kjörtímabili. Mögulega er von á að vindar blási frekar til vinstri í næstu þingkosningum, árið 2008.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita aðeins meira um Slóveníu læt ég fylgja með aðeins um sjálfstæðisbaráttuna og stuttlega um pólitískt landslag lýðveldisins.

Sjálfstæðisbaráttan
Árið 1991 fékk Slóvenía sjálfstæði frá fyrrum Júgóslavíu í hinu svokallaða 10 daga stríði, eða sjálfstæðisstríði Slóveníu. Í aprílmánuði árið áður höfðu farið fram lýðræðislegar kosningar í Slóveníu og bar DEMOS-bandalagið sigur úr bítum með 54% atkvæða. Flokkurinn var bandalag 5 sósíal-demókratískra flokka. Í desembermánuði sama ár fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Slóveníu, sem var samþykkt með 88% atkvæða. Hin nýja Frá Tíu daga stríðinuríkisstjórn Slóveníu leitaði til alþjóðasamfélagsins um að það yrði samið friðsamlega um skiptingu Júgóslavíu, en fékk þau skilaboð frá vestrænum ríkjum að það væri ekki æskilegt og að þau kysu frekar að eiga samskipti við eitt sameinað sambandsríki heldur en mörg smá ríki. Slóvenar sáu sig knúna til þess að berjast samt sem áður fyrir sjálfstæði sínu, sem hvorki Evrópuþjóðir né Bandaríkin voru tilbúin til að viðurkenna þrátt fyrir lýðræðisleg vinnubrögð. Þann 25. júní 1991 var lýst yfir sjálfstæði þjóðarinnar og í kjölfarið var landamæravörðum stillt upp í varnarstöðu í þeim tilgangi eingöngu að verja landamærin án þess að eiga frumkvæði að árás. Þann 27. júní flugu flugvélar júgóslavneska hersins yfir landið og dreifðu miðum sem á stóð „við bjóðum ykkur frið og samvinnu“ og „öll mótspyrna verður barin niður.“  Slóvenar höfðu einnig fregnir af því að sambandsríkið hyggðist flytja hermenn inn í Slóveníu með þyrlum og brugðust þeir við því með því að vara við að þær yrðu skotnar niður. Viðvaranir þeirra voru hundsaðar og varð svo úr að þeir áttu fyrsta skotið á herþyrlurnar. Í kjölfarið braust stríðið út, sem þeir höfðu reynt að forðast. Það náði vissu hámarki þann 2. júlí, og að kvöldi dags tilkynnti slóvenska forsetaembættið um einhliða vopnahlé, sem var hafnað. Sambandsríkið hélt í fyrri hótanir um að mótspyrna Slóvena yrði barin niður. Daginn eftir var þó loks gefið eftir, sambandsríkið samþykkti vopnahlé og hersveitir þess voru dregnar til baka. Þann 7. júlí lauk stríðinu formlega með yfirlýsingu um viðurkenningu á sjálfstæði Slóveníu. Í kjölfarið fylgdi fall Júgóslavneska sambandsríkisins. Vegna þess hversu fljótt stríðinu lauk af, var mannfall lítið; einungis 44 Júgóslavar og 18 Slóvenar létust (Wikipedia: Ten-day war).

Pólitískt landslag
Slóvenía hélt sjálfstæði sínu og tókst að sýna fram á stöðugleika og hagsæld, og gekk í Evrópusambandið þann 1. maí 2004 og í NATO sama ár. Frá upphafi lýðveldisins og fram til ársins 2004 fór uppbygging fram undir handleiðslu frjálslyndra sósíal-demókratískra flokka vinstra megin við miðju. Árið 2004 komst til valda flokkur hægra megin við miðju undir forystu Janez Jansa, og hefur þróunin síðan verið æ meira í átt til einkavæðingar.

Fyrsti forseti landsins var frjálslyndur sósíalisti, Milan Kucan, upphaflega kosinn árið 1990 og leiddi hann landið í gegnum sjálfstæðisbaráttuna árið 1991. Hann var endurkjörinn árið 1992 aftur árið 1997. Í kosningum árið 2002 var nýr forseti kjörinn til valda, Janez Drnovsek, sem hafði verið forsætisráðherra landsins 1992-2002 fyrir frjálslynda sósíal-demókrata. Allir forsetar landsins hafa því verið frjálslyndir sósíal-demókratar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ný barnabók fyrir jólin: „Andrea í la la landi“. Andrea fer til Slóveníu og talar bara við síðustu kommúnistana og ákveður að sleppa því alveg að horfa í kringum sig.

Viggo (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 17:28

2 identicon

Vitlausasti málstaður getur notið stuðnings 9-14% þjóðar eins og dæmin sanna.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 17:57

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þessa fróðlegu lesningu

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.12.2007 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband