Leita í fréttum mbl.is

Prófkjör framundan

Lítið annað en fréttir af prófkjörum hafa hljómað í eyrum manns síðustu vikur. Mikið hefur farið fyrir prófkjöri bæði XD og XS og miklu verið tilkostað. Enginn flokkur auglýsir jafn mikið í prófkjörum og XD og vekur það óneitanlega áleitnar spurningar um hvað það sé í raun sem stýrir því hverjir sitja á Alþingi Íslendinga. Þótt ekki sé um eins áleitnar upphæðir og vestanhafs þar sem enginn nema ríka fólkið hefur möguleika á kosningabaráttum, þá er hér um að ræða verulegar fjárhæðir sem gerir það að verkum að niðurstaðan er í raun að fjármagnið stýrir því hverjir hafa möguleika á sæti á Alþingi. 

Slíkt fellur mér alls ekki að geði því þetta stríðir gegn allri jafnræðishugsun og ákvæðum um jafnan rétt og jöfn tækifæri í stjórnarskrá að mínu mati.

Ég hef þó ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri VG á höfuðborgarsvæðinu og mun nota þennan vettvang og fjölmiðla til birtinga á greinum og hugleiðingum mínum til að þið, lesendur góðir, hafið tækifæri til að kynna ykkur stefnumál mín og skoðanir. Hjá okkur í VG mun prófkjör ekki snúast um fjárútlát og sóun á peningum. Við munum þess í stað einbeita okkur að því að skrifa greinar í blöðin og víðs vegar um netið til að kynna okkur fyrir kjósendum. Að okkar mati eru auglýsingar ekki rétta leiðin til að kynna sjálfan sig því þar kemur lítið annað fram en kosningaslagorð og mynd af manneskjunni. 

Ég mun ekki eltast við að safna sæg af fólki til að láta rúlla á síðunni minni sem stuðningsmenn mína því mér finnst það í raun bara bull. Enginn getur sagt þér eða öðrum eitt né neitt til um það hvort einhver mun standa sig í starfi í framtíðinni sem ekki er orðin, hvort sem það er á þingi eða annars staðar. Það er eitthvað sem þú gerir upp við þig, að treysta þeim sem skoðanir þínar eru í samhljómi við og þér lýst vel á.  

Í raun fyndist mér eðlilegt að hver og einn kjósandi ætti að hafa rétt á að velja fólk af öllum listum sem fulltrúa sína á Alþingi. Þá færu engin prófkjör fram innan flokkanna, heldur hefðu allir óflokksbundnir þá líka sinn rétt til að velja sína fulltrúa á þing. Í raun væri hægt að kjósa um ráðherra líka. En slíkar hugmyndir eiga kannski heima í framtíðinni sem raunveruleiki.  

 

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að bjóða mig fram í prófkjöri er sú að ég tel mig eiga fullt erindi inn á Alþingi þar sem endurnýjunar er þörf eftir langa stjórnartíð flokka sem hafa í raun starfað gegn lýðræðinu og eru komin inn á hála braut sem getur ekki talist framsýni á okkar tímum í nútímasamfélagi. Ég hef áhyggjur af því að hér hefur verið gengið alltof nærri náttúrunni og umhverfi sem okkar kynslóð hefur að mínu mati ekki rétt til að gera. Ég tel stóriðjustefnuna vera mistök stjórnvalda og vera alveg laus við alla framsýni í atvinnuháttum. Ég tel að það þurfi að stöðva áður en það verður um seinan. Nógu langt hefur nú þegar verið gengið. FJölgun álvera er ekki leið til framtíðarinnar ef við ætlum okkur að eiga hreint og fagurt Ísland. 

Ég tel einnig að brýn þörf sé á því að stuðla að jöfnuði í samfélaginu og tel að fólk sem hefur réttláta sýn á jafnrétti kynjanna og allra borgara samfélagsins eigi að fá að móta velferðarsamfélag sem leggur áherslu á það. Til þess að svo verði þarf að vera fyrir hendi áhugi og stefna í þeim málum. Eftir stjórnartíð XD og XB hefur ójöfnuður aukist til muna, stéttarskipting er orðin að veruleika og skattar voru lækkaðir á hátekjufólk en hækkaðir á alla hina. Í þeirra stjórnartíð hefur ekkert gerst í launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Áhugi þeirra og áherslur liggja einfaldlega ekki á þessu sviði. 

 Á Íslandi þarf að leggja áherslu á gott velferðarkerfi og góða menntun með jöfnu aðgengi fyrir alla. Hér þarf að útrýma fátækt og hækka lágmarkslaun auk þess sem heilbrigðiskerfið þarf algjörlega að stokka upp og móta upp á nýtt með heildræna sýn sem byggir á rannsóknum síðustu áratuga á sviði heilbrigðisvísinda. Eldra fólkið okkar á Íslandi á ekki skilið þá meðferð sem það hefur fengið frá núverandi stjórnvöldum. Þeim þarf að tryggja betri meðferð í velferðarkerfinu okkar. Að mínu mati þarf einnig að stokka upp menntakerfið og auka fjölbreytni í grunnskólakerfinu. 

Ég hef því ákveðið að leggja fram krafta mína og áræðni og vonast til að fá stuðning kjósenda til að vera með í uppbyggingu heildræna samfélagsins á Íslandi framtíðarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband