Leita í fréttum mbl.is

Eldri greinar

Er Ísland ódýr hóra?

Kæru samfélagar

Mig langar að taka undir hugleiðingar Ottó Tynes Morgunblaðinu 11. mars sl. þar sem hann líkti orkusölu ríkisstjórnarinnar við hórdóm. Hóran selur sig oftast vegna neyðar en salan á Íslandi til stóriðju getur tæplega flokkast undir neyð. Hóran græðir peninga, en gæti þó ekki stolt sagt börnum sínum frá ævistarfinu. Ég veit að það sjokkerar fólk að líkja þessari orkusölu við hórdóm, en ég myndi samt vilja taka þetta aðeins lengra og spyrja; Ef Ísland er hóra, er landið þá ódýr hóra? Jafnvel hræódýr?? Ef svo er, í hverju liggur þá neyðin?

Tortíming lands og þjóðarsálar á orkufylleríinu

Núverandi ríkisstjórn hefur gert mikið til þess að sannfæra þjóðina um að stóriðjustefna þeirra sé eina og besta lausnin til atvinnuuppbyggingar og hagvaxtar. Að náttúran upp á hálendinu sé hvort sem er ekkert nema möl og sandur og ekki þess virði að vernda. Undir þetta taka því miður nokkuð margir landsmenn eftir allan áróðurinn og gleyma að spyrja sig að því hvaða aðra valkosti ríkisstjórnin hefur lagt stuðning sinn við, til dæmis í formi afsláttarkjara eins og stóriðjan fær.

Það mætti því segja að ríkisstjórninni hafi tekist að skapa einhvers konar nauðung fyrir hóruna sem verður að sætta sig við að þetta sé eina leiðin í lífi hennar. En ekki nóg með það, heldur er sagt að líkami hennar, eða landið, sé hvort sem er ekkert svo dýrmætt nema seldur sé aðgangur að orkuauðlindunum sem veldur tortímingu fagurrar náttúru landsins. Tortímingu sálar og líkama. Ríkisstjórnin spyr sál hórunnar, eða þjóðarsálina, hvort hún vilji virkilega ekki hagvöxt. Mín þjóðarsál svarar því fullum hálsi og spyr á móti hvort líkami hennar og sál sé virkilega ekki meira virði en þetta og hvort tortímingin sé virkilega eina lausn málsins? Hagvöxtur getur vel komið án þess að selja sig á nákvæmlega þennan máta með óafturkræfri eyðileggingu náttúrunnar. Mín þjóðarsál bendir líka á að hjá henni ríki alls engin neyð. Mín þjóðarsál vill góðkynja hagvöxt!

Markaðssetning hórunnar

Iðnaðarráðherra virðist aðhyllast illkynja hagvöxt og vill fórna ómetanlega dýrmætum náttúruperlum okkar til stóriðju. Ekki veit ég hvort ráðherra gerir sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna, en svo virðist sem hún geri sér ekki grein fyrir að við Kárahnjúka eru nú að fara fram mestu umhverfisspjöll af mannavöldum í allri sögu landsins. Ráðherra er nýlega komin heim af viðskiptaráðstefnu í New York þar sem hún kynnti ódýru hóruna fyrir álframleiðendum í Bandaríkjunum. Salan er enn í fullum gangi þó svo þjóðarsálin sé að ranka við sér og vilji nú stoppa frekari eyðileggingu landsins í brj-ál-æðinu. Markaðssetningin gengur út á að selja álrisum orkuna okkar á mjög lágu verði og fórna náttúruperlum og jökulám. Öðruvísi verður ekki skrapað saman þeim 30 terawattstundum sem virðast vera til sölu. Kaupandanum hefur verið gefið í skyn að full afnot á öllum mögulegum stöðum sé í boði ef þeir bara þiggja boðið á þessum ótrúlega spottprís sem hóran fær þó ekki uppgefinn sjálf. Hún fær sjálf bara lítinn hluta gróðans af öllu húllumhæjinu. Hún á bara að vera ánægð með að verða fyrir valinu og njóta þess að níðst sé á líkama hennar og fá fyrir það nokkrar krónur í vasann á meðan kaupandi þjónustunnar nýtur gróðans af þessum frábæra kraftmikla líkama með framleiðslu sinni.

Í bæklingi iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (1995) má lesa hvernig markaðssetning ríkisstjórnarinnar byrjaði á Íslandi sem hræódýrri hóru. Í Lowest energy prices má sjá mynd af láréttu stöplariti sem sýnir fjárfestum hversu ódýrt vinnuaflið er á Íslandi miðað við aðrar þjóðir Evrópu. Einnig kemur þar fram að þjóðin sé vel nærð og sé sjaldan frá vinnu. Þar segir: „Launakostnaður á Íslandi er lágur í samanburði við önnur lönd N-Evrópu og N-Ameríku. Fjarvera er með því lægsta sem gerist meðal iðnvæddra þjóða“. Vel nærðir og duglegir þrælar! - Svona er markaðssetning ríkisstjórnarinnar á íslensku fólki!

 

ódýra hóran

 

Semsagt, Ísland er orðin mjög ódýr hóra. Álrisum frá Bandaríkjunum er boðið hingað í þágu kosningabaráttunnar. Landsbyggðin telur að verið sé að bjarga samfélaginu okkar. Frá hverju er verið að bjarga okkur? Í hverju felst neyðin? Hversu mikið er atvinnuleysið?

Stöðvum stóriðjustefnuna!

Kæru samfélagar. Vinsamlegast metið landið okkar verðmætara en ódýra hóru fyrir risana sem keppast um að borga sem minnst fyrir afnotin. Aldrei hafa fengist skýr svör við því hversu ódýr orkan verður. Ég spurði kynningarfulltrúa Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra nýlega um það á hvaða verði þessi orka ætti að seljast til álrisanna og sögðust þau ekki ætla að upplýsa mig um það þó svo ég benti á að þetta væri nú einu sinni fyrirtæki í eigu þjóðarinnar!

Vinsamlegast finnið ást ykkar og náttúrukærleikann til landsins sem við erfðum. Látið þennan kærleika ná til handa ykkar sem setja krossinn í næstu kosningum, því þann kross þurfum við að bera til langs tíma ef hann fer á rangan stað.

Kærar þakkir fyrir lesninguna,

Andrea Ólafs., Íslandsvinur

                                     Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 29. apríl 2006

******************************************************************************************** 

 

Ísland - ódýra hóran

Í blaðinu í gær velti ég því fyrir mér hvort Ísland væri ódýr hóra. Þar líkti ég landinu við líkama sem er falur til afnota fyrir erlenda álrisa á lágu verði sem ekki er uppgefið. Stuðlað er að illkynja hagvexti sem veldur tortímingu lands. Mér er spurn hvort slíkur gífurlegur og óafturkræfur fórnarkostnaður sem felst í þeirri tortímingu sé virkilega ómaksins virði? Getur verið að stóriðjustefnan sé krabbamein Íslands í hröðum, illkynja vexti?

Kaupandi hórunnar

Álrisinn umtalaði sem ágirnist ódýrar auðlindir hórunnar er hergagnaframleiðandi. Þessu neita þeir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni og segjast bara framleiða parta í þau og einhver annar sjái um að skrúfa þá saman. Þeir gleyma alveg í yfirlýsingu sinni að minnast á að þeir eiga fyrirtækin Cordant Technologies og Howmet Castings sem framleiða hergögn. Ef allir þeir sem framleiða parta í hergögn og líka sá sem skrúfar þá saman firra sig ábyrgð verður niðurstaðan kannski sú að enginn framleiðir hergögn í raun! Hergögn eru kannski bara einhvers konar ótrúleg afleiðing púsluspils sem margir aðilar púsla, en enginn ber ábyrgð á?! 

Álrisinn er þekktur fyrir umhverfisspjöll og hefur hlotið dóma fyrir slíkt. Hann neitar að bæta aðbúnað í verksmiðjum þar sem þess er krafist vegna laga og reglugerða og afneitar ábyrgð þegar kemur til heilsumissis hjá starfsfólki hans.

Lesa má um spillingu álrisans á www.nosmeltertnt.com þar sem íbúar Trinidad velta fyrir sér lygum álrisans og afleiðingum álframleiðslu á náttúruna og heilsu fólks. Robert Kennedy gagnrýnir eyðileggingu og glæpi gegn náttúrunni í þágu kapítalimans á www.wnyc.org/books/34225 og á www.ethicalconsumer.org/magazine/corpwatch/alcoa.htm má lesa um vanvirðingu álrisans fyrir náttúrunni og réttindum verkalýðsins.

Fari það nú alveg í kolað! – myndi gamli bóndinn kannski ef hann veltir fyrir sér hlutunum í stærra samhengi.

Siðferðileg skylda?

Álrisinn Alcoa kemur frá landi þar sem  750-800.000 tonn af áldósum á ári hverju eru ekki endurunnar. Þeim væri hægt að raða í 153 hringi í kringum jörðina. Í skýrslu frá 2002 um þessa óábyrgu hegðun Bandaríkjamanna kemur fram að á einungis einum áratugi (1990-2000) var 7,1 milljóni tonna af áldósum hent. Þessi sóun síðasta áratugar hefði nægt til að framleiða 360.000 nýjar Boeing737 þotur! Vá, þvílík sóun!

Liggur hræsnin hjá þeim sem vilja vernda náttúruperlur Íslands frá tortímingu – eða eru einhverjir aðrir kannski miklu framar í hræsninni? Ber Bandaríkjamönnum kannski að líta aðeins í eiginn barm með þessa hluti áður en þeir fara um heiminn að leggja undir sig ótrúlega fagra og hreina náttúru í þeim tilgangi að „anna eftirspurn“ eftir áli í nýjar dósir?! Því í ósköpunum spyr heimurinn sig ekki að því hvort ekki beri að endurvinna allt álið sem þeir sóa og hvort við hin þurfum á öllum þessum hergögnum og álframleiðslu að halda í raun og veru? Hergagnaframleiðslan, sóunin og tortíming náttúrunnar ber reyndar með sér gífurlegan hagvöxt en sá hagvöxtur hefur í för með sér gífurlegan fórnarkostnað. Fórnarkostnaðinn felst meðal annars í ógrynni af saklausum lífum sem deyja í stríðum sem ekki eiga neinn rétt á sér. Einnig ber að líta til aukningu á gróðurhúsalofttegundum við framleiðslu áls sem hægt væri að draga úr svo um munar og nota einungis 5-10% af orkunni sem færi í endurvinnslu þess samanborið við frumvinnslu. Síðast en ekki síst felst fórnarkostnaðurinn í ómetanlega dýrmætri náttúru. Allt eru þetta gríðarleg verðmæti sem verið er að sóa og tortíma í þágu álframleiðslu og hagvaxtar. Niðurstaða; Hórdómur + stríð + sóun + tortíming lífs og náttúru = Illkynja hagvöxtur + krabbamein heimsins.

Heiminum ber að draga Bandaríkin til ábyrgðar í þessum efnum. Á Íslandi er nú þegar framleitt margfalt það ál sem við nokkurn tíma getum komist yfir að nota og álframleiðsla per íbúa fer langt fram úr öðrum þjóðum heims. Við höfum enga siðferðilega skyldu til að gefa dýrmætar náttúruperlur okkar til ábyrgðaleysis Bandaríkjanna til framleiðslu hergagna og áldósa sem þeir hafa ekki fyrir að endurvinna! Við höfum hins vegar bæði lagalega og siðferðilega skyldu gagnvart restinni af heiminum og hinni umtöluðu Kyoto bókun. Ísland ætti að mínu mati að sjá sóma sinn í að virða þennan kvóta án nokkurrar undanþágu. Svei attan – skamm, skamm! – myndi bóndinn núna segja og undir það tek ég.

Stöðvum útbreiðslu krabbameinsins!

Kæru samfélagar. Mig langar til að biðja ykkur öll um að taka höndum saman til að stöðva útbreiðslu illkynja krabbameinsins. Vinsamlegast hugsið um landið ykkar sem dýrmætan fjársjóð sem ber að varðveita um alla tíð. Börnin okkar erfa landið og við ættum að leyfa þeim að njóta þess og alast upp við virðingu og kærleika til þessa fallega lands. Sýnum Íslandinu okkar þessa virðingu og kærleika í verki setjum kross við náttúruverndarsjónarmið í næstu kosningum. Sá kross skiptir miklu máli, því hann þurfum við að bera til langs tíma ef hann fer á rangan stað.

Þakka lesturinn kæru samfélagar,

Andrea Ólafs, Íslandsvinur

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 30. apríl 2006 

 

************************ 

 

Ákall um vitundarvakningu! 
 

Það er stórmerkilegt að þessi þjóð skuli vera svona treg til að tjá vilja sinn í verki og láta til sín taka.

Eru allir alltof uppteknir við að horfa á sjónvarpið?

Eitt sem við getum gert er að taka höndum saman kæru landar og mótmæla - en það þýðir lítið að gera það fyrir framan sjónvarpið heima eða í kaffistofunni á vinnustaðnum. Við getum saman sýnt ríkisstjórninni að við samþykkjum ekki þessa stóriðjustefnu þierra og að við krefjumst þess að litlum samfélögum verði boðnir kostir sem eru mun betri fyrir þau þegar litið er á dæmið í heild og til framtíðar. Við getum gert það á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með því að segja þeim að við viljum fleiri valmöguleika að til að kjósa um.

  •  Við teljum ekki boðlegt að okkur sé stillt upp við vegg og boðið upp á stóriðju og ekkert annað!
  • Við viljum að ríkisstjórn Íslands ýti undir nýsköpun í atvinnulífi og styðji það með fjárframlögum!
  • Við viljum að íslendingar geti stofnað til atvinnureksturs á sömu kjörum og verið er að bjóða Alcoa (í það minnsta á fyrstu árum reksturs); afsláttarkjör á fasteigna- lóða- og stimpilgjöldum, að ekki sé nú talað um skattafslátt á fyrstu árunum. 
  • Við viljum að stóriðjustefnan fari í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu kosningar!

Þar að auki er að mínu mati kominn tími til að kjósa aðra flokka en sjálfstæðis og framsóknarflokkinn sem eru að haga sér eins og landið sé þeirra eigin prívateign og það komi okkur landsmönnum ekkert við hvað þeir geri við það.

Landið okkar er dýrmætt. Það er fjársjóður af óendanlegri náttúrufegurð.

Landið okkar hefur ótrúlega stórbrotið landslag og hingað eru alltaf að streyma fleiri og fleiri ferðamenn. Gerum meira úr því!

Landið okkar er ennþá mjög hreint land en verður það ekki mikið lengur með þessari stóriðjustefnu. Við erum líka með alveg nóg af álframleiðslu nú þegar.

Þar að auki má geta þess að Alcoa-risinn hefur hlotið dóma fyrir umhverfisspjöll, hefur neitað að bæta tækjabúnað í álverum til að minnka mengun, þar sem þess hefur verið krafist, og er auk þess hergagnaframleiðandi. Þetta er ríkisstjórnin alveg áfjáð í að fá hingað til lands. Þeim virðist nokk sama þó svo fyrirtæki sem hér eru fyrir, séu núna að flytja úr landi eða séu að fara á hausinn vegna þessarar stefnu!

 

  

"Þjóðararðurinn af einu tonni af bræddu áli er 28 þúsund krónur (þá er ekki dreginn frá mikill umhverfiskostnaður), arðurinn af einum erlendum ferðamanni er að meðaltali 90 þúsund krónur og þjóðin fær í sinn hlut rúmlega 300 þúsund krónur af einu tonni af þorski; ellefu sinnum meira en fyrir eitt tonn af áli. Segja þessar tölur ekki eitthvað?"
 

Ósk Vilhjálmsdóttir í  Mbl. 8. mars 2006

 
 
Skrifað í mars 2006 

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Jæja, nú er bloggið hafið! 

Aldrei hef ég prófað að blogga áður, en ætli þetta sé ekki nauðsynlegt skref í prófkjörsundirbúningi og stjórnmálaumræðunni.

Best að prófa þetta

Hér munið þið semsagt getað séð greinar eftir mig og hugleiðingar.

Andrea J. Ólafsdóttir, 15.11.2006 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og núlli?
Nota HTML-ham

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband