Leita í fréttum mbl.is

Metnaðarfull stefnumál VG geta varla talist bannhyggja

Kíkið endilega á Silfur Egils frá því sunnudag þar sem ég var ásamt öðrum að ræða stjórnmálin. Eitt af því sem ég hugsaði vel og vandlega um og þótti miður aðlaðandi við stjórnmál þegar ég var að ákveða hvort ég ætlaði í framboð var karpið og leiðindin sem oft verða í umræðunni. Það þykir mér afar miður að þurfi að vera ráðandi í pólitískri umræðu og málefnin tínast í. Í Silfrinu í dag var reynt að ráðast að mér með ómálefnalega og innantóma gagnrýni. Ég taldi það ekki svara vert.

Ég velti því nú samt fyrir mér þegar fólk spyr á þennan hátt hvort það þekki yfir höfuð stefnumál okkar. Hvar er bannhyggjan í því að leggja áherslu á jafnréttismál og vilja gott velferðarkerfi og öflugar rannsóknir í heilbrigðisvísindum sem geta orðið til heilsueflingar? Hver er afturhaldssemin í því að ætla að leggja áherslu á einstaklingsbundið nám, afnema samræmd próf og stórefla menntakerfið? Það þætti nú framsýnt í flestra augum, nema þá kannski þeirra sem hafa þau full af þyrnum. Og ég spyr aftur, hver er afturhaldssemin eða bannhyggjan í því að ætla að styðja við nýsköpun í atvinnulífinu og afnema fjármagnstekjuskatt af 90% þjóðarinnar? Hver er bannhyggjan í því að ætla að draga úr þenslu og verðbólgu í landinu? Það þætti nú víðast hvar ábyrgðarfull efnahagsstjórn - nema þá kannski þar sem merkingu þess hefur verið snúið við. 

Það var fróðlegt að sjá Egil í pistlinum sínum taka það fram að hér hefur árum saman ríkt ákaflega óábyrg efnahagsstjórn og er held ég kominn tími til að tala um einmitt þetta. Það hlýtur að teljast óábyrg og slæm efnahagsstjórn þegar verðbólgan hleypur upp úr öllu valdi og viðskiptahallinn er svo mikill sem raun ber vitni.  Síðasta vinstri stjórn þurfti líka, eins og sú næsta kemur til með að þurfa að gera, að hreinsa upp eftir sjálfstæðisflokkinn og hans óábyrgu stjórn. Þegar síðasta vinstri stjórn var hér tókst þeim að fá þjóðina í sameiginlegt átak til að ná niður ofurverðbólgu upp á 20-30% niður í 2%. Það talar enginn um þetta. Nei, það er víst vissara að halda hræðsluáróðrinum á lofti. Það er taktík stjórnarinnar núna - sem gefur til kynna að þeir eru orðnir skíthræddir. 

Óskaplega þykir mér nú leiðinlegt að þurfa að standa í skítkasti frá öðru fólki í garð flokks sem ekki hefur fengið tækifæri til að sanna sig í stjórn landsins.  Auðvitað hefur flokkurinn sýnt og sannað að málefnin eiga brýnt erindi til fólksins í landinu og hafa fulltrúar flokksins á Alþingi verið duglegir við að koma hinum ýmsu málum að. Það er vissulega gleðiefni að íslenska þjóðin er að vakna til vitundar um mikilvægi náttúrunnar og ég tel að fylgi okkar sé einnig að aukast vegna jafnréttis- og velferðarmála. Ég er sannfærð um að íslenska þjóðin aðhyllist velferðarsamfélag með öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, líkt og við þekkjum frá Norðurlöndunum, sem er einmitt það sem VG leggur áherslu á.

Vinstri grænt vor í vor Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú varst fín í silfrinu.. málefnaleg og sköruleg þó ég var ekki alltaf sammála þér. Haltu áfram á þinni góðu braut og vera þú sjálf. Leyfðu öðrum bara að stunda sitt skítkast.. þeir fá það til baka hvort sem er.

Hei og ho  

Björg F (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Orð í tíma töluð Andrea og ég held að almenningur sé orðinn langþreyttur á þessum þrætum og skítkasti. Eina fólkið sem hefur gaman af skítkasti á milli flokka og þingmanna eru fjölmiðlamenn og konur, og einstaka stjórnmálafræðingar:)

Höldum okkur einmitt við málefnin... þegar allt kemur til alls eru það málefnin sem skipta máli og úrvinnsla þeirra í þágu þjóðarinnar.

Birgitta Jónsdóttir, 26.3.2007 kl. 06:28

3 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Þú varst flott í Silfrinu, Andrea - ætla samt ekki að kjósa þig . Mér fannst Ágúst Ólafur líka fínn og ánægjulegt að heyra hvað hann talaði skýrt um vændi sem ofbeldi og um að það hefði átt að samþykkja sænsku leiðina sem gerir það refsivert að kaupa vændi. Kannski VG og Samfylkingin geti sameinast um þetta stefnumál og komið þessu á eftir kosningar

Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.3.2007 kl. 09:42

4 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Það sem að er með Egil er að hann hefur einhliða skoðanir og hentar Því ekki sem

Þáttar stjórnandi í pólitískum umræðum. Hvað við kemur frasanum óábyrgð hag-

stjórn, er að þið vinstri menn hafa ekki anað að segja og hafið aldrei skýrt hvað

þið eigið við með þessum frasa sem ekki er annað en frasi. Ykkur svíður sárt sú

staðreynd að með viðreisnarsjórninni fór allt að ganga og nú er Ísland talið vera

ein af ríkustu þjóðum, sem er algjör viðsnúningur frá þeim tíma er misgóðar vinstri stjórnir voru að vesenast í rekstri ríkisins.

sjórnuðu.

Leifur Þorsteinsson, 26.3.2007 kl. 10:54

5 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ég vil benda þér á jafnréttis og kvenfrelsisstefnu okkar VG Ingibjörg. Það sem þú segir um Ágúst er í anda okkar stefnu og ég vil segja þér af því að Kolbrún Halldórsdóttir okkar lagði fram breytingartillögu þegar frumvarpið var til umræðu og lagði til að við myndum einmitt fara sænsku leiðina hér á landi. Það kom semsagt frá VG. 

Hvað varðar óábyrga hagstjórn Leifur, þá hefur það margoft komið fram í málflutningi okkar skýrt og greinilega að ísland er með gífurlegan viðskiptahalla, efnahagskerfið er mjög þanið og verðbólgan hlaupin af stað aftur í stjórn hægri manna. Þetta gerðist líka síðast þegar þeir voru við völd fyrir 1988 og tókst vinstri stjórn að ná þessu aftur í jafnvægi. Við munum þurfa að gera það aftur á næsta kjörtímabili og verður þjóðin að hafa þolinmæði gagnvart þessari tiltekt. Það verður ekkert grín að jafna þetta aftur.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.3.2007 kl. 11:39

6 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Þetta með viðskiftahallan er það sem ég fékk að heyra frá ritara

Enska sendiráðsins árið 1969 í samkomu. Hann sættist fullkomlega

á að þetta væri eðlilegt þegar 250 000 manna þjóð væri

að reisa eitt stærsta raforkuver í Evrópu. Þetta er það sem er tilfellið í

dag nema nú er skuldastaða Ríkissjóðs pósitív sem ekki hefur verið fyrr,

ég held að það sé dálítið grobb að halda því frm að vinstri stjórnir

hafi lækkað verðbólgur enda manst þú varla hvernig þetta var hér áður

þ.e. fyrir 1970.

Leifur Þorsteinsson, 26.3.2007 kl. 12:05

7 Smámynd: E.Ólafsson

Furðulegt finnst mér þegar VG telur að hækkun á fjármagnstekjuskatti teljist ekki sem skattahækkun.  Hvað telst þá vera skattahækkun?  Þessi tilraun er dauðadæmd þegar felst lönd Evrópu eru að lækka fjármagnsskattinn til að halda fjármagni innan landsins.  Það verða þau að gera þrátt fyrir að hafa stöðugan gjaldmiðill líkt og Evruna.  En VG telur að fjármagnið verði enn til staðar í landinu þegar skatturinn er hækkaður upp í 18%.  Einmitt það.  Að fólk haldi þessu fram er óskiljanlegt

E.Ólafsson, 26.3.2007 kl. 12:37

8 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

VG á ekki við neinn ímyndunarvanda að etja, ef einhver á við slíkt að etja eru það aðrir flokkar. Þetta "á móti öllu" rugl kemur frá því fólki sem hlustar á ómálefnalegt þvaður. Okkar stefnumál eru mörkuð til lengri tíma en eins kjörtímabils og má þar nefna öflugar rannsóknir, öflugt menntakerfi, bætt heilbrigðiskerfi, meðferðarúrræði í fangelsismálin, mannsæmandi lágmarkslaun, fátækt útrýmt, góð úrræði í jafnréttismálum (sem ekki allir flokkar geta státað sig af). Fjármagnstekjuskattur er víðast hvar hærri en á Íslandi og þótt hann færi í 14% væri hann samt lægri en víða í Evrópu. Vissulega eru sumir auðmenn sem vilja síður greiða til samfélagsins, en því er bara ekki svo farið með alla. Margir gera sér nefnilega grein fyrir að þeir fá ýmislegt fyrir skattana og eru ábyrgir meðborgarar samfélagsins með því einmitt að greiða skatta. Við höfum líka lagt til að það sé 120.000 kr. frítekjumark í fjármagnstekjuskatti, sem þýðir að 70-90% landsmanna sleppur við fjármagnstekjuskattinn með öllu. Hinn venjulegi borgari og börn eru ekki rukkuð um skatt af sparnaði sínum. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.3.2007 kl. 13:09

9 identicon

Nú þekkja menn af reynslunni að skattheimta af fljótandi fjármagni minnkar með hærri skattprósentu (fjármagn flyst auðveldlega á milli landa).  Því spyr ég í ljósi þess að þið viljið hækka skatta á fjármagnseigendur.

Afhverju er þessi öfund hjá ykkur í VG gagnvart þeim sem eiga meiri pening?

Einstaklingur sem á mikið fjármagn er að greiða margfalt meira til þjóðfélagsins heldur en venjulegur launþegi.  Er það ekki nóg?  Á hann líka að fara úr landi?

Kalli (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 13:21

10 identicon

Hvenær ætla Vinstri Grænir að útskýra nánar hvað þetta "Eitthvað annað" í atvinnumálum er?

Ég er frá Húsavík, og þið viljið ekki álver, hvað ætlið þið að gera til að bæta atvinnuumhverfið þar? Á norðausturlandi er öllu að blæða út....

Skilgreina "Eitthvað annað" takk.

Gunnar Óli Sölvason (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 13:35

11 identicon

Ég hef heyrt 4 tillögur frá VG varðandi eitthvað annað:

  1. Sala á fjallagrösum (Kolbrún H.)
  2. Vatnsútflutningur (Steingrímur J.)
  3. Útsýni á Norðurljósin  (Steingrímur J.)
  4. Eldfjallagarður

Eflaust misst of fjölda annara gáfulegra tillagna.  En það merkilega er samt sem áður að það er enginn að banna einum eða neinum að útfæra þessar hugmyndir.  Framkvæmið þælr núna.  Eftir hverju er verið að bíða?

VG virðist halda að ef við virkjum árnar okkar þá getum við ekki gert neitt annað.  Getum ekki plokkað fjallagrös nema með ríkisstyrk.

Kalli (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 13:50

12 Smámynd: E.Ólafsson

Andrea þú segir ,,Fjármagnstekjuskattur er víðast hvar hærri en á Íslandi og þótt hann færi í 14% væri hann samt lægri en víða í Evrópu" Þetta er rangt og þetta er rétt hjá þér.  Hann er hærri í löndum líkt og Þýskalandi, Finnlandi, Danmerkur.  En öll þessi lönd hafa átt í erfiðleikum með hafa stórfyrirtæki í landinu.  Coke og Carlsberg, Ikea eru dæmi um fyrirtæki sem hafa hætt að skrá sig á Norðurlöndum því þeir eru ekki tilbúnir að borga svona mikinn fjármagnstekjuskatt. Þetta eru ekki lönd sem gengið hafa vel efnahagslega á undanförnum árum miðað við mörg önnur sem hafa opnað landið fyrir fjárfestingar. Írland er með tekjuskatt upp á 7% og eru að hugleiða að lækka hann enn meira því það hefur hjálpað þeim svo mikið efnahagslega.  En afhverju ætla þau að lækka hann enn meira.  Jú því lönd líkt og Eystrasaltslöndin, Slóvakía og fleir hafa fjármagnstekjuskattinn nálægt núlli fyrir það eitt að fyrirtæki flytja starfsemi sína til landsins.  Malta og Kýpur eru líka til þarna, og eiginlega öll nýju aðildarlönd Evrópusambandins.  Þannig hafa bílafyrirtæki í Þýskalandi flutt hluta af starfsemi sína til Slóvakíu.    Þú segir um leið,, Vissulega eru sumir auðmenn sem vilja síður greiða til samfélagsins, en því er bara ekki svo farið með alla. Margir gera sér nefnilega grein fyrir að þeir fá ýmislegt fyrir skattana og eru ábyrgir meðborgarar samfélagsins með því einmitt að greiða skatta"  Þetta er ekki eins auðvelt og þú setur upp.  Það vilja allir fá betur borgað fyrir sína vinnu en þegar spurningin snýst um miljónir eða miljarða að vera í landinu eða fara þá er ekki spurning hvort maður velur.  Hvort hef ég áhuga á því að fá borgað fyrir vinnu mína 200 þúsund eða eina miljón?  Auðvelt svar.  Ísland er ekki með sterkan gjaldmiðill við höfum ekki svo mörg atvinnutækfæri eða framleiðslu og önnur lönd. Þetta er leið sem við getum tekið og flest fámenn lönd gera þetta.  Við fáum miljarða fyrir það eitt að erlendir aðilar fjárfesta eða ávaxta peninga sína hér á landi.  Þeir eru ekki að nota neitt hér á landi, eða fá neitt til baka annað en að fjárfesta á landinu.  Bendi á þess grein til að mynda um neikvæða þætti á hækkun fjármagnstekjuskatts.  það á ekki að setja hækkun á stað heldur benda á þá ábyrgð sem felst í að fólk græðir peninga.  Með miklum fjármunum kemur mikil ábyrgð.  Og það á að stuðla að því að ríkt fólk á íslandi dreifi og hjálpi þeim sem minna mega sín í samfélaginu.  Þetta er gríðarlega sterkt í Bretlandi og í USA og ætti að koma í ríkum mæli hér á landi.  En þetta gengur því miður ekki upp hjá ykkur VG þó þetta hljómar vel fyrir þá sem vita ekkert um málið eða hvað fjármagnskattur hefur á hreyfingu fjármagns milli landa.

E.Ólafsson, 26.3.2007 kl. 14:07

13 Smámynd: Ár & síð

Ég minni á orð Bills Mahers sem var að fjalla um bandarísk stjórnmál og sagði: ,,Íhaldsmennirnir halda því alltaf fram að ríkið sé ófært um að standa í rekstri fyrirtækja, svo komast þeir til valda og sanna það."

Ár & síð, 26.3.2007 kl. 15:50

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég vil bara minna á í þessu samhengi hræsnina sem ríður hér ríkjum!!!

Hverju máli skiptir hvort ríka fólkið borgi fleirri krónur???  Hvaða andskotans máli skiptir það?  Er það ekki augljóst að konan sem gaf sinn seinasta eyri gaf miklu meira en ríki "faróinn" sem vissi ekki aura sinna tal og gaf 2 krónur!??

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.3.2007 kl. 17:15

15 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ég vil benda Kalla og Gunnari Óla bara vinsamlegast á að VG á Húsavík lögðu fram fjölda tillagna um þetta "eitthvað annað" í aðdraganda sveitastjórnarkosninga, en það má vera að fólk eins og þeir fylgist ekki með því og þurfi að fá allt á silfurfati og hafi ekki hugvitið sjálfir. 

Mér lýst ótrúlega vel á slagorðið "Heilsulindin Húsavík" með lífræna ræktun í nágrenninu og einhvers konar Heilsulind eða endurhæfingarstöð og heilnæmt umhverfi sem aðaláherslu. Öll atriðin sem ég hef tekið út hér að neðan geta verið partur af þessari heilsulindarstarfsemi.
Þarna gæti verið um að ræða mjög kraftmikla endurhæfingu fyrir veikt fólk sem þarf það til lengri tíma þar sem hægt er að vera í snertingu við náttúruna og borða heilnæmt fæði. Á meðan á endurhæfingu stendur væri síðan hægt að notfæra sér þessi útivistarsvæði og líka námskeiðahald.

* Nýja möguleika í lífrænni ræktun grænmetis á söndunum í Öxarfirði.
* Stóraukin starfsemi Heilbrigðistofnunar Þingeyinga s.s. endurhæfing og lækningastöð fyrir ýmsa sérhæfða sjúkdóma sem nýtt geta heilsuvatnið okkar.
* Andlegar- og líkamlegar endurhæfingarbúðir að Ási í samvinnu við eigendur og heilsugæslu.
* Námskeiðahald af ýmsum toga sem tengist sérstöðu og náttúru svæðisins.
* Bygging reiðhallar og kennsla í hestamennsku.
* Uppbygging sundlauga.
* Ný skíða- og brettaaðstaða.

Við höfum einmitt verið að benda á að við viljum styrkja við nýsköpun og sprotafyrirtæki á fyrstu árum í rekstri. Það eru erfiðustu árin og mörg fyrirtæki fara á hausinn á fyrstu 5 árunum, en með stuðningi geta þau komist yfir erfiðasta hjallann og blómstrað. Sprotafyrirtæki á Íslandi hafa mörg hver vaxið alveg gífurlega en þó virðast ekki allir sjá möguleikann í hugvitinu   ... kannski er það af því þá vantar hugmyndaflug sjálfum. Má þar benda á fyrirtæki eins og Marel, Össur, Bakkavör, Actavis, Decode og fleiri. Byrjuðu öll sem smá fyrirtæki. Það þýðir ekki að ætla að spyrja hugvitsmann hvaða hugmynd hann ætli að fá næst. Heldur ekki viðskiptamann hvaða vöru hann ætli sér að finna til sölu næst... heldur ekki tónlistarmann hvað hann ætlar sér að semja í framtíðinni. Sköpun er sjálfsprottin og spontant og sköpunargleði Íslendinga er gífurleg. En ekki hafa allir hugmyndaflug eins og sjá má í skrifum þeirra sem spyrja í sífellu um hvað annað eigi að koma í stað álvers. Það er eins og öll hugsun hafi verið geld á frumstigi, jafnvel í frumbernsku, því miður. Það er virkilega eins og sumir haldi það að álver um allt land sé einhver allsherjarlausn. Halda menn virkilega að það sé skynsamlegt að virkja allt heila Ísland fyrir sama iðnað og að orkuverð verði háð honum? Þá erum við fyrst á leið til baka í torfkofana

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.3.2007 kl. 17:38

16 Smámynd: Elías Theódórsson

Af hverju má ekki gera foreldrum það mögulegt að vera heimavinnandi og ala upp sín börn frekar en að senda þau á uppeldisstofnanir? Þetta er spurning um VALFRELSI. Efnameira fólk hefur þetta valfrelsi en ekki aðrir (fjöldin). Það þarf að greiða fyrir vinnu heimavinnandi foreldris, það sparar pláss á uppeldisstofnunum og eykur hamingju foreldis og barna.

Elías Theódórsson, 26.3.2007 kl. 17:46

17 identicon

Ég held að kona í flokki sem hefur formann sem vill setja á netlögreglu, vildi ekki samþykkja sölu á bjór og neitaði að skrifa undir að lagning breiðbands gengi í gegn ætti að fara varlega í það að kasta steinum úr glerhúsi á jafn afgerandi hátt og í síðustu málsgreinum andsvarsins að ofan.

Það er enginn að tala um að Álver sé ein alsherjarlausn, en það er í fljótu bragði ekki auðvelt að hrista fram úr erminni vinnustað sem skapar 2-300 störf á einu bretti, fyrir utan önnur störf sem skapast í kjölfarið. Það gætir líka ákveðins hroka í því að geta ekki svívirðingalaust svarað þegar fólk spyr um stefnumál, sem er einmitt ein af aðalástæðum þess að mitt atkvæði fer ekki lengur til vinstri grænna.

Uppbygging sundlauga hefur verið í vinnslu í allnokkuð langann tíma á Húsavík. Ég æfði sund frá unga aldri og var því strax þegar ég var 6 ára gamall farinn að heyra loforð og vilyrði um 25 metra sundlaug. Sú laug er ekki ennþá komin, þó alltaf standi söfnunarbaukurinn í anddyri sundlaugarinnar. Nýlegir búningsklefar eru vissulega skref í rétta átt. Þess má geta að á Húsavík voru síðast þegar ég vissi fleiri sundlaugagestir en í Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Laugarnar eru þarfar og vel nýttar.

Gaman að þú nefnir líka skíðasvæði, þar sem ég er forfallinn snjóbrettaiðkandi. Skíðamannvirki Húsavíkur eru á engann hátt í stakk búin að keppa við Hlíðarfjall á Akureyri, og ég held að þú gerir þér fulla grein fyrir því. Þar er búið að fjárfesta í búnaði sem getur tryggt snjó nánast allan veturinn, auk þess að vera betur búin lyftum og öðru sem þarf í þetta sport. Lyfturnar á Húsavík eru vissulega ágætar, en hversvegna að keyra 100 km lengra til þess að vera milli vonar og ótta með snjó? Það þarf jafnvel ekki að fara til Akureyrar, því Dalvíkingar eiga líka gott skíðasvæði.

Allar þessar hugmyndir sem þú nefnir kosta peninga, og þeir peningar eru að mér vitandi ekki til, og þeir verða ekki til á meðan fólki heldur áfram að fækka, og allra síst ef öll atvinnustarfsemi hverfur.

Gunnar Óli Sölvason (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 18:13

18 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Gunnar Sölvi, ég benti fólki á að lesa sig til um stefnumálin okkar með link inn á stefnumál okkar VG í pistlinum hér að ofan. Endilega kíktu þangað. Einnig geturðu nálgast ályktanir frá landsfundi á síðunni okkar.

Allar hugmyndir kosta peninga Gunnar, hvort sem það er þetta eða 120 milljarðar í Kárahnjúkavirkjun. Það hefði mátt gera ýmislegt við það fé... en það má minna á að það fé kemur frá LV sem er í eigu okkar landsmanna (þangað til XD einkavæðir hana líka ásamt allri grunnþjónustu landsins). 

Ég held að meira að segja bara einn milljarður, eða jafnvel hálfur myndi ganga mjög langt í atvinnusköpunarsjóð Norðurþings sem hefur verið fjársveltur af núverandi stjórn, væntanlega til að forða því að fólk geti nú komið með eigin hugmyndir í atvinnusköpun og tryggt í það fé. Aðgerðir núverandi stjórnvalda hafa nefnilega ekki verið upp á marga fiska. 

Ég veit ekki betur en að það hafi mikið verið hlegið að Ásbirni með sín áform um hvalaskoðun á Húsavík þegar hann kom þangað fyrst. Í dag hefur það verið byggt upp þannig að á síðasta ári sóttu þangað næstum 40.000 manns að mér skilst.

Vissulega hafa Akureyringar verið duglegir í að efla skíðasvæði sitt, en er því eitthvað til fyrirstöðu að fleiri geri það? Það eru ágætar skíðabrekkur á Húsavík og þar skíðaði ég sjálf nánast daglega á veturna þegar ég var barn. Með því að byggja upp öfluga endurhæfingastöð og Heilsulind á Húsavík myndi fólk sækja þangað í þeim tilgangi. Hluti meðferðar gæti síðan verið íþróttaiðkun og hestamennska ásamst lífrænni ræktun og heilsusamlegu fæði sem ræktað væri á svæðinu. Fólkið væri til staðar og myndi nota þá starfsemi sem til staðar er. Þannig er það jú með þúsundir ferðamanna sem renna í gegnum bæinn á hverju ári, þeir sækja það sem sækja má í bænum. Þá er um að gera að gera það fjölbreyttara og aðlaðandi. Gera það þannig að fólk myndi stoppa lengur við þegar það er að renna í gegn á leið sinni til Mývatns, Hljóðakletta og Ásbyrgis, með viðkomu og jafnvel nokkrum nóttum á Húsavík.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.3.2007 kl. 18:26

19 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Elías ég tek undir með orðum þínum um að gera foreldrum kleift að vera heima með börnum sínum lengur. Enda er það í anda míns flokks að lengja fæðingarorlof beggja foreldra til muna. Ég er einnig sammála þér í því að þannig mætti á móti spara byggingar á fullt af leikskólum. Ég bendi þér líka á það að dagvistunarúrræði bötnuðu gífurlega þegar R-listinn var við völd í Reykjavíkurborg. Áður var varla hægt að fá leikskólapláss fyrr en barn var orðið 4 ára. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.3.2007 kl. 18:28

20 identicon

Þú ert semsagt að leggja til að ríkið styrki beint fyrirtæki sem fjárfestar vilja ekki styðja?

Sprotafyrirtækin sem þú nefndir komust ekki á lappir vegna inngrips og stuðnings frá ríkinu (að Marel mögulega undanskyldu).  Það hefur nefnlega komið í ljós að svoleiðis virkar ekki.  Manstu hvað ríkið er búið að reyna að gera öll þessi ár í atvinnumálum?

Viltu þú leggja sparifé þitt í endurhæfingabúðir að Ási eða ræktun grænmetis á söndum Öxarfjarðar?

Nei?  En þú ert tilbúin að leggja fé annara í það?

Það sem VG virðist ekki skilja er það að hlutverk ríkissins er að skapa umhverfi til þess að fyrirtæki blómstri.  Þegar ríkið fer að ausa peningum (okkar) í þau fyrirtæki sem það heldur að eigi það skilið þá hefur sagan kennt okkur að allt fer út og suður.

Kalli (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 19:48

21 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Aftur að pistlinum.  Gæti ég fengið svar Andrea hvernig var vegið að þér í silfrinu með ómálefnanlegum hætti?  Svo spyr eg hvers vegna þú hendir alltaf athugasemdum minum ut? Hef eg verið dónalegur?

Örvar Þór Kristjánsson, 26.3.2007 kl. 23:02

22 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Vil taka það fram hér við hann Kalla að það er augljóst að hann hefur ekki lesið stefnu né ályktanir VG eins og ég benti áhugasömum á að gera. Endilega kíkja á það Kalli. Tillögur VG ganga einmitt út á að að skapa umhverfi til þess að fyrirtæki geti blómstrað og vaxið á fyrstu árum í rekstri. Þá er ekki eingöngu verið að tala um styrki til að koma hugmyndum á koppinn úr nýsköpunarsjóði, sem er öflugt tæki, heldur líka með leiðum eins og afsláttum á gjöldum á fyrstu árunum. Þannig er ekki lagður peningur í það beint frá ríkinu eins og þú virðist halda, heldur er veittur afsláttur. Þannig væri ríkið ekki að ausa peningum í fyrirtækin, heldur einmitt að skapa umhverfi til þess að þau geti vaxið á þessum fyrstu og erfiðustu árum í rekstrinum. 

Ég vil síðan minna á að þótt okkar tillögur í velferðarkerfinu kosti einhvern pening, þá geta þær kokmið til með að kosta samfélagið minni pening þegar til lengri tíma er litið. Öflugar rannsóknir geta veitt okkur þekkingu sem getur komið okkur öllum til góða þannig að ekki þurfi að kosta eins miklu fé til seinna meir, t.d. í heilbrigðiskerfinu. Öflug meðferðarúrræði í fangelsum landsins geta dregið úr endurkomuhlutfallinu, og hjá ungum afbrotamönnum hjálpað þeim að komast inn á betri brautir, þannig að þeir kosti samfélagið minni pening til lengri tíma litið (með minni afbrotum og endurkomu í fangelsin). Öflugra menntakerfi getur skapað okkur meiri möguleika að fá tekjur frá erlendum námsmönnum t.d. og mun auka menntunarstig þjóðarinnar þannig að gróskumikið atvinnulíf er tryggt.

Við Örvar Þór vil ég síðan segja að ég eyði út athugasemdum sem færa ekkert málefnalegt í umræðuna og eru eingöngu til þess gerðar að vera með leiðindi. Já, ég get svarað þér hvernig var vegið að mér í Silfrinu með ómálefnalegum hætti. Það var talað um flokkinn sem afturhaldssaman, bannhyggjuflokk osfr, sem ég ákvað að svara ekki. Þessi orð voru ávallt sögð þannig að engin dæmi um bannhyggjuna voru tekin né afturhaldssemina. Fólk virðist trúa áróðri andstæðinga flokksins, án þess að fyrir orðunum séu nokkur rök. Ef það er bannhyggja að vilja stoppa stóriðju, þá veit ég ekki hvert þetta þjóðfélag er komið nema í þrot. Stóriðjustopp hlýtur að teljast skynsamlegt eins og staðan er núna. Það gengur út á það að við viljum vega og meta allt Ísland fyrst (áður en nokkuð meira verður ákveðið með virkjanakosti) og taka frá land til friðunar áður en lengra er haldið. Einnig viljum við tryggja það að Ísland standi við skuldbindingar gagnvart Kyoto bókuninni án þess að biðja alltaf um undanþágur til meiri mengunar. Við viljum vera í hópi skynsamra og ábyrgra þjóða sem draga úr mengun. Ef öll þau álver sem núverandi stjórn eru að plana, verða að veruleika, þá er víst að Ísland verður eitt mengaðasta iðnríki Evrópu. Þetta er bara óskynsamleg þróun, bæði varðandi náttúruna sem verður verðmætari eins og hún er, hrein og ósnortin sums staðar og víðerni verða eftirsótt með tímanum. Varðandi viðskiptasjónarmið hlýtur það að teljast óskynsamlegt að ætla sér að selja nánast ALLA orku landsins til sama iðnaðarins þannig að verðið verði háð verði í þeim iðnaði til margra áratuga. Það hefur ávallt þótt skynsamlegt í viðskiptum að dreifa áhættunni þannig að ekki sé einungis veðjað á einn hest. Virkjanaframkvæmdir kosta líka gífurlegan pening og er niðurgreidd af okkur, almenningi, án þess þó að ávöxtunarkrafan sé eðlileg. Verðið á orkunni er það lágt að ekki er að vænta að framkvæmdir skili hagnaði í ríkissjóð. Það getur vart talist skynsamlegt heldur.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 28.3.2007 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband