Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ótrúlega falleg mínútumynd

Mig langaði til að deila með ykkur ótrúlega fallegri mynd sem var ein af 40 mínútumyndunum í Kastljósinu á miðvikudag. Gott að hafa hljóðið hátt stillt fyrir meiri áhrif. Myndin er eftir Helenu Stefánsdóttur og heitir Gjöf. Kíkið á myndina hér: "Gjöf"

Ótrúlegt hvað listamennirnir geta sagt heilmikið á svona stuttum tíma. 

Önnur sem vakti líka athygli mína var myndin hans Hilmars Oddssonar sem mér finnst mjög lýsandi fyrir íslenskt samfélag og er kannski ástæðan fyrir því að fólk er ekki að segja neitt við gróflegri framkomu stjórnvalda. Myndina má sjá hér:  "Venjulegur dagur"


Kosningahorn á kaffihúsi

Komið og hittið unga og efnilega frambjóðendur á kaffihúsum borgarinnar.

Andrea Ólafsdóttir og Kristín Tómasdóttir munu vera með kosningahorn á:

Kaffi Hljómalind, miðvikudag 22. nóv. kl. 13-14
Kaffi París, fimmtudag 23. nóv kl. 12-14


Kíkið á okkur og kjósið grænar konur til áhrifa!

Stefnumálin mín

Þó svo ég gæti líklega skrifað í marga daga um hverju ég vil breyta og bæta þannig að Ísland geti orðið mun betra og réttlátara samfélag á leið til framsýnna framfara, þá vil ég samt sem áður draga fram nokkur atriði hér fólki til glöggvunar. Þannig getið þið séð hvort þið eigið samleið með mér og myndað ykkur skoðun um að kjósa mig til að taka þátt í störfum í þágu samfélagsins á þingi. 

Fyrir þá sem lítinn tíma hafa, set ég fyrst fram fyrirsagnastílinn á mínum áherslumálum og tel upp nokkur atriði sem síðan má lesa betur um hér að neðan.

Vilja til samfélagsstarfa hef ég sýnt í verki á sviði umhverfisverndar, jafnréttismála og mannréttinda auk sjálfboðastarfs hjá Rauða krossinum, þar sem ég sit nú í verkefnastjórn Hjálparsímans. Ég hef unnið ýmis störf, síðast við bókhald og með þroskaheftum, en er nú að ljúka námi í uppeldis- og menntunarfræði. Minn æðsti draumur er að útrýma fátækt í heiminum og búa í friðsömum heimi. Þótt slíkt sé erfitt að sjá fyrir sér á miðað við ástand heimsins í dag, þá finnst mér alls ekki óraunhæft að sjá fyrir mér slíkan heim hér á litla Íslandi. Þess vegna vil ég bjóða fram krafta mína til að vera með við að móta réttlátt og gott velferðarsamfélag. Þeir sem vilja lesa meira um mig vinsamlegast klikkið á "Höfundur" til vinstri hér á síðunni.

Góðkynja hagvöxtur í réttlátu, heilbrigðu lýðræðissamfélagi getur einungis orðið til í samfélagi með hátt menntunarstig, þar sem virðing fyrir mannréttindum og umhverfi er í hávegum höfð.  Ég sé Ísland fyrir mér í fararbroddi á sviðum umhverfisvænnar atvinnusköpunar, jafnréttis, menntunar og lista; þar sem hugmyndir fólksins verða að veruleika. Ísland framtíðarinnar er réttlátt fjölmenningarsamfélag með traustan velferðargrunn.

Heilbrigði jarðar og náttúru      Umhverfisvæna atvinnusköpun, skilvirk endurvinnsluúrræði

Hugurinn er auðlind                  Framsýna atvinnu- og nýsköpun, tækifæri til framkvæmda

Jafnrétti og jöfnuð                   Eftirfylgni á jafnréttislögum, fjölskylduvænan vinnumarkað, hækkun lágmarkslauna, 10% fjármagnstekjuskatt á ellilífeyri

Innflytjendamál                        Öflug íslenskukennsla í grunnskólum, vinnuveitendur í samstarfi við ríkið veiti     íslenskukennslu á vinnutíma, samhæft mat á menntun innflytjenda

Gott menntakerfi                      Grunnskóli án skólagjalda, fjölbreyttar aðferðir og hugmyndafræði, Val fyrir alla; “einka”skólar inn í almenna kerfið, Háskóla Íslands tryggð fjárframlög                                                

Heildrænt heilbrigðiskerfi          Fjölbreytt þjónustuúrræði með heildrænum lausnum til heilsueflingar

Betrunarfangelsi                       Góð meðferðarúrræði og menntun sem hluti afplánunar auka líkur á breyttu líferni

Vextir og verðtrygging             Lög um hámarksvexti lána og afnám verðtryggingar

Raunverulegt lýðræði               Lagasetningar um þjóðaratkvæði og afsagnir brotlegra embættismanna

 

 

Stefnumálin í lengra máli

 

Heilbrigði jarðar og náttúru
Náttúra Íslands hefur sérstöðu á heimsmælikvarða og víðáttur landsins eru ómetanlegar. Umhverfisvernd mun verða hluti af heildrænni stefnu framtíðarinnar á allri jörðinni. Heilbrigð og skynsamleg umhverfisvernd getur einnig nýst til öflugrar atvinnusköpunar hér á landi með slagorðinu: "Ísland er hreint og fagurt land." Ísland getur því verið eins konar Heilsulind og ímynd hreinleika, framsýni og fegurðar. Hér eru tækifæri til að laða að jarðvísindamenn alls staðar að, því jarðfræði Ísland er einstök og til dæmis er Eldfjallagarður á Reykjanesskaga dæmi um slíkt. Mögulegt væri að leggja sérstaka áherslu á að laða hingað til lands háskólanema og vísindamenn á sviði jarðvísinda, jafnvel stofna hér alþjóðlegt jarðvísindasetur. Einnig tel ég skynsamlegt að stuðla að atvinnurekstri sem beinist að umhverfisvænum framtíðarlausnum á öllum sviðum.

Ný stefna sem tekur á allan hátt mið af að draga úr útblæstri gróðurhúsa- lofttegunda er algerlega nauðsynleg. Íslendingar þurfa að hverfa algerlega frá stóriðjustefnunni og endurheimta framsýni og þor sitt og verða frumkvöðlar á þessu sviði. Ég sé landið fyrir mér sem fyrsta land í heiminum sem notar eingöngu umhverfisvænt eldsneyti. Ég myndi gjarnan vilja stefna að nánast fríum almenningssamgöngum í stærstu bæjum landsins sem keyra á vetni eða öðru umhverfisvænu eldsneyti. Öflug og skilvirk endurvinnsla heimila, stofnana og fyrirtækja er einnig bráðnauðsynleg bæði fyrir Ísland og heiminn í heild.

Hugurinn er auðlind - Framsýni í atvinnuháttum
Ég sé fyrir mér Ísland sem land frumkvöðlastarfsemi og rannsókna á heimsmælikvarða. Rannsóknir á sviði jarðvísinda og heilbrigðismála eru mér afar hugleikin. Ég tel að Ísland geti orðið leiðandi í hefðbundnum náttúrulækningum, líf- og heilsuvísindum sem getur nýst á öllum heiminum. Á Vesturlöndum eru áunnir sjúkdómar að gera vart við sig í auknum mæli. Mjög marga sjúkdóma má rekja beint til breyttra neysluvenja, aukefna í matvælum og hegðurnarmynsturs fólks.  Ég sé fyrir mér Ísland framtíðarinnar sem "Heilsulindina Ísland", sem getur orðið frumkvöðull í alls kyns meðferðarúrræðum og heilsueflingu. Að mínu mati ætti landsbyggðarstefna að snúast um að efla frumkvæði í litlum samfélögum úti á landi og styðja það með beinum hætti. Það væri mögulegt að fara sömu leið og Norðmenn í þeim málum með því að styrkja þá sem hafa hugmyndir og vilja stofna til reksturs og skapa atvinnu á landsbyggðinni. Fyrstu árin í rekstri lítilla fyrirtækja eru lang erfiðust og ég tel að það mætti styrkja þau með svipuðum hætti og stóru risafyrirtækin hafa verið styrkt hér á landi með afsláttum af alls kyns gjöldum. Það gæti átt við fyrstu 3 árin í rekstri lítilla fyrirtækja en ég tel ekki réttlætanlegt að gera slíkt fyrir alþjóðafyrirtæki sem velta meiru en íslenska ríkið.

Landbúnað og mjólkurframleiðslu tel ég þurfa að endurskoða algerlega með tilliti til rannsókna sem sýna fram á heilsuspillandi áhrif eiturefna sem þar eru notuð - þannig að framleiðsluferli og næring dýra verði endurskoðuð með tilliti til heilnæmi mannkyns. Lífrænn landbúnaður bæði á grænmeti og kjöti er sú framtíð sem Ísland á að horfa til þannig að stuðlað verði að frekara heilbrigði þjóðar. Aukin eftirspurn hefur skapast á Vesturlöndum eftir lífrænni framleiðslu og Ísland ætti að nýta sér þá ímynd sem það hefur með því að markaðssetja hreinleikann í lífrænni framleiðslu fyrir Evrópumarkað.
 
Jafnrétti og Jöfnuður
Jafnréttislögum þarf að breyta og tryggja eftirfylgni með þeim með því að gefa Jafnréttisráði eða stofu umboð til rannsókna og meiri völd til að fylgja lögum eftir. Ég sé fyrir mér að Ísland taki kipp í jafnréttismálum á komandi kjörtímabili með VG í stjórn. Ég tel að fylgja þurfi lögum eftir á þann hátt að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í stjórnsýslu landsins, í atvinnulífinu og á Alþingi. Ég myndi leggja til að flokkar misstu kjörgengi sitt ef þeir gætu ekki skipað lista sína nokkuð jafnt með báðum kynjum og farið eftir sjónarmiðum jafnréttis. Ég tel að jafnréttiskennsla og fræðsla eigi að vera skylda fyrir kennaranema og í grunnskólum og að endurskoða þurfi allar skólabækur með kynjagleraugum. Einnig vil ég móta ábyrga stefnu í meðferðarúrræðum fyrir ofbeldismenn til að draga úr líkunum á því að þeir valdi skemmdum á öðru fólk með ofbeldi.
 
Það er nauðsynlegt að tryggja að fátækt þekkist ekki á Íslandi. Ég hef dreymt um heim án fátæktar frá því ég var lítil stúlka, en á það er erfiðara að eiga við heiminn allan heldur en litla Ísland. Það er nefnilega vel raunhæft að útrýma algerlega fátækt á svo litlu og ríku landi eins og Ísland er. Lágmarkslaun þarf að hækka og tryggja að skattheimtan sé ekki hæst á þá lægst launuðu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bilið milli hæst og lægst launuðu einstaklinganna verði minnkað. Réttlátara samfélag er hamingjusamara og betra samfélag.
 
Að mínu mati er óásættanlegt að svo sé komið fyrir eldri borgurum eins og raun ber vitni. Þetta fólk er grunnurinn að okkar samfélagi og á skilið virðingu fyrir framlag sitt og störf. Ég er hlynnt því að ellilífeyrir sé ekki skattlagður nema þá einungis með 10% fjármagnstekjuskatti. Einnig tel ég að með hækkandi lífaldri eigi að auðvelda fólki að halda rétti sínum til að vera lengur á vinnumarkaði eftir sjötugt sé það heilsuhraust og kjósi að
gera svo.
 
Lágmarkslaun hækkuð og fjölskylduvænn vinnumarkaður
Nauðsynlegt er að tryggja það að lágmarkslaun vinnandi fólks verði hækkuð. Framfærslukostnaður hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum og ég tel nauðsynlegt að tryggja að ekki sé hægt að ráða til sín fólk í vinnu nema geta borgað þeim mann- og kvensæmandi laun. Þetta kemur bæði inn á að koma í veg fyrir fátækt og stéttarskiptingu í samfélaginu sem myndast hefur og ég tel að þetta komi einnig inn á innflytjendamálin. Fyrirtæki eiga einfaldlega ekki að geta ráðið til sín fólk í vinnu á launum sem ekki geta talist boðleg til að lifa af í okkar samfélagi á sómasamlegan hátt. Einnig tel ég að tryggja þurfi fjölskyldum aukna möguleika á fjölbreytni með vinnutíma. Fleira fólk en fjölskyldufólk myndi mögulega vilja nýta sér það, en að mínu mati er nauðsynlegt að atvinnurekendur geti boðið fólki upp á það að minnka við sig vinnuhlutfall ef það kýs það í kjölfar barneigna og eftir fæðingarorlof án þess að eiga á hættu að vera sagt upp starfi.
 
Leikreglur fyrir vinnumarkaðinn
Fyrirtæki sem fá leyfi til atvinnureksturs eru skyldug til að fylgja landslögum og þurfa að fara eftir vissum leikreglum á markaði. Hinn "frjálsi" markaður þarf ákveðinn ramma þegar kemur að launamálum, jafnrétti, verkalýðs - og umhverfismálum og því þarf að setja þeim skýrar leikreglur sem fylgt er eftir á mjög markvissan hátt. Að mínu mati þarf virkilega að endurskoða lög um fyrirtæki á markaði og tryggja að eftir ýmsum reglum sé farið til að þau haldi rétti sínum til að vera á markaði. Þar þarf virkilega að koma inn með eftirfylgni á jafnréttislögum og hafa alvarleg viðurlög við lögbrotum.  
 
Innflytjendamál þurfa að fara í gegnum ákveðna stefnumörkun og þeim þarf að móta skýrar línur þannig að Ísland þurfi ekki að gera sömu mistök og Norðurlöndin og geti verið stolt í því fjölmenningarsamfélagi sem mun myndast á komandi árum og áratugum. Ég tel rétt að hafa öfluga íslenskukennslu í skólum fyrir börn innflytjenda og einnig tel ég að fyrirtæki landsins sem ráða til sín innflytjendur verði undir eftirliti þannig að öruggt sé að þeir séu ekki á lægri launum og aðrir því það er engan veginn réttlætanlegt, (sama málið og konur og karlar finnst mér). Ég tel eðlilegt að fyrirtækin eigi í samstarfi við ríkið að sjá starfsfólki sínu fyrir íslenskukennslu á vinnutíma á meðan þau eru að aðlagast samfélaginu, sem er kannski eitt ár. Ég tel það eðlilegan og nauðsynlegan þátt í því að innflytjendur fái að aðlagast hér í samfélaginu og finnst réttast að fyrirtækin beri þann kostnað. Að auki myndi ég vilja sjá einhvers konar mat á menntun innflytjenda til að tryggja það að þeir geti starfað á því sviði sem þeir hafa menntun til og samræma þannig okkar kerfi og þeirra. Menntun innflytjenda er auðlind í íslensku samfélagi og okkur ber að meta hana sem skyldi. 
 
Gott og fjölbreytt menntasamfélag
Háskóli Íslands er í dag annar fátækasti háskóli í Evrópu. Að sjálfsögðu getur hann orðið mun öflugri í alþjóðasamanburði en hann er núna, en til þess þarf  hann fjármagn og breyttar áherslur í skólanum sem miða við mælistikur sem notaðar eru við að meta háskóla inn á topp 100 listann. Ég vil leggja áherslu á góðan háskóla og góða menntun á öllum sviðum hér á landi því það er einfaldlega ein af grunnundirstöðum samfélagsins. 
 
Mér finnst nauðsynlegt að sjá fjölbreytni í hugmyndafræði og kennsluaðferðum innan grunnskólakerfisins án þess að það sé bundið við "einkaskóla" efnafólksins. Það er einfaldlega spurning um áherslur innan menntakerfisins og að mínu mati á að hleypa þar inn fjölbreyttri hugmyndafræði og einkaframtaki án þess að það þurfi að vera fjárhagslega einkarekið, því ég tel að allir eigi að hafa val um fjölbreyttar aðferðir og skóla. Að mínu mati er nemendalýðræði, leikur, tjáning og skemmtun mjög mikilvægt börnum og ég tel það eiga að vega þungt í menntun þeirra, sérstaklega að teknu tilliti til breyttra tíma og lengdrar viðveru í skólum landsins. Jafnrétti í grunnskólum þarf að tryggja með breyttum áherslum, fræðsluskyldu kennara og endurskoðun alls námsefnis með tilliti til birtingu kynjanna.
 
Heildrænt og öflugt heilbrigðiskerfi
Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um heilbrigðiskerfið sem ég myndi vilja vinna að með heilbrigðisstéttinni og sjúklingum sjálfum. Ég tel fyrirbyggjandi leiðir í heilsu vera mjög mikilvægar þannig að ekki sé alltaf verið að eiga við einkennin þegar þau eru langt á veg komin og með lyfjum sem oft og tíðum bara slá á einkennin en mörg hver hafa ekkert lækningagildi. Ég tel að heilbrigðismenntun þurfi að endurskoða með tilliti til heildrænnar sýnar á líkamann og sem taka mið af lífefnafræði líkamans. Einnig tel ég að mismunandi aðferðir eigi að rúmast innan heilbrigðiskerfisins og það er lítið mál að sýna fram á það að þær virki jafnvel betur en hin unga nútíma og oft einsleita læknisfræði sem hefur fengið að vera ráðandi á síðustu öldum. Til þess þarf öfluga þekkingu á lífefnafræði líkamans og næringu, en ekki einungis á nútíma læknisfræði og lyfjafræði. Hluta af öflugu heilbrigðiskerfi tel ég vera öfluga neytendavernd þannig að neytendur fái mikilvægar upplýsingar um þau matvæli sem þeir láta ofan í sig. 
 
Betrunarfangelsi
Ég tel að dóms- og refsiderfið á Íslandi þurfi mikla endurhönnun og að við þurfum að líta til þess að stuðla að betrun afbrotamanna. Þó svo ekki sé hægt að gera ráð fyrir 100% árangri með slík úrræði þá er mun líklegra að afbrotamenn nái að breyta hátterni sínu og nái einhverjum bata og framförum í fangelsi þar sem þeir fá meðferðir og menntun á meðan þeir sitja af sér dóma. Sérstaklega mætti gera ráð fyrir breyttu líferni eftir fangelsi hjá þeim sem yngri eru. Meðferðum, menntun og samfélagsþjónustu má nota sem hluta afplánunar og beita hjá öllum tegundum fanga til að auka líkur á breyttu líferni. Erlendar rannsóknir hafa meðal annars sýnt bata og breytta hegðun hjá kynferðis- afbrotamönnum. 
 
Vextir og verðtrygging
Íslendingar eru þjakaðir af byrði verðtryggingu lána. Þar vegur einna þyngst byrði af húsnæðislánum. Í raun er verðtrygging til þess að tryggja bönkum bæði axlabönd og belti eins og stundum hefur verið nefnt í þessari umræðu. Á þeim tíma er verðtrygging var sett á hér á landi, var raunin sú að laun fólksins voru líka verðtryggð. Launaverðtryggingin var síðar afnumin og hefði þá lánaverðtrygging líka átt að fjúka, en henni var haldið eftir. Slík tryggingakerfi fyrir banka þekkist varla nema í þróunarlöndum og ég tel kominn tíma til að afnema verðtryggingu lána til að Íslendingar eru ein skuldugasta þjóð Evrópu, en úr því er mögulegt að bæta með því að afnema verðtryggingu lánanna. Við eigum ekki að þurfa að vera þrælar bankanna þegar kemur að húsnæðiskaupum. Íslendingar greiða margfalt verð fyrir fasteignir sínar á við önnur Evrópulönd þar sem boðið er upp á lán á lægri vöxtum án verðtryggingar. Í Kastljósi RÚV í fyrra var tekið einfalt reiknidæmi þar sem borið var saman erlent lán upp á 10 milljónir króna og íslenskt lán með verðtryggingu og þeim vöxtum sem hér eru í boði. Erlendis hefðu vextir af slíku láni á 40 árum verið um 4 milljónir króna en hérlendis hefðu vextir og verðtrygging náð hátt í
30 milljónir króna á 40 árum. 
 
Raunverulegt lýðræði
Lýðræðið verður að virka í góðu samfélagi. Á Íslandi í dag er lýðræðið meingallað og hefur það margoft komið í ljós þegar núverandi ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Alþingismenn og embættismenn hafa brotið lög án þess að borgarar landsins hafi nokkra möguleika eða tæki til að víkja þeim úr starfi. Slíkt á ekki að viðgangast í lýðræðissamfélagi. Það þarf því að tryggja betri leikreglur lýðræðis á Íslandi. Slíkt er mögulegt að gera með lögum og ákvæði í stjórnarskrá sem veitir borgurum landsins rétt til að krefja embættismenn afsagna, en einnig til að fara fram á þjóðar- atkvæðagreiðslur í stórum málum eins og þekkist meðal annars í Sviss. 
 
Ísland sem friðsöm þjóð - Herinn?
Ég undraðist mjög yfir fréttamennskunni og yfir panikk-ástandinu innan ríkisstjórnarinnar þegar bandaríski herinn tilkynnti brottför sína. Það var rétt eins og að Íslandi steðjaði heljarmikil ógn og manni virtist á tali ráðherranna sem einhverjar óprúttnar og ófriðsamar þjóðir biðu í ofvæni eftir að geta ráðist á landið! Að mínu mati steðjar nákvæmlega engin ógn að friðsömu Íslandi ... nema mögulega vegna mistaka herramannanna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem tóku sér það bessaleyfi að gera Ísland að viljugri þjóð í stríðinu gegn Írak, án þess að ráðfæra sig við utanríkisnefnd. Ísland á alltaf að vera herlaust land sem lýsir sig hlutlaust eða á móti öllum stríðum. Svo einfalt er það. Ísland sem friðarríki sem á sér ekki stríðssögu og ljós í myrkri heimsins. 

 

Til að geta kosið mig í forvalinu verðurðu að skrá þig í flokkinn

 

Skráðu þig í flokkinn hér:

http://vg.is/default.asp?page_id=6177

 


Stefnumót við frambjóðendur

Forval VG

 

Laugardaginn 18. nóvember gefst þér tækifæri að hitta frambjóðendur í forvali VG í Reykjavíkur- og Suðvestur- kjördæmum í sal Kvenfélags Kópavogs, Hamraborg 10, kl. 13:00 - 15:00
 

Forvalið fer fram 2. desember næstkomandi kl. 10 - 22 . Kosið verður í Suðurgötu 3 í Reykjavík, Strandgötu 11 í Hafnarfirði og Hlégarði í Mosfellsbæ. Allir félagar VG í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi hafa kosningarétt samkvæmt félagatali 25. nóvember 2006 en þá verður kjörskrá lokað. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Suðurgötu 3 í Reykjavík, dagana 28. og 30. nóvember kl. 16 – 21.

 

Nýttu þér lýðræðislegan rétt þinn

Taktu þátt í forvalinu

Skráðu þig í flokkinn hér:

http://vg.is/default.asp?page_id=6177


Jafnrétti NÚNA!

Á síðustu vikum hefur dregið þó nokkuð til tíðinda í íslensku samfélagi. Feministavikan stóð nýverið yfir og þann 24. október var haldið upp á afmæli kvennafrídagsins sem var all eftirminnilegur í fyrra þegar 50-60.000 konur og nokkrir karlar líka söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur til að minnast dagsins og krefjast launajafnréttis.

 24. okt. 2005

Afmæli Kvennafrídagsins, 24. október 2005

Að mínu mati gaf þessi vika því tækifæri til að skoða aðeins samfélagið okkar og jafnréttismálin enn og aftur og bæta það sem bæta þarf. Við þurfum að gera Ísland aftur að því framsýna landi sem það einu sinni var þegar konur kröfðust þess að fá kosningarétt og komust í fyrsta sinn inn á Alþingi. Síðar var Kvennalistinn stofnaður af framsýnum og kröfuhörðum konum og Ísland komst á blað heimssögunnar með því að kjósa fyrst allra þjóða konu sem forseta. Síðasta öld er því minnistæð í jafnréttisbaráttunni og megum við vera stolt af þeim árangri sem náðist. Þó er enn langt í land því konur eru enn ekki nema um þriðjungur á Alþingi og hafa enn mun lægri laun en karlar, ásamt því að vera beittar ofbeldi og misrétti í hvívetna.

Á síðastliðnum 12 árum hefur kynbundinn launamunur ekki minnkað nema um 0,3%. Atvinnutekjur kvenna eru einungis á bilinu 65% (án leiðréttinga) af atvinnutekjum karla - 84,3% (með öllum leiðréttingum sem maður er ekki sannfærður um að eigi rétt á sér). Það tæki 628 ár að leiðrétta muninn ef það ætti að ganga eftir á þessum sama hraða.

Frábæru fréttirnar eru hins vegar þær að nú gefst atvinnurekendum og alþingismönnum enn einu sinni tækifæri til að leiðrétta stöðuna með því að skoða þessi mál hið snarasta, bretta upp ermarnar og leiðrétta laun kvenna alls staðar í öllum stéttum. Einnig þarf að tryggja að hlutföll kynjanna verði jöfn á Alþingi og í sveitastjórnum með lagasetningum og eftirfylgni. Framtíðin er aldeilis björt ef stjórnvöld  drífa sig í að leiðrétta stöðuna á öllum þessum sviðum.

Jafnrétti NÚNA

Sjálf vonast ég til að fá tækifæri til að taka þátt í að móta nýja framtíðarsýn og stefnu fyrir land mitt og þjóð og var einmitt sjálf að taka þá ákvörðun að bjóða mig fram í eitt af efstu sætum á lista í prófkjöri VG í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.


„The Future's So Bright, I Gotta Wear Shades“


Er álið málið?

Mig langar að spyrja alþjóð þessarar spurningar og svara sjálf fyrir mig með skynsamlegum rökum. Skynsemishugsun verður alltaf og undantekningarlaust að taka mið af heildrænni hugsun. Skynsemislausnin verður jafnframt alltaf að taka mið af hvað kemur sér best fyrir nærsamfélagið okkar, en einnig fyrir heiminn og jörðina í heild þegar um er að ræða málefni sem snerta alla jarðarbúa. 

Á síðustu árum hafa orkunýtingarsjónarmið og stóriðjustefnan verið í hávegum höfð á „Állandinu Íslandi“. Þetta telja sumir að sé skynsamleg nýting orkuauðlinda landsins. Þeir nefna ávallt máli sínu til stuðnings að hér sé um „græna orku“ að ræða og við séum því að leggja eitthvað að mörkum gagnvart jörðinni í loftslagsmálum. Þeir gleyma hins vegar að segja frá því að ekki einu einasta álveri sem keyrt er á kolum verður lokað í stað þess sem byggist hér og að um 60-70% álvera heims keyra á hinni svokölluðu „grænu orku“. Einnig gleymist að reikna með mengun sem flutningar súrálsins valda og það gleymist að tala um hvers vegna við framleiðum ál og í hvað það fer eftir hlutföllum og hvort að nauðsynlegt sé að nota allt þetta ál. Að ekki sé nú minnst á þá staðreynd að náttúran sem fórnað er, þeas verðmæti hennar, er aldrei metin á einn eða annan hátt. Vissulega er möguleiki á að nýta einhverja orku hér með skynsamlegum hætti, en eftir langa og stranga skoðun mína er orkunýting til álframleiðslu bara ekki skynsamleg.

Í fyrsta lagi er um að ræða stefnu sem gerir ráð fyrir svo mörgum teravöttum af orku að ekki er hægt að hlífa mörgum svæðum á Íslandi frá nýtingarsjónarmiðinu. Það þykir mér alls ekki skynsamlegt og tel að flestir Íslendingar séu sammála um það að einhverjum svæðum verði að hlífa og að við þurfum því skýra stefnu sem skilgreinir þau svæði í lögum um umhverfisvernd. Skynsemin í að hlífa svæðum felst bæði í náttúrusjónarmiði og nýtingarsjónarmiði, því hvar sækjum við orku í framtíðinni ef hér á landi gerist þörf til annars konar orkunýtingar ef búið er að virkja öll svæði og binda orkuna í samningum í áratugi?

Í öðru lagi er það ekki skynsamleg hugmynd að selja alla orkuna til álframleiðslu að teknu tilliti til þess að það er orkufrekasti og mest mengandi iðnaður sem til er í heiminum. Iðnaður sem heimsbyggðin mun á komandi árum draga verulega úr vegna þeirrar mengunar sem af honum stafar. Aukin framleiðsla á áli er eitthvað sem heiminum stafar mikil ógn af vegna loftslagsbreytinga og þegar reiknað er með flutningum súráls og unnins áls á milli heimsálfa má reikna með ennþá meiri mengun. Skynsamlegast væri að sjálfsögðu að úrvinnsla súráls fari fram á sama stað sem það er upprunnið og frumvinnslan fer fram.

Á heimasíðu Alcoa má sjá að árin 2004 og 2005 sköpuðust um 26% af heildartekjum fyrirtækisins vegna neyslupakkninga (6 og 6,8 milljarðar USD) og hefur sá hluti teknanna vaxið hraðast á síðast liðnum árum. Aðeins um 10% kom frá byggingariðnaði og um 10-11% frá samgöngutækjum. Ég endurtek; stærsti hlutinn, eða 26% teknanna varð til vegna framleiðslu á neyslupakkningum. Notið nú hugmyndaflugið, ykkur og jörðinni til góða, og hugsið ykkur bara hversu mikil not við höfum fyrir þessar ál-neyslupakkningar. Hlutföll endurvinnslu áldósa er misjafnt eftir löndum, en meðaltalið í Evrópu er um 40% endurvinnsla. Í því sambandi vil ég til dæmis minna á það að í Danmörku (og sjálfsagt fleiri skynsömum löndum) er bannað að selja drykki í áldósum. Það er að sjálfsögðu ekki þörf fyrir svona mikla álframleiðslu í neyslupakkningar og brýn nauðsyn fyrir okkur að finna aðrar leiðir í þeim efnum. Enn eitt markmiðið er því að sjálfsögðu að takmarka eins og hægt er vöruframleiðslu úr áli sem ekki er nauðsynleg.

Í þriðja lagi ber að líta til þess alþjóðasamfélagið hefur mótað stefnu sem felst í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda Flest öll samfélög heims hafa skuldbundið sig til að fara eftir þessri stefnu sem kallast Kyoto bókunin. En Ísland, eitt af ríkustu löndum heims, samdi sig frá henni og fær að losa 1,6 milljónir tonna út í andrúmsloftið frá stóriðju á fyrsta skuldbindingar-tímabili bókunarinnar, til viðbótar við þá 10% aukningu sem Ísland fékk í meðgjöf í sjálfum loftslagssamningnum 1992. Á sama tíma eru flest löndin að skuldbinda sig til að draga úr losun, eða standa í stað þannig að hún aukist ekki. Samkvæmt tölum í fréttablaðinu (spyrja Bjarka) losar stóriðja á Íslandi, með tilkomu Fjarðaáls, um 2,5 milljónir tonna gróðurhúsalofttegunda á ári meðan öll önnur losun frá bílaflotanum, skipum, landbúnaði og sorpúrgangi er samtals 2,25 milljónir tonna. Við höfum nú þegar fyllt undanþágukvótann og ber nú að líta til framtíðar til úrlausnar vandans og taka þátt í að draga úr losun á næstu árum. Öllum löndum heims ber að taka þátt í slíku samkomulagi sem snertir alla jarðarbúa. Íslendingar þurfa því að fara að nota frumkvöðlahugsun sína til að koma með skapandi lausnir á þessum brýna vanda. Frumkvöðlahugsun okkar ætti að eiga auðvelt með að sjá að í nýjum og umhverfisvænni lausnum felast ótrúleg tækifæri. Nýr og vistvænni markaður er að taka við af þeim gamla og nýjar, framsýnar lausnir munu taka við á komandi árum. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld verði hugrökk í framgöngu eins mikilvægra mála.

Í fjórða lagi vil ég síðan minnast á hvers vegna stjórnvöld fóru í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, og hvers vegna fulltrúar Alþingis samþykktu. Margoft hefur verið gefið út að ákvörðun um framkvæmdina var tekin í þeim tilgangi að skapa störf á Austurlandi þrátt fyrir að á Íslandi sé eitt það minnsta atvinnuleysi sem gengur og gerist í heiminum. Engin stefna var mótuð til að taka á móti erlendu fólki sem átti að vinna störfin sem eru umfram það sem Íslendingar geta staðið undir að vinna. Nýlega hefur komið í ljós að fulltrúar Alþingis samþykktu framkvæmdina án þess að hafa til þess nægilegar upplýsingar sem segir okkur það að þetta var ekki upplýst ákvörðun. Á þeim tíma höfðu þeir ekki nægilegar upplýsingar um jarðfræði svæðisins né heldur mat á umhverfisáhrifum af þessu tiltekna álveri, þrátt fyrir að í landslögum segi að slíkt verði að liggja fyrir. Í ferlingu var úrskurði skipulagsstofnunar breytt og landslög hunsuð.

Núverandi stjórnvöldum virðist ekki hafa dottið til hugar að hægt sé að nýta eða njóta náttúrunnar sem við höfum að láni á nokkurn annan hátt en til orkunýtingar og álframleiðslu, þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland hefur skapað sér það orðspor erlendis að vera einstök, hrein og fögur náttúruperla. Staðreyndin er nefnilega sú að um 95% ferðamanna sem hingað koma, sækjast eftir að upplifa náttúruna og stór hluti til að sjá hálendið sem er stærsta óbyggða víðerni Evrópu. Að sjálfsögðu verðum við að gera okkur grein fyrir að flutningar með flugvélum veldur líka mengun og ættum því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að breyting verði þar á. Á vorrmánuðum bárust fréttir í Mbl um að framleiðendur flugvéla séu nú þegar farnir að huga að því að smíða þær úr léttari efnum eins og trefjaplasti, frekar en úr áli og stáli. Framtíðin býður einnig upp á að gera hið sama með önnur farartæki og í framtíðinni munum við nota umhverfisvænna eldsneyti en við gerum í dag. Þarna liggja ný viðskiptatækifæri og vettvangur fyrir hugmyndir og nýsköpun. Ísland getur verið með fremstu þjóðum í heimi til að stuðla að því að nýsköpun og verða með því fyrirmynd annarra þjóða. Hér ætti ekki að vera erfitt að skipta út bílaflotanum og keyra um á vænum og grænum bílum og farartækjum. Mögulega væri hægt að stuðla að því að almenningssamgöngur væru því sem næst fríar þannig að fleiri myndu nota þær. Hér væri líka hægt að hefja framleiðslu á vetni. Slík væri framsýnisstefna  og það er eina rétta leiðin til að við getum átt okkur framtíð á jörðu.

 

Niðurstaða mín er semsagt að skynsamlega athuguðu máli sú að álið er ekki málið. Framsýni er málið. Í næstu grein langar mig því til að deila með ykkur hugmynd minni um „Heilsulindina Ísland“.

 


Eldri greinar

Er Ísland ódýr hóra?

Kæru samfélagar

Mig langar að taka undir hugleiðingar Ottó Tynes Morgunblaðinu 11. mars sl. þar sem hann líkti orkusölu ríkisstjórnarinnar við hórdóm. Hóran selur sig oftast vegna neyðar en salan á Íslandi til stóriðju getur tæplega flokkast undir neyð. Hóran græðir peninga, en gæti þó ekki stolt sagt börnum sínum frá ævistarfinu. Ég veit að það sjokkerar fólk að líkja þessari orkusölu við hórdóm, en ég myndi samt vilja taka þetta aðeins lengra og spyrja; Ef Ísland er hóra, er landið þá ódýr hóra? Jafnvel hræódýr?? Ef svo er, í hverju liggur þá neyðin?

Tortíming lands og þjóðarsálar á orkufylleríinu

Núverandi ríkisstjórn hefur gert mikið til þess að sannfæra þjóðina um að stóriðjustefna þeirra sé eina og besta lausnin til atvinnuuppbyggingar og hagvaxtar. Að náttúran upp á hálendinu sé hvort sem er ekkert nema möl og sandur og ekki þess virði að vernda. Undir þetta taka því miður nokkuð margir landsmenn eftir allan áróðurinn og gleyma að spyrja sig að því hvaða aðra valkosti ríkisstjórnin hefur lagt stuðning sinn við, til dæmis í formi afsláttarkjara eins og stóriðjan fær.

Það mætti því segja að ríkisstjórninni hafi tekist að skapa einhvers konar nauðung fyrir hóruna sem verður að sætta sig við að þetta sé eina leiðin í lífi hennar. En ekki nóg með það, heldur er sagt að líkami hennar, eða landið, sé hvort sem er ekkert svo dýrmætt nema seldur sé aðgangur að orkuauðlindunum sem veldur tortímingu fagurrar náttúru landsins. Tortímingu sálar og líkama. Ríkisstjórnin spyr sál hórunnar, eða þjóðarsálina, hvort hún vilji virkilega ekki hagvöxt. Mín þjóðarsál svarar því fullum hálsi og spyr á móti hvort líkami hennar og sál sé virkilega ekki meira virði en þetta og hvort tortímingin sé virkilega eina lausn málsins? Hagvöxtur getur vel komið án þess að selja sig á nákvæmlega þennan máta með óafturkræfri eyðileggingu náttúrunnar. Mín þjóðarsál bendir líka á að hjá henni ríki alls engin neyð. Mín þjóðarsál vill góðkynja hagvöxt!

Markaðssetning hórunnar

Iðnaðarráðherra virðist aðhyllast illkynja hagvöxt og vill fórna ómetanlega dýrmætum náttúruperlum okkar til stóriðju. Ekki veit ég hvort ráðherra gerir sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna, en svo virðist sem hún geri sér ekki grein fyrir að við Kárahnjúka eru nú að fara fram mestu umhverfisspjöll af mannavöldum í allri sögu landsins. Ráðherra er nýlega komin heim af viðskiptaráðstefnu í New York þar sem hún kynnti ódýru hóruna fyrir álframleiðendum í Bandaríkjunum. Salan er enn í fullum gangi þó svo þjóðarsálin sé að ranka við sér og vilji nú stoppa frekari eyðileggingu landsins í brj-ál-æðinu. Markaðssetningin gengur út á að selja álrisum orkuna okkar á mjög lágu verði og fórna náttúruperlum og jökulám. Öðruvísi verður ekki skrapað saman þeim 30 terawattstundum sem virðast vera til sölu. Kaupandanum hefur verið gefið í skyn að full afnot á öllum mögulegum stöðum sé í boði ef þeir bara þiggja boðið á þessum ótrúlega spottprís sem hóran fær þó ekki uppgefinn sjálf. Hún fær sjálf bara lítinn hluta gróðans af öllu húllumhæjinu. Hún á bara að vera ánægð með að verða fyrir valinu og njóta þess að níðst sé á líkama hennar og fá fyrir það nokkrar krónur í vasann á meðan kaupandi þjónustunnar nýtur gróðans af þessum frábæra kraftmikla líkama með framleiðslu sinni.

Í bæklingi iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (1995) má lesa hvernig markaðssetning ríkisstjórnarinnar byrjaði á Íslandi sem hræódýrri hóru. Í Lowest energy prices má sjá mynd af láréttu stöplariti sem sýnir fjárfestum hversu ódýrt vinnuaflið er á Íslandi miðað við aðrar þjóðir Evrópu. Einnig kemur þar fram að þjóðin sé vel nærð og sé sjaldan frá vinnu. Þar segir: „Launakostnaður á Íslandi er lágur í samanburði við önnur lönd N-Evrópu og N-Ameríku. Fjarvera er með því lægsta sem gerist meðal iðnvæddra þjóða“. Vel nærðir og duglegir þrælar! - Svona er markaðssetning ríkisstjórnarinnar á íslensku fólki!

 

ódýra hóran

 

Semsagt, Ísland er orðin mjög ódýr hóra. Álrisum frá Bandaríkjunum er boðið hingað í þágu kosningabaráttunnar. Landsbyggðin telur að verið sé að bjarga samfélaginu okkar. Frá hverju er verið að bjarga okkur? Í hverju felst neyðin? Hversu mikið er atvinnuleysið?

Stöðvum stóriðjustefnuna!

Kæru samfélagar. Vinsamlegast metið landið okkar verðmætara en ódýra hóru fyrir risana sem keppast um að borga sem minnst fyrir afnotin. Aldrei hafa fengist skýr svör við því hversu ódýr orkan verður. Ég spurði kynningarfulltrúa Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra nýlega um það á hvaða verði þessi orka ætti að seljast til álrisanna og sögðust þau ekki ætla að upplýsa mig um það þó svo ég benti á að þetta væri nú einu sinni fyrirtæki í eigu þjóðarinnar!

Vinsamlegast finnið ást ykkar og náttúrukærleikann til landsins sem við erfðum. Látið þennan kærleika ná til handa ykkar sem setja krossinn í næstu kosningum, því þann kross þurfum við að bera til langs tíma ef hann fer á rangan stað.

Kærar þakkir fyrir lesninguna,

Andrea Ólafs., Íslandsvinur

                                     Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 29. apríl 2006

******************************************************************************************** 

 

Ísland - ódýra hóran

Í blaðinu í gær velti ég því fyrir mér hvort Ísland væri ódýr hóra. Þar líkti ég landinu við líkama sem er falur til afnota fyrir erlenda álrisa á lágu verði sem ekki er uppgefið. Stuðlað er að illkynja hagvexti sem veldur tortímingu lands. Mér er spurn hvort slíkur gífurlegur og óafturkræfur fórnarkostnaður sem felst í þeirri tortímingu sé virkilega ómaksins virði? Getur verið að stóriðjustefnan sé krabbamein Íslands í hröðum, illkynja vexti?

Kaupandi hórunnar

Álrisinn umtalaði sem ágirnist ódýrar auðlindir hórunnar er hergagnaframleiðandi. Þessu neita þeir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni og segjast bara framleiða parta í þau og einhver annar sjái um að skrúfa þá saman. Þeir gleyma alveg í yfirlýsingu sinni að minnast á að þeir eiga fyrirtækin Cordant Technologies og Howmet Castings sem framleiða hergögn. Ef allir þeir sem framleiða parta í hergögn og líka sá sem skrúfar þá saman firra sig ábyrgð verður niðurstaðan kannski sú að enginn framleiðir hergögn í raun! Hergögn eru kannski bara einhvers konar ótrúleg afleiðing púsluspils sem margir aðilar púsla, en enginn ber ábyrgð á?! 

Álrisinn er þekktur fyrir umhverfisspjöll og hefur hlotið dóma fyrir slíkt. Hann neitar að bæta aðbúnað í verksmiðjum þar sem þess er krafist vegna laga og reglugerða og afneitar ábyrgð þegar kemur til heilsumissis hjá starfsfólki hans.

Lesa má um spillingu álrisans á www.nosmeltertnt.com þar sem íbúar Trinidad velta fyrir sér lygum álrisans og afleiðingum álframleiðslu á náttúruna og heilsu fólks. Robert Kennedy gagnrýnir eyðileggingu og glæpi gegn náttúrunni í þágu kapítalimans á www.wnyc.org/books/34225 og á www.ethicalconsumer.org/magazine/corpwatch/alcoa.htm má lesa um vanvirðingu álrisans fyrir náttúrunni og réttindum verkalýðsins.

Fari það nú alveg í kolað! – myndi gamli bóndinn kannski ef hann veltir fyrir sér hlutunum í stærra samhengi.

Siðferðileg skylda?

Álrisinn Alcoa kemur frá landi þar sem  750-800.000 tonn af áldósum á ári hverju eru ekki endurunnar. Þeim væri hægt að raða í 153 hringi í kringum jörðina. Í skýrslu frá 2002 um þessa óábyrgu hegðun Bandaríkjamanna kemur fram að á einungis einum áratugi (1990-2000) var 7,1 milljóni tonna af áldósum hent. Þessi sóun síðasta áratugar hefði nægt til að framleiða 360.000 nýjar Boeing737 þotur! Vá, þvílík sóun!

Liggur hræsnin hjá þeim sem vilja vernda náttúruperlur Íslands frá tortímingu – eða eru einhverjir aðrir kannski miklu framar í hræsninni? Ber Bandaríkjamönnum kannski að líta aðeins í eiginn barm með þessa hluti áður en þeir fara um heiminn að leggja undir sig ótrúlega fagra og hreina náttúru í þeim tilgangi að „anna eftirspurn“ eftir áli í nýjar dósir?! Því í ósköpunum spyr heimurinn sig ekki að því hvort ekki beri að endurvinna allt álið sem þeir sóa og hvort við hin þurfum á öllum þessum hergögnum og álframleiðslu að halda í raun og veru? Hergagnaframleiðslan, sóunin og tortíming náttúrunnar ber reyndar með sér gífurlegan hagvöxt en sá hagvöxtur hefur í för með sér gífurlegan fórnarkostnað. Fórnarkostnaðinn felst meðal annars í ógrynni af saklausum lífum sem deyja í stríðum sem ekki eiga neinn rétt á sér. Einnig ber að líta til aukningu á gróðurhúsalofttegundum við framleiðslu áls sem hægt væri að draga úr svo um munar og nota einungis 5-10% af orkunni sem færi í endurvinnslu þess samanborið við frumvinnslu. Síðast en ekki síst felst fórnarkostnaðurinn í ómetanlega dýrmætri náttúru. Allt eru þetta gríðarleg verðmæti sem verið er að sóa og tortíma í þágu álframleiðslu og hagvaxtar. Niðurstaða; Hórdómur + stríð + sóun + tortíming lífs og náttúru = Illkynja hagvöxtur + krabbamein heimsins.

Heiminum ber að draga Bandaríkin til ábyrgðar í þessum efnum. Á Íslandi er nú þegar framleitt margfalt það ál sem við nokkurn tíma getum komist yfir að nota og álframleiðsla per íbúa fer langt fram úr öðrum þjóðum heims. Við höfum enga siðferðilega skyldu til að gefa dýrmætar náttúruperlur okkar til ábyrgðaleysis Bandaríkjanna til framleiðslu hergagna og áldósa sem þeir hafa ekki fyrir að endurvinna! Við höfum hins vegar bæði lagalega og siðferðilega skyldu gagnvart restinni af heiminum og hinni umtöluðu Kyoto bókun. Ísland ætti að mínu mati að sjá sóma sinn í að virða þennan kvóta án nokkurrar undanþágu. Svei attan – skamm, skamm! – myndi bóndinn núna segja og undir það tek ég.

Stöðvum útbreiðslu krabbameinsins!

Kæru samfélagar. Mig langar til að biðja ykkur öll um að taka höndum saman til að stöðva útbreiðslu illkynja krabbameinsins. Vinsamlegast hugsið um landið ykkar sem dýrmætan fjársjóð sem ber að varðveita um alla tíð. Börnin okkar erfa landið og við ættum að leyfa þeim að njóta þess og alast upp við virðingu og kærleika til þessa fallega lands. Sýnum Íslandinu okkar þessa virðingu og kærleika í verki setjum kross við náttúruverndarsjónarmið í næstu kosningum. Sá kross skiptir miklu máli, því hann þurfum við að bera til langs tíma ef hann fer á rangan stað.

Þakka lesturinn kæru samfélagar,

Andrea Ólafs, Íslandsvinur

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 30. apríl 2006 

 

************************ 

 

Ákall um vitundarvakningu! 
 

Það er stórmerkilegt að þessi þjóð skuli vera svona treg til að tjá vilja sinn í verki og láta til sín taka.

Eru allir alltof uppteknir við að horfa á sjónvarpið?

Eitt sem við getum gert er að taka höndum saman kæru landar og mótmæla - en það þýðir lítið að gera það fyrir framan sjónvarpið heima eða í kaffistofunni á vinnustaðnum. Við getum saman sýnt ríkisstjórninni að við samþykkjum ekki þessa stóriðjustefnu þierra og að við krefjumst þess að litlum samfélögum verði boðnir kostir sem eru mun betri fyrir þau þegar litið er á dæmið í heild og til framtíðar. Við getum gert það á jákvæðan og uppbyggilegan hátt með því að segja þeim að við viljum fleiri valmöguleika að til að kjósa um.

  •  Við teljum ekki boðlegt að okkur sé stillt upp við vegg og boðið upp á stóriðju og ekkert annað!
  • Við viljum að ríkisstjórn Íslands ýti undir nýsköpun í atvinnulífi og styðji það með fjárframlögum!
  • Við viljum að íslendingar geti stofnað til atvinnureksturs á sömu kjörum og verið er að bjóða Alcoa (í það minnsta á fyrstu árum reksturs); afsláttarkjör á fasteigna- lóða- og stimpilgjöldum, að ekki sé nú talað um skattafslátt á fyrstu árunum. 
  • Við viljum að stóriðjustefnan fari í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu kosningar!

Þar að auki er að mínu mati kominn tími til að kjósa aðra flokka en sjálfstæðis og framsóknarflokkinn sem eru að haga sér eins og landið sé þeirra eigin prívateign og það komi okkur landsmönnum ekkert við hvað þeir geri við það.

Landið okkar er dýrmætt. Það er fjársjóður af óendanlegri náttúrufegurð.

Landið okkar hefur ótrúlega stórbrotið landslag og hingað eru alltaf að streyma fleiri og fleiri ferðamenn. Gerum meira úr því!

Landið okkar er ennþá mjög hreint land en verður það ekki mikið lengur með þessari stóriðjustefnu. Við erum líka með alveg nóg af álframleiðslu nú þegar.

Þar að auki má geta þess að Alcoa-risinn hefur hlotið dóma fyrir umhverfisspjöll, hefur neitað að bæta tækjabúnað í álverum til að minnka mengun, þar sem þess hefur verið krafist, og er auk þess hergagnaframleiðandi. Þetta er ríkisstjórnin alveg áfjáð í að fá hingað til lands. Þeim virðist nokk sama þó svo fyrirtæki sem hér eru fyrir, séu núna að flytja úr landi eða séu að fara á hausinn vegna þessarar stefnu!

 

  

"Þjóðararðurinn af einu tonni af bræddu áli er 28 þúsund krónur (þá er ekki dreginn frá mikill umhverfiskostnaður), arðurinn af einum erlendum ferðamanni er að meðaltali 90 þúsund krónur og þjóðin fær í sinn hlut rúmlega 300 þúsund krónur af einu tonni af þorski; ellefu sinnum meira en fyrir eitt tonn af áli. Segja þessar tölur ekki eitthvað?"
 

Ósk Vilhjálmsdóttir í  Mbl. 8. mars 2006

 
 
Skrifað í mars 2006 

« Fyrri síða

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband