Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Við þurfum úrræði fyrir barnaníðinga og fórnarlömb

Kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi á börnum er skelfilegt og niðurbrjótandi fyrir flestar manneskjur. Gerendur eru í flestum tilfellum karlmenn og hafa oft sjálfir þurft að líða slíkt. Ef á að komast fyrir slík vandamál í samfélaginu, eða í það minnsta minnka þau til muna, þá þarf að hjálpa ofbeldismönnunum sjálfum. Einnig þarf að hjálpa börnunum og fórnarlömbum til að koma í veg fyrir að þau beiti sömu aðferðum sjálf gagnvart öðrum. Ég vil byrja á því að þakka bæði Kompás og Kastljósinu fyrir að fjalla um þessi gríðarlega erfiðu mál. Margir í bloggheimum og víðar eru hneykslaðir á því hvernig það hefur verið gert, en ég ætla mér ekki út í það, mér finnst umræðan nauðsynleg. Slíkt stofnanaofbeldi á sér örugglega stað enn í dag og víðar en á þeim heimilum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Þetta er gríðarstórt vandamál og gerendur eiga sér mörg fórnarlömb. Það verður eftir fremsta megni að finna aðferðir sem geta hjálpað þessum einstaklingum og minnka líkurnar á að þeir geri slíkt aftur. Ég set hér fram eins konar fræðilega samantekt, því þótt ég geti verið bálreið yfir þessu eins og flestir aðrir, þá tel ég ekki að reiðin eða fangelsi eitt og sér leysi vandamálið. Það þarf að koma til hjálpar og finna meðferðarúrræði sem hafa virkað. 

Í meirhluta tilfella eru barnaníðingar menn sem hafa sjálfir orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eða 57% tilfella samkvæmt Burgess (1985). Því hefur verið haldið fram að það sé tenging milli afbrigðilegrar örvunar annars vegar og sögu um kynferðislega og/eða líkamlega misnotkun hins vegar. Flest karlkyns fórnarlömb barnaníðinga verða þó ekki barnaníðingar sjálfir en Salter og samstarfsmenn (2002) komust að því að 12% af 224 karlkyns fórnalömbum urðu níðingar sjálfir seinna á ævinni og þá að meðaltali um 14 ára aldur. Semsagt: í hópi þeirra sem misnota börn eru samkvæmt þessu meirihluti barnaníðinga menn sem hafa verið misnotaðir sjálfir. Það má því spyrja sig hvort það þurfi ekki að vinna með börnin (drengi) sem eru misnotuð til að koma að mestu í veg fyrir að þau verði síðar barnaníðingar. Sem betur fer er þó ekki meirihluti þeirra sem eru misnotaðir sem gerast barnaníðingar - EN þeir sem eru barnaníðingar hafa í meirihluta verið misnotaðir og eiga sér oftast mjög mörg fórnarlömb.

Klám getur líka haft áhrif á svona kenndir í mönnum þar sem klám sýnir oft mjög brenglaðar myndir sem eiga sér enga stoð í veruleikanum, en rannsóknir hafa sýnt að menn eru líklegri til að hafa hvatir til að nauðga eftir að horfa á klám (Russell, 1988,1993).  Rannsóknir síðustu áratuga sýna að samband er milli ofbeldishneigðrar hegðunar og nauðgana á konum og börnum og áhorfs kláms þar sem niðurlæging kvenna, nauðganir og ofbeldi gagnvart konum er viðhaft (Russell, 1988). Í rannsókn Einsiedel (1986) sem greint er frá í Russell (1993) á kynferðis- afbrotamönnum kemur fram að yfir þriðjungur þeirra notaði klám til að undirbúa nauðgunina og 53% þeirra sem nauðguðu börnum. Hinir afbrotamennirnir í þeirri rannsókn viðurkenndu að þeir notuðu það stundum. Og í enn einni rannsókn sem Russell greinir frá kemur fram að 56% nauðgara og 42% barnanauðgara greindu frá því að klám hefði haft áhrif á þá til að fremja brotin. 

Meðferðir virðast skila einhverjum árangri og auknar líkur eru á bata ef einstaklingurinn hefur ekki brotið gegn mörgum börnum, beitti ekki öðru líkamlegu ofbeldi, hefur góð félagleg tengsl, hefur stöðuga vinnu og viðurkennir að brot hans séu brot (Björn Harðarsson og Eygló Guðmundsdóttir, e.d.).   Síðan í lok 9. áratugarins hefur barnahneigð ekki verið talin læknanleg og nú er hún talin ólæknandi (krónísk) röskun. Þess vegna ætti meðferðin að beinast að því að koma í veg fyrir atferlið og ná fram langvarandi breytingum á hegðun barnaníðingsins í samfélaginu. Notast hefur verið við aðferð sem kallast The cognitive and social components of treatment sem er hópmeðferð sem notuð er með lyfjagjöf með testesteron lækkandi lyfjum. Flestar rannsóknir sýna að árangur náist af meðferð og að meirihluti einstaklinga sem gangast undir einhvers konar meðferð brjóti ekki af sér aftur. Oft eru samtalsmeðferðir, einstaklingslega eða í hóp, notaðar með lyfjagjöfum (Fagan, Wise, Schmidt og Berlin, 2002).

Í Bandaríkjunum hafa atvinnurekendur aðgang að gögnum um barnaníðinga til að reyna að koma í veg fyrir það að þeir vinni með börnum. Hugmyndin af því að reyna að koma í veg fyrir það að þetta fólk vinni með börnum er ekki ný. Þar í landi hefur dómari heimild að dæma barnaníðing vanhæfan að vinna með börnum (Cobley, 2003). Welch (1994) skrifaði góða grein um það hvernig það kom til að hann ákvað að láta samfélagið vita þegar bróðir hans, sem var dæmdur barnaníðingur, slapp úr fangelsi. Welch var sjálfur fórnarlamb bróður síns og vildi reyna að fyrirbyggja það að hann gæti níðst á fleiri börnum með því að segja frá sögu sinni.

En á meðan tölur sýna okkur það að mál sem koma til barnaverndarstofu og lögreglu ná sjaldnast svo langt að komi til réttarhalda er ekki víst að börn nái fram neinu réttlæti í kerfinu í sínum málum. Þegar svo mál hljóta þá náð að ná til dómstóla eru dómarnir mjög vægir í flestum tilfellum og hefur mikið verið rætt að það þurfi að endurskoða réttarkerfið og lögin með sérstöku tilliti til sérstæðu þessara brota og því hversu seint þolendur segja frá, þar sem um börn er að ræða. Barnaverndarstofa (2005) hefur lýst yfir áhyggjum af þróun mála í sakfellingum í kynferðisbrotum gegn börnum á síðast liðnum áratug. Á meðan málum hjá þeim hefur tvöfaldast fjölgar sakfellingum ekkert, það er að meðaltali sami fjöldi ár frá ári á þessum áratug frá 1995-2004. Barnaverndarstofa telur að þessar upplýsingar kalli á endurmat á gildandi lagareglum.

Í mörg ár hefur umboðsmaður barna lagt fram tillögur um breytingu og afnám á fyrningu þessara brota vegna sérstöðu þeirra. Ágúst Ólafur Ágústsson o.fl. hafa einnig lagt fram frumvarp til löggjafarþings um afnám fyrningar þegar brotið er gegn börnum fyrir 14 ára aldur. Í stuttu máli sagt fyrnast kynferðisafbrot gegn börnum frá 5 árum til 15 ára og fer lengd fyrningarfrestsins eftir alvarleika brotsins. Í norrænum rétti hefur verið gengið út frá að brot geti verið ófyrnanleg þegar um er ræða alvarlegustu brotin samkvæmt refsimati löggjafans. Í umræddu frumvarpi er talið að þurfi að endurskoða alvarleika þessara brota samkvæmt löggjafanum og að kynferðisafbrot gegn börnum verði sett í flokk alvarlegustu afbrota hvað varðar fyrningu (Ágúst Ólafur Ágústsson o.fl., 2005).

Í ljósi þess hve margir gerendur eiga sér mörg fórnarlömb eins og fram kemur í Gado (e.d.) að einn gerandi getur átt sér yfir hundrað fórnarlömb og brjóta oft af sér eftir afplánun, mætti einnig taka til fyrirmyndar lög sem sett voru í Bandaríkjunum árið 1996. Bill Clinton þáverandi forseti skrifaði undir lög sem kölluð hafa verið „Megan's Law“ sem nefnd eru eftir stúlku sem var nauðgað og síðan myrt af skráðum og dæmdum kynferðisbrotamönnum. Lögin skylda opinbera skráningu persónulegra upplýsinga og búsetu um dæmda kynferðisbrotamenn og einnig að hinu opinbera beri skylda til þess að miðla þeim upplýsingum til samfélagsins um leið og þeir hafa afplánað dóma sína og er hleypt aftur út í samfélagið (Megan’s-Law.net, 2004).

 

Það er einlæg ósk mín og von að samfélag okkar geti orðið bjartara og heilbrigðara. Til þess að uppræta ofbeldi margs konar tel ég að það þurfi virkilega að hjálpa ofbeldismönnum. Einnig þarf að koma þolendum ofbeldis til hjálpar þannig að skaðinn verði sem minnstur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi í æsku sé mun veikara fyrir, semsagt mikið af krónískum veikindum er hægt að rekja til vanlíðunar í æsku. Á þessu eru sumir læknar að reyna að vekja athygli þannig að hægt verði að vinna með andlega vanlíðan og þannig bæta líkamlega heilsu líka. 


Útlitið er svart fyrir jörðina - en þú getur lagt þitt af mörkum

SÞ birtir svarta loftslagsskýrslu 

Ákaflega brýnt að taka strax til aðgerða - en Bush lætur eins og lítill þrjóskur frjálshyggjukrakki  og neitar að setja nokkur lög sem eigi að stuðla að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda...  NEI það má aldrei setja neinar hömlur á hinn frjálsa markað. Frelsi markaðarins er að tröllríða heiminum - en það má ekkert gera?!! Ég hef aldrei heyrt neinn nema verstu frjálshyggjupostula heimsins segja það að frelsinu fylgi engin ábyrgð. Allir virðast átta sig á því að öllu frelsi fylgir ábyrgð - nema þá helst frjálshyggjufólkið. Því fyrr sem frjálshyggjufólkið áttar sig á því að öllu frelsi fylgir ábyrgð, því fyrr verður hægt að gera líft á jörðinni fyrir komandi kynslóðir. En öll berum við ábyrgð. 

Og um leið og skýrslan kemur út þar sem vísindamenn segja óyggjandi sannanir fyrir því að hlýnun jarðar stafar af mengun frá mönnunum, nú þá tekur peningavaldið sig til og vill greiða fyrir gagnrýni á skýrsluna, því ekki mega þeir missa gróðann! 

 

En það góða við internetið og upplýsingaheiminn er að við getum sjálf sem einstaklingar og þjóðir tekið höndum saman og viðurkennt vandann. Horfst í augu við hann, dregið okkur sjálf til ábyrgðar og hafist handa við að gera eitthvað í því að draga úr okkar eigin losun. Við þurfum ekki að vera eins vitlaus og spillt og gráðug og hin mjög svo varasömu stórfyrirtæki út í heimi. Nei við getum svo sannarlega gert eitthvað sjálf.

Endilega kíkið á hversu margar jarðir myndi þurfa ef allir hegðuðu sér eins og þú á http://ecofoot.org/ ... þarna má líka sjá leiðir til að draga úr eigin losun og hegða sér skynsamlega gagnvart jörðinni okkar.

Eins ber að minnast á það að ef við hættum að nota nagladekk, þá getum við dregið til muna úr svifryksmengun. Nagladekkin af, harðkornadekkin á. Eða bara kippa nöglunum úr nagladekkjunum. Það verður mitt næsta verkefni þegar ég fer að nota bílinn minn aftur, þeas. EF ég fer að nota hann aftur... en það hefur reynst mér ágætlega að vera í strætó og á hjóli síðast liðið ár. 

Einnig ber að nefna góða úttekt á landvernd.is þar sem gefin eru ráð til að vera vistvæn í verki 

Nú svo er ekki ónýtt að geta bent á hóp ungmenna sem eru að leggja sitt af mörkum til að draga úr græðgisvæðingu íslensks samfélags og hvetja fólk til að kaupa ekkert nema nauðsynjavörur í tvo mánuði. Flott framtak.


5 mín. rafmagnshvíld fyrir jörðina ...

Sá þetta reyndar aðeins of seint og get því ekki gert þetta fyrr en í dag, 2.feb. en ég er svosem mjög meðvituð um einmitt að spara rafmagnið eins og ég get alltaf, endurvinna eins mikið og mögulega, allt plast, öll batterí, allan pappír, allan málm og allt gler, einn stór svartur ruslapoki inn í skáp fyrir hvern flokk sem fer svo annnað slagið í endurvinnsluna og það er ótrúlegt hvað venjulega ruslafatan er þá lengi að fyllast :) Hvet ykkur öll til að leggja það á ykkur fyrir blessuðu jörðina okkar... en hún er að sligast undan ágangi okkar. 

5 MIN. RAFMAGNSHVÍLD FYRIR JÖRÐINA 1. FEB. 2007.

Tökum þátt í alheimsfjöldahreyfingu jarðarbúa sem vilja leggja sitt  af mörkum til að vekja athygli á gróðurhúsaáhrifum jarðar.http://www.lalliance.fr/


Það er upphaflega hópur ábyrgra borgara í Frakklandi, sem hvetur til  þess að orkunotendur slökkvi á rafmagni, geri hlé á allri orkunotkun  í fimm mínútur Í DAG, í tilefni af útkomu skýrslu loftslagsnefndar.  Skýrsla þessi var gerð opinber í Paris í dag sem er ástæða  dagsetningarinnar 1. febrúar. Skýrsla þessi segir okkur að  gróðurhúsaáhrifin á jörðina eru enn meiri en talið var.
Með þáttöku getum við hvert og eitt gefið merki um samstöðu með  jörðinni og umhverfinu. Tímasetningin er kl. 18:55 – 19:00 að  íslenskum tíma og hvet ég sem flesta til að taka þátt. Þannig gefst  okkur öllum tækifæri til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og  þrýsta á stjórnvöld, stjórnmálamenn og fjölmiðla, svo að sem flestir geri sér grein fyrir ábyrgð sinni.

 

Stöndum með jörðinni og sýnum það í verki
 
Jörðin er sameign allra jarðarbúa
 
Við berum ábyrgð 

« Fyrri síða

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband