Leita í fréttum mbl.is

Kærleikur í félagshyggju

Undanfarið hef ég velt því mikið fyrir mér hvort fólk á hægri kantinum fatti ekki umhyggjunna sem fylgir félagshyggju og því að byggja upp gott velferðarkerfi til að tryggja að allir hafi jafnan rétt og jöfn tækifæri og að enginn búi við fátækt. Ég hef nefnilega orðið aðeins vör við það að hinn nafnlausi leiðari Mbl ásamt mörgum sjálfstæðismönnum tala niðrandi um félagshyggju eins og hún sé af illu sprottin og segja hana gamaldags. Hvað er gamaldags við félagshyggju? Er heimurinn núna í alvörunni orðinn svo firrtur og mikið breyttur að raunveruleg gildi eins og náungakærleikur, umhyggja og velferð fyrir alla séu orðin úreld? Hvernig má það eiginlega vera? Eru þetta ekki æðstu gildi lífsins á jörðinni? Ef allt fólk og öll fyrirtæki bæru umhyggju fyrir fólki í kringum sig þá gætum við lifað í mun betri heimi þar sem nútímaþrælahald og ofbeldi þekktist ekki. 

Nútíma félagshyggja á akkúrat ekkert skylt við kommúnisma austantjaldsins. Fasismi er til bæði vinstra og hægra megin í pólitík og félagshyggja og vilji til að byggja upp gott velferðarkerfi, sem kemur sér vel fyrir allt samfélagið í heild, á akkúrat ekkert skilið við vinstri-fasisma.  

Nútíma félagshyggja byggir á því að vilja tryggja umhyggju, velferð, jöfn tækifæri og jafnan rétt fólksins innan samfélagsins. Er eitthvað gamaldags eða neikvætt við það? Nei aldeilis ekki. Fremstu lönd heims byggja sitt samfélag á nútíma félagshyggju, það eru Norðurlöndin. Öll Norðurlöndin hafa byggt upp mjög góð samfélög þar sem fólk er yfir höfuð ánægt með að borga skattana sína því það hefur vissu fyrir því að það fær fyrir það góða þjónustu kerfisins á öllum sviðum. Það var byggt upp af áratuga starfi félagshyggjufólks í stjórnum þeirra landa. Á Norðurlöndunum eru bestu mennta- og heilbrigðiskerfin sem tryggja jafnan aðgang allra án gjaldtöku. Eitt af fáum málum sem misfórust á þessum löndum voru innflytjendamálin, þar sem löndin voru einfaldlega ekki nógu vel undirbúin undir að þangað streymdi fólk alls staðar að í stórum hópum. Þar gerðu þeir mistök og hafa nú goldið fyrir það í Svíþjóð og Danmörku þar sem hægri-flokkar komust að í stjórn vegna þessara mála. Að öðru leyti hafa félagshyggjuflokkar Norðurlandanna staðið sig ofboðslega vel í uppbyggingu samfélaga sem eru með þeim fremstu í heimi hvað varðar velferð fólksins. 

Það að tryggja öllu borgurum landsins jöfn tækifæri til menntunar og koma í veg fyrir mismunum í grunnþjónustu samfélagsins er einfaldlega ávísun á réttlátara samfélag fyrir okkur öll. Íslendingar þurfa að fara að passa sig á því að horfa ekki of mikið til Bandaríkjanna hinna "frjálsu" þar sem fólki er mismunað alveg ofboðslega, bæði hvað varðar menntun og heilbrigði. Þar eru það hinir ríku sem hafa forskot og frekari tækifæri innan þjónustu á þessum sviðum en hinir fátæku hafa ekki færi á að koma sér út úr fátæktinni, því þeir hafa ekki efni á að mennta sig.

Að sjálfsögðu er það betra fyrir okkur öll að samfélagið byggi á traustum grunni sem við öll getum leitað til þegar við þurfum á því að halda. Gott menntakerfi sem veitir öllum jafnan aðgang, án tillits til fjárhagslegrar stöðu, tryggir okkur grunn sem getur ekki annað en vaxið og dafnað. Það að fólk fái síðan tækifæri til athafna á vinnumarkaði, stofni fyrirtæki osfr. á ekki að þýða að það geti misnotað sér annað fólk til að búa til peninga fyrir sig. Þess vegna verður að tryggja réttindi hins vinnandi fólks og hafa lög um lágmarkslaun. Lágmarkslaunin mega heldur ekki vera svo lág að þau nái ekki utan um lágmarksframfærslu fólks. Á Íslandi í dag ætti ekki ein einasta manneskja að þurfa að búa við fátækt. Það þarf að breyta lögum og hækka lágmarkslaunin þannig að tryggt sé að enginn þurfi að lifa nálægt fátæktarmörkum. 

Ræktum umhyggju og náungakærleika, tryggjum jöfn tækifæri og jafnan rétt fólksins í almennilegu velferðarkerfi - tryggjum nútíma félagshyggju meirihluta á Alþingi í kosningum í vor.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Andrea,

Takk fyrir að senda mér slóðina. Ég hlakka til að fylgjast með þér og vona að þú fáir allan þann stuðning sem þú átt svo sannarlega skilinn.

Bestu kveðjur,

Silja

Silja Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2006 kl. 19:25

2 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Sæl Andrea,

Skrif þín þykja mér skemmtileg þó svo ég sé þeim ekki sammála en mig langar til að segja nokkur orð :)


Það er einfaldlega þannig að við þau sem erum á hægri kantinum höfum einmitt áttað okkur á því að í félagshyggju felst enginn kærleikur þegar allt kemur til alls.

Við fyrstu sín virðist félagshyggjan vera besta mál en að halda því fram til lengdar er hins vegar hin mesta skammsýni. Í félagshyggju felst jöfnuður, þ.e. að taka pening frá þeim efnameiri og færa þeim efnaminni. Í algjörum jöfnuði hafa allir sömu laun ótengt vinnuframlagi.

Þetta hefur í för með sér þær afleiðingar að atorka einstaklingana er gjörsamlega kæfð. Ríkið ráðstafar fjármunum borgara sinna. Frelsi einstaklingsins verður að engu. Öllum er steypt í sama mótið. Þetta er fasismi félagshyggjunnar.

Nú þegar vinna íslendingar næstum til hádegis á hverjum degi launalaust vegna skatta. Í kringum ellefu fer maður svo loks að fá borgað. Skattsvikurum er svo hótað að vera stungið í steininn. Hvað er þetta annað en þrældómur?

Það hafa allir jöfn tækifæri til menntunar hér á landi. Menntun er fjárfesting og við núverandi lánakerfi í Háskólum er öllum tryggður þessi aðgangur. Reynslan hefur sýnt sig að þegar nám er endurgjaldslaust bera nemendurnir enga virðingu fyrir því. Það þarf ekki annað en að benda á brottfallshlutfall nemenda í HÍ og annarra skóla sem innheimta skólagjöld.

Sömu sögu er að segja af heilbrigðiskerfinu. Þegar slík þjónusta er endurgjaldslaus er borin minni virðing fyrir henni. Fólk er gjarnt á að fara oftar af tilefnislausu. Það hefur sýnt sig að aukin fjárframlög til heilbrigðismála hefur ekki gert neitt annað en að lengja biðraðir.

Félagshyggjan sóar pening til þeirra sem ekki þurfa á honum að halda. Má þar nefna barnabætur til milljónamæringa og byggðarstyrkir til námsmanna sem e.t.v. eru börn kvótakónga. Velferðarkerfið á að vera einfalt og á að gera vel við þá sem virkilega þurfa á því að halda.

Hvað varðar norðurlöndin þá eru þegnar þeirra landa einfaldlega orðnir langþreyttir á langvarandi atvinnuleysi. Félagshyuggjuöflin eru nefninlega svo gjörn á að setja hagkerfi á hvolf. Ofurskattheimta félagshyggjunnar hrekur fyrirtæki úr landi sem annars myndu skapa þegnum vinnu.

Forsendur félagshyggjunar falla því um sjálft sig því hún krefst þess að borgararnir vinni og skili sköttum enda er slíkt "velferðarkerfi" afskaplega dýrt í rekstri. Vinna og frumkvæði einstaklinganna er á sama tíma kæft og endar þetta því í flestum tilfellum með efnahagslegu hruni. Reynslan sýnir okkur þetta aftur og aftur og aftur. Það að kalla þessa stefnu nýjum nöfnum er blekkingin ein.

Ólafur Örn Nielsen, 22.11.2006 kl. 19:31

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Það hefur lengi vel verið þekkt staðreynd að hægri frjálshyggjan er ekki á sömu skoðun varðandi ábyrgð samfélagsins gagnvart öllum einstaklingum þar innan eins og vinstri félagshyggjan. Hins vegar eru nú sem betur fer sumir þroskaðir hægri menn sem færa sig nokkuð nálægt miðjunni því þeir ná að sjá að nauðsynlegri grunnþjónustu samfélagsins er bara ekki hægt að sleppa og þeim þykir sumum sjálfsagt að veita hana. Þið hægri menn eruð því mjög misjafnir og misjafnlega langt til hægri. 

Það sem mér virðist stundum á hægri mönnum er að þeir virðast sumir hverjir ekki skilja það að frelsi fylgir ábyrgð. Frelsi til athafna og framkvæmda er ekki það sama og frelsi til að misnota sér annað fólk og vanvirða mannréttindi þeirra sem hjá þeim munu vinna. Þessari vanhugsun gagnvart ábyrgðinni sem frelsi fylgir hef ég einnig tekið glögglega eftir hjá hægri mönnum sem tala gegn því að banna reykingar á opinberum stöðum og inn á veitingastöðum til dæmis. Þeir virðast ekki hafa skilning á því að þegar reykingafólk reykir innanhúss og er innan um annað fólk sem ekki reykir, þá er það að vanvirða rétt hinna til hreins andrúmslofts. Það er enginn að banna valfrelsi einstaklingsins til að reykja og menga sjálfan sig, en slíkt val á að vera á ábyrgð einstaklingsins sem það velur og honum ber jafnframt að sýna öðru fólki tillit og ekki velja fyrir það að þeirra loft verði líka mengað.

Þetta nefni ég nú bara sem dæmi. 

Þú segir "Reynslan hefur sýnt sig að þegar nám er endurgjaldslaust bera nemendurnir enga virðingu fyrir því. Það þarf ekki annað en að benda á brottfallshlutfall nemenda í HÍ og annarra skóla sem innheimta skólagjöld." 

Þetta er ein mest órökstuddasta fullyrðing sem ég hef séð lengi... en slíkar fullyrðingar á maður þó til að sjá frá hægri mönnum án nokkurs rökstuðnings. Ekki veit ég til þess að nokkur einasta rannsókn hafi verið gerð á brottfalli nemenda HÍ. Vel má vera að það sé meira en frá öðrum háskólum hér á landi en það eru einfaldlega engar sönnur á því að það sé vegna þess að námið sé endurgjaldslaust (enda er það það ekki því skólaárið kostar um 45.000 kr). Ég myndi vilja benda þér á að kynna þér hvort brottfall fríu háskólanna í Evrópu sé eins mikið og hvort aðrir þættir gætu legið til grundvallar brottfallinu hér á landi, eins og til dæmis of stórar einingar eða léleg kennsla eða eitthvað slíkt. Við vitum einfaldlega ekki nægilega mikið um brottfall frá námi í HÍ til þess að vita hvaða ástæður liggja þar að baki og þykir mér mikil einfeldni af þér að fullyrða um slíkt. 

Vissulega má gera bætur á velferðarkerfinu þannig að það sé skilvirkara og að fólk sé t.d. ekki að fara til læknis að tilefnislausu. Þannig mætti bæta úr símaþjónustu heilsugæslunnar í tilfellum sem ekki eru alvarleg og ekki krefjast læknisheimsókna. 

Varðandi barnabætur til milljónamæringa, þá þekkist slíkt ekki hér á landi, því barnabætur eru tekjutengdar, þannig að þeim er ætlað að hjálpa þeim sem minna hafa á milli handanna. Það eru hins vegar sumir óprúttnir einstaklingar sem misnota kerfið og t.d. skrá sig ekki í sambúð þótt þeir búi saman, bara af því þeir telja að þeir eigi "rétt á" barnabótum. Ég get vel tekið undir það með þér að slíkt finnst mér mjög ámælisvert og ég myndi t.d. sjálf gjarnan vilja að ég gæti tilkynnt slíkt misferli einstaklinga sem misnota sér kerfið á þennan hátt.  

þú telur að frumkvæði og atorka einstaklingsins sé kæft með félagshyggju og finnst mér mikil einfeldni að halda slíku fram. Einstklingar eru nefnilega ekki eingöngu drifnir áfram í krafti peningahyggjunnar eins og þú vilt meina, heldur hefur fólk þörf til að rannsaka, framkvæma og stofna fyrirtæki af öðrum hvötum líka. Hvergi á Norðurlöndum nútíma félagshyggju er frelsi einstaklingsins til athafna kæft eða úr því dregið. Þvert á móti hafa þau lönd verið mjög framarlega á athafnasviðinu og í rannsóknum margs konar. Það sem hins vegar er gert til að tryggja réttindi hins vinnandi fólks er að það eru sétt ýmis lög og reglur um skyldur vinnuveitenda gagnvart launþegum sínum þannig að þeir brjóti ekki á þeim eða að nútíma þrælahald geti þrifist. Sem betur fer eru nú mörg fyrirtæki hér á Norðurlöndum og víðar í hinum vestræna heimi sem gera sér grein fyrir að skynsamlegast og réttast er að bera virðingu fyrir fólkinu sem vinnur fyrir þau og finnst ekki annað en eðlilegt að starfsfólkið fái hlutdeild í velgengni fyrirtækisins. Aftur á móti eru mörg fyrirtæki sem eru orðin risavaxin að nýta sér vinnuafl fátækari þjóða og misnota það vinnuafl. Nútíma þrælahald þekkist víða í vanþróaðri löndum og verð ég að segja að ég tel það algerlega óásættanlegt að stórfyrirtæki geti misnotað fólk á þann hátt sem raun ber vitni og borgað þeim nánast engin laun. En alþjóðasamfélagið mun ekki líða slíkt til langframa og í framtíðinni sé ég fyrir mér að komist verði fyrir slíkt. 

Að sjálfsögðu eiga fyrirtæki og einstaklingar að greiða skatta og það vill nú svo til að fyrir nokkrum árum var gerð könnun á viðhorfi almennings til skatta í þeim löndum sem voru hvað skattahæst og kom þar í ljós að Norðmenn, sem þá greiddu hæstu skatta í heimi, voru ánægðastir af öllum. Þeim þótti sjálfsagt að greiða skatta og töldu sig fá mjög góða þjónustu frá ríkinu.

Það er því ekki ofurskattheimta sem rekur fyrirtæki úr landi, það er frekar skert siðferði fyrirtækjanna sem gerir það að verkum að þau fara til annarra landa þar sem ekki eru sömu kröfur um meðferð á fólkinu sem fyrir þau vinna.  

Ég bendi þér á að fara dýpra ofan í kjölinn á ábyrgð og náungakærleika og skoða hvort markaðurinn hinn "frjálsi" er að virða fólkið sem eru íbúar jarðar.

Ég bendi þér líka á skrif Kristjáns Hreinsonar hér

http://kristjanh.blog.is/blog/kristjanh/

Mér þykir pínulítið fyndið að þú skulir ætla félagshyggjunni efnahagslegt hrun, og vil ég í því sambandi benda þér á að Norðurlöndin eru með ríkustu og fremstu löndum heims. Mér þætti því vænt um að þú gerðir grein fyrir reynslunni sem þú segir sýna okkur þetta aftur og aftur ;)

Andrea J. Ólafsdóttir, 24.11.2006 kl. 14:19

4 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Ninni: Þetta er ekkert nema útúrsnúningur, ég sagði: ,,Velferðarkerfið á að vera einfalt og á að gera vel við þá sem virkilega þurfa á því að halda." Er eitthvað viðbjóðslegt við þetta eins og þú segir?

Sæl Andrea,
Þetta voru þín orð um fullyrðingu mína um brottfall nemenda þegar tillit er tekið til skólagjalda:
,,Þetta er ein mest órökstuddasta fullyrðing sem ég hef séð lengi... en slíkar fullyrðingar á maður þó til að sjá frá hægri mönnum án nokkurs rökstuðnings.”

Í skýrslu Hagstofunnar um Brottfall nemenda af háskólastigi 2002-2003 segir:
Af þeim átta háskólum sem bjóða upp á nám til fyrstu háskólagráðu eru þrír brottfall er nokkru minna í einkaskólum  einkaskólar; Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands og Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Þegar litið á nemendur sem vinna að fyrstu háskólagráðu eftir rekstrarformi kemur í ljós að brottfall er nokkru minna í einkaskólunum en í opinberu skólunum og munar þar um þremur prósentustigum (tafla 7). Brottfallið er 10,6% í einkaskólum en 13,7% í opinberum skólum.

Skýrsluna er að finna á slóðinni: http://www.hagstofa.is/?PageID=421&itemid=712a2dc5-6be0-4d82-a1c8-a815bc3ebb0a

Þar hefuru það og krefst ég þess að þú takir orð þín til baka.

Þú véfengir mínar fullyrðingar um brottfall úr skólum sem ég hef nú sannað með því að benda á rannsókn hagstofunnar. Ég geri þá ráð fyrir að ég megi biðja þig um niðurstöður þessarar könnunar sem gerð var í Noregi um ánægju fólksins á skattheimtu. Tæplega tel ég að finna megi þá rannsókn í raunveruleikanum.

Ég veit mæta vel að frelsi fylgir ábyrgð, enda var það m.a. eitt kosningaslagorða ungra sjálfstæðismanna í sveitastjórnarkosningunum í vor. Það vill einmitt svo vel til að Hægri menn eru meðvitaðir um ábyrgð eigin stefnu, annað en vinstri menn!

Hvað varðar reykingabannið þá skil ég ekki alveg hvert þú ert að fara. Ef ég á húsnæði og sel þar mat. Hvernig er ég að vanvirða mannréttindi starfsfólks míns sem vinnur hjá mér af fúsum og frjálsum vilja með því að leyfa viðskiptavinum mínum að reykja í mínu eigin húsnæði? Það er einnig þitt val hvort þú kemur inn á veitingahúsið mitt, enginn neyðir þig til þess! Þú mátt reykja heima hjá þér og halda þar partý, ertu að vanvirða mannréttindi gesta þinna ef þú reykir inn á þínu heimili þar sem gestirnir komu inn af fúsum og frjálsum vilja?

Ég er ánægður að við erum sammála um heilbrigð og velferðarkerfið að því leyti að þar megi hagræða.
Þú segir einnig að hærri skattar letji ekki einstaklinga og fæli ekki fyrirtæki úr landi. Það er hins vegar hagfræðilega sannað að fyrirtæki skili hlutfallslega meiri hagnaði þegar skattar eru lágir. Má þar benda á tillögur fjármálaráðherra. http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1233961

Það er vitamál að lönd sem leggja lága skatta á fyrirtæki eru eftirsótt.
Þú talar einnig um risafyrirtæki sem byggja verksmiðjur í löndum þar sem fólk hefur það mjög slæmt.   Þú segir í þessum efnum að þetta sé nútíma þrælahald. Aðra eins vitleysu hef ég ekki heyrt lengi. Það besta sem hægt er að gera fyrir þetta fólk er að veita því tækifæri á að vinna. Fólkið hefur jafnvel engan annan kost sér og fjölskyldu sinni til framfærslu. Auk þess er það fólkið sem ákveður að mæta þar til vinnu svo engan er þrældóminn þar að finna.

Að ætla félagshyggjunni efnahagslegt hrun var e.t.v. full hart til orða tekið af mér. En fyrst þú nefnir norðurlöndin sem dæmi þá langar mig til að benda á Svíþjóð. Land þar sem fólkið er að draga í land þá velferðarhugsjón sem þið félagshyggjumenn hampið þeim svo oft fyrir. Nú hafa svíar kosið sér hægristjórn. Fólkið var einfaldlega orðið þreytt á langvarandi atvinnuleysi.

Ólafur Örn Nielsen, 24.11.2006 kl. 17:00

5 identicon

Kæri Ólafur Örn

Ég var ekki að rengja orð þín um brottfallið hjá HÍ... ég var að benda þér á að engar kannanir virðast liggja fyrir ástæðunni þar að baki, en þú fullyrðir að það sé vegna þess að þar eru ekki tekin skólagjöld. Ég er að benda þér á að þar geta margir aðrir þættir legið að baki. Það er einfaldlega ekki vitað. Munurinn á brottfallinu úr opinberum og einkaskólum er þar að auki mjög lítill.  

Lestu bókina hans Nóbelsverðlaunahafans og hagfræðingsins Stiglitz um globalisation. Þar talar hann um hætturnar og þær slæmu afleiðingar sem hún hefur haft á hina fátæku og vanvirðingu mannréttinda. Maður á nefnilega ekki bara að hugsa dæmið þannig að hinir fátæku "fá að vinna" heldur ber okkur líka að virða mannréttindi þeirra og ekki koma fram við það fólk eins og þræla. Það gera mörg stórfyrirtæki í dag og slíkt kalla ég nútímaþrælahald.

Já Svíar kusu sér naumlega hægri stjórn og eiga eftir að horfast í augu við afleiðingarnar. Það er ekki komin reynsla á það ennþá í Svíþjóð. Danir kusu sér hægri stjórn mest megnis vegna innflytjendamála að ég held og síðan er allt orðið brjálað yfir því sem hægri stjórnin er að gera við velferðarkerfið og sjaldan verið eins stór mótmæli, þannig að sennilega munu þeir kjósa sósíal-demókratíið næst aftur í stjórn til að koma í veg fyrir frekari skerðingar í velferðarkerfinu.  

Andrea (IP-tala skráð) 24.11.2006 kl. 18:46

6 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Kæri Ólafur Örn

Ég var ekki að rengja orð þín um brottfallið hjá HÍ... ég var að benda þér á að engar kannanir virðast liggja fyrir ástæðunni þar að baki, en þú fullyrðir að það sé vegna þess að þar eru ekki tekin skólagjöld. Ég er að benda þér á að þar geta margir aðrir þættir legið að baki. Það er einfaldlega ekki vitað. Munurinn á brottfallinu úr opinberum og einkaskólum er þar að auki mjög lítill.  

Lestu bókina hans Nóbelsverðlaunahafans og hagfræðingsins Stiglitz um globalisation. Þar talar hann um hætturnar og þær slæmu afleiðingar sem hún hefur haft á hina fátæku og vanvirðingu mannréttinda. Maður á nefnilega ekki bara að hugsa dæmið þannig að hinir fátæku "fá að vinna" heldur ber okkur líka að virða mannréttindi þeirra og ekki koma fram við það fólk eins og þræla. Það gera mörg stórfyrirtæki í dag og slíkt kalla ég nútímaþrælahald.

Já Svíar kusu sér naumlega hægri stjórn og eiga eftir að horfast í augu við afleiðingarnar. Það er ekki komin reynsla á það ennþá í Svíþjóð. Danir kusu sér hægri stjórn mest megnis vegna innflytjendamála að ég held og síðan er allt orðið brjálað yfir því sem hægri stjórnin er að gera við velferðarkerfið og sjaldan verið eins stór mótmæli, þannig að sennilega munu þeir kjósa sósíal-demókratíið næst aftur í stjórn til að koma í veg fyrir frekari skerðingar í velferðarkerfinu.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 24.11.2006 kl. 18:47

7 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Sæl,

Þetta er einfaldlega samanburður milli opinbera skóla og einkaskóla. Þú segir 3% vera lítið, en tæplega 10.000 manna skóla eins og Háskóla Íslands eru það um 300 nemendur. Það þykir mér ekki mjög lítið. Hvort rekstrarformið skildi vera betra?

Enn kallaru  þetta eina mest órökstuddustu fullyrðingu sem þú hefur séð lengi og að slíkar fullyrðingar komi gjarnan frá hægri mönnum án rökstuðnings.

Hvar er skoðanakönnunin sem framkvæmd var í Noregi sem þú nefnir um að fólk sé ánægt með að vera skattlagt?

Lestu bækurnar hans Milton Friedman. Hann er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Það er sannur rétttrúnaður. Ég skal lána þér ,,There's no such thing as free lunch". Hún er árituð af meistaranum.

Ólafur Örn Nielsen, 24.11.2006 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband