12.1.2007 | 17:25
Matvælaiðnaðurinn kaupir vísindamenn og niðurstöður sér í hag
Að mínu mati er matvælaiðnaðurinn eitt af þeim fyrirbærum sem einna mest getur skaðað heilsu okkar mannanna og ber að varast að trúa auglýsingum á borð við "mjólk er góð" eða að halda að gos- og ávaxtadrykkir sem innihalda aspartame séu skaðlausir. Alls kyns aukefni í matvælum og vinnsla þeirra getur nefnilega verið mjög varhugaverð og mjög skaðleg heilsu okkar.
Á ruv.is má sjá frétt um hvernig stórfyrirtæki og matvælaiðnaðurinn getur greinilega keypt sér hagstæðar rannsóknarniðurstöður vísindamanna:
Sérfræðingar Barnasjúkrahúss Boston- og Harvardháskóla biðja almenning gjalda varhuga við niðurstöðum rannsókna á hollustu ýmissa matvæla, jafnvel þótt þær séu unnar af vísindamönnum. Oft og iðulega sé mælt með vörunni hafi framleiðandi hennar borið kostnað af rannsókninni. Frá þessu er sagt í veftímaritinu PLoS Medicine. Sérfræðingarnir beindu sjónum sínum aðallega að rannsóknum á hollustu drykkja; mjólkur, ávaxtasafa og gosdrykkja.
Þrennt olli valinu. Börn og ungmenni neyta þessara drykkja í miklu mæli, framleiðendur þeirra græða á tá og fingri og hagstæðar rannsóknarniðurstöður auka ágóðann enn meira. Sérfræðingarnir fóru ofaní saumana á 111 rannsóknum frá árunum 1999-2003. Niðurstaðan er sláandi. Greiði framleiðandi fyrir rannsókn eru fjórum til átta sinnum meiri líkur á því að niðurstaðan sé honum að skapi. Af 22 rannsóknum sem framleiðendur drykkjarvara báru kostnað af leiddu aðeins 3 til neikvæðrar niðurstöðu. 13,6 prósent.
Ef heilbrigðisyfirvöld og sjálfstæðar stofnanir fengu hins vegar vísindamenn til rannsókna var niðurstaðan oft allt önnur. Þá var liðlega þriðjungur niðurstaðna óhagstæður vöruframleiðandanum, eða 38 prósent. Martijn Katan, prófessor í næringarfræði við Vrije háskólann í Amsterdam, segir þetta vísbendingu um að sumir matvælaframleiðendur villi um fyrir almenningi með vafasömum auglýsingum um ágæti vöru sinnar, auglýsingum sem hafi á sér vísindalegt yfirbragð.
Fengið af www.ruv.is
Í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári sagði ég aðeins frá athugun minni á vísindarannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á sætuefninu aspartame. Hægt er að finna niðurstöður rannsókna sem sýna mikil og heilsuskaðleg áhrif sætuefnisins, en einnig er hægt að finna fjölda rannsókna sem segja það skaðlaust. Ef hins vegar er skoðað hvaða rannsóknir segja það skaðlaust, kemur í ljós að þær eru ekki óháðar, heldur studdar af drykkjar- og matvælaframleiðendum, sem geta engan veginn talist óháðir aðilar. Hinar óháðu rannsóknir sýna okkur hins vegar að ég tel sannleika málsins, að sætuefnið er verulega varhugavert og í það minnsta að það þurfi virkilega að rannsaka það frekar og skoða óhefta og alltof útbreidda notkun þess. Sérstaklega í ljósi þess að til eru önnur sætuefni sem talin eru algerlega skaðlaus, eins og til dæmis xylitol.
Úr viðtali við mig í mbl:
Skiptar skoðanir eru um aspartame en það finnst í yfir 6000 vörutegundum og er annað mest notaða sætuefni í heimi segir á heimasíðunni www.aspartame.worldwidewarning.net. Það finnst meðal annars í flestum sykurskertum drykkjum og matvörum, eftirréttum, jógúrti, vítamíni (m.a. Latabæjar- vítamínum), morgunkorni, sælgæti og tyggjói. Um þrjátíu ár eru síðan sætuefnið var samþykkt af lyfjaeftirlitinu í Bandaríkjunum (FDA).
Andrea Ólafsdóttir er nemi í uppeldis-og menntunarfræði og áhuga- manneskja um heilsu og áunna sjúkdóma vegna aukefna í matvælum. Þegar ég sá heimildamyndina "Sweet Misery A poisoned world" staðfesti það áður fenginn grun minn um skaðsemi aspartame og ég fór að leita frekari upplýsinga um efnið.
Í myndinni eru læknar og vísindamenn að vekja athygli á því hversu illa var staðið að því ferli að samþykkja aspartame á sínum tíma. Þeir segja að allar rannsóknir sem sýndu fram á neikvæða þætti þess hafi verið þaggaðar niður. Auðvitað er það kannski bara vísbending um að frekari rannsókna sé þörf, en ætti þó að vera ástæða fyrir hinn almenna neytanda að leita sér frekari upplýsinga, en ekki neyta efnisins grunlaus án þess að kynna sér málið og spyrja spurninga. Eituráhrifin af aspartame koma m.a fram í skapsveiflum, jafnvægistruflunum, svima, sjón- og svefntruflunum, og útbrotum. Andrea segir svona eituráhrif vera nóg fyrir sig sjálfa til að varast vörur sem innihalda þetta efni. Líkaminn losar sig ekki við efnið, það safnast upp og getur valdið skaða löngu seinna, eða eftir áralanga neyslu."
Í myndinni kom m.a fram að hægt var að rekja krabbamein til mikillar notkunar á vörum sem innihalda aspartame. Vísindamenn hafa ennþá efasemdir um efnið þrátt fyrir samþykki lyfjaeftirlits Bandaríkjanna og árið 2005 gerði ítali rannsókn á 1800 rottum (http://www.medscape.com/viewarticle/509619?src=search ), hann gaf helmingi þeirra mismunandi stóra skammta af aspartame og hinn helmingurinn fékk ekki neitt. 62% af þeim rottum sem fengu aspartame greindust með (hvítblæði og) krabbamein en í hinum hópnum var engin rotta sem fékk krabbamein. Þar að auki voru nokkrar rottur sem fengu heilaæxli, en engin fékk það í viðmiðunarhópnum. Að mínu mati er mjög stór ástæða fyrir neytendur að spyrja sig spurninga þegar svo virðist sem um 90-100% óháðra rannsóknaraðila finna eitthvað að efninu, á meðan þeir sem studdir eru af stórfyrirtækjum sem nota sjálfir efnið eða hafa einhverra viðskiptahagsmuna að gæta segja það skaðlaust. Við það set ég í það minnsta mjög stórt spurningamerki.
Í myndinni er verið að varpa ljósi á að með samþykkt aspartames hafi átt sér stað ferli sem lét viðskiptahagsmuni og peninga ganga fyrir allt annað og er sagt frá því að illa hafi verið staðið að rannsóknunum á þeim tíma og að niðurstöðum sem sýndu fram á varasamar afleiðingar hafi verið leynt.
Andrea segir fólk auðvitað getað skaðað heilsu sína á ýmsan hátt en að það sé í lagi að vekja athygli fólks á öllu því sem er talið skaðlegt þegar það hefur verið rannsakað af óháðum aðilum og þeir sem vilja geta þá passað sig á því. Þannig er neytandinn meðvitaðri um val sitt, rétt eins og þegar fólk velur að reykja þó það viti að það geti valdið krabbameini og dauða. Ef samþykkt lyfjaeftirlitsins er á þeim forsendum að fólk geti orðið mjög veikt og jafnvel fengið krabbamein af neyslu efnisins er rétt að geta þess einhvers staðar á umbúðum eins og nú er gert með sígaretturnar.
Ég spyr mig líka af hverju heilsufar fólks hefur versnað og af hverju geðraskanir eins og þunglyndi, ofvirkni og líka alls kyns krabbamein er orðið svo miklu algengara en áður? Ég hef lesið mig til um rannsóknir sem benda til þess að slík veikindi geti verið áunnið ástand vegna breyttra matvæla og ónógrar næringar og finnst mér ástæða til að rannsaka þá hlið miklu meira í stað þess að einblína eingöngu að finna ný og ný lyf við slíkum veikindum. Þegar svo mikið af vísbendingum eru til um það að fólk geti bætt heilsu sína og losnað við ýmsa kvilla með því að breyta mataræði sínu, er þá ekki vænlegt að fara þá leið í stað þess að dæla hundruðum milljóna í lyfjaiðnaðinn? Ef ég mætti velja myndi ég setja meiri pening í rannsóknir á því sviði næringarfræði og athuga hvort ekki er hægt að draga úr lyfjanotkun með breyttu mataræði.
Að mínu mati er aukning sjúkdóma ekki aðeins vegna þess að við séum duglegri að greina þá, heldur líka vegna þess að við erum að borða eitthvað vitlaust, ekki að fá nóg af næringarefnum og borða of mikið af skaðlegu eitri í unnum matvælum.
Nýjustu færslur
- LOKSINS LOKSINS!
- Taktu afstöðu um afnám verðtryggingar - mættu á Austurvöll
- Jólin nálgast - heimilin blæða - fólkið mótmælir
- Heimilin eru ekki afgangsstærð
- Ljósberar um alla jörð takk
- Hversu langt á ruglið að ganga!?
- Breytum kerfinu saman- afnemum verðtryggingu!
- Já ég afþakka lengingu í hengingarsnörunni - takk fyrir
- Bréf til fréttastofu RÚV vegna rangrar þýðingar í viðtali við...
- Hagsmunasamtök heimilanna er málsvari hins þögla meirihluta
Eldri færslur
Mitt HTML
Tenglar
ÁHUGAVERT
Bloggvinir
- malacai
- almaogfreyja
- almal
- aring
- ansiva
- gammon
- bergruniris
- bergthora
- birgitta
- bleikaeldingin
- bibb
- rustikus
- dofri
- eirikurbergmann
- elinarnar
- ellasprella
- eydis
- eyvi
- feministi
- garun
- gilsneggerz
- gunnlaugurstefan
- vglilja
- gudjonbergmann
- kerchner
- mosi
- ulfljotsvatn
- gummisteingrims
- halla-ksi
- halldorbaldursson
- kiddih
- belle
- hlekkur
- hlynurh
- hvitiriddarinn
- shire
- ingabesta
- ingibjorgelsa
- ingibjorgstefans
- ingadodd
- ingolfurasgeirjohannesson
- enoch
- jonbjarnason
- prakkarinn
- ktomm
- hugsadu
- killerjoe
- kollak
- kiddirokk
- kristinast
- landvernd
- leifurl
- lindagisla
- lara
- lifmagn
- mafia
- margretsverris
- gattin
- nanna
- paul
- raggipalli
- ragnhildur
- salvor
- siggadrofn
- sigmarg
- sms
- danmerkufarar
- siggisig
- snorrisig
- fletcher
- baddinn
- steinibriem
- kosningar
- svavaralfred
- saedis
- saethorhelgi
- soley
- thelmaasdisar
- toshiki
- daystar
- tidarandinn
- ugla
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- vest1
- hafmeyja
- konur
- kiddip
- perlaheim
- super
- veffari
- agustakj
- aevark
- bestiheimi
- id
- poppoli
- olafurfa
- omarragnarsson
- omarminn
- hnefill
- vitinn
- thuridurbjorg
- thorasig
- baldis
- thjodarsalin
- formosus
- bergursig
- salkaforlag
- brandarar
- bylgjahaf
- gustichef
- fsfi
- fridrikof
- saltogpipar
- hleskogar
- lucas
- bofs
- drum
- hreinsamviska
- kliddi
- imbalu
- jea
- lifsyn
- mariakr
- manisvans
- raudurvettvangur
- tibet
- tbs
Athugasemdir
Loksins sé ég almennilega umfjöllun um hið skeinuhætta Aspartam. Og eins og góðir efnafræðingar vita, þá er Aspartam að uppistöðu hið eitraða Phenylalanine, sem hefur afar slæm áhrif á efnaskipti líkamans og er eitt af aðalefnunum sem gerir gosdrykki vanabindandi. Sérstaklega er þetta hættulegt þeim sem eru á einhverskonar geðdeyfðarlyfjum, þar sem víxlverkun veldur því að óhófleg vökvauppsöfnun á sér stað. Phenylalanine er aðalástæða þess að maður verður þyrstari eftir drykkju gosdrykkja, þetta vita efnafræðingar gosdrykkjaframleiðenda og notfæra sér þannig áhrifin til að tryggja sér markað.
Taktu eftir að Aspartam er notað í sælgætisframleiðslu einnig og ástæðan er sú að áhrifin tryggja áframhaldandi markað fyrir "sætindin"
Sigurpáll Björnsson, 12.1.2007 kl. 20:45
Ég er svo sammála þér með að það þurfi meira að beina sjónum að heilbrigðara matarræði fólks sem fyrirbyggjandi og læknandi úrræði. Ég trúi því að með því að gera það sé hægt að spyrna við í þeirri offituþróun sem á sér stað hér. Við erum alltaf að byrgja brunninn eftir að barnið er löngu dottið ofan í hann, ,,forvarnir" virðast mest snúast um það að minnka skaðann í stað þess að leita leiða til þess að koma í veg fyrir hann.
Ég þekki það af eigin raun hversu mikilvægt það er að borða hollan og góðan mat. Fyrir tveimur árum var ég tæp 120 kíló, komin með of háan blóðþrýsting og fleiri vísbendingar í fylgikvilla offitu. Ég sneri við blaðinu, það eina sem ég breytti var matarræðið, út með sykur, unnar vörur, msg og fleiri óhollustu. Í dag er ég 35 kg léttari, hef ekki orðið veik að ráði þessi tvö ár og læknirinn minn missti kjálkann í gólfið þegar hann sá breytinguna - allar mælingar eðlilegar. Og ég hef séð þetta gerast hjá fullt af fólki í kring um mig :)
Ég vil m.a. sjá að lögð verði mun meiri áhersla á að kenna börnum að umgangast mat, að þau þekki hvað sé gott fyrir þau og ekki - að þeim sé kennt að setja rétt bensín í kroppinn sinn - ekki setjum við matarolíu í bensíntankinn á bílnum okkar - vitum að það gengur ekki og eins eigum við að gera með kroppinn okkar.
Og ég er sannfærð um að með því að borða rétt þá sé hægt að halda aftur af ýmsum kvillum sem eru að tröllríða öllu núna, veit t.d. um sykursjúkling sem gat fækkað mörgum sprautum á dag í eina með því að breyta matarræðinu.
Afsakaðu langlokuna, er mér mikið hjartans mál, gæti haldið áfram endalaust :)
Bestu kveðjur og hvatnig um að þú haldir fast í að berjast fyrir bættri heilsu landans.
Sigríður Jörundsdóttir (www.sigridur.worpress.com)
Sigríður Jörundsdóttir (IP-tala skráð) 13.1.2007 kl. 00:18
Phenylalanine, eitur, HAHAHAHAHAHA!!
Þannig að fólk sem þekkir ekki til viti hvað sé svona fyndið. Phenylalanine er ein af amínósýrunum sem byggja upp prótein, hún er meira að segja ein af hinum 9 lífsnauðsynlegu amínósýrum. Einu einstaklingarnir sem þurfa að forðast þessa tilteknu amínósýru eru þeir sem hafa efnaskiptasjúkdóminn/erfðagallann PKU.
Fræðingur, 13.1.2007 kl. 01:05
Almennilega umfjöllun ? Hið eitraða phenylalanine ?
Aspartam er efni sem brotnar niður í tvær amínósýrur: aspartic sýru og phenylalanine. Bæði efni eru uppistaðan í próteinum en að vissu leyti má líkja aspartami við lítið prótein eða dípeptíð.
Phenylalanine er meira að segja svo kölluð lífsnauðsynleg amínósýra, þ.e. mannslíkaminn getur ekki myndað efnið sjálfur og verður því að fá það úr fæðunni. Ef við myndum ekki fá phenylalanine úr fæðunni myndi líkaminn ekki geta myndað mikilvæg prótein sem gæti leitt til alvarlegra sjúkdóma.
Aspartam brotnar reyndar einnig niður í metanól sem er vissulega skaðlegt efni en magnið sem myndast er hverfandi miðað við eðlilega neyslu, efnaskiptaferlar mannslíkamans mynda einnig metanól í einhverju magni og ýmsar vörur eins og ávaxtasafi innihalda mun meira metanól en t.d. aspartaminnihaldandi gosdrykkir.
Mér finnst leiðinlegt að lesa illa upplýstar greinar um aspartam en þetta er svo sem í samræmi við aðra umfjöllun um aspartam á netinu. Netið er troðfullt af hræðsluáróðri um aspartam.
Það er ekkert sem bendir til skaðlegra áhrifa aspartams. Aspartam er eitthvert mest rannsakaða efni sem notað er í matvælum í dag.
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur látið rannsaka efnið reglulega í mörg ár og vísar til 100 eiturefnafræðilegra og klínískra rannsókna á efninu.
Einnig má benda á sambærilegar ályktanir matvælaeftirlitsstofnana 99 ríkja heims, þar á meðal Bretlands, Frakklands og Kanada sem nýlega birtu nýjar álitsgerðir.
Evrópska vísindastofnunin um matvæli fór nýlega yfir niðurstöður 500 greina og ráðstefnuerinda um aspartam. Þetta hafði áður verið gert árið 1984, 1988 og 1997. Í öll skiptin hefur niðurstaða nefndar verið að skaðsemi aspartams sé engin.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er á sama máli.
Niðurstöður hinnar ítölsku rannsóknar frá árinu 2005 (risaskammtar af aspartami voru gefnar rottum) hafa verið dregnar sterklega í efa af bæði Matvæla-og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) og Matvælaeftirliti Evrópu (EFSA).
Ragnar
B.S. lífefnafræðingur
Ragnar Björnsson, 13.1.2007 kl. 01:19
Vil leggja nokkur orð í belg hérna. Vissulega er rannsóknin sú er sagt er frá að ofan nokkuð sem ber að gaumgæfa vel. Málið er að mörgum hættir til að rugla saman tilraunum þeim er gerðar eru á rannsóknarstofu við lífið sjálft. Umræddum rottum var byrlaður verulega stór skammtur aspartams og vera má að það hafi allt önnur áhrif en þeir smáu skammtar er finnast í matvælum rétt eins og umhverfisgeislun sem við öll verðum fyrir hefur lítil áhrif en hærri geislun getur verið skaðleg. Nú veit ég ekki hvernig rottur umbrjóta (metabólísera) aspartam en vera má að þar myndist e.k. millistigsefni sem skaðleg eru en ekki er gefið að sama gildi um mannfólk.
Fram að þessu hafa verið gerðar nokkuð umfangsmiklar faraldsfræðilegar rannsóknir á hugsanlegum krabbameinsvaldandi áhrifum aspartams og hafa margar þeirra verið reifaðar í nýlegri yfirlitsgrein er birtist í Annals of Oncology frá fræðimönnum við háskólann í Köln. Þeir finna ekki klár tengsl krabbameins við umrædd sætuefni en hvetja vísindamenn til að halda áfram að skoða þetta af hlutlægni því minna er vitað um hin nýrri sætuefni. Með þeirra orðum (úr útdrætti greinarinnar):
"Despite some rather unscientific assumptions, there is no evidence that aspartame is carcinogenic. Case–control studies showed an elevated relative risk of 1.3 for heavy artificial sweetener use (no specific substances specified) of >1.7 g/day. For new generation sweeteners, it is too early to establish any epidemiological evidence about possible carcinogenic risks. As many artificial sweeteners are combined in today's products, the carcinogenic risk of a single substance is difficult to assess. However, according to the current literature, the possible risk of artificial sweeteners to induce cancer seems to be negligible."
Frekari stoðum er rennt undir öryggi þessara efna með nýrri grein sem birtist í sama blaði þessa vikuna og er frá Ítalíu. Þar segir í niðurlagi útdráttar: "The present work indicates a lack of association between saccharin, aspartame and other sweeteners and the risk of several common neoplasms."
Mikilvægt er þó að áfram verði haldið áfram vönduðum rannsóknum og kannski er vissast að stilla neyslu í hóf, allavega hjá þeim er miklar áhyggjur hafa af þessum tengslum.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 13.1.2007 kl. 03:13
Er ekki málið frekar einfallt. Gegnsæi þarf að verða algert þegar kemur að rannsóknum og hverjir styrkja rannsóknir í tengslum við matvæli. Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því hve misvísandi rannsóknir eru oft á tíðum og það hlýtur að valda nokkrum áhyggjum hve hátt hlutfall matvælarannsókna sé kostað af iðnaðinum sjálfum. Svo væri ekki verra ef fjölmiðlafyrirtæki tækju ekki svona mikið af upplýsingum hráum og gefðu starfsfólki sínu stundum tíma til að skoða sannleiksgildi fréttatilkynninga frá stórfyrirtækjum í matvælaiðnaði svo og öðrum iðnaði.
Birgitta Jónsdóttir, 13.1.2007 kl. 08:54
Ég ætti nú ekki að þurfa að benda BS Lífefnafræðingi á að þessi umræddu efni eru tilbúin efni, koma í drykkjum og öðrum matvælum ekki í sínu eðlilega formi, eru of hrein. Þessi áróður "fræðinga" sem vinna fyrir matvælafyrirtæki, og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, er afar varhugaverður þar sem markaðssjónarmið ráða umfram hollustuna. Það þarf engan BS fræðing til að sjá samhengið í þeim málum.
Sigurpáll Björnsson, 13.1.2007 kl. 13:15
Það er enginn munur á tilteknu efni hvort sem það er smíðað á tilraunastofu eða fengið úr lífverum.
Ég spyr svo hvað er eðlilegt form efnis til að vera í matvælum ?
Og hvað í ósköpunum áttu við með að þetta sé of hreint ?
Magn aspartams í t.d. sykurlausum gosdrykkjum er mjög lítið, en það stafar af því að sætuáhrif efnisins eru 180 sinnum meiri en matarsykur og því þarf mjög lítið til að ná fram sætuáhrifum. Það þýðir að það er einfaldlega engin hætta á að magn aspartic sýru, phenylalaníns eða metanóls fari upp fyrir einhver hættumörk. Nema þú innbyrðir nokkur baðkör af dietkóki.
Að sjálfsögðu er aspartam ekki hættulaust efni. Það vita það allir að ef þú innbyrðir of mikið af einhverju efni þá getur það haft skaðleg áhrif hvort sem það er phenylalanín, sykur, koffín, vítamín eða jafnvel vatn.
Ég ætla ekki að tjá mig um "áróður fræðinga sem vinna fyrir matvælafyrirtæki" en skulum ekki gleyma að matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnanir eru sjálfstæðar stofnanir sem vinna sína vinnu óháð fyrirtækjum.
Ef þú ætlar að fara stinga upp á að þessar stofnanir hafi eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu þá erum við komin í hallærislegar samsæriskenningar sem ég tek ekki þátt í.
Ragnar Björnsson, 13.1.2007 kl. 14:08
Of hrein, ahahahahah ! Sigurpáll þú ert snillingur. Þetta er eins og að segja að íslenskt vatn sé óhollt vegna þess að það sé svo hreint :D Það flokkast meira að segja ekki undir lífrænt efni (ekkert kolefni).
En Birgitta kemur með góðan punkt, það er auðvitað gott að hafa gegnsæi. En þegar meðalmaðurinn fær fréttir úr fjölmiðlum sem hafa engan áhuga á vísindum og hvernig vísindi virka. Það er t.d. vandi að fréttamenn taka ofmeltar upplýsingar frá öðrum fjölmiðlum og einfalda meira. Þannig breytast niðurstöður á rannsókn úr einu í annað.
En Andrea, þú gætir haft gaman af færslu sem ég er að fara að setja inn.
Fræðingur, 13.1.2007 kl. 19:07
Já Andrea þarna varstu svolítið illa tekin.
Það er líklega leitun að því sem ekki er vont fyrir okkur í óhófi. Kannski næsti matvælaiðnaðarpistill verði um skaðsemi mjólkur? Bendi mönnum á Milksucks.comþ
Jojo (IP-tala skráð) 13.1.2007 kl. 21:04
Bara þannig að þú missir ekki þessu:
http://fraedingur.blog.is/blog/fraedingur/entry/101468/
Fræðingur, 14.1.2007 kl. 17:09
Ég lít nú ekki svo á að ég hafi verið illa tekin og finnst það pínu skrítin athugasemd. Við skulum ekki gleyma tóbaksiðnaðinum og það var svo sannarlega reynt að leyna niðurstöðum um skaðsemi tóbaks af iðnaðinum sjálfum. Við skulum heldur ekki gleyma hversu miklir hagsmunir eru í húfi. Það er sjálfsagt fyrir þá sem vilja meina að þetta sé ekki hættulegt að halda bara áfram að neyta efnisins, en eins sjálfsagt fyrir hina sem vilja vera meðvitaðir um mataræði sitt að fá að vita slíkar upplýsingar.
Rannsóknin sem ég sagði frá og sagði frá í mogganum er frá því árið 2005 þar sem koma fram mjög skýr tengsl krabbameina og heilaæxla hjá rottum við neyslu aspartame í magni (4mg/kg) sem er svipað og neysla meðalmanneskju á dag, semsagt alls ekki í neinu ofurmagni. Einnig er ekkert við hana sem ekki er vandað. En að sjálfsögðu vill matvælaiðnaðurinn ekki samþykkja slíkar rannsóknir þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Ég sjálf bíð bara eftir fleiri rannsóknum í þessa veru, en til er mikið magn af rannsóknum sem hafa einmitt sýnt fram á mikla skaðsemi efnisins. http://www.medscape.com/viewarticle/509619Soffritti's study findings may be a first report, but the study was quite thorough. It looked at 1,800 rats fed various doses of aspartame -- or no aspartame at all -- from age 8 weeks until death. When the animals died, the researchers did a thorough autopsy.
They found that:
- A daily dose of 20 milligrams of aspartame per kilogram of body weight was linked to lymphomas and leukemias in female -- but not male -- rats.
- Rats that got daily doses of as little as 4 mg/kg aspartame got lymphomas and leukemias 62% more often than those that got no aspartame, but this finding could have been due to chance.
- A few brain tumors were seen in rats fed aspartame, while those who did not get the sweetener did not get brain tumors.
Varðandi efnasambandið sem svipar til þess sem er í grænmeti og ávöxtum vil ég benda á að það er ekki rétt samkvæmt öðrum vísindamönnum sem hafa bent á það að það efnasamband fari allt öðruvísi í gegnum líkama okkar heldur en það sem gerist við aspartame sambandið. Í myndinni er talað um að þetta sé svipað efnasamband og finnst í ávöxtum en hvernig það binst í líkamanum kemur allt öðruvísi út (því metanólið losnar frá hinum efnasamböndunum og myndar formaldehyde, en það sama gerist ekki með ávextina). Þessu tók ég einmitt sérstaklega vel eftir í myndinni og mæli með því að áhugasamir kíkið á hana aftur til að heyra það sem þeir sögðu um þessi efnasambönd. Hér er þetta aðeins útskýrt og hægt er að finna skýringar á þessu víðar á vefnum: http://www.holisticmed.com/aspartame/summary.html "Formaldehyde Exposure. The formaldehyde exposure from aspartame is significant. Aspartame breaks down into methanol, amino acids and several other chemicals. The methanol is quickly absorbed and converted into formaldehyde. The methanol found in foods and alcoholic beverages is also absorbed, but there are "protective chemicals" in these traditionally-ingested foods and beverages that prevent the conversion of methanol to formaldehyde.Formaldehyde is known to cause gradual damage to the nervous system, the immune system and has recently been shown to cause irreversible genetic damage at long-term, low-level exposure." ... og þarna er líka skýrt frá því að flestar rannsóknir sem eru óháðar, eða ekki styrktar af hagsmunaaðilum sem nota aspartame eða framleiða það finna tengsl við heilsuvandamál á meðan hagsmunarannsóknir finna ekki tengsl. Það er skrítið, ekki satt? "Dr. Walton analyzed 164 studies which were felt to have relevance to human safety questions. Of the 90 non-industry-sponsored (independent) studies, 83 (92%) identified one or more problems with aspartame. Of the 74 aspartame industry-sponsored studies, all 74 (100%) claimed that no problems were found with aspartame."
Andrea J. Ólafsdóttir, 15.1.2007 kl. 15:33
Þessi tilraun var ekki vandaðri en það að EFSA (Evrópska matvælaöryggisstofnun) gerir miklar athugasemdir við framkvæmd, úrvinnslu og niðurstöður tilraunarinnar. Þú finnur hlekkinn á þá grein og upplýsingar um lygar um tilraun Soffritis á síðunni hjá mér
Síðan er augljóst að þú hefur ekki hugmynd um hvernig líkaminn tekur á metanóli. Fyrst verður til formaldehýð svo verður til maurasýra. Þetta er sambærilegt við vinnslu etanóls (áfengis) þar sem verður til acetaldehýð og úr því verður til ediksýra. Öll þessi efni eru eitruð, en etanól afleiðurnar eru ekki eins eitraðar og líkaminn getur losað sig við þær auðveldar.
Niðurbrot á metanóli í ávaxtasöfum er alveg eins og niðurbrot á metanóli sem fæst á annan hátt, aspartame, áfengi sem og hreinum tréspíra. Munurinn er skammtastærðirnar. Reyndar innihalda ávaxtasafar ágætlega mikið magn af tréspíra en þeir innihalda líka etanól sem hægir að á niðurbroti metanóls sem þýðir að myndun formaldehýðs og maurasýru gengur hægar fyrir sig sem veldur því að líkaminn getur haldið sýrustigi sínu stöðugu og losað sig við maurasýruna.
Þetta er meira að segja notað af læknum til þess að bjarga fólki frá metanól-eitrun. Ef fólk er fullt þá getur það lifað af metanólið ef sé gripið nógu snemma inní.
Í samsæriskenninga myndinni Sweet misery eru margir einstaklingar sem tala um metanólið og hafa stoppað í lestrinum um niðurbrot þess, þegar komið var að formaldehýði. Þetta var t.d. Dr. Walton sem ætti að vita betur svo að hann hefur ekki einu sinni kynnt sér rannsóknarefnið nógu vel eða óheiðarlegur.
Reynslusögur eru líka algerlega ónothæfar til rannsókna út af hve óáreiðanlegar þær eru (The plurality of anecdote is not data) út af hve fólk er duglegt við að tengja ótengda hluti saman. Fólk gerir líka hluti hlutdræga ómeðvitað, þess vegna eru tvíblindar rannsóknir notaðar.
Síðan virðistu halda að tilraunir sem eru gerðar af fyrirtækjum séu sjálfkrafa illa gerðar en gerir ekki athugasemdir við fólk sem hefur mjög sterka hugmyndafræðilega sannfæringu þegar það hefur ennþá ríkari ástæðu til þess að ljúga, því það er líf þeirra og skoðanir sem er í skotlínunni en hjá hinum eru það bara peningar.
Þú gleymir líka því að hinn svokallaði heilsuiðnaður er risavaxinn og veltur miklum peningum, svo að hagsmunatengsl við hann er líka til.
Fræðingur, 15.1.2007 kl. 17:40
Conclusions
In our experimental conditions, it has been demonstrated,
for the first time, that APM causes a statistically
significant, dose-related increase in lymphomas and
leukaemias in females at dose levels very near those to
which humans can be exposed. Moreover, it can hardly
be overlooked that, at the lowest exposure of 80 ppm,
there was a 69% increase in lymphomas and leukaemias
compared to controls, even though this was not statistically
significant. When compared to the concurrent control
group, an increase in the incidence of these neoplasias
was also observed in males exposed to the highest
dose; even though not statistically significant, this observation
confirms and extends the result in females.
The significance of the increase in haemolymphoreticular
neoplasias is further reinforced by the following considerations,
based on the results of experiments performed
in the CRC laboratory.
These experiments demonstrate that the increase in
lymphomas and leukaemias, observed in the APM study,
could be related to methanol, a metabolite of APM, which
is metabolised to formaldehyde and then to formic acid,
both in humans and rats3. In fact we have shown that: 1)methanol administered in drinking water increased the in-
cidence of lymphomas and leukaemias in female rats11; 2)the same effect was induced in females treated with the
gasoline oxygenated additive methyl-tert-butyl-ether(MTBE), which is also metabolised to methanol12 ; and finally3) an increase in the incidence of lymphomas and
leukaemias was also observed in females treated with
formaldehyde9, 13.These results further highlight the important rôle that
formaldehyde has on the induction of haematological
malignancies in rodents. Moreover, in a recent reevaluation
of the carcinogenicity of formaldehyde by the International
Agency for Research on Cancer (IARC), strong,
although not considered sufficient, evidence of an association
with leukaemias in humans was found14.Since the results of carcinogenicity bioassays in rodents,
mainly rats and mice, have been shown to be a consistent
predictor of human cancer risk15-17, the first results of ourstudy call for urgent re-examination of permissible exposure
levels of APM in both food and beverages, especially
to protect children.
Það er virkilega ástæða til að skoða málið betur, hvað sem fræðingurinn segir. Tóbaksiðnaðurinn þótti nú líka hafa rannsakað áhrif þess nægilega vel og þóttu niðurstöður þeirra nægjanlegar í mörg ár þangað til kom svo reyndar í ljós að niðurstöðum hafði verið leynt og þær falsaðar til að koma í veg fyrir að neytandinn vissi af þeim og fengi að vita að tóbak væri krabbameinsvaldandi. Við skulum bara sjá til hvernig fer með aspartamið ... en það er allavega fullt af fólki sem mun vilja vara sig á því að neyta efnisins, þó ekki sé nema 1 dolla skyr.is á dag plús 2 diet coke eða pepsi max með aspartami, því ekki eru það mikið stærri skammtar sem eru að veikja dýrin. Það er full ástæða til að skoða þetta efni mun betur og til hlýtar áður en fólk fer að áskaka Andreu um lygar.
krukkan (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 00:22
Ég stend við ásökun mína um að Andrea sé að ljúga um niðurstöður tilraunarinnar og ættu jafnvel sanntrúaðir aspartam hatarar að geta borið saman tölur úr þeirra uppáhaldsrannsókn og fullyrðingar Andreu.
Síðan ætti krukkan að skoða grein EFSA um tilraun Soffrittis þar sem farið er yfir hönnun tilraunarinnar og þau atriði sem gera hana ekki markverða.
Fræðingur, 16.1.2007 kl. 02:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.