Leita í fréttum mbl.is

Er álið málið?

Mig langar að spyrja alþjóð þessarar spurningar og svara sjálf fyrir mig með skynsamlegum rökum. Skynsemishugsun verður alltaf og undantekningarlaust að taka mið af heildrænni hugsun. Skynsemislausnin verður jafnframt alltaf að taka mið af hvað kemur sér best fyrir nærsamfélagið okkar, en einnig fyrir heiminn og jörðina í heild þegar um er að ræða málefni sem snerta alla jarðarbúa. 

Á síðustu árum hafa orkunýtingarsjónarmið og stóriðjustefnan verið í hávegum höfð á „Állandinu Íslandi“. Þetta telja sumir að sé skynsamleg nýting orkuauðlinda landsins. Þeir nefna ávallt máli sínu til stuðnings að hér sé um „græna orku“ að ræða og við séum því að leggja eitthvað að mörkum gagnvart jörðinni í loftslagsmálum. Þeir gleyma hins vegar að segja frá því að ekki einu einasta álveri sem keyrt er á kolum verður lokað í stað þess sem byggist hér og að um 60-70% álvera heims keyra á hinni svokölluðu „grænu orku“. Einnig gleymist að reikna með mengun sem flutningar súrálsins valda og það gleymist að tala um hvers vegna við framleiðum ál og í hvað það fer eftir hlutföllum og hvort að nauðsynlegt sé að nota allt þetta ál. Að ekki sé nú minnst á þá staðreynd að náttúran sem fórnað er, þeas verðmæti hennar, er aldrei metin á einn eða annan hátt. Vissulega er möguleiki á að nýta einhverja orku hér með skynsamlegum hætti, en eftir langa og stranga skoðun mína er orkunýting til álframleiðslu bara ekki skynsamleg.

Í fyrsta lagi er um að ræða stefnu sem gerir ráð fyrir svo mörgum teravöttum af orku að ekki er hægt að hlífa mörgum svæðum á Íslandi frá nýtingarsjónarmiðinu. Það þykir mér alls ekki skynsamlegt og tel að flestir Íslendingar séu sammála um það að einhverjum svæðum verði að hlífa og að við þurfum því skýra stefnu sem skilgreinir þau svæði í lögum um umhverfisvernd. Skynsemin í að hlífa svæðum felst bæði í náttúrusjónarmiði og nýtingarsjónarmiði, því hvar sækjum við orku í framtíðinni ef hér á landi gerist þörf til annars konar orkunýtingar ef búið er að virkja öll svæði og binda orkuna í samningum í áratugi?

Í öðru lagi er það ekki skynsamleg hugmynd að selja alla orkuna til álframleiðslu að teknu tilliti til þess að það er orkufrekasti og mest mengandi iðnaður sem til er í heiminum. Iðnaður sem heimsbyggðin mun á komandi árum draga verulega úr vegna þeirrar mengunar sem af honum stafar. Aukin framleiðsla á áli er eitthvað sem heiminum stafar mikil ógn af vegna loftslagsbreytinga og þegar reiknað er með flutningum súráls og unnins áls á milli heimsálfa má reikna með ennþá meiri mengun. Skynsamlegast væri að sjálfsögðu að úrvinnsla súráls fari fram á sama stað sem það er upprunnið og frumvinnslan fer fram.

Á heimasíðu Alcoa má sjá að árin 2004 og 2005 sköpuðust um 26% af heildartekjum fyrirtækisins vegna neyslupakkninga (6 og 6,8 milljarðar USD) og hefur sá hluti teknanna vaxið hraðast á síðast liðnum árum. Aðeins um 10% kom frá byggingariðnaði og um 10-11% frá samgöngutækjum. Ég endurtek; stærsti hlutinn, eða 26% teknanna varð til vegna framleiðslu á neyslupakkningum. Notið nú hugmyndaflugið, ykkur og jörðinni til góða, og hugsið ykkur bara hversu mikil not við höfum fyrir þessar ál-neyslupakkningar. Hlutföll endurvinnslu áldósa er misjafnt eftir löndum, en meðaltalið í Evrópu er um 40% endurvinnsla. Í því sambandi vil ég til dæmis minna á það að í Danmörku (og sjálfsagt fleiri skynsömum löndum) er bannað að selja drykki í áldósum. Það er að sjálfsögðu ekki þörf fyrir svona mikla álframleiðslu í neyslupakkningar og brýn nauðsyn fyrir okkur að finna aðrar leiðir í þeim efnum. Enn eitt markmiðið er því að sjálfsögðu að takmarka eins og hægt er vöruframleiðslu úr áli sem ekki er nauðsynleg.

Í þriðja lagi ber að líta til þess alþjóðasamfélagið hefur mótað stefnu sem felst í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda Flest öll samfélög heims hafa skuldbundið sig til að fara eftir þessri stefnu sem kallast Kyoto bókunin. En Ísland, eitt af ríkustu löndum heims, samdi sig frá henni og fær að losa 1,6 milljónir tonna út í andrúmsloftið frá stóriðju á fyrsta skuldbindingar-tímabili bókunarinnar, til viðbótar við þá 10% aukningu sem Ísland fékk í meðgjöf í sjálfum loftslagssamningnum 1992. Á sama tíma eru flest löndin að skuldbinda sig til að draga úr losun, eða standa í stað þannig að hún aukist ekki. Samkvæmt tölum í fréttablaðinu (spyrja Bjarka) losar stóriðja á Íslandi, með tilkomu Fjarðaáls, um 2,5 milljónir tonna gróðurhúsalofttegunda á ári meðan öll önnur losun frá bílaflotanum, skipum, landbúnaði og sorpúrgangi er samtals 2,25 milljónir tonna. Við höfum nú þegar fyllt undanþágukvótann og ber nú að líta til framtíðar til úrlausnar vandans og taka þátt í að draga úr losun á næstu árum. Öllum löndum heims ber að taka þátt í slíku samkomulagi sem snertir alla jarðarbúa. Íslendingar þurfa því að fara að nota frumkvöðlahugsun sína til að koma með skapandi lausnir á þessum brýna vanda. Frumkvöðlahugsun okkar ætti að eiga auðvelt með að sjá að í nýjum og umhverfisvænni lausnum felast ótrúleg tækifæri. Nýr og vistvænni markaður er að taka við af þeim gamla og nýjar, framsýnar lausnir munu taka við á komandi árum. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld verði hugrökk í framgöngu eins mikilvægra mála.

Í fjórða lagi vil ég síðan minnast á hvers vegna stjórnvöld fóru í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, og hvers vegna fulltrúar Alþingis samþykktu. Margoft hefur verið gefið út að ákvörðun um framkvæmdina var tekin í þeim tilgangi að skapa störf á Austurlandi þrátt fyrir að á Íslandi sé eitt það minnsta atvinnuleysi sem gengur og gerist í heiminum. Engin stefna var mótuð til að taka á móti erlendu fólki sem átti að vinna störfin sem eru umfram það sem Íslendingar geta staðið undir að vinna. Nýlega hefur komið í ljós að fulltrúar Alþingis samþykktu framkvæmdina án þess að hafa til þess nægilegar upplýsingar sem segir okkur það að þetta var ekki upplýst ákvörðun. Á þeim tíma höfðu þeir ekki nægilegar upplýsingar um jarðfræði svæðisins né heldur mat á umhverfisáhrifum af þessu tiltekna álveri, þrátt fyrir að í landslögum segi að slíkt verði að liggja fyrir. Í ferlingu var úrskurði skipulagsstofnunar breytt og landslög hunsuð.

Núverandi stjórnvöldum virðist ekki hafa dottið til hugar að hægt sé að nýta eða njóta náttúrunnar sem við höfum að láni á nokkurn annan hátt en til orkunýtingar og álframleiðslu, þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland hefur skapað sér það orðspor erlendis að vera einstök, hrein og fögur náttúruperla. Staðreyndin er nefnilega sú að um 95% ferðamanna sem hingað koma, sækjast eftir að upplifa náttúruna og stór hluti til að sjá hálendið sem er stærsta óbyggða víðerni Evrópu. Að sjálfsögðu verðum við að gera okkur grein fyrir að flutningar með flugvélum veldur líka mengun og ættum því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að breyting verði þar á. Á vorrmánuðum bárust fréttir í Mbl um að framleiðendur flugvéla séu nú þegar farnir að huga að því að smíða þær úr léttari efnum eins og trefjaplasti, frekar en úr áli og stáli. Framtíðin býður einnig upp á að gera hið sama með önnur farartæki og í framtíðinni munum við nota umhverfisvænna eldsneyti en við gerum í dag. Þarna liggja ný viðskiptatækifæri og vettvangur fyrir hugmyndir og nýsköpun. Ísland getur verið með fremstu þjóðum í heimi til að stuðla að því að nýsköpun og verða með því fyrirmynd annarra þjóða. Hér ætti ekki að vera erfitt að skipta út bílaflotanum og keyra um á vænum og grænum bílum og farartækjum. Mögulega væri hægt að stuðla að því að almenningssamgöngur væru því sem næst fríar þannig að fleiri myndu nota þær. Hér væri líka hægt að hefja framleiðslu á vetni. Slík væri framsýnisstefna  og það er eina rétta leiðin til að við getum átt okkur framtíð á jörðu.

 

Niðurstaða mín er semsagt að skynsamlega athuguðu máli sú að álið er ekki málið. Framsýni er málið. Í næstu grein langar mig því til að deila með ykkur hugmynd minni um „Heilsulindina Ísland“.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband