Leita í fréttum mbl.is

Við þurfum úrræði fyrir barnaníðinga og fórnarlömb

Kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi á börnum er skelfilegt og niðurbrjótandi fyrir flestar manneskjur. Gerendur eru í flestum tilfellum karlmenn og hafa oft sjálfir þurft að líða slíkt. Ef á að komast fyrir slík vandamál í samfélaginu, eða í það minnsta minnka þau til muna, þá þarf að hjálpa ofbeldismönnunum sjálfum. Einnig þarf að hjálpa börnunum og fórnarlömbum til að koma í veg fyrir að þau beiti sömu aðferðum sjálf gagnvart öðrum. Ég vil byrja á því að þakka bæði Kompás og Kastljósinu fyrir að fjalla um þessi gríðarlega erfiðu mál. Margir í bloggheimum og víðar eru hneykslaðir á því hvernig það hefur verið gert, en ég ætla mér ekki út í það, mér finnst umræðan nauðsynleg. Slíkt stofnanaofbeldi á sér örugglega stað enn í dag og víðar en á þeim heimilum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Þetta er gríðarstórt vandamál og gerendur eiga sér mörg fórnarlömb. Það verður eftir fremsta megni að finna aðferðir sem geta hjálpað þessum einstaklingum og minnka líkurnar á að þeir geri slíkt aftur. Ég set hér fram eins konar fræðilega samantekt, því þótt ég geti verið bálreið yfir þessu eins og flestir aðrir, þá tel ég ekki að reiðin eða fangelsi eitt og sér leysi vandamálið. Það þarf að koma til hjálpar og finna meðferðarúrræði sem hafa virkað. 

Í meirhluta tilfella eru barnaníðingar menn sem hafa sjálfir orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eða 57% tilfella samkvæmt Burgess (1985). Því hefur verið haldið fram að það sé tenging milli afbrigðilegrar örvunar annars vegar og sögu um kynferðislega og/eða líkamlega misnotkun hins vegar. Flest karlkyns fórnarlömb barnaníðinga verða þó ekki barnaníðingar sjálfir en Salter og samstarfsmenn (2002) komust að því að 12% af 224 karlkyns fórnalömbum urðu níðingar sjálfir seinna á ævinni og þá að meðaltali um 14 ára aldur. Semsagt: í hópi þeirra sem misnota börn eru samkvæmt þessu meirihluti barnaníðinga menn sem hafa verið misnotaðir sjálfir. Það má því spyrja sig hvort það þurfi ekki að vinna með börnin (drengi) sem eru misnotuð til að koma að mestu í veg fyrir að þau verði síðar barnaníðingar. Sem betur fer er þó ekki meirihluti þeirra sem eru misnotaðir sem gerast barnaníðingar - EN þeir sem eru barnaníðingar hafa í meirihluta verið misnotaðir og eiga sér oftast mjög mörg fórnarlömb.

Klám getur líka haft áhrif á svona kenndir í mönnum þar sem klám sýnir oft mjög brenglaðar myndir sem eiga sér enga stoð í veruleikanum, en rannsóknir hafa sýnt að menn eru líklegri til að hafa hvatir til að nauðga eftir að horfa á klám (Russell, 1988,1993).  Rannsóknir síðustu áratuga sýna að samband er milli ofbeldishneigðrar hegðunar og nauðgana á konum og börnum og áhorfs kláms þar sem niðurlæging kvenna, nauðganir og ofbeldi gagnvart konum er viðhaft (Russell, 1988). Í rannsókn Einsiedel (1986) sem greint er frá í Russell (1993) á kynferðis- afbrotamönnum kemur fram að yfir þriðjungur þeirra notaði klám til að undirbúa nauðgunina og 53% þeirra sem nauðguðu börnum. Hinir afbrotamennirnir í þeirri rannsókn viðurkenndu að þeir notuðu það stundum. Og í enn einni rannsókn sem Russell greinir frá kemur fram að 56% nauðgara og 42% barnanauðgara greindu frá því að klám hefði haft áhrif á þá til að fremja brotin. 

Meðferðir virðast skila einhverjum árangri og auknar líkur eru á bata ef einstaklingurinn hefur ekki brotið gegn mörgum börnum, beitti ekki öðru líkamlegu ofbeldi, hefur góð félagleg tengsl, hefur stöðuga vinnu og viðurkennir að brot hans séu brot (Björn Harðarsson og Eygló Guðmundsdóttir, e.d.).   Síðan í lok 9. áratugarins hefur barnahneigð ekki verið talin læknanleg og nú er hún talin ólæknandi (krónísk) röskun. Þess vegna ætti meðferðin að beinast að því að koma í veg fyrir atferlið og ná fram langvarandi breytingum á hegðun barnaníðingsins í samfélaginu. Notast hefur verið við aðferð sem kallast The cognitive and social components of treatment sem er hópmeðferð sem notuð er með lyfjagjöf með testesteron lækkandi lyfjum. Flestar rannsóknir sýna að árangur náist af meðferð og að meirihluti einstaklinga sem gangast undir einhvers konar meðferð brjóti ekki af sér aftur. Oft eru samtalsmeðferðir, einstaklingslega eða í hóp, notaðar með lyfjagjöfum (Fagan, Wise, Schmidt og Berlin, 2002).

Í Bandaríkjunum hafa atvinnurekendur aðgang að gögnum um barnaníðinga til að reyna að koma í veg fyrir það að þeir vinni með börnum. Hugmyndin af því að reyna að koma í veg fyrir það að þetta fólk vinni með börnum er ekki ný. Þar í landi hefur dómari heimild að dæma barnaníðing vanhæfan að vinna með börnum (Cobley, 2003). Welch (1994) skrifaði góða grein um það hvernig það kom til að hann ákvað að láta samfélagið vita þegar bróðir hans, sem var dæmdur barnaníðingur, slapp úr fangelsi. Welch var sjálfur fórnarlamb bróður síns og vildi reyna að fyrirbyggja það að hann gæti níðst á fleiri börnum með því að segja frá sögu sinni.

En á meðan tölur sýna okkur það að mál sem koma til barnaverndarstofu og lögreglu ná sjaldnast svo langt að komi til réttarhalda er ekki víst að börn nái fram neinu réttlæti í kerfinu í sínum málum. Þegar svo mál hljóta þá náð að ná til dómstóla eru dómarnir mjög vægir í flestum tilfellum og hefur mikið verið rætt að það þurfi að endurskoða réttarkerfið og lögin með sérstöku tilliti til sérstæðu þessara brota og því hversu seint þolendur segja frá, þar sem um börn er að ræða. Barnaverndarstofa (2005) hefur lýst yfir áhyggjum af þróun mála í sakfellingum í kynferðisbrotum gegn börnum á síðast liðnum áratug. Á meðan málum hjá þeim hefur tvöfaldast fjölgar sakfellingum ekkert, það er að meðaltali sami fjöldi ár frá ári á þessum áratug frá 1995-2004. Barnaverndarstofa telur að þessar upplýsingar kalli á endurmat á gildandi lagareglum.

Í mörg ár hefur umboðsmaður barna lagt fram tillögur um breytingu og afnám á fyrningu þessara brota vegna sérstöðu þeirra. Ágúst Ólafur Ágústsson o.fl. hafa einnig lagt fram frumvarp til löggjafarþings um afnám fyrningar þegar brotið er gegn börnum fyrir 14 ára aldur. Í stuttu máli sagt fyrnast kynferðisafbrot gegn börnum frá 5 árum til 15 ára og fer lengd fyrningarfrestsins eftir alvarleika brotsins. Í norrænum rétti hefur verið gengið út frá að brot geti verið ófyrnanleg þegar um er ræða alvarlegustu brotin samkvæmt refsimati löggjafans. Í umræddu frumvarpi er talið að þurfi að endurskoða alvarleika þessara brota samkvæmt löggjafanum og að kynferðisafbrot gegn börnum verði sett í flokk alvarlegustu afbrota hvað varðar fyrningu (Ágúst Ólafur Ágústsson o.fl., 2005).

Í ljósi þess hve margir gerendur eiga sér mörg fórnarlömb eins og fram kemur í Gado (e.d.) að einn gerandi getur átt sér yfir hundrað fórnarlömb og brjóta oft af sér eftir afplánun, mætti einnig taka til fyrirmyndar lög sem sett voru í Bandaríkjunum árið 1996. Bill Clinton þáverandi forseti skrifaði undir lög sem kölluð hafa verið „Megan's Law“ sem nefnd eru eftir stúlku sem var nauðgað og síðan myrt af skráðum og dæmdum kynferðisbrotamönnum. Lögin skylda opinbera skráningu persónulegra upplýsinga og búsetu um dæmda kynferðisbrotamenn og einnig að hinu opinbera beri skylda til þess að miðla þeim upplýsingum til samfélagsins um leið og þeir hafa afplánað dóma sína og er hleypt aftur út í samfélagið (Megan’s-Law.net, 2004).

 

Það er einlæg ósk mín og von að samfélag okkar geti orðið bjartara og heilbrigðara. Til þess að uppræta ofbeldi margs konar tel ég að það þurfi virkilega að hjálpa ofbeldismönnum. Einnig þarf að koma þolendum ofbeldis til hjálpar þannig að skaðinn verði sem minnstur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi í æsku sé mun veikara fyrir, semsagt mikið af krónískum veikindum er hægt að rekja til vanlíðunar í æsku. Á þessu eru sumir læknar að reyna að vekja athygli þannig að hægt verði að vinna með andlega vanlíðan og þannig bæta líkamlega heilsu líka. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband