Leita í fréttum mbl.is

Vinstri Græn hugsa hlutina LENGRA en eitt kjörtímabil

Þegar verið er að móta stefnu í pólitík, þá snýst það um það hvernig samfélag við viljum búa, bæði fyrir okkur í nútíðinni og líka að byggja það upp til framtíðar. Þar nægir ekki að hugsa eitt kjörtímabil fram í tímann. Ég birti þessa færslu vegna þeirra athugasemda sem sumir hafa komið með vegna þess að VG vill afnema gjaldtöku í skólakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Já það er okkar stefna að allir geti haft jafnan aðgang að þeirri þjónustu og neiti sér ekki um að nota hana vegna fjárhagsörðugleika. Ég vil einnig taka fram vegna mikils misskilnings margra að VG hefur það EKKI og ég endurtek EKKI á stefnuskrá sinni að hækka skatta. Við viljum hins vegar færa byrðina af herðum þeirra fátkæku og verst settu og af meðaltekjufólki sem hafa komið allra verst útúr skattastefnu stjórnarflokkanna.

Það er alveg hreint með ólíkindum að hlutsta á málflutning eins og þann að réttmætt sé að þeir ríku greiði þrisvar sinnum lægri skattprósentu en meðalfólk og þeir fátæku. Að segja það að við séum með einu eða öðru móti að hrekja einhvern úr landi er bara bull og ekkert annað. Það er ekki á stefnuskrá VG að hækka skatta á fyrirtæki svo það má alveg taka fyrir allt slíkt bull. Fyrirtækjaskattur er 18% og hann verður það áfram í okkar stjórn á þessu kjörtímabili, engin áform um hækkanir þar. Við ætlum hins vegar að skapa hér umhverfi sem mun draga verulega úr þenslunni sem hefur verið gegndarlaus undanfarin ár og með því tryggjum við meiri stöðugleika og bætta afkomu þeirra fyrirtækja sem flytja vörur úr landi! Með því að draga úr þenslunni munum við líka hjálpa einstaklingum og heimilum að standa skil af lánunum sínum og koma í veg fyrir að þau hækki upp úr öllu valdi vegna verðtryggingar sem hækkar höfuðstól lána okkar þegar þenslan er svo mikil.

Það sem snýr að fyrirtækjum í okkar stefnu er að við viljum einmitt styðja við framtak einstaklingsins við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og stofna fyrirtæki og skapa þar með nokkrum öðrum atvinnu.

Það sem snýr að fjármagnstekjuskatti er málið þannig að við viljum afnema fjármagnstekjuskatt af sparnaði hjá 90% landsmanna. Svo einfalt er það nú. Við viljum hætta að taka þúsundkallana af barnasparnaði og fjölskyldusparnaði heimilanna - EN við viljum jafnframt að þau 5-10% landsmanna sem nú hafa sínar tekjur einungis af þessari iðju reikni sér laun og greiði skatt af þeim launum eins og við öll hin. Í dag er það nú svo að þarna er einungis um að ræða lítinn hluta hóps sem á gríðarlegan pening en greiðir ekki útsvar eins og við hin og greiðir ekki heldur í framkvæmdasjóð aldraðra. Það er einungis sjálfsagður hlutur að ef fólk hefur þessa iðju að atvinnu, að það reikni sér laun og greiði af þeim skatta eins og við hin. Það mun áfram greiða lágan fjármagnstekjuskatt og hagnaður þeirra getur runnið inn í fyrirtækin sem þau hafa stofnað í kringum batteríið. Ekkert bull um þetta að verið sé að hrekja fólk úr landi!!!

Með stöðvun stóriðjustefnunnar sem hér hefur ríkt er alls EKKI verið að draga úr atvinnumöguleikum fólks og ég vil líka benda þér á að orkan okkar er alls EKKI stærsta eða sú auðlind okkar sem mest gefur af sér. Ennþá er fiskiðnaðurinn miklu stærri og gefur mun meira af sér og ferðamannaiðnaður og þekkingariðnaður líka mun stærri. Þetta samtals er mörgum sinnum stærra og arðbærara en það sem við fáum út úr stóriðju og vil ég benda fólki á að athuga tölurnar nú aðeins betur - hvað gefur þjóðarbúinu hvað!!!

Við erum sá flokkur sem hugsar hlutina lengra en einungis eitt kjörtímabil. Með því að efla menntakerfið (og það er spurning um áherslur í fjárlögum en ekki endilega um meiri útgjöld ríkisins) að þá mun okkur takast að skapa hér samfélag þar sem ALLIR hafa í raun jafna möguleika á menntun og það hefur nú bara sýnt sig erlendis að með því að hafa öflugt menntakerfi skapast öflugur grundvöllur fyrir grósku og nýsköpun í atvinnulífinu. Þá staðreynd getum við horft á í atvinnulífi á Norðurlöndunum sem eru einna fremstar í heiminum. Svo einfalt er það nú!

Okkar tillaga í fangelsismálum gengur líka út á það að mögulega verður tilkostnaður við meðferðarstarf aðeins aukinn - EN við skulum líka athuga það að með því að leggja smá pening í það uppbyggingar og betrunarstarf verður líka mögulega dregið mjög úr síbrotum. Það mun auka möguleika fanga á því að byggja sér betra líf ef þeir öðlast menntun og ef þeir fá úrræði við sitt hæfi. Í dag er endurkoma í fangelsi um 50% og við viljum bæta úr því. Þótt okkur tækist ekki betur til en að minnka endurkomu niður í 25%, þá væri stórkostlegum áfanga náð, og það mun MINNKA útgjöld til fangelsismála þegar til lengri tíma er litið. Með því að hafa öflug meðferðarúrræði fyrir kynferðisafbrotamenn mun okkur líka takast að taka á rótum vandans. Það hefur sýnt sig þar sem slíkt hefur verið reynt erlendis að það er vel hægt að hjálpa mörgum og ná árangri með meðferðum við þeirra hæfi, sérstaklega ef tekið er á vandanum í upphafi afbrotaferils. Með því að hjálpa eins mörgum kynferðisafbrotamönnum og ofbeldismönnum og við getum má draga úr miklum tilkostnaði sem þeir kosta samfélagið okkar á meðan þeir fá enga hjálp. Svona hugsum við í VG - já það kostar pening en mun líka margborga sig að taka á rótum vandans þegar til lengri tíma er litið.

Við viljum einnig stórauka rannsóknir í heilbrigðismálum - og þótt það þýði mögulega aukin útgjöld á meðan á því rannsóknarstarfi stendur (en því verður auðvitað að halda áfram líka) þá þýðir það nú samt að við getum verið framarlega í heiminum á því sviði að finna rætur þess sem veldur því að fólk missir heilsuna. Við viljum taka á rótum vandans og það gerum við meðal annars með því að finna betur út úr því hvers vegna fólk verður veikt og reyna síðan með aukinni fræðslu að koma í veg fyrir það - þegar það verður reiknað út eftir 50 ár þá mun okkar aðferð vera mun ódýrari en sú að ausa endalausum lyfjum í fólk og takast aldrei á við hvers vegna það er veikt. Með því að koma í veg fyrir sjúkdóma (sem er alveg hægt í mjög mörgum tilfellum) og efla lýðheilsu, þá munum við draga úr útgjöldum í heilbrigðiskerfinu! Við viljum byggja upp betra samfélag til frambúðar og þess vegna hugsum við lengra en eitt kjörtímabil!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Steingrímur sagði það í viðtali í Silfri Egils að eftirfarandi skattar verði hækkaðir:

Fjármagnstekjuskattur hækkaður í 18% í skrefum.

Hátekjuskattur settur á aftur.

Þetta eru skattahækkanir.

Kalli (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 14:53

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er tímasóunn hjá ykkur að hugsa lengra en eitt kjörtímabil. Hálft væri meira að segja nóg.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 15:29

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

    Hef oft velt því fyrir mér hvar íslenzkt samfélag væri á vegi statt, og
þá ekki síst okkar öfluga VELFERÐAKERFI ef sósíalistanir í Vinstri-
Grænum hefðu ráðið för s.l 12 ár?  Því peningarnir vaxa nefnilega ekki
á trjánum eins og sumir halda og til þess að reka ÖFLUGT velferðakerfi þarf jú ÖFLUGT atvinnulíf sem skapar STERKAN ríkissjóð.

  Ég bara spyr. Hvað hefði orðið af öllum HUNDRUÐUM MILLJÖRÐUNUM
sem fóru í ríkiskassan nú síðustu ár vegna sölu ríkisfyrirtækja sem
Vinstri-grænir börðust gegn.?

  Og hvað hefði orðið af þeim TUG MILLJÖRÐUM sem ríkiskassinn
fær árlega nú í skatta af þessum sömu fyrrverandi ríkisfyrirtækjum.?

  Og hvað hefði orðið af  öllu FRJÁLSRÆÐINU og hinni meiriháttar
ÚTRÁS sem hefur haft stórfeld margfeldisáhrif á okkar þjóðarbúskap
ef sósíalistanir í vinstri grænu hefðu ráðið för?

  Klárlega hefði í dag ríkt kreppa og stöðnun ef pólitík Vinstri-
grænna hefði ráðið. Þá væru þeir ekki að boða stórtækar tillögur nú
í velferðarmálum, því ríkiskassinn væri  tómur og skuldum vafin ef
vinstri-afturhaldssjónarmiðin hefðu ráðið för. Já hér væri ríkjandi
meiriháttar EYMD og VOLÆÐI eins og í fyrrverandi kommúnista-
ríkjum Evrópu.  Já, þetta er nú bara staðreyndin.

   Þar fyrir utan er umhverfishyggja VG einstóm HRÆSNI, sbr.
Mosfellsbær og aðkoma þeirra að Kárnhnjúkum gegnum R-listann
og Landsvirkjun á sínum tíma.

   Þá fyrirfynnst EKKI SNEFILL af ÞJÓÐLEGU STOLTI hjá VG. Vilja
að Ísland eitt ríkja heims BERSKJALDAÐ OG VARNARLAUST.
Sama ábyrgðarleysið þar og hjá kommunistunum forgöngumönnum
þeirra forðum.

   Þannig að það yrði meirháttar pólitískt slys ef öfgaflokkur eins
og Vinstri-grænir fái brautargengi í vor, sem ég veit að verður
EKKI, því meirihluti kjósenda er of skynsamur til að láta það ekki
gerast.
 
   

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 28.2.2007 kl. 16:57

4 identicon

Vandamálið með fjármagn er að það er ekki steypa.  Ef skattur á fjármagnstekjur er hækkaður verulega þá fer fjármagnið einfaldlega annað.

Ríkið fær í kringum 17-18 milljarða í fjarmagnstekjuskatt fyrir 2006.  Fjármagnstekjuskatturinn borgar framlag ríkisins fyrir allar barnabæturnar okkar og fæðingarorlofið með 5 milljarða í afgang.

Afhverju er verið að tala um þetta sem einhvern ófögnuð í þjóðfélaginu? 

Ég vil frekar hafa gullgæsina í bakgarðinum heldur en að slátra henni takk fyrir.

Kalli (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:07

5 identicon

Nú bíð ég spenntur eftir að sjá öfluga málsvara láglaunastéttanna. Þeir sem fengu ríkisbankana afhenta á smánarverði ásamt Símanum, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðju ríkisins, fengu greiðari aðgang en önnur fyrirtæki að stórframkvæmdum á vegum hins opinbera; ásamt því að fá gefins allan sjávarfla þjóðarinnar eiga nú ekki að greiða skatta i hlutfalli við tekjur.

Þetta þykir góðum frjálshyggjumönnum svo sjálfsögð mannréttindi að ef einhver leyfir sér aðra sýn er hann bæði ósanngjarn og heimskur. Það þykja þessum mönnum barasta eðlileg viðbrögð að nefna þetta öfundsýki og ósanngirni og eðlileg viðbrögð hljóti að verða landflótti! Hverskonar ofurviðkvæmni er þetta? Og hverskonar andskotans aumingjar leyfa sér að mótmæla ofurlítilli skattahækkun á auðmann sem borgar í dag hundrað- eða þúsundfalt lægri skatta af sínum tekjum en t.d. fráskilinn faðir sem hefur 120ööö krónur í laun og þarf að greiða yfir 50000 krónur á mámuði í barnsmeðlög?

Ég styð Frjálslynda flokkinn og ætlast til þess að talsmenn hans á Alþingi komi að þessu máli í fyllingu tímans og taki á því af einurð.

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:44

6 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Andrea, takk fyrir ágæta grein. Þarna er margt athyglisvert og er ég sammála sumu en öðru ekki. En mig langar nú eiginlega frekar að skamma Guðmund Jónas Kristjánsson sem að virðist nú vera staddur á árinu 1957 en ekki 2007. Í stað þess að rökræða um greinina þína þá fer hann í orðræðu sem tíðkaðist á milli hægri og vinstri manna á miðri síðustu öld þar sem slengt er fram órökstuddum fullyrðingum og látið sem það væri heilagur sannleikur. Þetta er það sem ég kalla öfga hvort sem það kemur af hægri eða vinstri kanti stjórnmálanna.

kveðja

Lárus 

Lárus Vilhjálmsson, 28.2.2007 kl. 18:13

7 identicon

Ég segi bara; "kjósendur, verið varkár - varist vinstri slysin". 

Hvernig er hægt að hafa gjaldfrjálsan skóla og heilbrigðiskerfi.  Þetta er Skandivavískt velferðarmódel sem er ávísun á skatthækkanir.  Hið opinbera mun stækka fyrir bragðið með allskonar eftirlits- og góðgerðariðnaði að hætti Skandinava.

Vinstrafólk er nefnilega vonlaust þegar kemur að efnahags- og atvinnumálum.  Hvernig ætlið þið að hafa fulla atvinnu úti á landi?  Á ferðamannaiðnaðurinn að verða lykilatvinuugrein þar - ha? - eitt allsherjar byggðasafn og þjóðgarðar sem einungis eru opnir 3 mánuði á ári.  Þekkingariðnaður úti á landi?  - gleymið því!  Marel vill það ekki né heldur Síminn, hvað þá heldur Actavis eða Össur.  Ætlið þið að segja að uppbyggingin á Austurlandi sé ekki til neins?  Andrea, hefur þú komið til Austurlands fyrir og eftir Kárahnjúka/Alcoa og séð  muninn?? 

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 21:48

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er alveg sammála Guðmundi og Lárus það þarf ekkert að fara í neina tímavél til að skoða hugmyndafræði gömlu kommúnistana Í Alþ.bandalginu. Hún kristallast í Vg, og hefur ekkert breyst.

En Ragnar Thorarensen;  Markmið skatta er að afla fjár til sameiginlegra útgjalda fyrir samfélagið. Það hefur sannast sem Sjálfstæðismenn héldu fram en fáir lögðu trúnað á, að með skattalækkunum þá ykjust rekjur ríkisins, eins mótsagnakennt og það hljómar nú. Peningar eru afl sem einstaklingum er best treystandi fyrir. Afl sem þarf að flæða með drifkrafti einstaklinga, sem ríkið hefur ekki. Ef skattlagning er mikil þá stöðvarðu þetta afl. Jöfnuður á ekki að vera markmið í sjálfu sér heldur á markmiðið að vera að allir hafi nóg, að kjör batni og að sá bati stöðvist ekki. Með meiri sköttun þá stöðvarðu þann bata. Það getur vel verið að einhverjum líði betur ef hægt er að klípa meira af þeim ofurríku en mér er slétt sama. Ég vil bara að kjör mín batni, ekki versni. Og ég vil líka að staða ríkissjóðs sé sterk svo að hin sameiginlega velferðaþjónusta sem við ÖLL viljum að sé fyrir hendi, sé skilvirk og manneskjuleg. Hvort sú þjónusta sé í höndum einkarekinna fyrirtækja eða ekki á að ráðast af því hvað sé hagstæðast fyrir þjóðfélagið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2007 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband