Leita í fréttum mbl.is

Er það vinstri-öfgamennska að vilja FRIÐ á jörðu?

Ef svo er, þá væri niðurstaðan líklega einnig sú að hægri-öfgamennska væri í þeim anda að styðja stríð og senda um það yfirlýsingar um alla veröld, rétt eins og okkar hægri stjórn gerði. 

Það má spyrja sig hvort það sé vinstri-öfga-manneskja sem vill að Ísland segi ALDREI neinni þjóð stríð á hendur og vill ávallt halda sig utan stríðsyfirlýsinga eins og Svíþjóð hefur gert? Skynsemi mín svarar því alfarið neitandi, en ef svo væri raunin, þá væri ég stolt af því að kalla mig "vinstri-öfgamanneskju" fyrir friði á jörð. Eru það kannski öfgar líka að vilja ÖLLU fólki vel, líka þeim sem standa verst í samfélaginu? Er það öfga-manneskja sem vill tryggja það að allir launþegar fái almennilega greitt fyrir vinnu sína frá hægri öfgamönnum sem eiga fyrirtækin og vilja umfram allt græða peninga? Mig langar að spyrja fólk eins og Óðinn sem kommenterað hefur á bloggið mitt um vinstri-öfgamennsku að því hvernig eiginlega vinstri öfgamaður lýsir sér Smile

Mér finnst nokkuð leiðinlegt að tala um fólk sem öfgamenn þótt þeir hafi mögulega aðra skoðun en maður sjálfur. Eru Geir H. Haarde, Davíð og Halldór þá ekki hægri öfgamenn sem styðja stríð í þágu kapitalismans? Eru þeir ekki hægri-öfgamenn sem er alveg sama um það hvort hluti þjóðarinnar lifi við og undir fátæktarmörk, fái lítið sem ekkert greitt fyrir fullan vinnudag ... svona allavega á meðan þeir sjálfir, fjölskyldur þeirra, fyrirtækjaeigendur og þeir sem hæstir eru í launastiganum hafa það gott? Þá þurfum við ekkert að vera að spá í hitt fólkið sem vinnur hörðum höndum í fyrirtækjunum þeirra svo hægt sé að græða peningana - EÐA HVAÐ? Við skulum aldrei gleyma því hverjir skapa arðinn í raun og veru í fyrirtækjunum, það er ekki eingöngu forstjórinn og hans millistjórnendur, NEI, það er líka fólkið á færibandinu, fólkið sem veitir þjónustuna, fólkið sem býr til afurðina. Gleymum því ekki!

Ég vil benda á það að vilji til að hafa frið á jörð og sanngjörn laun fyrir alla er engin öfgamennska! Væri þá kannski líka hægt að kalla Gandhi og Dalai Lama öfgamenn? Nei, því er nú einu sinni svo farið að það eru sum okkar í þessum heimi sem munum aldrei samþykkja stríð og viljum alls ekki að okkar þjóð taki þátt í stríðsburðum eða yfirlýsingum um stríð á hendur annarra þjóða. Í okkar fyrstu mistökum á því sviði, sem XD og XB gerðu, er réttast í stöðunni að læra af þeim og draga þessa yfirlýsingu til baka og biðjast afsökunar á slíku framferði  - sérstaklega í ljósi þess að ráðamenn þjóðarinnar tóku ákvörðun byggða á röngum upplýsingum eða jafnvel engum upplýsingum.

Ísland á að vera friðarríki.

Um það held ég að flestir íslendingar séu sammála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinstrimennska er ekki hið sama og friðarást - og vinstrisinnar hafa engan "einkarétt" á að kalla sig friðarsinna.   Ég hafna alfarið þeirri kenningu þinni að fyrst vinstrisinnar séu friðarsinnar, hljóti hægrisinanr að vera stríðssinnar.  Myndir þú segja að Sovétríkin hafi verið tiltakanlega friðsæl?  Eða Norður-Kórea?  Eða Kína?  Þetta eru, eða voru, allt saman kommúnistaríki þar sem vinstristefna ríkti, eða ríkir enn.  Þar eru mannréttindi fótum troðin og stríðsæsingur hvað mestur.  Nei, Andrea, vinstristefna er ekki hið sama og friðarósk, en vissulega eru margir vinstrisinnar friðarsinnar, og það eru hægrimenn margir líka. 

Þú segir að vinstrimennska snúist um að vilja öllum vel, ég segi að vinstrimennska snúist um að refsa þeim sem gengur vel; að taka frá þeim sem hafa unnið sér inn og færa til þeirra sem hafa ekki unnið sér inn.  Í okkar þjóðfélagi ríkir sú jafnaðarstefna að þeir sem hafa vilja færa til þeirra sem ekki geta aflað sér, en því miður eru þeir miklu fleiri sem segjast ekki geta, en í raun geta ósköp vel en bara ekki nenna.  Afætur á íslensku velferðarkerfi eru mikið vandamál, og það vandamál vex í réttu hlutfalli við það hversu "gott" það er.  

Af því þú talar um hver "skapar" auðinn í fyrirtækjum, er það sá sem stillir saman ólíkar deildir og setur upp dæmi sem gengur upp með hagnaði, eða sá sem vinnur á gólfinu?  Ef við myndum reikna framlegð per einstakling (eins og hefur reyndar verið gert í rannsóknum) kemur í ljós að þeir sem vinna "á færibandinu" skapa minni framlegð fyrir fyrirtækið, hlutfallslega, en þeir sem eru yfirmenn, ef litið er til vel rekinna fyrirtækja.  Þannig að þannig má segja að þeir sem eru "á gólfinu" fá hlutfallslega hærra hlutfall af eigin vinnuframlagi sem laun en sá sem er yfirmaður, þó svo að vissulega hafi yfirmaðurinn hærri laun í "absalút" tölum.  Hvað er þá réttlátt?  Að greiða hverjum og einum í samræmi við vinnuframlag og þátt í framlegðaraukningu fyrirtækisins?  Eða borga öllum jafnt?  Því það að borga öllum jafn er hin mesta misskipting auðsins, því þá fá þeir meira sem ekki hafa til þess unnið, og þeir minna sem eiga meira skilið.  Það er ekki jafrétti.  Eða á að borga eftir framlagi hvers og eins, því þá fengju þeir sem minnst fá enn minna, og þeir sem mest hafa enn meira.  Það er jafnrétti, en það er líka ósanngjarnt.  Bara sem dæmi, hvor er meira virði fyrir, segjum, lyfjafyrirtæki, innkaupastjóri sem með útsjónarsemi í samningaviðræðum og réttum fjármögnunarstrúktúr sparar fyrirtækinu 500 milljónir á ári í innkaupum á hráefnum til framleiðslu, eða sá sem er á færibandinu að framleiða lyfið og framleiðir 2000 töflur á dag, 500 töflum meira en árið áður?  Ef taflan selst á 10 kr, og unnið er 200 daga á ári, þá hefur þessi starfsmaður aukið tekjur fyrirtækisins um 10 x 200 x 500 = 1 milljón á ári.  Og af því að þessi starfsmaður væri talinn góður starfsmaður fengi hann líklegast launahækkun sem næmi, segjum, 30.000 á mánuði = 360.000 á ári, eða 36% af þeim tekjuauka sem fyrirtækið nyti.  Hvað fyndist þér ef innkaupastjórinn fengi 180 milljónir í launahækkun (36% af hagnaðaraukningunni) í sinn vasa?  Það væri jafnrétti ef báðir fengju sömu prósentuhækkun, en þú ert varla hlynnt því?  Ergó, þú ert ekki hlynnt jafnrétti.  Eða þannig. 

haukur (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 16:00

2 identicon

,,...ávallt halda sig utan stríðsyfirlýsinga eins og Svíþjóð hefur gert?''

Hvílík sérfræðiþekking á sögu Svíþjóðar. Hefurðu aldrei heyrt um 30 ára stríðið? 

Svíar hafa allmassaða hernaðarsögu og hafa oftar lýst stríði á hendur öðrum þjóðum en við Íslendingar. Þeir hafa einnig drepið miklu miklu miklu fleiri útlendinga í stríði en við Íslendingar. Þar hafa þeir einfaldlega sigurinn.

Á wikipediu gætirðu frætt þig um hernaðarsögu Svía

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Swedish_wars 

Það eitt að vilja frið á jörðu er kannski ekki öfgamennska. En sú friðarstefna sem vinstrimenn halda á lofti er viðbjóðsleg blóðbaðs og ófriðarstefna í raun.

Það þarf að tryggja réttlæti og koma í veg fyrir kúgun. Það verður ekki gert nema með valdi.

Stríð og friður eru jafnskyld og ljós og skuggi. Annað verður ekki til án hins. Tilraun til að útrýma öðru hvoru munu efla hitt að lokum.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 23:29

3 identicon

Það er allt í lagi að tala um öfga en þá verða menn og konur bara að rökstyðja mál sitt. Ég er frjálshyggjumaður en ég er ekki öfgamaður, ég er ósammála greiningu þinni á ýmsu en það gerir mig ekki endilega að öfgamanni. Kannski þig en ekki mig, nei ég segi svona. Þú vilt betra samfélag það vil ég líka við viljum bara fara ólíkar leiðir í því en endanlegt markmið er hugsanlega svipða þó ekki eins. Ég hef því alltaf verið talsmaður þess að halda mig við málefni og rökræða um þau og aðferðir við að ná þeim þó ég skilji nú mæta vel að stundum vill maður bara skrifa frá hjartanu.

Ef þú vilt sjá aftöðu "öfga-hægrimans" eins og þú vilt kalla í t.d. frið á jörð, líttu á þessa grein http://www.haegri.is/greinar/nr/48/ 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:16

4 identicon

Sæl, Andrea ! Nei......... það er ekki nokkurs konar öfgamennska, en....... þakka þér greinagóðann pistil, láttu samt ekki hvarfla að þér, kæra Andrea að við, eða kynslóðir í fyrirsjáanlegri framtíð upplifi heimsfrið allsherjar, sjáðu nú til Andrea;..... hvernig er nú umhorfs, í Mið- Austurlöndum og nágrenni, þar djöflast þeir út í eitt, frændurnir og nágrannarnir Ísraelar og Filistear (Palestínumenn), nú nú, sjáum svo hinn vitstola Bush og þessa klerkaskratta austur í Mesópótamíu (Írak) og svo enn austar, í Baktríu (Afghanistan) enn aðrir skrattakollar, gegn áðurnefndum Bush; ásamt kjölturakka hans Blair, svo og alls lags leppum þeirra, þar á meðal frá NATO ríkjunum, sumum, a.m.k. ! Þarna bera Vesturlönd reyndar mikla ábyrgð á, hvernig komið er málum, m.a. vegna olíu og jarðgass, ásamt hinni skæðu nýlenduhyggju, sem seint ætlar að rjátlast af hvíta manninum. 

Á sama tíma, og þessi djöfulgangur gengur yfir heimsbyggðina, eru fjöldi þjóða, eins og Japan - Kóreurnar báðar (já meira að segja norðurhlutinn) sem og Kína, þrátt fyrir ýmsa vankanta þar, s.s. Tíbet, að vinna stórafrek á vísinda- og tæknisviðinu, í ró og næði.

Það skyldi þó ekki vera, Andrea að mongólsku þjóðirnar séu, mannfræðilega greindari; en þessar lánlausu þjóðir, í Mið og Vestur- Asíu, já sem og margar Evrópuþjóðanna ? Ekki eru trúarbrögðin að þvælast, fyrir þeim gulu, daginn út og daginn inn !

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:55

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bara eitt í viðbót um Svíana: Það kom fram í fréttum í haust eða vetur, að Svíþjóð er mjög ofarlega í hópi þeirra ríkja, sem framleiða mest af vopnum og vígtólum, m.a. til útflutnings til Afríku. (Einhver lesandi nennir kannski fletta þessu nánar upp í skýrslum.) En heldur Andrea, að Norðmenn og Svíar, sem hvorir tveggja hafa sent hermenn til Íraks á síðustu árum, vilji ekki frið? -- Þegar Samfylkingarfólk fer að ræða um friðarmál, vill oft ýmislegt gleymast, m.a. um okkar eigin fortíð (friðarhefðartalið stenzt ekki), og alls konar undarlegar, sjálfgefnar forsendur rata inn í þá umræðu, sem sýna það með berum hætti, að yfirlýsingagleði viðkomandi fólks er í engum takti við þekkingu þess á málunum.

Jón Valur Jensson, 30.1.2007 kl. 01:00

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Óskar minn Helgi, finnst þér ekki nóg ofbeldið í Maó-þáttunum á mánudagskvöldum í Sjónvarpinu? Ertu búinn að gleyma hernaðarstefnu Japana á 20. öld (og öllum samúraí-myndunum), stríði þeirra við Rússa 1905, innrás og hernámi allrar Kóreu, hernámi Mansjúríu og síðan mestallrar Austur-Asíu á heimstyrjaldarárunum? Hættum þessum rósrauðu dagdraumum um að ákveðnar þjóðir eða kynþættir séu friðsamari en aðrar eða að kvenfólk við stjórnvölinn myndi leggja niður vopn (gerðu pilsvargarnir þrír það á 18. öld? -- eða Margaret Thatcher? -- eða Ólöf ríka, ekkja Björns riddara? -- eða var Perón-frúin nr. 2 meinlaust gæðablóð?).

Jón Valur Jensson, 30.1.2007 kl. 01:18

7 identicon

Sæl, Andrea enn og aftur !

Má til, að svara mínum gamla og góða félaga, Jóni Val !

Má vera, Jón Valur; að ég hefði þurft að taka fram, að ég miða reyndar við ástandið, á Kringlu heimsins, eins og það er í dag, var ekki beinlínis að skírskota til fortíðarinnar, nema að takmörkuðu leyti. Hitt er svo annað mál, hvort grunur minn standist, hvað varðar gáfnafar íbúa jarðar, a.m.k. í seinni tíð ? Ætla svo sem ekki að fullyrða frekar; Jón Valur en hann er ekki einleikinn, þessi vandræðagangur í Mið- Austurlöndum t.d., spurning;; hvort þjóðum þar hefði ekki látið betur, hrein og klár skurðgoðadýrkun, verandi með líkneskjurnar innan seilingar, dags daglega; hvort þá hefði ekki verið þægilegra, fyrir viðkomandi trúmann að leita ráða, við alls lags vanda, heldur en verandi ákallandi Guð, þeim með öllu ósýnilegan, huglægt sem hlutlægt;; Jón Valur ? Eða sjáum hina ágætu guði, austur í Palmýru, á sinni tíð; þá Aglibol - Baalshamin og Malachbel, t.d. ?

Kveðja, enn og aftur, gott fólk !

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 01:34

8 Smámynd: Bjarni Már Magnússon

Verður ekki að minnast á massívan útflutning Svía á stáli og málmgrýti til Þriðja ríkisins í skugga hlutleysisstefnu.

Í hvað eða öllu heldur hverja ætli stálið hafi farið?

Bjarni Már Magnússon, 30.1.2007 kl. 04:36

9 Smámynd: Jóhann Gunnar Gunnarsson

Þú færir nafninu Vinstri "Græn" nýja vídd

Kv 

Jóhann Gunnar Gunnarsson, 30.1.2007 kl. 10:48

10 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ég verð nú að segja að ég get ekki annað en brosað út í annað við þessum athugasemdum. Sérstaklega í ljósi þess að bloggið er skrifað vegna athugasemdar sem ég fékk um að "vinstri-öfgamaðurinn" Steingrímur vildi Ísland úr NATO og herinn burt. Ég sé ekkert slæmt í því að vilja herinn burt, að vilja að Ísland sé algert friðarríki og við förum aldrei með ófriði á aðrar þjóðir. Mér þótti það pínu skondið að það þætti nú einhver öfgamennska og fór að velta fyrir mér þessum stimpli. Fyrirsögn blggsins og innihald eru bara vangaveltur um það hvort þetta geti staðist sem öfgamennska og ég get ekki sagt að ég geti komist að þeirri niðurstöðu að friðarhugsun sé öfgakennd. Aftur á móti get ég vel fallist á það sem öfgamennsku að vilja stríð og að styðja stríð. Einnig vil ég taka fram að ég tel ekki að friði verði náð með því að fara fram með ófriði og ofbeldi og ég veit það ósköp vel að ólíklegt er að ég fái að sjá frið á jörðu þótt ég láti mig títt dreyma um það.  

En það er vissulega öfgakennd og ný stefna að leyfa sér það í ríkisstjórn á Íslandi að gefa út stuðningsyfirlýsingar við stríð á hendur öðrum þjóðum, sérstaklega í ljósi þess að ákvörðun var tekin á grundvelli mikils upplýsingaskorts og það getur nú ekki þótt gott að stjórnmálamenn leyfi sér slíka ákvarðanatöku án upplýsinga.  

Vegna þess hversu mikill misskilningur hefur orðið útaf blogginu og fólk kannski ekki að skilja kaldhæðnina, að þá finnst mér ég líka þurfa að taka það fram að ég tel engan veginn að allir hægrimenn séu stríðssinnar. Þvert á móti er ég algerlega viss um að mjög margir hægri menn eru mótfallnir stríðum og láta sig líka dreyma um frið á jörð. En við skulum ekki gleyma því að stríð skapa illkynja hagvöxt og því eru þjóðir eins og USA (Síðustu stríð þar í landi, eftir WW hafa að mestu verið á ábyrgð hægri-repúblikana forseta) alveg til í stríð annað slagið því það eru ákaflega miklir peningar í því, semsagt "það borgar sig alveg" peningalega. Einmitt vegna þess hve margir hægri menn vilja alveg örugglega friðarríkið Ísland, þá held ég að margir Sjálfstæðismenn skammist sín hreinlega fyrir afstöðu XD í Íraksyfirlýsingunni og telji vissulega að það hafi verið mistök - stór mistök.  

Mér finnst það pínulítið skondið að ég skuli þurfa að taka það fram í okkar menntaða samfélagi að Svíar hafi áður fyrr farið í stríð og það hafi í raun ekki verið fyrr en á seinni tímum, u.þ.b. síðast liðnar tvær aldir, sem þeir hafa tekið afstöðu um að vera hlutlaus gagnvart stríðum. Ég bara hreinlega hélt að slíkt þyrfti ekki að taka fram.

"Swedish neutrality refers to Sweden's policy of neutrality in armed conflicts, which has been in effect since the early 19th century." 

http://en.wikipedia.org/wiki/Swedish_neutrality 

En það er líka nauðsynlegt einmitt að spá í þennan útflutning og framleiðslu "Svía" á vopnum. Vissulega hljóta margir Svíar að skammast sín fyrir kapítalísk fyrirtæki sem gera allt fyrir peningana þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi þjóðarinnar. En við skulum athuga það að Saab er ekki Svíar. Saab er ekki ríkið. Saab er vissulega sænskt kapítalískt fyrirtæki sem framleiðir vopn til að græða peninga - og það tel ég vera hina ljótu hlið kapítalismans auk þrældómsins sem á sér stað í austurlöndum fjær og S-Ameríku. Ekki leyfa ykkur að misskilja mig þannig að ég telji öll fyrirtæki vera af hinu slæma - en þau eru það mörg, og sérstaklega þessi risastóru sem kallast í raun ekki companies á ensku, heldur Corporations. Það er fróðlegt í því sambandi að horfa á myndina "The Corporation".

Það má í framhaldi af þessu kommenti hér að ofan spá í framtíð "Íslendinga" sem hergagnaframleiðanda! Eða hvað? Alcoa framleiðir parta í hergögn og á annað fyrirtæki sem er hergagnaframleiðandi. Alcoa er núna að hluta til staðsett á Íslandi. Munu Íslendingar þá vera hergagnaframleiðendur? Allavega að hluta til, ekki satt? Það má hins vegar ekki rugla hinu kapítalíska stórfyrirtæki við ríki okkar og þjóðina í heild, er það? En vissulega á það eftir að hafa ítök í landinu ef það fær að verða eins stórt á þessum markaði hér eins og XD og XB vilja leyfa þeim að verða, þrátt fyrir að þessi grein færi okkur mun minni hagvöxt en aðrar greinar.

Ekki hélt ég heldur að fólk væri ekki með það á hreinu að Sovét, Kína  eða Kórea hefði mun meira með fasisma að gera heldur en nokkurn tíma vinstri jafnaðarmannastefnu í anda Norðurlandanna eins og ég hef alltaf talað fyrir. Fasismi og vinstri er ekki það sama - og fasismi er til bæði til hægri og vinstri. Bendi þeim sem vilja forvitast um fjórskiptingu stjórnmálanna að taka þetta próf hér. Stjórnmálapróf þar sem ég er í liði með Gandhi.  Það er nefnilega ekki svona einfalt eins og bara vinstri eða hægri. Pólitík er margþættari en það og ég bið hægri raddir þessa heims um að ásaka hvorki vinstri græna né mig um að eiga eitthvað skilt við fasistana í Sovét, Kína eða öðrum löndum. Ég hef ekki örðu af fasisma í mér - ég er alger og heitur talsmaður lýðræðis, og þegar ég tala um lýðræði er ég að tala um að ég vil alvöru lýðræði, betur útfært lýðræði heldur en "fulltrúalýðræði" því ég vil að þjóðin geti tekið ákvarðanir sjálf og geti líka verið aðhald að Alþingismönnum. Lýðræði þar sem þjóðin kýs um hin stærstu mál sérstaklega, en lætur þau ekki í hendur örfárra einstaklinga. XD og XB hafa hins vegar sýnt að þeir eru mjög mótfallnir alvöru lýðræði og hafa mótmælt því að lýðurinn, eða fólkið í landinu eigi að fá að kjósa um mál eins og símasöluna, bankasöluna og stóriðjuna svo ég nefni dæmi. Meirihluti þjóðarinnar hefur verið andsnúin því hvernig hlutirnir voru og eru framkvæmdir og eðlilegt að hafa lög um það að þjóðin geti alltaf og ávallt farið fram á atkvæðagreiðslur í stórum og miklum deilumálum.

Honum Hauki vil ég bara einfaldlega benda á það að innkaupastjórinn í lyfjafyrirtækinu getur aldrei orðið til ef ekki væri fyrir fólkið sem býr til lyfin sjálf. Þetta hangir allt saman - en er ekki þannig að einn skapi svona miklu meiri auð en annar, alveg óháð öllum hinum. Ég sé öll fyrirtæki sem eins konar vél þar sem ekki er hægt að vera án neinna hlutanna, því annars hættir vélin að virka, tannhjólin hætta að snúast og ekki getur innkaupastjórinn eða forstjórinn rekið fyrirtæki og skapað auð þegar hitt fólkið er ekki til staðar. Allt í samhengi. Mætti líka í þessu samhengi spyrja sig hver skapar "mannauðinn". Eru það ekki skólarnir? Að einhverju leyti eru það skólarnir þótt auðvitað komi fleiri hlutir til og ekki þurfi alltaf að skóla alla til að vera snillingar eða sækja sér þekkingu og visku. En ef skólarnir bera að einhverju leyti ábyrgð, af hverju fá þeir þá ekki meira hlutfall af þjóðarauðnum til að geta veitt enn betri þjónustu? 

Velferðarafæturnar eru jú alveg vandamál stundum, en það eru ekki eingöngu afætur sem þurfa á hjálp að halda í samfélaginu og sem betur fer í minnihluta. Ég tel alveg að það megi laga til í kerfinu og einnig skoða allar tengingar þar innan, en það þýðir ekki að ætla að leggja það bara af vegna örfárra einstaklinga sem misnota. Ef ég einhvern tíma yrði rík, ef það væri mitt markmið, þá væri það eingöngu markmið til þess að einmitt geta gefið af mér og mínum auð til annarra. Til að deila minni getu og færa auðinn til þeirra sem virkilega þurfa á honum að halda. Eingöngu þannig væri ég sátt við að vera rík

Andrea J. Ólafsdóttir, 30.1.2007 kl. 20:15

11 identicon

Þá kemur upp eins spurning. Fyrst þú dáist svona mikið af núverandi fyrirkomulagi Svía, værir þú fylgjandi svipuðu fyrirkomulagi á Íslandi í varnarmálum?

Þ.e. fjölmennan og öflugan íslenskan her?

Það væri allavega alveg nýtt ef vinstri grænir myndu ljá máls á slíku þjóðþrifaverki.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 21:07

12 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Nei ég er ekki að segja að ég vilji her - því er fjarri lagi :) Skrítið að geta yfir höfuð túlkað orð mín þannig. Vinasamlega lestu kannski betur úr orðum mínum. Ég er fyrir frið og algert herleysi allra þjóða. Ég vil að Ísland sé ávallt friðarríki og gangi jafnvel lengra en Svíar, og lýsi ekki bara hlutleysi við stríð, heldur lýsi sig alfarið á móti öllum stríðum. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 30.1.2007 kl. 22:12

13 identicon

Sæl Andrea; og þið öll !

Ekki misskilja góðar meiningar Péturs Guðmundar Ingimarssonar. Þótt nú sé, tiltölulega friðsælt; hér hjá okkur norður í Íshafi, þá kann sú stund að renna upp, að við þyrftum, tilneydd; að koma okkur upp umsvifamiklum hervörnum. Það er ekkert bitið úr nálinni með, að ruslaralýður, eins og Al-Kaeda, eða aðrir viðlíka drullusokkar; kynnu að herja hér, á norðurslóðum. Þá væri gott að minnast varnaðarorða Péturs Guðmundar, og annarra framsýnna manna. Ekki einungis, að trúarofstækislýður; héðan og þaðan, af Kringlu heimsins er farinn að stinga sér niður, allverulega, hér á Vesturlöndum, þá kunna og ýmsir pólitískir hópar einnig að fara á kreik, Skínandi stígur (Perú) og fleirri eru enn við lýði, víða.

Með beztu kveðjum, úr Sunnlendinga fjórðungi /

Óskar Helgi   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 23:57

14 identicon

Málið er bara það, að þeir sem mótuðu hlutleysisstefnu Svía byggðu hana á öflugum hervörnum. Og það er enn viðurkenndur hornsteinn hlutleysisstefnu Svía.

Þetta á einnig við um Finna og Svisslendinga.

Almennt er talið að algert varnarleysi verði ekki til að tryggja frið og öryggi. Við gætum t.d. litið til lénskerfisins í Evrópu á miðöldum.
En eftir fall Rómar og upplausn ættar eða ættbálkasamfélagana í Evrópu lifði almúginn við mikið öryggisleysi. Ribbaldar fóru um og drápu og rændu. Hervæðingin við lénsskipulagið og allt sem því fylgdi kom skipulagi á ofbeldi og takmarkaði það.

Svipaðar hliðstæður má sjá innanlands í Bandaríkjunum þar sem sérstök svæði eru gerð að vopnlausum svæðum, t.d. skólar. En allt í kring er nóg af vopnum, og hefur valdið því að miklar blóðsúthellingar hafa átt sér stað í skólum í Bandaríkjunum síðan þessum svæðum var komið á.

Vissulega eru Íslendingar á móti stríðum, það hljóta allir nema mestu ofbeldisseggir að vera. En stríð í sjálfsvörn er nokkuð sem eingöngu allra mestu kverúlantar afneita sér. Enginn vill deyja til dýrðar morðingja sínum. Sjálfsvarnarrétturinn er almennt talinn heilagur grundvallarréttur og fyrsta boðorð náttúruréttar.

Slík afneitun sjálfsvarnarinnar, sem vinstri grænir og fleiri halda að komi í veg fyrir stríð er það sem mörgum finnst hvað viðbjóðslegasta við stefnu þeirra. Almennt gerir fólk sér grein fyrir því að ekki er hægt að lita skýin græn með tússpenna. Ímyndaðu þér hvað fólki fyndist um stjórnmálaflokk sem ætlaði sér að lita skýjin rauð með blóði þjóðar sinnar. Ekki einöngu yrðu skýjin áfram hvít, heldur væri blóði saklausra úthellt í leiðinni.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 00:03

15 identicon

Andrea þú veist vonandi að vinstristefna er byggð á ofbeldi og þvingunum.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 18:51

16 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Jesús Kristur hjálpi þér. ER vinstristefna byggð á ofbeldi? Og hvað er hægri stefnan þá? Ekki ofbeldi? Vinstristefna sem við boðum hér á landi byggist ekki á ofbeldi. Myndirðu segja að uppbygging vinstri-fremstu-samfélaga-heims séu byggð á ofbeldi? Norðurlöndin?

Á hverju byggir hægri stefna USA? Ofbeldi kannski? og þvingunum?

Ég er engan veginn á því að vinstri og hægri sé svona einfalt eins og sumir vilja setja það fram og ég bara skil ekki svona gamlar og úreltar kreddur um vinstri stefnur. Norðurlöndin sýna það bara og sanna minn kæri að vinstri lýðræðisstefna  getur sko vel gengið og það alveg frábærlega, án nokkurs ofbeldis. Mun meira ofbeldis gætir hins vegar í hægri kapítalísku stórfyrirtækjunum sem þræla fólki út í þriðja heiminum og berjast gegn verkalýðshreyfingum þeirra - þannig að fólk lætur jafnvel lífið í baráttunni. Það er að gerast í dag- as we speak. Það er hins vegar ekki málið í vinstri stefnu Norðurlandanna eins og ég er að tala um hér. Þessi áróður ykkar er bara orðinn svo þreyttur og úreldur. Vinstri-félagshyggjustefna Norðurlandanna hefur bara margsannað sig og þar er fínasti hagvöxtur og fólk á miklu hærri launum en hér. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 31.1.2007 kl. 19:40

17 identicon

Vissulega byggir allt ríkisvald á ofbeldi. En hitt er þó rétt að vinstristjórnir á Íslandi hafa yfirleitt beitt meira ofbeldi en hægristjórnir.

Ríkið hefur einkarétt á því ofbeldi, sem ekki er í sjálfsvarnarofbeldi en almennum borgurum er það heimilað t.d. með 12.gr núgildandi hegningarlaga. 

Ofbeldið felst í þeirri valdbeitingu og þeirri yfirvofandi valdbeitingu sem á sér stað til þess að halda uppi lögum.  

Reynslan er sú að vinstrisinnaðir stjórnmálamenn hafa verið líklegri til að taka meiri skattpening af almenningi en aðrir og jafnframt eyða þeim skattpening á máta sem ekki er hagkvæmur þjóðinni. Þetta má einnig heimfæra upp á ,,hægri sinnaða stjórnmálamenn'' sem taka stundum upp vinstristefnu í einstökum málum. Það eignarnám sem á sér stað með skattlagningu grundvallast af yfirvofandi þvingunum sem grundvallast af ofbeldisbeitingu þeirra sveita ríkisvaldsins sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar.

Það þýðir engan veginn að ofbeldisbeitingin sé algerlega óréttlætanleg, enda þarf þessi ofbeldismáttur að vera til staðar þegar handsama þarf barnaníðinga, nauðgara, morðingja, þjófa, ræningja og aðra glæpamenn.  Til þess að hann sé til staðar þarf nægilegt fjármagn, sem fengið er með yfirvofandi valdbeitingu.

Það sem hægrimenn hafa þarna fram yfir vinstrimenn er einskær vilji til að takmarka þetta ofbeldi við það sem má kallast bráðnauðsynlegt en ekki meira. Vinstrimenn vilja hinsvegar hljóta meiri skatt til þess að nýta í sérstök gæluverkefni vinstrimanna. Það leiðir til meiri valdbeitingar en ella.  

Þó yfirvofandi ofbeldi leiði ekki til líkamsmeiðinga í öllum tilvikum er grundvallarniðurstaðan hin sama. Þessu má líkja við tvær gerðir af nauðgun. Önnur þeirra er líklegri til þess að nauðgari hljóti dóm, hin síður. Það felst í sýnileika valdbeitingarinnar, í þeirri fyrstu er ofbeldi beitt og fórnarlamb með sýnilega áverka, en í hinni er ofbeldið einungis yfirvofandi og því engir áverkar. Lokaniðurstaða þessa tveggja tegunda ofbeldis er hin sama, en önnur þeirra vekur meiri athygli hin.

Allt ofbeldi hvaða nafni sem það nefnist er viðbjóðslegur hlutur og því mikilvægt að allir leggist á eitt til að takmarka það. Það er því skoðun allra frjálshyggjumanna að einungis sé réttlætanlegt að beita því í nauðvörn, en ekki til að gefa góðvinum stjórnvalda peninga. Nauðvörnin felst þá í hinum almenna sjálfsvarnarrétti, sem er síðan útvíkkaður til þess að taka til þess ofbeldis sem þarf að beita til að ríkisvaldið komist yfir og geti haldið uppi nægilegum ofbeldismætti til að ekki sé brotið gegn rétti þegna þess, sem reglu, en í undantekningum refsað þeim sem brjóta þennan rétt.

Þannig er ofbeldið takmarkað við það algera lágmark sem þekkist og er fræðilega mögulegt. 

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 22:13

18 identicon

Sæl, öllsömul !

Verð að ítreka, og hefði átt að gera, miklu fyrr; stuðning minn óskiptan við það sjónarmið Andreu, að þeir  Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson höfðu ENGAN, engan rétt, stjórnskipulega né siðferðilega, að hengja, á klakk þeirra Bush og Blair, þátttöku Íslands, í hinu afkáralega og tilgangslausa stríði, austur í Mesópótamíu (Írak). Vissi ekki betur, en fyrrum ráðamenn hér, um miðbik 20. aldar hafi gefið, ótvírætt; til kynna, að við færum aldrei með stríði á hendur öðrum þjóðum !

Með kveðju /

Óskar Helgi   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 00:39

19 identicon

Það má vel vera að norðurlönd séu fremstu vinstrisinnuðu samfélög heims enda ekki mikil samkeppnin við N-Kóreu og Kúbu ég tala nú ekki um Venusvela.

Svíþjóð er nú oft nefnd til sögunar af vinstrimönnum en það sem þeir ekki vita er:

Milli 1890 – 1950 voru svíar með einn hraðasta og mesta hagvöxt í heiminum en með ekki nema 10 – 15% skattbyrgði að meðaltali á þessum tíma. Mjög frjálsan markað og lítið ríkisvald. Það er líka gaman að geta þess að af 50 stræstu fyrirtækjum í svíþjóð er aðeins eitt þeirra stofnað eftir 1970.

Eftir að ríkið fór veg vinstrimanna hefur GDP fallið úr því að vera í topp 3 í að hanga á bilinum 15 – 20 sæti í evrópu. Verðbólga hefur vaxið og atvinnuleysi er gífurleg en það er talið vera á milli 15-20% auk þess hefur vinnumarkaðurinn fjórða hægast vöxt í evrópu samkvæmt OECD. Mesti vöxturinn á vinnumarkaðnum er hjá ríkinu sem getur ekki veirð heilbrigt. Atvinnuleysi hjá ungu fólki er 23% sem er einn sá mesti í evrópu. Svíar meiga þó eiga eitt, um 1990 gerðu þeirr ýmsar umbætur á skattakerfinu það var einfaldað og jaðarskattar lækkaðir þó svo skattar þar séu enn háir. Ríkið dróg úr reglugerðum og ríkisvæðingu á ýmsum sviðum svo sem á símamarkaðnum og sumum sviðum smávöruverslunar, seðlabankinn var gerður sjálfstæður og lífeyrirskerfið var tekið í gegn að einhverju leiti. Í dag, 17 árum síðar, sjáum við að einmitt þessir geirar markaðarins í Svíþjóð eru þeir sem blómstra, svíar lifa á fornri frægð sem byggð var upp með frjálsum markaði og lágum sköttum.

Pétur nokkur hefur annars svarað nokkuð vel fullyrðingu minni um ofbeldi. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 00:58

20 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Þótt ótrúlegt megi kannski virðast, þá er ég sammála þér Pétur að ofbeldi eins og skoðanakúgun og of mikil lögreglukúgun sé af hinu slæma. Mér finnst hins vegar pínu fyndið að þú skulir einskorða þær við vinstri stjórn, því nú er hér í landinu hægri stjórn og mikil skoðanakúgun í gangi hvað varðar stóriðjustefnuna og mótmæli sem til koma vegna hennar. En í lýðræðisríki er það réttur fólks að mótmæla og á fólk ekki að þurfa að sæta ofsókna lögreglu við það eitt. Það hefur hins vegar sýnt sig mjög oft og skilaboðin eru skýr. Þú lendir mjög sennilega í klóm lögreglu ef þú leyfir þér að mótmæla ríkisframkvæmdum sem hér fara fram, sbr. hleranir í nútímanum á náttúruverndarsinnum sem samt hafa ekki brotið af sér og fara fram með friðsamlegum hætti, sbr. ofsóknir lögreglu upp á Kárahnjúkum í sumar, það var algerlega fáránlegt að verða vitni að lögreglunni þar, stoppandi bíla og spyrjandi fólk hvert það væri að fara og takandi mat úr bílum - algerlega út í hött!!! Þessu beitir nú hægri stjórnin okkar hér á landi - því þeir eru hræddir við fólkið sem gæti haft of mikil áhrif til að vekja hitt fólkið til umhugsunar. 

Ég get líka sagt það hreint út að ég aðhyllist lýðræði, alvöru lýðræði, en ekki svona plat eins og er hér á landi og víðast á vesturlöndum. Ég tel að mun fleiri ákvarðanatökur eigi að vera í höndum fólksins - en ekki eingöngu stjórnmálamanna og það sama segi ég þótt ég væri á þingi :) ... ég tel að einungis þannig geti fólk verið sátt við samfélagið sitt - þegar það hefur beina aðkomu. Við ættum til dæmis að kjósa um stóriðjustefnuna á landsvísu, því það snertir allt landið og allt fólk í landinu - en ekki bara einstök bæjarfélög. Við áttum líka að fá að kjósa um sölu símans á sínum tíma og um sölu bankanna því þetta voru einfaldlega eignir okkar, en ekki eignir XD og XB. Slíkur skortur á lýðræði eins og fyrirfinnst hér á landi er hreint ofbeldi og kúgun og það var ein stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að bjóða mig fram - til að berjast fyrir auknu lýðræði. 

Reyndar aðhyllist ég sjálf svona persónulega mest sjálfbær samfélög þar sem ekki ríkir nein hætta á ofbeldi og lögregla er með öllu ónauðsynleg, og já, þau eru til. En ekki víða. Þau þurfa að vera lítil til þess að það virki og allir, já allir, líka börn, fá að koma að ákvarðanatöku - en það er eins og ég segi, eingöngu sem það hefur virkað þegar samfélögin eru lítil, aðeins nokkur hundruð manns.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 2.2.2007 kl. 01:35

21 identicon

Lýðræði er bara eitt tæki kúgunar sem fæstir átta sig á. Lýðræði er góð leit til að skipta um valdhafa án blóðsúthellinga en í grunninn er lýðræði alræði meirihlutans. Ef meirihluti þjóðarinnar hefði kosið um virkjanir og álver um allt land, hefði það réttlætt framkvæmdirnar?  Eða þá ef þjóðin hefði kosið um aðild Íslands að Íraksstríðinu og sagt já hefði það réttlætt stríðið?

Lýðræði virkar vel þegar okkar skoðanir eru ofan á en svo ég sletti suckar þegar við erum í minnihluta. Tryggum einstaklingum raunveruleg grunndvallaréttindi og þá þurfum við ekki að þræta um lýðræði þetta og hitt.

Já og meðan ég man við áttum aldrei og eigum ekki neitt af því sem ríkið á eða hefur selt. Það er skortur okkar á skilningi á eignarrétti sem gefur okkur þessa ranghugmyndir. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 05:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband