Leita í fréttum mbl.is

Trúðirðu í alvörunni að þetta héldi endalaust áfram?

Hélstu fyrir alvöru að góðærið tæki engan enda? Að heimurinn gæti þanist út án þess að nokkurn tíma kæmi samdráttur? Að kassinn sem þú býrð í myndi endalaust hækka í verði þannig að þú gætir velt þér upp úr hversu mikils virði hann væri og hvað þú værir búinn að "græða" á honum? Þvílík vitleysa sem búin er að eiga sér stað í síðustu árum er ekki í takt við raunveruleikann og hefði aldrei getað haldið áfram - það vissu alltaf þeir sem voru með báðar fætur á jörðinni. Þeir héldu líka áfram að haga sér með skynsamlegum hætti án þess að veðsetja allar eigur sínar í botn til að kaupa sér fleiri fína bíla og skulda meira. Kaupæðið og brjálæðið í útrásinni hér á landi og víða hefur með engum hætti verið eðlilegt og við þurfum öll að skilja það einfalda lögmál að það sem fer upp mun alltaf koma niður aftur. Það er einfalt lögmál og ekki erfitt að skilja ef maður hefur augun einfaldlega opin, en blindast ekki í brjálæðinu.

Það er nefnilega ekki þannig að hlutir hafi endalausa þenslumöguleika - þannig er ekkert í eðli sínu - allir hlutir og öll fyrirbæri hafa sín takmörk og það er okkur hollt að hugsa ávallt um það. Meira að segja er talið að alheimurinn hegði sér þannig að hann "andi" eða þenjist út og dragist svo saman.

Það versta er að þeir sem alla tíð hafa hagað sér skynsamlega og tóku á engan hátt þátt í þessari kaupæðisklikkun síðustu ára þurfa líka að súpa seyðið af því hvernig hinir höguðu sér, því lánin okkar eru öll verðtryggð (eða allflest), því er nú ver og miður - þannig að öll súpum við seyðið af biluðum hæðum verðbólgunnar.

Húsnæðisbólan og hið himinháa verð í þeim geiranum hefur alls ekki gert flestum okkar gott. Það er nefnilega ekkert gott að heimilin okkar hækki í verði þegar við ætlum ekkert að selja þau, heldur bara búa í þeim. Það eina sem það hefur í för með sér eru hærri fasteignagjöld og minni vaxtabætur. Eins hefur það í för með sér fjölda heimilisgjaldþrota núna á næstu mánuðum og árum í þeim tilfellum sem fólk var að kaupa eigur á þessu himinháa verði og spenna fjárhaginn framúr öllum skynsemismörkum. Finnst ykkur í alvöru eðlilegt að hús, kassi úr steinsteypu, kosti okkur margfalt á við raun-byggingarverð? Það finnst mér ekki.

Ég las í gær grein í Guardian þar sem Charlie Brooker kemst skemmtilega að orði um það hversu mikið bull það er sem fólk er búið að láta segja sér síðustu árin og hversu mikið drasl það er búið að vera að láta selja sér.
http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2008/oct/13/features-comment

Kannski er ágætt að það komi smá raunveruleikatékk eftir allt ruglið - kannski verður það til þess að fólk fer í alvöru að hugsa um það sem mestu máli skiptir í lífinu og hefur kannski verið vanrækt síðustu árin eða áratugina. Kannski fer fólk í alvöru að spá í það sem getur veitt þeim raunverulega djúpstæða ánægju í lífinu og felst ekki í veraldlegum eigum. Ég er allavega bjartsýn á að þessi kreppa verði til þess að góðar breytingar geti átt sér stað og fólk endurmeti sín gildi og lífsstíl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

VG verður líka að axla ábyrgð eða ætlar VG að vera í stjórnarandstöðu
til 2050.  Sitjandi stjórn mun ekki sitja lengi.  Samfylkingin mun
slíta þessu um leið og um hægist.  Eina mögulega næsta stjórn
inniheldur 2 flokka...VG og Samfylkingu.  VG verður þess vegna núna
strax að endurskoða afstöðu sína til aðildar að EB og hætta þessari
einangrunarhyggju.  Þessir 2 flokkar verða að mætast á miðri leið og
mynda breiðfylkingu, því hagsmunir þjóðarinnar eru meiri en hagsmunir
flokka, hvaða nafni sem þeir nefnast eða miðar VG við að verða
einhverntíma það stór flokkur að geta verið ein í ríkisstjórn. 
Endurskoða þetta lykilatriði sem fyrst og hefja kosningabaráttuna strax
í dag undir því kjörorði að ætla að sitja í næstu ríkisstjórn og ekkert
helvítis en..eða ..ef....því það er komið að þessum 2 flokkum að starfa
saman og þó fyrr hefði verið.  Besti leikurinn í stöðunni er því að
byrja sem fyrst að semja við Samfylkinguna og endurskoða afstöðu
flokksins til EB aðildar.  Þetta er sá pólitíski veruleiki sem blasir við.  Því ef VG ætlar yfirleitt einhverntíma að mynda ríkisstjórn með einhverjum flokki, þá er sá eini mögulegi í stöðunni..Samfylkingin og þessvegna ætti að miða kosningabaráttuna við það

Máni Ragnar Svansson, 15.10.2008 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband