Leita í fréttum mbl.is

Stefnumálin mín

Þó svo ég gæti líklega skrifað í marga daga um hverju ég vil breyta og bæta þannig að Ísland geti orðið mun betra og réttlátara samfélag á leið til framsýnna framfara, þá vil ég samt sem áður draga fram nokkur atriði hér fólki til glöggvunar. Þannig getið þið séð hvort þið eigið samleið með mér og myndað ykkur skoðun um að kjósa mig til að taka þátt í störfum í þágu samfélagsins á þingi. 

Fyrir þá sem lítinn tíma hafa, set ég fyrst fram fyrirsagnastílinn á mínum áherslumálum og tel upp nokkur atriði sem síðan má lesa betur um hér að neðan.

Vilja til samfélagsstarfa hef ég sýnt í verki á sviði umhverfisverndar, jafnréttismála og mannréttinda auk sjálfboðastarfs hjá Rauða krossinum, þar sem ég sit nú í verkefnastjórn Hjálparsímans. Ég hef unnið ýmis störf, síðast við bókhald og með þroskaheftum, en er nú að ljúka námi í uppeldis- og menntunarfræði. Minn æðsti draumur er að útrýma fátækt í heiminum og búa í friðsömum heimi. Þótt slíkt sé erfitt að sjá fyrir sér á miðað við ástand heimsins í dag, þá finnst mér alls ekki óraunhæft að sjá fyrir mér slíkan heim hér á litla Íslandi. Þess vegna vil ég bjóða fram krafta mína til að vera með við að móta réttlátt og gott velferðarsamfélag. Þeir sem vilja lesa meira um mig vinsamlegast klikkið á "Höfundur" til vinstri hér á síðunni.

Góðkynja hagvöxtur í réttlátu, heilbrigðu lýðræðissamfélagi getur einungis orðið til í samfélagi með hátt menntunarstig, þar sem virðing fyrir mannréttindum og umhverfi er í hávegum höfð.  Ég sé Ísland fyrir mér í fararbroddi á sviðum umhverfisvænnar atvinnusköpunar, jafnréttis, menntunar og lista; þar sem hugmyndir fólksins verða að veruleika. Ísland framtíðarinnar er réttlátt fjölmenningarsamfélag með traustan velferðargrunn.

Heilbrigði jarðar og náttúru      Umhverfisvæna atvinnusköpun, skilvirk endurvinnsluúrræði

Hugurinn er auðlind                  Framsýna atvinnu- og nýsköpun, tækifæri til framkvæmda

Jafnrétti og jöfnuð                   Eftirfylgni á jafnréttislögum, fjölskylduvænan vinnumarkað, hækkun lágmarkslauna, 10% fjármagnstekjuskatt á ellilífeyri

Innflytjendamál                        Öflug íslenskukennsla í grunnskólum, vinnuveitendur í samstarfi við ríkið veiti     íslenskukennslu á vinnutíma, samhæft mat á menntun innflytjenda

Gott menntakerfi                      Grunnskóli án skólagjalda, fjölbreyttar aðferðir og hugmyndafræði, Val fyrir alla; “einka”skólar inn í almenna kerfið, Háskóla Íslands tryggð fjárframlög                                                

Heildrænt heilbrigðiskerfi          Fjölbreytt þjónustuúrræði með heildrænum lausnum til heilsueflingar

Betrunarfangelsi                       Góð meðferðarúrræði og menntun sem hluti afplánunar auka líkur á breyttu líferni

Vextir og verðtrygging             Lög um hámarksvexti lána og afnám verðtryggingar

Raunverulegt lýðræði               Lagasetningar um þjóðaratkvæði og afsagnir brotlegra embættismanna

 

 

Stefnumálin í lengra máli

 

Heilbrigði jarðar og náttúru
Náttúra Íslands hefur sérstöðu á heimsmælikvarða og víðáttur landsins eru ómetanlegar. Umhverfisvernd mun verða hluti af heildrænni stefnu framtíðarinnar á allri jörðinni. Heilbrigð og skynsamleg umhverfisvernd getur einnig nýst til öflugrar atvinnusköpunar hér á landi með slagorðinu: "Ísland er hreint og fagurt land." Ísland getur því verið eins konar Heilsulind og ímynd hreinleika, framsýni og fegurðar. Hér eru tækifæri til að laða að jarðvísindamenn alls staðar að, því jarðfræði Ísland er einstök og til dæmis er Eldfjallagarður á Reykjanesskaga dæmi um slíkt. Mögulegt væri að leggja sérstaka áherslu á að laða hingað til lands háskólanema og vísindamenn á sviði jarðvísinda, jafnvel stofna hér alþjóðlegt jarðvísindasetur. Einnig tel ég skynsamlegt að stuðla að atvinnurekstri sem beinist að umhverfisvænum framtíðarlausnum á öllum sviðum.

Ný stefna sem tekur á allan hátt mið af að draga úr útblæstri gróðurhúsa- lofttegunda er algerlega nauðsynleg. Íslendingar þurfa að hverfa algerlega frá stóriðjustefnunni og endurheimta framsýni og þor sitt og verða frumkvöðlar á þessu sviði. Ég sé landið fyrir mér sem fyrsta land í heiminum sem notar eingöngu umhverfisvænt eldsneyti. Ég myndi gjarnan vilja stefna að nánast fríum almenningssamgöngum í stærstu bæjum landsins sem keyra á vetni eða öðru umhverfisvænu eldsneyti. Öflug og skilvirk endurvinnsla heimila, stofnana og fyrirtækja er einnig bráðnauðsynleg bæði fyrir Ísland og heiminn í heild.

Hugurinn er auðlind - Framsýni í atvinnuháttum
Ég sé fyrir mér Ísland sem land frumkvöðlastarfsemi og rannsókna á heimsmælikvarða. Rannsóknir á sviði jarðvísinda og heilbrigðismála eru mér afar hugleikin. Ég tel að Ísland geti orðið leiðandi í hefðbundnum náttúrulækningum, líf- og heilsuvísindum sem getur nýst á öllum heiminum. Á Vesturlöndum eru áunnir sjúkdómar að gera vart við sig í auknum mæli. Mjög marga sjúkdóma má rekja beint til breyttra neysluvenja, aukefna í matvælum og hegðurnarmynsturs fólks.  Ég sé fyrir mér Ísland framtíðarinnar sem "Heilsulindina Ísland", sem getur orðið frumkvöðull í alls kyns meðferðarúrræðum og heilsueflingu. Að mínu mati ætti landsbyggðarstefna að snúast um að efla frumkvæði í litlum samfélögum úti á landi og styðja það með beinum hætti. Það væri mögulegt að fara sömu leið og Norðmenn í þeim málum með því að styrkja þá sem hafa hugmyndir og vilja stofna til reksturs og skapa atvinnu á landsbyggðinni. Fyrstu árin í rekstri lítilla fyrirtækja eru lang erfiðust og ég tel að það mætti styrkja þau með svipuðum hætti og stóru risafyrirtækin hafa verið styrkt hér á landi með afsláttum af alls kyns gjöldum. Það gæti átt við fyrstu 3 árin í rekstri lítilla fyrirtækja en ég tel ekki réttlætanlegt að gera slíkt fyrir alþjóðafyrirtæki sem velta meiru en íslenska ríkið.

Landbúnað og mjólkurframleiðslu tel ég þurfa að endurskoða algerlega með tilliti til rannsókna sem sýna fram á heilsuspillandi áhrif eiturefna sem þar eru notuð - þannig að framleiðsluferli og næring dýra verði endurskoðuð með tilliti til heilnæmi mannkyns. Lífrænn landbúnaður bæði á grænmeti og kjöti er sú framtíð sem Ísland á að horfa til þannig að stuðlað verði að frekara heilbrigði þjóðar. Aukin eftirspurn hefur skapast á Vesturlöndum eftir lífrænni framleiðslu og Ísland ætti að nýta sér þá ímynd sem það hefur með því að markaðssetja hreinleikann í lífrænni framleiðslu fyrir Evrópumarkað.
 
Jafnrétti og Jöfnuður
Jafnréttislögum þarf að breyta og tryggja eftirfylgni með þeim með því að gefa Jafnréttisráði eða stofu umboð til rannsókna og meiri völd til að fylgja lögum eftir. Ég sé fyrir mér að Ísland taki kipp í jafnréttismálum á komandi kjörtímabili með VG í stjórn. Ég tel að fylgja þurfi lögum eftir á þann hátt að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í stjórnsýslu landsins, í atvinnulífinu og á Alþingi. Ég myndi leggja til að flokkar misstu kjörgengi sitt ef þeir gætu ekki skipað lista sína nokkuð jafnt með báðum kynjum og farið eftir sjónarmiðum jafnréttis. Ég tel að jafnréttiskennsla og fræðsla eigi að vera skylda fyrir kennaranema og í grunnskólum og að endurskoða þurfi allar skólabækur með kynjagleraugum. Einnig vil ég móta ábyrga stefnu í meðferðarúrræðum fyrir ofbeldismenn til að draga úr líkunum á því að þeir valdi skemmdum á öðru fólk með ofbeldi.
 
Það er nauðsynlegt að tryggja að fátækt þekkist ekki á Íslandi. Ég hef dreymt um heim án fátæktar frá því ég var lítil stúlka, en á það er erfiðara að eiga við heiminn allan heldur en litla Ísland. Það er nefnilega vel raunhæft að útrýma algerlega fátækt á svo litlu og ríku landi eins og Ísland er. Lágmarkslaun þarf að hækka og tryggja að skattheimtan sé ekki hæst á þá lægst launuðu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bilið milli hæst og lægst launuðu einstaklinganna verði minnkað. Réttlátara samfélag er hamingjusamara og betra samfélag.
 
Að mínu mati er óásættanlegt að svo sé komið fyrir eldri borgurum eins og raun ber vitni. Þetta fólk er grunnurinn að okkar samfélagi og á skilið virðingu fyrir framlag sitt og störf. Ég er hlynnt því að ellilífeyrir sé ekki skattlagður nema þá einungis með 10% fjármagnstekjuskatti. Einnig tel ég að með hækkandi lífaldri eigi að auðvelda fólki að halda rétti sínum til að vera lengur á vinnumarkaði eftir sjötugt sé það heilsuhraust og kjósi að
gera svo.
 
Lágmarkslaun hækkuð og fjölskylduvænn vinnumarkaður
Nauðsynlegt er að tryggja það að lágmarkslaun vinnandi fólks verði hækkuð. Framfærslukostnaður hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum og ég tel nauðsynlegt að tryggja að ekki sé hægt að ráða til sín fólk í vinnu nema geta borgað þeim mann- og kvensæmandi laun. Þetta kemur bæði inn á að koma í veg fyrir fátækt og stéttarskiptingu í samfélaginu sem myndast hefur og ég tel að þetta komi einnig inn á innflytjendamálin. Fyrirtæki eiga einfaldlega ekki að geta ráðið til sín fólk í vinnu á launum sem ekki geta talist boðleg til að lifa af í okkar samfélagi á sómasamlegan hátt. Einnig tel ég að tryggja þurfi fjölskyldum aukna möguleika á fjölbreytni með vinnutíma. Fleira fólk en fjölskyldufólk myndi mögulega vilja nýta sér það, en að mínu mati er nauðsynlegt að atvinnurekendur geti boðið fólki upp á það að minnka við sig vinnuhlutfall ef það kýs það í kjölfar barneigna og eftir fæðingarorlof án þess að eiga á hættu að vera sagt upp starfi.
 
Leikreglur fyrir vinnumarkaðinn
Fyrirtæki sem fá leyfi til atvinnureksturs eru skyldug til að fylgja landslögum og þurfa að fara eftir vissum leikreglum á markaði. Hinn "frjálsi" markaður þarf ákveðinn ramma þegar kemur að launamálum, jafnrétti, verkalýðs - og umhverfismálum og því þarf að setja þeim skýrar leikreglur sem fylgt er eftir á mjög markvissan hátt. Að mínu mati þarf virkilega að endurskoða lög um fyrirtæki á markaði og tryggja að eftir ýmsum reglum sé farið til að þau haldi rétti sínum til að vera á markaði. Þar þarf virkilega að koma inn með eftirfylgni á jafnréttislögum og hafa alvarleg viðurlög við lögbrotum.  
 
Innflytjendamál þurfa að fara í gegnum ákveðna stefnumörkun og þeim þarf að móta skýrar línur þannig að Ísland þurfi ekki að gera sömu mistök og Norðurlöndin og geti verið stolt í því fjölmenningarsamfélagi sem mun myndast á komandi árum og áratugum. Ég tel rétt að hafa öfluga íslenskukennslu í skólum fyrir börn innflytjenda og einnig tel ég að fyrirtæki landsins sem ráða til sín innflytjendur verði undir eftirliti þannig að öruggt sé að þeir séu ekki á lægri launum og aðrir því það er engan veginn réttlætanlegt, (sama málið og konur og karlar finnst mér). Ég tel eðlilegt að fyrirtækin eigi í samstarfi við ríkið að sjá starfsfólki sínu fyrir íslenskukennslu á vinnutíma á meðan þau eru að aðlagast samfélaginu, sem er kannski eitt ár. Ég tel það eðlilegan og nauðsynlegan þátt í því að innflytjendur fái að aðlagast hér í samfélaginu og finnst réttast að fyrirtækin beri þann kostnað. Að auki myndi ég vilja sjá einhvers konar mat á menntun innflytjenda til að tryggja það að þeir geti starfað á því sviði sem þeir hafa menntun til og samræma þannig okkar kerfi og þeirra. Menntun innflytjenda er auðlind í íslensku samfélagi og okkur ber að meta hana sem skyldi. 
 
Gott og fjölbreytt menntasamfélag
Háskóli Íslands er í dag annar fátækasti háskóli í Evrópu. Að sjálfsögðu getur hann orðið mun öflugri í alþjóðasamanburði en hann er núna, en til þess þarf  hann fjármagn og breyttar áherslur í skólanum sem miða við mælistikur sem notaðar eru við að meta háskóla inn á topp 100 listann. Ég vil leggja áherslu á góðan háskóla og góða menntun á öllum sviðum hér á landi því það er einfaldlega ein af grunnundirstöðum samfélagsins. 
 
Mér finnst nauðsynlegt að sjá fjölbreytni í hugmyndafræði og kennsluaðferðum innan grunnskólakerfisins án þess að það sé bundið við "einkaskóla" efnafólksins. Það er einfaldlega spurning um áherslur innan menntakerfisins og að mínu mati á að hleypa þar inn fjölbreyttri hugmyndafræði og einkaframtaki án þess að það þurfi að vera fjárhagslega einkarekið, því ég tel að allir eigi að hafa val um fjölbreyttar aðferðir og skóla. Að mínu mati er nemendalýðræði, leikur, tjáning og skemmtun mjög mikilvægt börnum og ég tel það eiga að vega þungt í menntun þeirra, sérstaklega að teknu tilliti til breyttra tíma og lengdrar viðveru í skólum landsins. Jafnrétti í grunnskólum þarf að tryggja með breyttum áherslum, fræðsluskyldu kennara og endurskoðun alls námsefnis með tilliti til birtingu kynjanna.
 
Heildrænt og öflugt heilbrigðiskerfi
Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um heilbrigðiskerfið sem ég myndi vilja vinna að með heilbrigðisstéttinni og sjúklingum sjálfum. Ég tel fyrirbyggjandi leiðir í heilsu vera mjög mikilvægar þannig að ekki sé alltaf verið að eiga við einkennin þegar þau eru langt á veg komin og með lyfjum sem oft og tíðum bara slá á einkennin en mörg hver hafa ekkert lækningagildi. Ég tel að heilbrigðismenntun þurfi að endurskoða með tilliti til heildrænnar sýnar á líkamann og sem taka mið af lífefnafræði líkamans. Einnig tel ég að mismunandi aðferðir eigi að rúmast innan heilbrigðiskerfisins og það er lítið mál að sýna fram á það að þær virki jafnvel betur en hin unga nútíma og oft einsleita læknisfræði sem hefur fengið að vera ráðandi á síðustu öldum. Til þess þarf öfluga þekkingu á lífefnafræði líkamans og næringu, en ekki einungis á nútíma læknisfræði og lyfjafræði. Hluta af öflugu heilbrigðiskerfi tel ég vera öfluga neytendavernd þannig að neytendur fái mikilvægar upplýsingar um þau matvæli sem þeir láta ofan í sig. 
 
Betrunarfangelsi
Ég tel að dóms- og refsiderfið á Íslandi þurfi mikla endurhönnun og að við þurfum að líta til þess að stuðla að betrun afbrotamanna. Þó svo ekki sé hægt að gera ráð fyrir 100% árangri með slík úrræði þá er mun líklegra að afbrotamenn nái að breyta hátterni sínu og nái einhverjum bata og framförum í fangelsi þar sem þeir fá meðferðir og menntun á meðan þeir sitja af sér dóma. Sérstaklega mætti gera ráð fyrir breyttu líferni eftir fangelsi hjá þeim sem yngri eru. Meðferðum, menntun og samfélagsþjónustu má nota sem hluta afplánunar og beita hjá öllum tegundum fanga til að auka líkur á breyttu líferni. Erlendar rannsóknir hafa meðal annars sýnt bata og breytta hegðun hjá kynferðis- afbrotamönnum. 
 
Vextir og verðtrygging
Íslendingar eru þjakaðir af byrði verðtryggingu lána. Þar vegur einna þyngst byrði af húsnæðislánum. Í raun er verðtrygging til þess að tryggja bönkum bæði axlabönd og belti eins og stundum hefur verið nefnt í þessari umræðu. Á þeim tíma er verðtrygging var sett á hér á landi, var raunin sú að laun fólksins voru líka verðtryggð. Launaverðtryggingin var síðar afnumin og hefði þá lánaverðtrygging líka átt að fjúka, en henni var haldið eftir. Slík tryggingakerfi fyrir banka þekkist varla nema í þróunarlöndum og ég tel kominn tíma til að afnema verðtryggingu lána til að Íslendingar eru ein skuldugasta þjóð Evrópu, en úr því er mögulegt að bæta með því að afnema verðtryggingu lánanna. Við eigum ekki að þurfa að vera þrælar bankanna þegar kemur að húsnæðiskaupum. Íslendingar greiða margfalt verð fyrir fasteignir sínar á við önnur Evrópulönd þar sem boðið er upp á lán á lægri vöxtum án verðtryggingar. Í Kastljósi RÚV í fyrra var tekið einfalt reiknidæmi þar sem borið var saman erlent lán upp á 10 milljónir króna og íslenskt lán með verðtryggingu og þeim vöxtum sem hér eru í boði. Erlendis hefðu vextir af slíku láni á 40 árum verið um 4 milljónir króna en hérlendis hefðu vextir og verðtrygging náð hátt í
30 milljónir króna á 40 árum. 
 
Raunverulegt lýðræði
Lýðræðið verður að virka í góðu samfélagi. Á Íslandi í dag er lýðræðið meingallað og hefur það margoft komið í ljós þegar núverandi ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. Alþingismenn og embættismenn hafa brotið lög án þess að borgarar landsins hafi nokkra möguleika eða tæki til að víkja þeim úr starfi. Slíkt á ekki að viðgangast í lýðræðissamfélagi. Það þarf því að tryggja betri leikreglur lýðræðis á Íslandi. Slíkt er mögulegt að gera með lögum og ákvæði í stjórnarskrá sem veitir borgurum landsins rétt til að krefja embættismenn afsagna, en einnig til að fara fram á þjóðar- atkvæðagreiðslur í stórum málum eins og þekkist meðal annars í Sviss. 
 
Ísland sem friðsöm þjóð - Herinn?
Ég undraðist mjög yfir fréttamennskunni og yfir panikk-ástandinu innan ríkisstjórnarinnar þegar bandaríski herinn tilkynnti brottför sína. Það var rétt eins og að Íslandi steðjaði heljarmikil ógn og manni virtist á tali ráðherranna sem einhverjar óprúttnar og ófriðsamar þjóðir biðu í ofvæni eftir að geta ráðist á landið! Að mínu mati steðjar nákvæmlega engin ógn að friðsömu Íslandi ... nema mögulega vegna mistaka herramannanna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem tóku sér það bessaleyfi að gera Ísland að viljugri þjóð í stríðinu gegn Írak, án þess að ráðfæra sig við utanríkisnefnd. Ísland á alltaf að vera herlaust land sem lýsir sig hlutlaust eða á móti öllum stríðum. Svo einfalt er það. Ísland sem friðarríki sem á sér ekki stríðssögu og ljós í myrkri heimsins. 

 

Til að geta kosið mig í forvalinu verðurðu að skrá þig í flokkinn

 

Skráðu þig í flokkinn hér:

http://vg.is/default.asp?page_id=6177

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju telurðu að læknisfræði og lyfjafræði hundsi lífefnafræði mannslíkamans ? Og hvaða aukaefni í mat valda sjúkdómum ?

Erlendur Jónsson (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 22:07

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæll Erlendur, eða hver sem þetta les.

Já þegar maður þarf að takmarka skrif sín svona mikið þannig að fólk geti gefið sér tíma til að lesa í gegnum það, þá er ekki hægt að ná að skrifa allar sínar hugleiðingar. En ég hef mikið spáð í líf- og heilsuvísindi og lesið mig heilmikið til um rannsóknir á því sviði. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að nútíma-læknavísindi eru að mínu mati alveg ofboðslega takmörkuð og hef af reynslu minni einnig séð að fólk myndi græða svo miklu meira ef það gæti ráðfært sig við þverfaglegt teymi um heilsu sína og sjúkdóma. Ég tel að slíkt þverfaglegt teymi eigi heima innan heilbrigðiskerfisins og sé fyrir mér heilsumiðstöðvar framtíðarinnar þar sem starfa margar lífvísindastéttir. 

Ef þú hefur áhuga á lækna- líf- og heilsuvísindum er nú sem betur fer hægt að nálgast gríðarlegt magn af upplýsingum á netinu og almenningur hefur aðgang að vísindagagnagrunnum í gegnum þjóðarbókhlöðuna. Sjá hér : http://www.bok.hi.is/

Að mínu mati myndi heilbrigðiskerfið og sjúklingar eflast heilmikið með því að þar störfuðu fleiri stéttir og fagfólk saman í ráðgjöf til sjúklinga. Með víðara þekkingarsvið væri möguleiki á því að vinna meira með rót vandamálanna í stað þess að meðhöndla sjúklinga mestmegnis með lyfjum sem geta valdið alls kyns aukaverkunum og verið skaðleg heilsu fólks. Ég tel að öll vandamál þurfi að nálgast á þann hátt að skoða hver er rót vandans og vinna síðan í framhaldinu með það. Á heimasíðu Háskóla Íslands má sjá hvaða fög læknar læra í námi sínu og eru þar einungis tvö námskeið í lífefnafræði og ekki eitt einasta í næringarfræði. En með því að þekkja betur lífefnafræði og gildi næringar fyrir frumur líkamans og starfsemi mætti mögulega ná betur utan um þau vandamál sem upp geta komið í líkamanum.

Sjá yfirlit yfir læknanámið hér: https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namsleid&id=020100_20046 

Hér á landi virðist það ekki vera "standard procedure" eða stöðluð aðferð að taka blóðsýni úr veiku fólki til að kanna hvort það skorti einhver næringarefni til dæmis eða hvernig efnaskiptin eru. En ýmis einkenni og veikindi geta átt beina orsök að rekja til næringar og efnaskipta sem hægt væri að lagfæra við breytt mataræði til dæmis. Sjá um vítamín og næringarefni og einkenni vítamínsskorts hér: 

http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=157 

http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=155

http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=4219

http://www.vitamins-nutrition.org/vitamins-guide/index.html

Mjög margt hefur verið að koma í ljós á undanförnum áratugum varðandi heilsu fólks og heilsumissi eða sjúkdóma. Ef maður er nógu forvitinn og fróðleiksfús getur maður notað tímann til að lesa um mjög margar fróðlegar rannsóknir á því sviði sjálfur og það hef ég verið nokkuð dugleg við. Ég tel þó að slíkar upplýsingar ættu að hafa greiðari aðgang inn í heilbrigðiskerfið þannig að hægt sé að nota þær til heilsueflingar og lækninga. Einnig tel ég að þverfagleg símenntun ætti að vera aðgengileg innan heilbrigðiskerfisins á sviði þar sem svo örar breytingar verða mikið er um rannsóknir sem varpa ljósi á þá þætti sem heilbrigðisstarfsmenn eru að vinna með daglega.

Hvað varðar rót vandans, eða orsakir að sjúkdómum og heilsumissi þá tel ég það ekki vera neitt leyndarmál og tel að rökrétt sé að skoða æ meiri aukningu á sjúkdómum með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á líferni fólks á undanförnum áratugum. Ég tel skynsamlegt og rökrétt að hugsa ávallt um það af hverju fólk verður veikt, því nú er talið að flest veikindi séu áunnin á einn eða annan hátt. 

Að auki ber að huga að því að læknar og lyf eru með fremstu dauðaorsökum og þyrfti mögulega að skoða það betur.  Í USA var gefið út árið 2000 að læknar og lyf voru í 3.sæti yfir dauðaorsakir þar í landi : http://www.health-care-reform.net/causedeath.htm og árið 2003 skrifar Dr. Mercola að þð gæti jafnvel verið í 1.sæti http://www.mercola.com/2003/jan/15/doctors_drugs.htm

Að mínu mati þarf heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga að taka miklum breytingum og ná utan um breiðari þekkingu á sviði líf- og heilsuvísinda. Ég tel það vera framtíðarsýn fyrir heilbrigði að nýta sem víðasta þekkingu á mannslíkamanum með tilliti til næringar, lífefnafræði, líffræði, hreyfingu, sálfræði ofl. og ég tel að nútímalæknavísindi þurfi að taka mið af heildrænni sýn á líkamann og heilsu fólks. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 21.11.2006 kl. 17:19

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Nú, svo ég haldi nú áfram með að svara þér kæri Erlendur þá langar mig að segja þér aðeins frá rannsóknum sem varða rætur veikinda. Á undanförnum áratugum hefur mataræði og næring fólks í hinum vestræna heimi breyst mikið og alls ekki til batnaðar. Við erum farin að nota ýmis eiturefni í ræktun matvæla og síðan er ýmsum efnum bætt í matvæli sem eiga alls ekki heima í líkama okkar. Það sem líka hefur breyst eru híbýli fólks og innivera hefur aukist gífurlega. Inniloft getur valdið gífurlegri mengun og endað með að skaða heilsuna á margvíslegan hátt. Sumir vísindamenn og læknar vilja meina að inniloft sé orsök að um helmingi allra sjúkdóma. Um þetta allt má lesa í ýmsum fræðiritum s.s. Science, Indoor Air og fleirum. Almennur aðgangur að vísindagreinum á vef þjóðarbókhlöðunnar er því gagnlegur í lesningu um þessi málefni.

Heilsumissir, sjúkdómar og ýmis krabbamein eru tilkomin af mörgum mismunandi orsökum. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á lífefna- og næringarfræði þar sem kemur í ljós að skortur á nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum geta verið orsakir veikinda. Einnig eru til margar rannsóknir sem sýna fram á skaðleg áhrif aukefna í matvælum. 

Sem dæmi má nefna að vísbendingar sem hafa verið í þá átt að ýmis viðbótar- og litarefni í matvælum geti valdið athyglisbrest og ofvirkni hafa verið staðfestar með tvíblindum rannsóknum. Tilraunir hafa verið gerðar þar sem börn eru látin taka inn mælda skammta af þessum efnum og innan við nokkra klukkutíma verður vart við einkenni þessara „sjúkdóma“(TePas, 1996). TePas segir í grein sinni frá lækni að nafni Randolph sem meðhöndlaði þúsundir sjúklinga með fæðuofnæmi og meðal þeirra var mjög hátt hlutfall fólks með ofvirknieinkenni. Randolph var brautryðjandi í því sem kalla mætti á íslensku vistfræðilegar geðraskanir, sem er þá áunnið ástand vegna breyttra matvæla og fæðuvals.

Pfeiffer Treatment Center stendur fyrir lífefnafræðilegri meðferð og rannsóknum fyrir fólk með geðraskanir og hegðunarvandamál. Þeir greina frá rannsóknum á heimasíðu sinni sem sýna að næringarefni hafi áhrif og dragi úr einkennum. Má þar nefna rannsóknir á börnum sem gefin voru vítamín og steinefni sem viðbót við fæðu sem sýndu bættan árangur á greindarprófum, bætta athyglisgáfu og lærdómsgetu, minni hegðunarvandamál og betri geðheilsu. Einnig nefna þeir rannsóknir sem sýnt hafa fram á skort á steinefninu magnesíum og á omega 3 fitusýrum í börnum með ofvirkni. Skortur á omega 3 er tengt við minni lærdómsgetu, meiri hegðunarvandamál, bræðisköst og svefnvandamál (Health Research Institute).

 

Í 4ra mánaða tvíblindri rannsókn sem framkvæmd var af Stoll og fl. (1999) kom í ljós að fólki með geðhvörf, sem gefið var 9,6 grömm á dag af omega 3 fitusýrum, leið mun betur en þeim sem fengu olífuolíu í viðmiðunarhópnum. Rannsakendurnir telja því að omega 3 fitusýrur gegni mjög mikilvægu hlutverki í lífefnafræði heilans. Í grein Bruinsma og Taren (2000) kemur fram að jákvæð fylgni er á milli alvarleika þunglyndis og lægra magni omega 3 fitusýra í líkamanum. Þar kemur einnig fram að rannsóknir á dýrum hafa sýnt breytta hegðun í dýrum og mönnum þegar skortur er á omega 3 fitusýrum og/eða þær eru í miklu minna hlutfalli en omega 6 sýrurnar. Apar sýna ofbeldishneigðari hegðun, í músum minnkar hvötin til að flýja og nagdýr sýna breytta athyglisgáfu og minnkandi viðbrögð við hvatningu og verðlaunum. Í ofbeldishneigðum afbrotamönnum hefur fundist krónískur skortur á omega 3 fitusýrum (Bruinsma og Taren, 2000).

Í afbrotafræði las ég um mann sem hafði gert rannsóknir á afbrotamönnum sem greindi frá því að skortur á omega3 fitusýrunni væri tengdur við hegðun ofbeldis - og glæpamanna og gerð var tilraun með inntöku á omega3 sem bætti hegðun og líðan fanganna til muna (sjá Steven Schoenthaler). Í sömu bók las ég um tilraun sem gerð var í barnaskóla þar sem börnum var gefin omega3 fitursýra og eftir tilraunina hafði greindarvísitala þeirra hækkað um 16 sig.  

Hvað varðar inniloftið, raka í húsum og veikindi sem geta orsakast af þeim völdum má nefna ýmsar rannsóknir. Fjöldinn allur af rannsóknum hafa verið gerðar í þeim efnum á Norðurlöndunum á tugum þúsunda einstaklinga, sem þú getur nálgast á netinu ef þú lest á þeim tungumálum.  

Hér má sjá yfirlit yfir rannsóknir á því sviði þó svo listinn sé alls ekki tæmandi:

Frá World Health Organization: http://healthandenergy.com/diseases_linked_to_molds.htm

Frá dönskum vísindagagnagrunni:  http://www.techmedia.dk/media2sitemap.asp

skýrsla frá Archives of Environmental Health:

http://www.findarticles.com/p/articles/mi_m0907/is_7_58/ai_n6126541/pg_10

Dr. Ritchie Shoemaker um eitrun í innilofti:

http://www.ncbi.nlm.nih.gov/entrez/query.fcgi?db=pubmed&cmd=Retrieve&dopt=AbstractPlus&list_uids=17010568&query_hl=1&itool=pubmed_docsum

 

Ef þú hefur áhuga á frekara lesefni get ég bent þér á meira fróðleiksefni. Sjálf hef ég mikinn áhuga á líf- og heilsuvísindum og skoða málin ávallt út frá því að finna rót vandans og vinna út frá því. Ég tel ekki ásættanlegt að gefa einungis lyf sem slá á einkenni en lækna ekki. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 21.11.2006 kl. 18:18

4 Smámynd: Vantrú

Ertu að vitna í Joseph Mercola sem hefur fengið viðvaranir frá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum fyrir vafasamar fullyrðingar um þær vörur sem hann er að reyna að selja grunlausum gestum vefsíðu sinnar?

Vantrú, 23.11.2006 kl. 11:37

5 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Þessi sömu bandarísku heilbrigðisyfirvöld (FDA) og þú talar um leyfa ennþá aspartame sætuefnið í matvælum og gosdrykkjum þrátt fyrir að margar rannsóknir sýni fram á mjög skaðleg áhrif efnisins. Allar óháðar rannsóknir á því efni hafa sýnt fram á einhvers konar neikvæð áhrif á heilsu fólks, en þrátt fyrir það hefur FDA ekki varað við því ennþá eða bannað notkun þess. Ein nýjasta rannsóknin á þessu efni var gerð á Ítalíu árið 2005 og sýndi fram á heilaæxli og hvítblæði í músum. 

Abstract um óháðar og háðar rannsóknir á aspartame

Abstract um rannsókn Soffrittis ofl. um að aspartame veldur krabbameinum 

Ég verð samt að taka fram að ég ég mjög á móti því að læknar séu að markaðssetja eða selja vörur eins og þeir hafa leyfi til í USA og eins og Dr. Mercola gerir. En þrátt fyrir að hann selji heilsuvörur er ekki þar með sagt að þær rannsóknir sem hann vitnar í eða hefur gert athuganir á séu ekki marktækar. Gallinn er bara sá að kerfið skuli leyfa læknum að vera markaðsgúrúar og í gróðastarfsemi - það væri alltaf varasamt að mínu mati. Ég tel að ef þeir mæla með einstaka vörutegundum sem hafa rannsóknir á bakvið sig til að geta mælt með þeim, þá sé það mögulega í lagi - en alls ekki á þann hátt að þeir hagnist af því, hvorki í beinni sölu né á prósentum. Eins tel ég ekki eðlilegt að læknar fái gjafir eða greiðslur frá lyfjafyrirtækjum eins og þekkist enn þann dag í dag og örugglega í meira mæli en nokkurn tímann áður. Slíkt hefur líka þekkst hér á Íslandi og að mínu mati þarf að taka algerlega fyrir slíkt því það býður einfaldlega upp á spillingu.

Einnig má geta þess að það tók FDA mörg ár ef ekki áratugi að gefa út viðvaranir við notkun þunglyndislyfja eftir þrautlaust starf og ábendingar frá bandarískum læknum. 

Sjá um viðvaranir FDA á Paxil hér - 2005 

Og nú loksins eru komnar viðvaranir um lyfið ritalin og hættur varðandi heilsu fólks og vöxt barna.  En það tók FDA líka mjög langan tíma að segja frá rannsóknum á því sviði og ég efast stórlega um að þeir séu ennþá komnir með öll þau heilsusamlega skaðlegu áhrif sem ritalin hefur á heilsu fólks. Þetta er þó byrjunin.

Andrea J. Ólafsdóttir, 24.11.2006 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband