Leita í fréttum mbl.is

Tækifæri til nýsköpunar - grundvöllur að fjölbreyttu atvinnulífi!

Ég neita að trúa því að Íslendingar séu ekki að átta sig á því að það er núna, en ekki seinna sem við kjósum um verndun náttúru Íslands og um það hvort við viljum fjölbreytt atvinnulíf og stöðugleika í efnahagslífinu. Við þurfum að draga úr verðbólgu og þenslu til þess að heimilin í landinu verði ekki ofurseld verðtryggðum skuldum. Við VERÐUM að hverfa af braut stóriðjustefnunnar og búa í haginn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki svo þau geti vaxið. 

Það sem Íslendingar allir þurfa að spyrja sig núna er „Er það í alvöru svona sem við viljum hafa það?“ Viljum við fórna okkar dýrmætu náttúruperlum, jökulám og jarðfræðilega verðmætum svæðum á altari álfyrirtækjanna? Er það skynsamlegt út frá viðskiptalegu sjónarmiði að fórna 80-90% nýtanlegrar raforku í áliðnað? Getur það talist skynsamlegt að ýta undir svo einhæft atvinnulíf hér á landi? Geta álver virkilega verið lausn á atvinnuástandi hvers landshluta?  Hvers  vegna ættu að gilda önnur lögmál í Mosfellsbæ, Garðabæ og Seltjarnarnesi heldur en í Hafnarfirði??  Er ekki skynsamlegra að fara aðrar leiðir? Það má byggja upp öflugar heilsulindir víða um land, þjóðgarða af ýmsu tagi, t.d. eldfjallagarð, það má byggja upp vísindasetur, sem hvetja til alþjóðlegra rannsókna á dýrmætri jarðfræði Íslands, þekkingarsetur og söfn sem miðla menningarsögu okkar og þjóðlegum fróðleik. Það er kominn tími til að treysta á mannauðinn og hina miklu sköpunargleði okkar Íslendinga. Hættum að spyrja þessarar einfeldningslegu spurningar: „En hvað á eiginlega að koma í staðinn?“ Hver sá fyrir Marel, Össur og Bakkavör sem dæmi? Hverjum myndi detta í hug að spyrja hugvitsmann hvaða hugmynd hann ætlaði að fá næst? Hver myndi spyrja tónlistarmann hvaða lag hann ætlaði að semja næst? Haldiði að Mozart hafi getað svarað því?

 

 

 Tækifæri til nýsköpunar

 

1) Leggjum rækt við nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu og hugum sérstaklega að tækni- og þekkingargreinum um land allt. Hlúum sérstaklega að nýjum fyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

2) Stofnum nýjan banka, Hugmyndabanka Íslands (www.hugmyndabanki.is), sem hjálpar okkur að virkja óþrjótandi auðlind — hugvit landsmanna. Löðum fram hugmyndir og gerum þær framkvæmanlegar og arðbærar. Hugmyndabankinn verður opinn öllum landsmönnum allan sólahringinn.

3) Greiðum götu atvinnugreina sem tengjast umhverfistækni, endurvinnslu og endurnýtingu. Horfum til þeirra möguleika og tækifæra sem fólgin eru í sjálfbærri orkustefnu.

4) Tryggjum að auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og að sjávarbyggðir fái réttlátan skerf veiðiheimilda. Hefjum heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, setjum kvótaleigu skorður og auðveldum innlendri fiskvinnslu aðgang að hráefni.

5) Auðveldum sjávarútveginum að laga sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar, ásamt því að treysta byggð og efla atvinnu í landinu öllu. Horfum til aukinnar nýsköpunar, fullvinnslu og verðmætaaukningar innanlands og bætum lífskjör þeirra sem við greinina starfa.

6) Stóreflum rannsóknir á lífríki sjávar og hafsbotninum í kringum landið og byggjum veiðistjórnun á umhverfissjónarmiðum. Aðkallandi er að gera úttekt á áhrifum jökulánna á lífríki sjávar.

7) Aukum vægi ferðaþjónustu og tryggjum henni sambærilega stöðu í stjórnskipun og lögum og öðrum atvinnugreinum. Eflum rannsóknir, þróun og nýsköpun í greininni, t.d. með áherslu á vetrarferðamennsku.

8) Tryggjum að landbúnaður og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Stuðlum að eflingu lífrænnar ræktunar, fjölbreyttrar heimaframleiðslu bænda og auknum möguleikum á sölu beint frá búi.

9) Auðveldum kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði ungs fólks til jarðakaupa. Komum í veg fyrir að verslun með bújarðir raski byggð í sveitum landsins. Endurskoðum jarðalög og tryggjum að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

10) Setjum þak á hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða -magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

11) Búum íslenskan landbúnað undir væntanlega alþjóðasamninga um verslun með landbúnaðarafurðir. Markmiðið verði að greinin fái hæfilega langan aðlögunartíma til að mæta samkeppni og sækja fram á erlendum mörkuðum, t.d. með því að breyta hluta núverandi framleiðslustyrkja í búsetutengdan stuðning.

12) Eflum listsköpun, handverk og smáiðnað. Gefum handverkshópum og einyrkjum aukin tækifæri til kraftmikillar sköpunar. Styrkjum sérstaklega greinar sem byggjast á lífrænum eða öðrum náttúrulegum auðlindum.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hip hip....langar að bæta við varðandi 7 lið að væri stutt við sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu svo þau gætu aukið starfsemi sína ekki bara á lágönn (veturnar) heldur líka á jaðarönnum (vor/haust) mundi ferðaþjónustan sem ein atvinnugrein verða sú næststærsta hér á landi.

Stóriðjan verður að víkja fyrir atvinnugrein sem byggir á sjálfbærni, einungis þannig tryggjum við verndun okkar dýrmætustu auðlindar, náttúrinni.

Það er orðið hart þegar fólk eins og ég sem dýrkar og dáir íslenska náttúru umfram allt er farið að horfa á flutning til útlanda, bara til að þurfa ekki að horfa upp á þá bláu og grænum rista landið með kerskálum, rafmagnsvírum og öðru óféti....allt til að við höfum það gott....sussumsvei

Jónas Guðmundsson

Andrea (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 11:11

2 identicon

Nú ert þú búin að semja sömu færsluna um það bil 12 sinnum á síðustu 4 vikum.

Ég held við förum bara og fáum okkur bjór í bláa lóninu, ég og Steingrímur.

Skál fyrir því að toppa á réttum tíma.

Gunnar Óli Sölvason (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Hrólfur Guðmundsson

Hey þú varst oft á Kaffibarnum í gamala daga, alltaf mjög svo hress!

Ég nenni samt ekki að lesa þetta blogg þitt, það er eitthvað svona kvennakjaftæði. 

Hrólfur Guðmundsson, 8.5.2007 kl. 18:07

4 identicon

Haldið þið í VG virkilega að einhverjum finnist þetta tal ykkar um fjölbreytt atvinnulíf trúanlegt? Þið voruð á móti þeirri lækkun á tekjuskatti fyrirtækja sem skiptir sköpum um þeirra rekstrarumhverfi í dag, og ykkar snillingar voru á móti EES! Svo er eitt einkenni á öllu sem þið teljið upp: allt úr ríkissjóði. Þjóðgarðar, þekkingarsetur, vísindasetur... allt beint af kaffistofunum í hugvísindadeild HÍ. Og svo á bara að senda reikninginn til þeirra fyrirtækja sem óvart eru í rekstri. Nei takk.

Gústaf (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband