Leita í fréttum mbl.is

VG stefnir á fjölbreytni í menntun

Menntaáherslur teknar úr málefnahandbók Vinstri grænna: 

1) Tryggjum öllum börnum jafnan aðgang að menntun. Komum á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla, þ.m.t. skólamáltíðum, frístundaheimilum og námsefni. Jöfnum námskostnað á framhaldsskólastigi og gefum sem flestum færi á að stunda nám í heimabyggð til 18 ára aldurs.

2) Stuðlum að fjölbreyttu námsframboði á öllum skólastigum. Opnum fyrir ólíkar skólastefnur í skólum landsins (án skólagjalda) og tryggjum lýðræði í skólastarfi. Styrkjum gagnrýna og skapandi hugsun og aukum virðingu fyrir nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólanna.

3) Leggjum niður samræmd próf í grunnskóla í núverandi mynd vegna stýrandi áhrifa þeirra á skólastarfið. Innleiðum fjölbreyttara námsmat en nú tíðkast.

4) Aukum vægi list- og verkgreina, útikennslu og hreyfingar á öllum stigum grunnskólans. Stöndum vörð um leik og sköpun á öllum skólastigum.

5) Tryggjum öllum grunnskólabörnum aðgang að tónlistarfræðslu. Gerum landið að einu tónlistarskólaumdæmi og skiptum kostnaði ríkis og sveitarfélaga vegna tónlistarnáms með sama hætti og almennt gildir í skólakerfinu.

6) Eflum kynjafræði- og mannréttindafræðslu, fræðslu um fjölmenningu og sjálfbæra þróun. Tryggjum kennurum og kennaranemum menntun og námsefni á öllum þessum sviðum.

7) Viðurkennum mikilvægi þess að kennarar njóti viðunandi starfsumhverfis og góðra starfskjara og eflum og lengjum kennaramenntun og styrkjum rannsóknir á skólastarfi.

8) Veitum fé til námsefniskaupa fyrir framhaldsskólanemendur og greiðum niður mat á þessu skólastigi til að jafna aðstöðu nemenda til náms.

9) Gefum framhaldsskólunum aukið svigrúm fyrir fjölbreytt skipulag, tryggjum að mismunandi námsleiðir – bóknám, iðnnám og listnám – verði lagðar að jöfnu til stúdentsprófs og að horfið verði frá hugmyndum um einhliða styttingu framhaldsskólans.

10) Fjölbreytt háskólanám standi öllum til boða án gjaldtöku og nám á háskólastigi verði bæði verklegt og bóklegt. Eflum háskólanám um land allt og ýtum undir samstarf milli háskóla. Búum betur að meistara- og doktorsnámi með því að efla rannsóknasjóði námsmanna.

11) Tryggjum öllum annað tækifæri til að ljúka skólanámi hafi þeir áður þurft að hverfa frá námi. Slík tækifæri þurfa að vera án gjaldtöku og aðgengileg sem víðast um landið, t.d. í fjarnámi.

12) Styrkjum grunnrannsóknir og eflum samkeppnissjóðina. Sjálfstæðir vísindamenn þurfa að eiga aðgang að fjármunum til rannsókna og eiga að geta stundað fræði sín óháð stofnunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Flott ! Löngu tímabært að efla menntun á Íslandi. Við höfum alla burði til að búa að frábæru menntakerfi á öllum námsstigum hérlendis. Ástandið er alls ekki slæmt en fjármagnið mætti vera mun meira.

Snorri Sigurðsson, 25.4.2007 kl. 13:45

2 identicon

Veit ekki betur en að menntun hafi stóraukist með tilkomu einkareknu skólanna sbr. HR og Bifröst.  Það er svo mikill metnaður hjá HÍ hinum ríkisrekna að fólk sefur í hópum á fyrirlestrum ef það mætir á annað borð.

Líst samt vel á gjaldfrjálsa leikskóla, löngu tímabært að létta á unga fólkinu sem er að koma sér upp fjölskyldu. En hvernig á að fjármagna það?

Hvað með LÍN? 

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 14:18

3 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Já einkareknu skólarnir hafa gert mikið fyrir íslenska menntun. En það þarf meira fjármagn til ríkisreknu háskólanna, auk þess sem það þarf að taka vel til í stjórnskipulagi, gæðaeftirliti og námsuppbyggingu. Það reyndar stendur til og er í gangi upp að vissu marki. Um að gera að halda áfram og gefa í ef e-ð er.

Gjaldfrjálsir leikskólar eru löngu tímabærir í nútíma samfélagi. Ef viljinn er fyrir hendi finnast peningar í það. Spurning um að forgangsraða eins og alltaf.

LÍN þarf að endurskoða og best væri ef til viðbótar kæmi skilvirkt og samkeppnisbært styrkjakerfi fyrir háskólanemendur sem hefði breiða skírskotun og digra sjóði. Of lítið af slíku og sama sem ekkert af hálfu Ríkisins.

Snorri Sigurðsson, 25.4.2007 kl. 14:37

4 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Dharma mættur með tölurnar sínar eins og vanalega. Það væri fróðlegt að sjá hvað Dharma vill gera með pening Ríkissjóðs á annað borð í stað þess að kvarta yfir því hvað allt eigi eftir að kosta mikið. Það heldur engin skynsemismanneskja því fram að allt verði gert á einu bretti. Allar breytingar fela í sér og krefjast þess að vegið er og metið hvað beri að leggja áherslu á og hvað ekki. Að mínu mati má leggja miklu meiri áherslu á menntunarmál en gert er. Í staðinn fyrir t.d. endalausa stóriðju, hún hefur nú heldur betur verið dýr fyrir ríkiskassann.

Snorri Sigurðsson, 25.4.2007 kl. 15:10

5 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Ég biðst afsökunar, Andrea að taka yfir athugasemdadálkinn hér en ég get ekki orða bundist yfir hræðsluáróðri Dharma. Því það er jú þaðsem hann hefur fram að færa, falinn bak við dulnefni.

Fyrirlitning þín á VG er óforskammanleg. Ég veit ekki hvað þú átt við með 'aumingjavæðingu þjóðarinnar' en ef þú ert að gagnrýna það að þeim sem minna mega sín fái aðstoð við að koma sér á flot úr aðstæðum sem þeir ef til vill fæddust inn í eða lentu í vegna slysa og sjúkdóma (eða aldurs) þá get ég lítið annað sagt en að ég finn til með svo eigingjörnum hugsunarhætti. Frelsi einstaklingsins til athafna og máls er auðvitað grundvallaratriði en það þarf að skilgreina til að það leiði ekki til þess að eins manns frelsi verði annars manns fjötur eða dómur. Frjálshyggjan í sinni allra hreinustu mynd er alveg jafn ljót ef ekki ljótari en kommunisminn í sinni hreinustu mynd og felur í sér sjálfselsku, græðgi og valdafíkn. Eru það gildin sem við viljum dásama. Ekki ég.

Ég viðurkenni það alveg að vera ungur og muna ekki stjórnarsetu vinstrimanna sem þú lýsir svo skelfilega. En ég veit að það var ekki langur tími sem sífellt er vitnað í eða aðeins 3 ár og  þá var Framsóknarflokkurinn alveg jafn 'meðsekur'. En í dag eru breyttir tímar og ég tek ekkert mark á þinni þröngsýnu sýn á Vinstri Græna. Ég þykist viss um það að þeir geti vel (í samstarfi við annan flokk) haldið styrkum höndum utan um Ríkissjóð og haldið efnahagsástandinu stöðugu. Það eru líka til reiknimeistarar meðal vinstrimanna sem geta séð hvernig best á að halda á spöðunum. Þið Sjálfstæðismenn lítið svo stórt á ykkur og ykkar hæfileika að það veldur óbragði í munni. Við erum nú ekki svo ólík hér á landi að einn flokkur eigi ekki skilið að vera við völd eins og annar. Þú telur upp 3 atriði sem gagnrýni á VG og blæsir þau upp eins og himinn og jörð séu að farast. Ritskoðun á netinu er bara bull. Óheppileg orðun Steingríms J á netlöggunni (deild innan lögreglunnar til að finna glæpamenn á netinu) olli þeim misskilningi. Ég er reyndar sammála þér með kynjakvóta. Þeir eru ekki besta leiðin til að fá fram jafnrétti kynjanna en ég lít ekkert á þá sem brot á mínu valfrelsi. Það veitir ekkert af því að styðja konur á sviði stjórnmála. Þið í Sjálfstæðisflokknum ættuð nú að kannast við það vandamál þar sem reyndar og dugmiklar konur falla sí og æ í skuggann á ungæðislegum frjálshyggjusinnum. 'VG vill skerða rétt minn til að uppskera eins og ég hef sáð til í minni menntun og starfsframa' - hvað þú átt við með þessu er engin leið að vita enda stórfurðuleg staðhæfing. Hvaða flokkur heldurðu að vilji gera það sem þú segir að VG vilji gera ? Þrátt fyrir þinn aldur og reynslu þá er málflutningur þinn barnalegur og afar ómálefnalegur að mínu mati. Alveg sama þó þú sért góður í hagfræði. Það snýst nefnilega ekki allt um hagvöxt og peninga. VG stendur fyrir hugsjónir og gildi líkt og jöfnuð, mannauð, frið og velferð fólks og náttúru. Það fæst ekki allt með peningum í veskið. Þannig hugsa einungis sjálfstæðismenn að því er virðist. Og ef það er mín unga og óreynda skoðun, so be it !

Góðar stundir.

Snorri Sigurðsson, 26.4.2007 kl. 12:44

6 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Alveg með ólíkindum að fylgjast með Dharma þessa dagana. Alger rakalaus þvættingur sem þú setur fram aftur og aftur. Þakka Snorra fyrir að grípa aðeins inn í þetta bull í Dharma. 

VG styður framtak eins og Hjallastefnuna en við teljum það eiga að vera á þeim forsendum að allir hafi það val að senda barnið sitt í slíka skóla og það verður einungis gert með því að tryggja að engin skólagjöld verði í grunnskólum landsins. Við styðjum hins vegar frumkvæði og mismunandi hugmyndafræði innan skólanna og faglegt frelsi starfsfólks í mun meira mæli en t.d. XD. Við viljum draga mjög úr miðstýringu í skólakerfinu þannig að þar sé möguleiki að stunda fyrir alvöru hið svokallaða einstaklingsmiðaða nám.

Hvað varðar tölur Dharma þá hef ég nú heyrt þess getið oftar en einu sinni að kosningaloforð XD kosti þjóðina meira en 400 milljarða og ég tel ekki að þú hafir rétt fyrir þér með allar tölur sem þú ferð með. Hvers vegna eru stjórnarflokkarnir aldrei spurðir um það hvað þeirra áætlanir kosti? Eru þeir undanskildir því að þurfa að spá í það? Okkar áherslur í mörgum málum þurfa ekki endilega að kosta miklu meira en kerfið kostar í dag, heldur er mikið hægt að gera í að hagræða og sumt er bara spurning um áherslur og forgangsröðun. Það kostar allt peninga sem allir flokkar ætla að gera, en meira er þetta spurning um hvort þjóðin vill verja meiri peningum í menntakerfið og grunnþjónustu og vill aðrar áherslur heldur en núverandi stjórn hefur. 

Alveg hreint með ólíkindum að hlusta á þvættinginn í þér Dharma - en ég held reyndar að flestir lesendur í netheimum kannist við vitleysuna í þér og sjái í gegnum hana.

VG er sá flokkur sem vill í miklu meira mæli starfa í lýðræði og ýta undir það á sem flestum sviðum. Það eru hins vegar XD&XB sem ekki styðja slík vinnubrögð og kæra sig alls ekki um aðkomu almennings að ákvörðunum stjórnvalda. Þau segja einmitt þvert á móti að þau séu í pólitík til að taka ákvarðanir. Vissulega þarf maður þess í pólitík og erum við líka tilbúin til þess, en við teljum að það þurfi að vera í sátt við þjóðina. Ég hef enga trú á því að eins umdeildar ákvarðanir eins og stuðningur við stríðið í Írak og samþykkt laga um að vændi sé löglegt hefði gerst nema með stjórn XD! Hrikalegt klúður!

Andrea J. Ólafsdóttir, 3.5.2007 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband