Leita í fréttum mbl.is

75% kjósenda vilja náttúruvernd - Skv. bjartsýnu mati yrði neikvætt núvirði Kárahnjúka 22-24 milljarðar!

Nær 75% kjósenda vilja að flokkarnir leggi meiri áherslu á náttúruvernd og umhverfismál

Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands vilja 72,8% aðspurðra að stjórnmálaflokkarnir leggi meiri áherslu á náttúruvernd og umhverfismál. 22.6% telja að flokkarnir leggi hæfilega áherslu á þennan málaflokk og 4,6% svöruðu því til að flokkarnir ættu að leggja minni áherslu á málaflokkinn.

Rúm 37,2% telja að leggja beri miklu meiri áherslu á umhverfisvernd og 35,6% nokkuð meiri.

Þessi niðurstaða er áminning til ráðamanna um að stjórnmálaflokkarnir geri skýra grein fyrir áformum sínum varðandi verndun náttúru landsins, virkjanir, uppbyggingu álvera, vegagerð á hálendinu, samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda og fræðslu til almennings um umhverfismál, svo dæmi séu tekin.

Spurt var: Telur þú að stjórnmálaflokkarnir eigi almennt að leggja meiri eða minni áherslu á náttúruvernd og umhverfismál? Fjöldi svarenda var 800 og af þeimi tóku 742 eða 92,8% afstöðu. Könnunin var gerð dagana 31. janúar til 12. febrúar.

Sjá könnun Capacent Gallup pdf-skjali

 

Hér má síðan lesa um arðsemismat hagfræðings á Kárahnjúkavirkjun - og lygar ráðamanna þar með

Í skýrslunni segir:

Svartsýnt mat
Svartsýnt mat gerir ráð fyrir hámarks ávöxtunarkröfu, eða 4,67% á lánsfé og 9,96% á hlutafé. Reiknað er með 30% eiginfjárhlutfalli og að orkuverð sé 1,5 kr./kwst. Samkvæmt þessu mati yrði neikvætt núvirði Kárahnjúkavirkjunar á bilinu 50-51 milljarður króna.

Til að virkjunin stæði á sléttu þyrfti orkuverð á kwst. að nema 3 krónum.


Bjartsýnt mat
Bjartsýnt mat gerir ráð fyrir lágmarksávöxtunarkröfu, 4,07% á lánsfé og 6,87% á hlutafé. Gert er ráð fyrir 10% eiginfjárhlutfalli, gert ráð fyrir að orkuverð sé 2 kr./kwst. og orkusala sé örugg í 60 ár. Samkvæmt þessu mati yrði neikvætt núvirði Kárahnjúkavirkjunar á bilinu 22-24 milljarðar króna.

Til að virkjunin stæði á sléttu þyrfti orkuverð á kwst. að nema 2,48 krónum.


Raunsætt mat
Raunsætt mat gerir ráð fyrir meðaltalsávöxtunarkröfu og að orkuverð sé 1,75 kr./kwst. Reiknað er með 20% eiginfjárhlutfalli. Samkvæmt þessu mati yrði neikvætt núvirði Kárahnjúkavirkjunar á bilinu 37-39 milljarðar króna.

Til að virkjunin stæði á sléttu þyrfti orkuverð á kwst. að nema 2,70 krónum.
 

Arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hérna er grein eftir annan frá svipuðum tíma.

Hér ber mikið í milli.

Heyrst hefur að samið hafi verið um 17,4 mills á kwst. miðað við áltonn á 1564 dollara.  En verður þak og gólf á tengingu við álverð ?

Pétur Þorleifsson , 23.2.2007 kl. 13:10

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þessu bloggi Andrea mín. Þessi skýrsla Þorsteins Siglaugssonar er frá árinu 2001 þegar Reyðarálsverkefnið var í undirbúningi. Í dag er ekkert Reyðarálsverkefni til!! Norsk Hydro ætlaði að byggja álverið með aðkomu íslenskra fjárfesta og Kárahnjúkavirkjun var með gjör ólíku sniði en í dag. Auk þess var þessi skýrsla gerð án þess að höfundur hennar hefði nokkrar forsendur fyrir útreikningum sínum heldur gaf hann sér þær eftir hentugleikum. Skýrlunni var haldið á lofti á sínum tíma en þegar bullið í henni var hrakið þá hvarf hún. Þú talar um skýrslu hagfræðings...Þorsteinn er V-grænn og síðan er vistuð hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Það gefur strax ákveðnar vísbendingar. Í arðsemisútreikningum Landsvirkjunar var farið mjög varlega í spár um álverð í heiminum. Þó var reiknað með lítilsháttar hækkunum næstu áratugina. (raforkuverðið er tengt álverði) Í útreikningum Þorsteins Siglaugssonar er gert ráð fyrir að álverð lækki!! Ástæðuna segir hann að þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir áli þá aukist framleiðslan meira. Raunveruleikinn í dag er sá að álverð hefur hækkað mun meira en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Meðal annars vegna orkuskorts í þeim löndum þar sem álframleiðsla er fyrir og ekki fæst orka þegar endurnýjun álverana stendur fyrir dyrum.

Þú ert seinheppin Andrea mín að halda þessari skýrslu á lofti núna, hún er eitt bull frá upphafi til enda. Forsendur hennar voru ekki fyrir hendi þegar hún var gerð, hvað þá núna þegar verkefnið er allt annað. Ég verð þó að hvetja þig til dáða í umfjöllun um ál og virkjanir því hún getur ekki annað en orðið málstað ykkar til tjóns.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.2.2007 kl. 14:30

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og þetta með útkomu úthugsaðrar tímasetningar skoðanakönnunar sem Náttúruverndarsamtök standa fyrir þá er hún ekki annað en máttlaust innlegg ykkar í raunveruleg skoðanaskipti um þau mál sem brenna á þjóðinni núna. Að sjálfsögðu vill þjóðin ekki ana að neinu. fólk vill umræðu, ræða kosti og galla  fyrirhugaðra verkefna.

Þegar Fljótsdalsvirkjun (Eyjabakkar) voru hæst í umræðunni og hrina ýkju áróðurs "alverndunarsinna" stóð sem hæst, þá létu sömu aðilar gera könnun fyrir sig. Útkoman var svipuð og nú. En þegar önnur könnun var gerð eftir að fylgjendur framkvæmdanna höfðu komið sínum sjónarmiðum á framfæri þá snerist dæmið við.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.2.2007 kl. 15:07

4 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Gunnar minn, í stað þess að útúða hagfræðimatinu sem gert hefur verið grein fyrir og segja mig seinheppna, viltu þá ekki frekar setja fram útreikninga til að styðja mál þitt? Í þessu "gamla" mati sem gert var jú f. nokkrum árum er ekki gert ráð fyrir eins miklum tilkostnaði við byggingu virkjunarinnar eins og raunin varð og heldur ekki kröfum landeigenda eins og Pétur bendir á hér að ofan. 

í skýrslunni segir :

"Í bjartsýnni spá er reiknað með jákvæðustu mögulegu forsendum varðandi orkuverð, eiginfjárhlutfall og ávöxtunarkröfu. Gert er ráð fyrir 6,87% arðsemi hlutafjár, en 4,07% raunvöxtum á lánsfé. Vegið meðaltal fjármagnskostnaðar er því 4,35% þegar reiknað er með 10% eiginfjárhlutfalli. Reiknað er með hæsta mögulega orkuverði, eða 2 kr. á kwst. Samkvæmt þessari áætlun yrði tap af framkvæmdinni samt sem áður 22-24 milljarðar eftir því við hve langan rekstrartíma er miðað. Nefna má til samanburðar, að væri gert ráð fyrir orkusölu um ófyrirsjáanlega framtíð og engri viðbótarfjárfestingu í virkjuninni væri núvirði 0,45 milljörðum hærra. Slíkt er hins vegar algerlega óraunhæf forsenda og er dæmið tekið aðeins til að sýna hve litlu máli fjárstreymi að 60 árum loknum skiptir í útreikningum af þessu tagi. Til að virkjunin stæði undir sér þyrfti orkuverð að nema kr. 2,48 á kwst." 

Veist þú Gunnar minn hvað verðið er núna???

Veist þú Gunnar hvað álverð og orkuverð kemur til með að verða eftir nokkur ár þegar flugvélaframleiðendur eru farnir að nota trefjaplast í flugvélar og jafnvel bílaframleiðendur líka??? 

Gunnar minn, við skulum ekki gleyma því að heimurinn getur tekið örum breytingum í átt að umhverfisvænni möguleikum í nánustu framtíð og álframleiðsla þá farin að dragast saman. Hlutirnir eiga eftir að gerast hratt á næstu árum og áratugum því jarðarbúar eru að verða sér æ meðvitaðri um heimskuna sem er nú í gangi og þá sóun sem er að skemma fyrir okkur.

Kröfurnar munu verða æ sterkari á næstu árum um að endurvinna allt það ál sem fer til spillis og er ekki endurunnið, eins og 2,5 milljónir tonna í USA alone! Bara dósirnar sem ekki eru endurunnar þar geta endurnýjað flugflota þeirra fjórum sinnum á ári! Krafan um endurvinnslu mun verða sterkari á næstu árum og þá mun draga úr frumframleiðlsu, sem betur fer, því endurvinnslan tekur ekki nema 5-10% orkunnar.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 23.2.2007 kl. 15:08

5 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Gunnar minn, um 45.000 íslendingar skrifuðu undir áskorun til að vernda Eyjabakkasvæðið og er það ein stærsta undirskrifarsöfnun sem gerð hefur verið síðustu áratugi! Þótt álverssinnar séu vissulega til, þá eru þeir að verða æ færri og fólk að verða meðvitaðra um landið og verndun þess. Fólk er líka farið að gera sér grein fyrir þeirri óskynsemi sem er í gangi og þeirri gífurlegu spennu sem þessar framkvæmdir hafa valdið í hagkerfinu okkar. Fólk finnur það nefnilega og sér á lánunum sínum, þar sem þau hækka á hverjum mánuði sem líður. Lánið mitt sem tekið var árið 2003 hefur t.d. hækkað um rúmlega milljón á höfuðstólinn (f. utan vextina) !!!

Andrea J. Ólafsdóttir, 23.2.2007 kl. 15:12

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera hagfræðing. En á sama tíma og þið reiknið og reiknið, þá kvartið þið yfir að raforkuverðið sé leyndarmál. En þó ég sé ekki hagfræðingur þá er samt voðalega auðvelt að sjá muninn á aðferðafræði kaffibollahagfræði, og niðurstöðum hennar sem fengin er eftir kvöldlangar athuganir með fyrirfram gefnum forsendum, og niðurstöðum færustu hagfræðinga og verkfræðinga landsins, eftir áralangar rannsóknir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.2.2007 kl. 16:24

7 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

   Þetta er allt rétt hjá Gunnari.
   
   En Andrea. Hef aldrei skilið ykkar pólitíska hreinleika í umhverfismálum umfram aðra flokka. Þið Vinstri-græn beri t.d FULLA ábyrgð á Kárahnjúkum. Vinstri græn voru í R-listanum á sínum tíma, með BEINNI aðkoma að stjórn Landsvirkjunar  þegar
Kárahnjúkavirkjun var samþykkt. Ef Vinstri græn hefðu Í RAUN viljað koma Í VEG FYRIR Kárahnjúkavirkjun hefði þið átt að hóta að slíta
R-listasamstarfinu. ÞAÐ GERÐU VINSTRI GRÆN EKKI  OG BERA ÞVÍ
FULLA ÁBYRGÐ Á KÁRAHNJÚKAVIRKJUN eins og allir flokkar.

   Svo eru ekki verk ykkar til fyrirmyndar í Mosfellsbæ þessa daganna.
Meiriháttar klúður þar í gangi.  Þannig að Vinstri-grænir séu eitthvað
betri í umhverfismálum umfram aðra flokka þegar Á REYNIR er
gjörsamega út í hött. -  Hins vegar er framtíðarsýn ykkar í þessum málum mjög öfgakennd eins og í svo mörgum ðrum málum.
Enda Vinstri- grænir sósíaliskur flokkur þar sem allskyns vinstri-
sinnaðir  róttæklingar virðast fá að blómstra.  
   

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 23.2.2007 kl. 21:10

8 identicon

Spurningin er bara ekki til þess gerð að það sé hægt að lesa eitthvað úr svörunum við henni, hún er allt af almennt orðuð og um eitthvað sem allir eru hvort eð er sammála um. Mig hreinlega minnir að þetta sé kallað samþykkishneigð eða eitthvað álíka. Ég tel mig t.d. ekki vera mótfallin umhverfismálum, þó svo að þú og skoðanabræður og systur mynduð sennilega segja að ég væri umhverfis terroristi.

elmar (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 22:43

9 identicon

að ofan á ég að sjálfögðu við spurninguna:

"Telur þú að stjórnmálaflokkarnir eigi almennt að leggja meiri eða minni áherslu á náttúruvernd og umhverfismál?"

elmar (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 22:47

10 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er engin meðalhófsregla til hjá íhaldinu í umhverfismálum.Þar ræður frjálshyggjan og græðgin.Sameign þjóðarinnar,fiskveiðiheimildir  voru tekin ólögmætu eignarnámi eins og sala og leiga staðfestir.Nú eru nokkur stór fjárfestingafélög að kaupa upp stór landsvæði sumarhúsabyggða og verðmætar jarðir víðsvegar um landið,sem hafa verið nýttar af bændum.Talið er að hluti þessa jarðeigna verði svo seldar útlendingum.Núverandi rikisstjórn hefur engan heimil á Þessum málum.Ég er í meginatriðum sammála þér Andrea í þessum málum,það þarf að halda fast utan um fósturjörðina og miðin.   

Kristján Pétursson, 24.2.2007 kl. 22:23

11 identicon

Ætli það taki nema hálft kjörtímabilið að rústa efnahgskerfinu. Kjörorðið hjá VG er að eyða meiru, auka skattana, ríkisvæða hinu ýmsu málaflokka og koma á lögregluríki. Sem betur fer er frjálst að flytja úr landinu. Það er ekki búið að loka flugstöðinni.....sjáum hvað setur.

klakinn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 08:55

12 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Af hverju höfum við, ábyrgðarmennirnir, ekki hugmynd um hvert orkuverðið er ?  Ef við göngum út frá því að það sé eins og nefnt hefur verið 17,4 mills á kílóvattstund miðað við áltonn á 1564 dollara hvað yrði kílóvattstundin þá á núna þegar álverðið er svona hátt ?  Ætli sé þak ?  Hvað ætli forstjóri Alcoa hafi meint þegar hann sagði þetta ? "But the agreed price — 30 dollars per megawatt-hour — was far from ideal. In Iceland, the company pays half that."

Pétur Þorleifsson , 27.2.2007 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband