Leita í fréttum mbl.is

Loksins loksins fær HÍ aukið fjármagn - korteri fyrir kosningar

HÍ getur nú loksins fengið raunhæft tækifæri til þess að verða alþjóðlega samkeppnisfær, því nú á að skapa forsendur til þess að uppfylla skilyrði eftir mælikvarða sem notaður er til að meta háskóla inn á topp 100 listann sem gæti aukið vinsældir hans á alþjóðavísu. Kíkið á fréttina:

HÍ inn á topp 100

Mér virðist þó á þessum samningi að áfram verði kennsla á grunnstigi, eða BA/BS stigi fjársvelt eins og verið hefur. Hér er einungis verið að styðja betur við meistara og doktorsnema og er markmiðið að koma HÍ inn á topp 100 listann, sem er í sjálfu sér bara mjög gott markmið. Kennsla og nám á grunnstigi þarf þó líka aukið fjármagn því þar er sultarólin virkilega hert. Við skulum þó vona að þetta sé skref í framfaraátt og komi sér að lokum vel fyrir alla nemendur skólans, líka BA/BS nema.  

Það sem mér finnst svolítið merkilegt við að fylgjast með ráðherrum og meðlimum núverandi ríkisstjórnar (sem ég vonast til að falli í vor) er að það virðist eiga að kippa öllu í liðinn núna á síðustu metrum fyrir kosningarnar og vonast svo til að landinn verði búinn að gleyma öllu sem á undan er gengið og kjósi þetta yfir sig enn og aftur!

Mín von er sú að fólk, almenningur í landinu muni sjá í gegnum svona kosningabrellur og kjósi nú algerlega nýja stjórn í vor - að stjórnarandstaðan fái nú tækifæri til að byggja upp gott velferðarkerfi eftir fyrirmynd hinna Norðurlandanna. Einnig er ekki seinna vænna að kjósa nýja stjórn í stjórnarráðið til þess að stöðva nú fyrir fullt og allt þá stóriðjustefnu sem er að tröllríða hagkerfinu og náttúrunni. Látum ekki blekkja okkur með "á síðustu stundu" lausnum sem ríkisstjórnin kemur með núna korteri fyrir kosningar. Verum skynsöm og höldum gagnrýnni hugsun og gleymum ekki því sem á undan er gengið.

En fínt framtak samt fyrir HÍ :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl, ágæta Andrea !

Heyr á endemi.................................. !!!! Hvað þykist ykkur þéttbýlisbúum um þau firn, að verklegt nám og iðja skuli mega sitja á hakanum, sem raun ber vitni ? Það verður að segjast eins og er; Andrea, að lítilsvirðingin gagnvart bændum - sjómönnum og iðnaðarmönnum er nánst algjör, ég tala nú ekki um gagnvart ólærðu verkafólki. Hvað sýnist þér, um uppgang alls konar snobbstofnana, sem forseti Íslands, Háskóli Íslands, svo ég tali nú ekki um mont lið það, sem kallast '' útrásarfólk '', sem jafnvel fyrirverður sig fyrir uppruna sinn, og slettir engelskri tungu, hér heima og heiman, svo okkur þjóðernissinnum blöskrar, öldungis, standa að ?

Bið þig að afsaka Andrea, ég er svo reiður, að ég má vart mæla, hvað þá rita þetta skilirí, til þín; enda grunnt á skapferli Kveldúlfs gamla, forföður míns, sem sjá má.

Dugir ekki þessarri náðugu frú, Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands, að hann sé no. 200,, jafnvel 300 í röð þeirra fremstu, þessa heims ?  Læt lokið, um hríð.

Með kveðju, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 18:04

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæll Óskar Helgi

Með skrifum mínum hef ég ekki gert neitt lítið úr verknámi og er algerlega sammála þér að okkur ber að leggja einnig áherslu á það, því það er samfélagi okkar ekki síður mikilvægt en háskólanámið. Ég hef heldur ekki lítilsvirt sjómenn, iðnaðarmenn né bændur og hef ekki áhuga á að gera það. En það má vera að þú sért að tala um að lítilsvirðingin gagnvart þessum stéttum komi frá samfélaginu, en ég veit reyndar ekki hvort slík lítilsvirðing sé eitthvað útbreidd.

Ég veit ekki alveg hvað Kristínu Ingólsdóttur dugir, en ég vænti þess að hún hafi metnað til að koma HÍ á topp 100 listann. Það er listi sem er alþjóðlegur og nemendur víða um heim hafa aðgang að. Til þess að koma HÍ inn á þann lista þarf kannski ekki svo mikið aukið fjármagn (þótt það sé auðvitað nauðsynlegt í fjársveltum háskóla sem er einn af fátækari háskólum í Evrópu) en það þarf breyttar áherslur. Við það að HÍ sé inn á þessum lista er hann kominn inn á alþjóðlega gæðaröðun og getur hann laðað að erlenda námsmenn, sem gefur jú á endanum þjóðinni tekjur.  Til þess að geta verið metinn inn á þennan lista þarf áhersla að vera á það að stunda rannsóknir, skrifa greinar í alþjóðleg fræðirit og fleira. Sumt af því sem gera þarf til að fá þetta gæðamat þarf því ekki endilega að kosta meiri peninga.

Hvað varðar útrásarfólkið veit ég ekki alveg hvað segja skal.    ... Ég held þó að ef við skoðum útrásarfólkið í grunninn og hugsum gætilega um hvaðan peningar þeirra hafa komið þá verður niðurstaðan hjá okkur flestum líklega sú að þeir komu upphaflega úr okkar vösum. Ekki kannski hjá þeim öllum - sumir þeirra keyptu og seldu bjórverksmiðjur í Rússlandi, en aðrir byrjuðu veldi sitt hér á landi með því að okra á okkur almenningi í landinu. Það má í það minnsta segja um blessaða bankamennina. Hvernig öðluðust þeir veldi sitt? Jú með því í fyrsta lagi að fá bankana OKKAR á spottprís frá vinum sínum í stjórnarráðinu og í öðru lagi í gegnum þvílíkt okur í bankaviðskiptum sem varla þekkist annars staðar í hinum vestræna heimi.  Þróun kapítalismans hérlendis er að mínu mati að tröllríða samfélaginu - en það breytist ekki nema skipt verði um stjórn og/eða áherslur.  Það þarf líka að tryggja almennilega samkeppni og koma í veg fyrir samráð - en ekki sýnist mér að samkeppni sé nægileg á bankamarkaðnum hér á landi. 

Það sem líka mætti spyrja sig að eru launin hér á vinnumarkaði. Ég tel að Ísland sé eitt af fáum löndum sem getur fullkomlega afnumið fátækt - eða allavega komið í veg fyrir hana að mestu. Ég tel að það verði meðal annars gert með því að hækka lágmarkslaunin. Væri til dæmis ekki alveg eðlilegt að fólk sem vinnur fyrir fyrirtæki eins og Baug eða HB Granda í afgreiðslu og framleiðslu hafi aðeins meira í laun heldur en raun ber vitni? Væri ekki eðlilegt að það fólk njóti ávaxta fyrirtækisins? Hvar væru fyrirtækin án þeirra? Er fiskvinnslufólk til dæmis ekki mjög sérhæft starfsfólk? Ég ætla nú ekki að bjóða í það ef allir millistjórnendurnir og forstjóri HB Granda væru í framleiðslunni, það myndi allt detta niður og koma sér mjög illa fyrir fyrirtækið um tíma.

Hvað varðar bændur, þá er það náttúrulega annað mál þar sem þeir eru á ríkisstyrkjum og því ekki sambærilegt.

En ég sé að þér er heitt í hamsi yfir ýmsum málum samfélagsins og auðvitað erum við ekki öll sammála um allt í þeim málum. En ég myndi ekki líkja saman Háskóla Íslands og forsetaembættinu, því ég tel HÍ ala af sér mun meiri tekjur fyrir þjóðarbúið heldur en útgjöld, því nemendur þaðan skapa jú tekjur inn í samfélagið að námi loknu. Forsetaembættið hins vegar gerir varla annað en að skapa útgjöld. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 17.1.2007 kl. 13:20

3 identicon

Heil og sæl, Andrea !

Þakka þér fyrir skýr og skilvís svör. Það fór þá aldrei svo, að við, sem erum lengst til hægri, í stjórnmálunum, næðum ekki, að einhverju marki samstöðu með ykkur, vinstra fólkinu, leiðirnar nokkuð ólíkar, þó virðist nokkur vilji, hjá ykkur; að reyna þó að komazt nokkuð til móts við okkur, íhaldsmenn af gamla skólanum. Þóttist vita, skv. málflutningi þínum, hjá Agli í Silfrinu, á dögunum, að í þér slægi hlýtt hjarta, enda vildi ég alls ekki persónugera, og heimfæra, til þín, þann menntahroka, sem mér finnst allt of víða liggja í landi hér, meira að segja innan minnar eigin stórfjölskyldu, oft á tíðum. 

Haf þú, og þitt fólk það sem bezt, í allri framtíð.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi   /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum (p.s. Var austur í Rangárvallasýslu, fram undir kvöld. Náði því ekki að svara þér fyrr en nú)

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 20:19

4 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Þakka þér hlýjar kveðjur

Mikið rétt hjá þér að í mér slær afskaplega hlýtt hjarta

Andrea J. Ólafsdóttir, 17.1.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrea J. Ólafsdóttir
Andrea J. Ólafsdóttir

Klikkaðu á mig andreaolafs@gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Mitt HTML

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband